Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
Kristján Þór fæddist á Dalvík 15. júlí 1957. Hann ólst upp á Dalvík, lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri og 1. og 2. stigi skipstjórnar frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík. Að auki á hann að baki nám í íslensku og almennum bókmenntum við Háskóla Íslands og próf í uppeldis- og kennslufræði við sama skóla. Kristján Þór var stýrimaður og skipstjóri á skipum frá Dalvík og kenndi við Stýrimannaskólann á Dalvík og einnig við Dalvíkurskóla.
Kristján Þór var bæjarstjóri á Dalvík 1986-1994, bæjarstjóri á Ísafirði 1994-1997 og bæjarstjóri á Akureyri 1998-2007. Kristján Þór var oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri 1998-2007. Hann sat í bæjarstjórn Akureyrar 1998-2010 og var forseti bæjarstjórnar Akureyrar 2007-2009.
Kristján Þór var kjörinn oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi í prófkjöri í nóvember 2006 og hefur setið á Alþingi frá vorinu 2007. Kristján Þór var 2. varaformaður Sjálfstæðisflokksins 2012-2013.
Kristján Þór hefur verið sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, VG og Framsóknarflokks frá 30. nóvember 2017 en var áður mennta- og menningarmálaráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar 2017 auk þess að vera ráðherra norræns samstarfs. Kristján Þór var heilbrigðisráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks 2013-2017.
Kristján Þór sat í fjárlaganefnd 2007-2013, iðnaðarnefnd 2007-2009, umhverfisnefnd 2009-2011, Íslandsdeild Norðurlandaráðs 2007-2009 og Íslandsdeild þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál 2009-2013.
Eiginkona Kristjáns Þórs er Guðbjörg Ringsted, grafíklistamaður, og eiga þau fjögur börn; Maríu, Júlíus, Gunnar og Þorstein, og þrjú barnabörn.
Njáll Trausti Friðbertsson alþingismaður
Njáll Trausti er fæddur í Reykjavík 31. desember 1969 og uppalinn á Seltjarnarnesi. Hann útskrifaðist frá Menntaskólanum í Reykjavík 1990 og útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá Háskólanum á Akureyri 2004. Veturinn 1987-1988 var Njáll skiptinemi í Delaware í Bandaríkjunum.
Njáll Trausti hefur starfað í flugturninum á Akureyri sem flugumferðarstjóri frá árinu 1991. Hann stóð ásamt fleirum að stofnun Hjartans í Vatnsmýri, sem safnaði 70.000 undirskriftum til stuðnings Reykjavíkurflugvelli, árið 2013 og er annar formanna þess.
Njáll Trausti var bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri 2014-2017 og varabæjarfulltrúi 2010-2014. Njáll Trausti sat í framkvæmdaráði Akureyrarbæjar 2010-2017 og í stjórn Norðurorku 2011-2017. Njáll Trausti var formaður Sjálfstæðisfélags Akureyrar og varaformaður fulltrúaráðs 2012-2014. Hann sat í umhverfis- og samgöngunefnd Sjálfstæðisflokksins, kjörinn á landsfundi, 2012-2018.
Njáll Trausti hefur setið á Alþingi frá árinu 2016. Hann er varaformaður utanríkismálanefndar frá 2020 og hefur setið í atvinnuveganefnd og er formaður Íslandsdeildar Nató-þingsins frá 2017. Hann sat í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, í Íslandsdeild vestnorræna ráðsins og Íslandsdeild þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál 2017 og í fjárlaganefnd 2017-2020.
Á þingferli sínum hefur Njáll Trausti leitt starfshóp um skosku leiðina í innanlandsfluginu og alþjóðaflugvallakerfið, verið varaformaður vísinda- og tækninefndar Nató-þingsins og setið t.d. í starfshóp um orkustefnu, Norðurslóðastefnu og framtíðarnefnd forsætisráðherra.
Njáll hefur tekið virkan þátt í félagsstörfum og meðal annars verið formaður Góðvina Háskólans á Akureyri. Njáll hefur verið virkur þátttakandi í starfi Round Table um árabil og sinnt þar ýmsum trúnaðarstörfum og t.d. verið landsforseti Round Table á Íslandi.
Njáll Trausti er kvæntur Guðrúnu Gyðu Hauksdóttur, hjúkrunarfræðingi, og eiga þau tvo syni; Stefán Trausta og Patrek Atla, og eitt barnabarn; Elenu.