Fyrir okkur öll

Akureyri er fallegur bær og hingað sækir árlega fjöldi ferðamanna. Bæjarfélagið er vel í stakk búið til að taka á móti þeim fleirum en vandinn hefur legið í því að erlendir ferðamenn koma orðið í styttri ferðir til landsins og verja því megninu af tímanum á Suðurlandi. Þeir erlendu ferðamenn sem til Akureyrar koma stoppa of stutt. 

Það er mikilvægt að fjölga hér gistinóttum allt árið og til þess að svo megi verða þarf ríkið að fara að standa í lappirnar og reka hér alvöru byggðastefnu sem gerir ráð fyrir fleiri gáttum inn í landið. Það væri liður í að dreifa ferðamönnum betur um landið. Taka þarf fram fyrir hendurnar á stjórn Isavia eða breyta fyrirkomulaginu og opna hér fyrir alvöru aðra gátt inní landið og það strax á þessu ári.

Það er vel hægt að selja Akureyri sem áfangastað allt árið. Bretarnir sem hingað komu í beinu flugi í vetur voru almennt alsælir með veru sína hér og huga sumir á endurkomu í sumar. Beint millilandaflug til Akureyrar myndi einnig auka á lífsgæði íbúa á Norðurlandi, en í nútímasamfélagi hafa góðar samgöngur bæði í lofti og á legi mikið að segja þegar kemur að því að ungt, menntað fólk velur sér búsetu.

Taka þarf betur á móti gestum á Akureyri. Bílastæðin í miðbænum skapa vanda. Mörgum er fyrirmunað að skilja hvernig klukkustæðin virka og fá sekt sem er afskaplega neikvæð upplifun og ekki rétta leiðin til að taka á móti gestum. Þeir vilja frekar fá að borga fyrir bílastæði eins og í flestum miðbæjum og geta þá verið eins lengi og þeir vilja í stað þess að þurfa að uppfæra klukkuna á klukkutíma fresti. 

Á Akureyri þarf að vera nútímaleg upplýsinga- og umferðamiðstöð sem veitir betri ráðgjöf um afþreyingu í bænum og í nágrenni hans. Nauðsynlegt er að þjónusta langferðabíla án þess að farþegar séu í hættu við að sækja farangur sinn eins og nú er. Það þarf að bæta aðstöðu fyrir þá og meðal annars útbúa langtímastæði.

Undirritaður hefur talað fyrir því að komið verði á fót sérstökum safnavagni sem færi frá miðbænum á milli safna að flugvelli. Í hann yrði greitt sérstakt daggjald og fólk gæti þá farið úr og í á milli safna.

Það þarf að skapa gott umhverfi fyrir þá sem vilja koma upp ferðatengdri afþreyingu í bænum og jafnframt að hlúa að því sem vel er gert.

Það stendur til að reisa hús við Drottningarbrautina fyrir starfsemi Siglingaklúbbsins Nökkva m.a. með aðstöðu til sjósunds, sem er vel. Þarna liggja gríðarleg tækifæri í að koma upp glæsilegri aðstöðu sem selja má aðgang að allt árið. Mikilvægt er að vanda til verks og ljúka því að fullu á einu ári. Frágangur verður að vera bænum til sóma því erlendir ferðamenn koma flestir þessa leið inní bæinn þ.e. austanfrá og er þetta því það fyrsta sem blasir við þeim.

Ég vil að við gerum bæinn betri fyrir okkur íbúana, fyrir fyrirtækin og fyrir ferðamennina þannig verður hann betri fyrir okkur öll.


Þórhallur Jónsson, kaupmaður
skipar 3. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins á Akureyri


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook