Þórhallur Jónsson
Þórhallur er fæddur í Hafnarfirði 24. maí 1966. Hann fluttist eins árs til Akureyrar og fór 10 ára gamall með foreldrum sínum til Bahrein í Miðausturlöndum og gekk þar í amerískan skóla í tvö ár. Þaðan flutti fjölskyldan til Balí í Indonesíu en 13 ára var Þórhallur sendur heim í Gagnfræðaskólann á Akureyri. Þórhallur nam rafeindavirkjun við VMA og Iðnskólann í Reykjavík.
Þórhallur hefur verið formaður Sjálfstæðisfélags Akureyrar frá 2023 og var áður formaður félagsins 2016-2018 og setið í stjórn frá 2014. Hann var einn af stofnendum Áhugaljósmyndaklúbbs Akureyrar árið 1991 og gegndi stöðu gjaldkera klúbbsins í 26 ár. Auk þess er Þórhallur formaður Miðbæjarsamtakanna og situr í stjórn Kaupmannafélags Akureyrar og komið að ýmsu öðru félagsstarfi auk þess.
Þórhallur er kvæntur Ingu Vestmann og eiga þau saman þrjú börn; Axel Darra, Andra Má og Rebekku Rut. Þórhallur og Inga eiga og reka Pedrómyndir ehf. og þar hefur öll fjölskyldan starfað. Þórhallur hefur starfað við verslun og þjónustu í tæp 40 ár.
Þórhallur var bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri 2018-2022 og hefur verið varabæjarfulltrúi frá 2022. Þórhallur hefur setið í skipulagsráði Akureyrarbæjar frá 2018 (formaður 2020-2022 og varaformaður frá 2022). Þórhallur hefur setið í stjórn Norðurorku frá 2022 (áður varamaður 2019-2022) og sat í hafnarstjórn 2019-2022. Hann var varamaður í atvinnumálanefnd 2014-2015 og í Akureyrarstofu 2016-2018.
Hildur Brynjarsdóttir
Hildur fæddist í Mosfellsbæ 14. mars 1989. Hún útskrifaðist með stúdentspróf frá Kvennaskólanum í Reykjavík árið 2009. Hildur fluttist til Akureyrar 2010 og hóf nám í Háskólanum á Akureyri og útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá HA árið 2014.
Hildur starfar sem þjónustufulltrúi hjá Landsbankanum. Hún hefur verið formaður Varnar, félags sjálfstæðiskvenna frá 2023 og sat í stjórn Sjálfstæðisfélags Akureyrar 2021-2023.
Hildur hefur verið varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri frá árinu 2022 auk þess að vera aðalmaður í öldungaráði og varamaður í fræðslu- og lýðheilsuráði, umhverfis- og mannvirkjaráði og hafnarstjórn.
Unnusti Hildar er Davíð Örn Oddsson, lánastjóri hjá Íslandsbanka. Saman eiga þau tvær dætur.