Stefnuskrá 2018-2022

Gerum bæinn betri!

Stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins á Akureyri

fyrir bæjarstjórnarkosningar 26. maí 2018

Stefnuskrá (pdf)

 

Kæru íbúar!

 

Akureyri á að vera eftirsóknarvert sveitarfélag til búsetu sem gerir öllum kleift að þroska hæfileika sína og frelsi til að skapa sín eigin tækifæri. Við viljum bæði hafa þá fjölbreytni í leik og starfi sem stórborg hefur upp á að bjóða og samkennd sem einkennir lítið samfélag. Við viljum styðja einstaklinga til að ná langt í lífinu, en gæta þess jafnframt að veita þeim stuðning sem standa höllum fæti. Við viljum bjóða upp á góða þjónustu fyrir bæjarbúa og skapa frjóan jarðveg fyrir nýsköpun og fjölbreytt atvinnulíf. Við viljum GERA BÆINN BETRI.

Við gerð stefnuskrár okkar sjálfstæðismanna var rætt við fjölda fólks. Rætt var við íbúa, starfsmenn Akureyrarbæjar, stofnana og fyrirtækja og leitað eftir hugmyndum þeirra og skoðunum. Við teljum að með þessu verklagi höfum við haft lýðræði að leiðarljósi og náð fram viðhorfum þeirra sem veita og nýta þjónustu bæjarins. Við þökkum öllum þeim sem gáfu sér tíma í þetta verkefni fyrir þeirra framlag. Þeir hafa sýnt að þeir vilja GERA BÆINN BETRI.

Við hvetjum þig lesandi góður til að kynna þér stefnuskrá okkar vel. Í henni birtist framtíðarsýn sem við ætlum að vinna saman að, á sterkum grunni Akureyrar. Hagsmunir íbúanna verða ávallt hafðir að leiðarljósi í öllum ákvörðunum. Við ætlum að sýna skynsemi og ábyrgð í rekstri.

Við bjóðum fram krafta okkar til þjónustu við bæjarbúa og erum öll tilbúin til góðra verka svo BÆRINN VERÐI BETRI.

Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins á Akureyri

 

Áhersluatriðin:

  1. Öll börn komist í leikskóla við eins árs aldur og styttri sumarlokanir.

  2. Hækka frístundastyrk fyrir börn og unglinga í 50.000 kr. á ári.

  3. Bjóða upp á tómstunda- og íþróttastarf í frístund grunnskólanna.

  4. Fyrirbyggjandi aðgerðir gegn kvíða og þunglyndi hjá börnum og unglingum og sálfræðiþjónusta innan skóla aukin.

  5. Áhersla á heilsueflingu eldri borgara.

  6. Tryggja Akureyri sem fýsilegan valkost fyrir fyrirtæki.

  7. Akureyrarvöllur verði til framtíðar fólkvangur fyrir bæjarbúa og gesti og byggt verði bílastæðahús í miðbænum.

  8. Staðsetning upplýsinga- og samgöngumiðstöðvar verði ákveðin og hún byggð.

  9. Snyrtilegur umhverfisvænn bær og markvissar aðgerðir til þess að draga úr plastmengun.

  10. Ábyrgur rekstur bæjarins, vandaðar áætlanir og áhersla á rafræna stjórnsýslu.

Fjölskyldu- og velferðarmál

  • Akureyri verði samkeppnishæfur valkostur til búsetu m.t.t. flestra þátta s.s. húsnæðis, atvinnu, skóla, heilbrigðisþjónustu, frístunda og menningar.

  • Öflugt stuðningsnet með áherslu á þá sem standa höllum fæti. Þar sé áhersla á að styðja fólk til sjálfshjálpar eftir því sem framast er unnt.

  • Skýr velferðarstefna sem endurskoðuð er reglulega með tilliti til aðstæðna í samfélaginu á hverjum tíma.

Húsnæðismál

  • Fýsilegt þarf að vera fyrir verktaka að byggja litlar íbúðir til sölu eða leigu á almennum markaði.

  • Fylgja eftir samstarfi við samvinnufélög um uppbyggingu á leigufélögum um langtímarekstur íbúða án hagnaðarkröfu sem brúar bil milli félagslega kerfisins og þess almenna.

  • Finna viðeigandi lausn á húsnæði fyrir húsnæðislausa.

  • Athvarf/áfangaheimili fyrir fólk sem er að koma úr áfengis- og fíkniefnameðferð.

Lýðheilsa

  • Leggja áherslu á lýðheilsu, forvarnir og heilsueflandi aðgerðir og einstaklingar hvattir til þess að bera ábyrgð á eigin heilsu.

  • Að Akureyri verði heilsueflandi samfélag.

  • Huga vel að geðfötluðum með því að styrkja félagasamtök sem styðja við valdeflingu og sjálfshjálp. 

Barnafólk

  • Áfram verði boðið upp á fjölbreytta þjónusta og afþreyingu.

  • Öflug uppeldisfræðsla fyrir foreldra nýfæddra barna, við upphaf leikskóla, grunnskóla og námskeið fyrir foreldra verðandi unglinga.

  • Öflugt ráðgjafastarf og stuðningur við fjölskyldur í vanda til að draga úr líkum á neikvæðum langtímaáhrifum á börn.

  • Markvissari þjónusta og virk úrræði fyrir börn og unglinga í miklum vanda.

  • Gera tómstundir, viðburði og skemmtanir fyrir börn og foreldra þeirra sýnilegri.

  • Styttri sumarlokanir í leikskólum og aukinn sveigjanleiki fyrir foreldra varðandi sumarfrí barna sinna.

  • Kanna hug foreldra til lengingar á daglegum opnunartíma leikskóla til kl. 16.30 og bregðast við niðurstöðum.

Eldri borgarar

  • Ná verður samningum við ríkið um að það standi undir lögmætum kostnaði við rekstur Öldrunarheimila Akureyrar eða ríkið taki reksturinn alfarið yfir.

  • Gera eldri borgurum kleift að búa eins lengi heima og frekast er unnt - þjónusta taki mið af því.

  • Skoða þörf og áhuga á byggingu íbúða sem bjóða upp á sólarhringsþjónustu.

  • Efla starfsemi öldungaráðsins.

  • Leggja áherslu á aukna virkni aldraðra og styðja þá til þátttöku í samfélaginu.

  • Aukið framboð á dagþjónustu sem ríkið viðurkennir sem úrræði og ber kostnað af.

  • Leggja áherslu á heilsueflingu og tryggja gott aðgengi og fjölbreytt val á hreyfingu og tómstundum.

  • Ráða verkefnastjóra sem vinnur að heilsueflingu og bættri næringu eldri borgara, skipuleggur og hefur yfirsýn yfir möguleika sem eru í boði. Sér um kynningarstarf og er í samstarfi við félag eldri borgara.

  • Tryggja að hjón og sambýlisfólk eigi kost á að eyða ævikvöldinu saman á öldrunarheimilum þegar og ef þörf krefur.

  • Áhersla á að auka velferðartækni í þjónustu við aldraða.

  • Styrkja samstarf og samfellu í þjónustu Akureyrarbæjar, SAk og HSN í málefnum aldraðra.

 

Fatlað fólk

  • Leggja áfram áherslu á þjónandi leiðsögn og valdeflingu í þjónustu við fatlað fólk.

  • Efla þarf samstarf SAk, HSN og Akureyrarbæjar vegna málefna geðfatlaðra.

  • Hvetjandi umhverfi til virkrar þátttöku og sjálfstæðis.

  • Stuðla að því að fatlað fólk hafi fjölbreytt val um búsetu.

  • Efla fræðslu fyrir fatlað fólk og aðstandendur þeirra.

  • Hvetja fyrirtæki og stofnanir í bænum að huga betur að aðgengismálum.

  • Áhersla á að auka velferðartækni í þjónustu.

  • Veita foreldrum mikið fatlaðra barna stuðning við að breyta eða komast í hentugt húsnæði.

 

Ungt fólk

  • Virkja ungmennaráð enn frekar. Bæjarfulltrúar sitji fundi ráðsins reglulega.

  • Öflug og fjölbreytt forvarnafræðsla fyrir unglinga og foreldra þeirra.

  • Efla starfsemi Virkisins til að draga úr brottfalli og mæta ungmennum sem flosna upp úr framhaldsskóla.

  • Fræðsla fyrir ungt fólk um vinnumarkaðinn og fjármálalæsi í Vinnuskólanum og skólakerfinu almennt.

  • Aukið samstarf á milli Vinnuskólans og atvinnulífsins.

  • Efla fyrirbyggjandi aðgerðir gegn kvíða og þunglyndi í samstarfi við HSN.

Mannréttindi og samfélag

  • Áfram verði unnið að verkefninu „Akureyri barnvænt samfélag,“ í samræmi við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

  • Samþætta kynja- og jafnréttissjónarmið við alla stefnumótun og áætlanagerð.

  • Styðja við starfsemi frjálsra félagasamtaka á Akureyri sem vinna að mannréttindamálum.

  • Tryggja þjónustu og ráðgjöf við innflytjendur.

Stjórnsýslan - bærinn

  • Stjórnsýslan verði skilvirk og gegnsæ þar sem íbúalýðræði er virkur þáttur í að efla þjónustu.

  • Þjónustukannanir gerðar og niðurstöður þeirra nýttar til úrbóta.

  • Bæjarstjóri verði pólitískt ráðinn með skýrt umboð til forystu og framkvæmdastjórnar.

  • Áætlanagerð sé skilvirk og byggð á sem bestum gögnum á hverjum tíma.

  • Skuldir A hluta - sveitarsjóðs verði lækkaðar sem leiðir til minni vaxtakostnaðar sem nýta má til að lækka álögur á íbúa og/eða bæta þjónustu enn frekar.

  • Ávallt sé leitað hagkvæmustu leiða í rekstri og horft til ólíkra rekstrarforma eins og útvistunar komi hún til greina.

  • Akureyri nái aftur sæti sínu sem forystusveitarfélag á landsbyggðinni.

  • Hvatt verði til sameiningar sveitarfélaga í Eyjafirði með það að markmiði að efla sveitarstjórnarstigið í þjónustu við íbúa og í samskiptum við ríkisvaldið.

  • Upplýsingar um þjónustu skulu vera aðgengilegar.

  • Rafræn stjórnsýsla verði aukin, þannig að íbúar geti sinnt flestum erindum sínum rafrænt.

  • Innleiðing á Akureyrarkorti sem veitir korthöfum góð kjör á þjónustu bæjarins.

Fræðslumál

  • Skipulega verði unnið að því að styðja við og styrkja starfsemi grunn- og leikskóla með það að markmiði að þróa starfshætti sem taka mið af aukinni tæknivæðingu og áherslu á lestrarfærni, samskipti, skapandi og gagnrýna hugsun þannig að öll börn nái árangri.

  • Leik- og grunnskólakennurum standi til boða aukinn stuðningur með ráðgjöf.

  • Sálfræðiþjónusta við nemendur innan skóla verði aukin.

  • Setja samræmd árangursviðmið í leik- og grunnskólum. Gera úrbótaáætlanir ef þörf þykir.

  • Bjóða upp á tómstunda- og íþróttastarf í frístund grunnskólanna.

  • Öll börn komist í leikskóla við eins árs aldur.

  • Forvarnir í skólum fyrir foreldra og nemendur verði samræmdar og markvissar, með áherslu á 10 - 12 ára börn.

  • Fimm ára börnum standi til boða að hefja nám í grunnskóla.

  • Auka þarf samvinnu við framhaldsskólana, Símey og atvinnulífið og kynna fyrir nemendum ólíkar leiðir í námi og á vinnumarkaði. Sérstaklega skal hugað að iðn - og tæknigreinum.

  • Allir skólar búi við sambærilega aðstöðu og grunnbúnað í samræmi við samþykkta skilgreiningu sem unnin verði á kjörtímabilinu. Áhersla lögð á að stuðla að góðu starfsumhverfi fyrir nemendur og starfsfólk.

  • Skoða möguleika á því að fjölga sjálfstætt starfandi skólum á leik- og grunnskólastigi.

Íþrótta- og tómstundamál

  • Styðja ÍBA við sameiningu íþróttafélaga til að styrkja starfsemi þeirra.

  • Forgangsraða uppbyggingu íþróttamannvirkja í samstarfi við ÍBA.

  • Hækka frístundastyrk í 50.000 kr. á ári.

  • Hvetja fleiri íþróttafélög til að bjóða upp á rútuferðir á æfingar innanbæjar milli hverfa fyrir yngstu aldursflokkana.

  • Samræma betur skipulag á æfingatímum barna og unglinga og leiðarkerfi strætó.

  • Akureyri verði efld enn frekar sem Vetraríþróttamiðstöð Íslands.

  • Lokið verði við uppbyggingu á aðstöðu fyrir siglingafólk og þá sem stunda sjósund á svæði Nökkva.

  • Styrkja ungt og efnilegt afreksfólk.

  • Fjölbreytt framboð tómstunda fyrir börn, unglinga og aldraða.

Skipulags-, umhverfis- og framkvæmdamál

  • Lögð verði áhersla á að þjónusta íbúa og framkvæmdaaðila ásamt því að sinna eftirliti.

 

Miðbærinn

  • Áfram verði unnið að breytingum á miðbæjarskipulaginu með áherslu á samstarf við hagsmunaaðila þar sem áhersla verði á skipulag sem laðar til sín mannlíf og fjölbreytta starfsemi.

  • Fallið verði frá þrengingu og tilfærslu Glerárgötunnar og byggingarreitum í Hofsbótinni breytt til samræmis við það.

  • Auka aðgengi að almenningssnyrtingum.

  • Fjölbreytt afþreying fyrir gesti og gangandi og hugað sérstaklega að börnum í því samhengi.

  • Bílastæði í miðbænum verði í samræmi við þörf, byggt verði bílastæðahús og innskot fyrir rútur.

  • Akureyrarvöllur verði til framtíðar fólkvangur fyrir bæjarbúa og gesti.

  • Umhirða og hreinsun verði til prýði.

 

Umhverfismál

  • Styðja við framleiðslu á eldsneyti með endurvinnslu - Orkuklasinn og Vistorka.

  • Við endurnýjun bifreiðaflota bæjarins verði áfram lögð áhersla á að kaupa bíla og tæki sem nýta umhverfisvæna orkugjafa.

  • Lokið verði við græna trefilinn umhverfis Akureyri í samstarfi við fyrirtæki í bænum.

  • Lagfæra og snyrta græn svæði svo þau séu ávallt til prýði.

  • Skoða nýjar leiðir til hálkuvarna til að draga úr sandnotkun og hætta notkun á salti. Þannig verði dregið úr svifryksmengun.

  • Gera sorpflokkunarkerfið skilvirkara með aukinni fræðslu, ráðgjöf og bættri aðstöðu við grenndarstöðvar.

  • Fjölga sorpílátum meðfram gönguleiðum.

  • Útrýma óæskilegum plöntum s.s. kerfli og tröllahvönn.

  • Gróðursetja barrtré til að fanga ryk við aðal umferðargötur

  • Markvissar aðgerðir til þess að draga úr plastmengun.

 

Byggingarsvæði

  • Tryggja lóðaframboð fyrir fyrirtæki, einstaklinga og verktaka.

  • Unnin verði langtímaáætlun um framkvæmdir hjá bænum til að auðvelda verktökum gerð áætlana og verkefni verði boðin út fyrr en nú er gert, jafnvel með árs fyrirvara.

  • Kaupa upp eignir sem víkja skulu í framtíðinni vegna skipulags.

  • Fara varlega í þéttingu byggðar.

  • Keyptur verði körfubíll fyrir slökkviliðið.

 

Umferðaröryggi

  • Fjölga skiltum sem sýna ökuhraða ökutækja.

  • Tryggja þarf að ruðningar á snjósöfnunarsvæðum skyggi ekki á umferð.

  • Fjölga vel merktum og upplýstum gangbrautum.

  • Auka öryggi leiða til og frá skóla allt árið.

  • Unnin verði öryggisúttekt í umferðarmálum og ákvarðanir um gatnagerð, undirgöng og göngubrýr teknar í kjölfarið.

Atvinnumál

  • Standa vörð um þá atvinnustarfsemi sem fyrir er og styðja jafnframt við nýja starfsemi, frumkvöðla og nýsköpun.

  • Hlúa að samkeppnishæfu umhverfi með hóflegum álögum.

  • Greina samkeppnishæfni bæjarins gagnvart öðrum sveitarfélögum til að laða til sín fyrirtæki og halda þeim sem fyrir eru.

  • Tryggja landrými og hentugar lóðir fyrir fyrirtæki.

  • Dysnes verði framtíðarsvæði fyrir hafsækna starfsemi og iðnaðaruppbyggingu.

  • Atvinnuþróunarfélögin á Norðausturlandi verði sameinuð Eyþingi og þar verði stjórnsýsla vegna atvinnumála bæjarins vistuð.

  • Stuðla að eflingu Akureyrar sem heilsárs þjónustustaðar fyrir Norður- og Austurland.

  • Stutt verði áfram við verkefnið Brothættar byggðir í Hrísey og Grímsey.

Ferða- og menningarmál

  • Akureyrarflugvöllur verði gátt inn í landið með reglulegu millilandaflugi.

  • Fjölga ferðamönnum til Akureyrar allt árið um kring og leggja sérstaka áherslu á vetrarferðamennsku.

  • Áfram verði unnið að útvistun á starfsemi Hlíðarfjalls sem skíðasvæðis og heilsárs útivistarsvæðis.

  • Auka merkingar í bænum fyrir ferðamenn.

  • Kynna eyjarnar Hrísey og Grímsey sem áhugaverða áfangastaði.

  • Efla íþróttatengda ferðaþjónustu og þá sem byggir á sérstöðu svæðisins.

  • Safnastrætó gangi frá flugvelli og/eða miðbænum milli helstu safna á sumrin.

  • Styrkja enn frekar það öfluga lista- og menningarstarf sem einkennir Akureyri.

  • Barnamenningarhátíð verði haldin árlega.

  • Mikilvægt er að ná fram sambærilegum samningum við ríkið og Reykjavík hefur til lista- og menningarstarfs.

  • Fagleg endurskoðun fari fram á fyrirkomulagi stjórnunar safnanna.

Önnur hagsmunamál

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri leggur áherslu á að eftirfarandi verkefni ríkisins komist til framkvæmda sem fyrst:

    • Raforkuflutningar tryggðir með 220 kV tengingu frá Blönduvirkjun og Fljótsdalsvirkjun.

    • Stækkun á flughlaði og flugstöð.

    • Fæðingarorlof verði að lágmarki 12 mánuðir.

    • Ný legudeildarálma verði reist við SAk.

    • Tvær nýjar heilsugæslustöðvar HSN á Akureyri.

    • Frekari uppbygging HA og aukið námsframboð í raungreina- og tækninámi.

    • Bættar samgöngur innanlands og stytting leiðarinnar Akureyri – Reykjavík.

    • Heilsársvegur yfir Kjöl.

    • Dettifossvegur kláraður.

    • Reykjavíkurflugvöllur verði óskertur í Vatnsmýri uns annar jafn góður eða betri kostur er tilbúinn til notkunar.

    • Innanlandsflug verði niðurgreitt fyrir íbúa í landsbyggðunum samanber „skosku leiðina“.

    • Ferjuleiðir verði skilgreindar sem virkur hluti af þjóðvegakerfinu.

    • Fjárveiting fáist til reksturs geðverndarmiðstöðvar og athvarfs á Akureyri.

    • Lögreglan á Norðurlandi eystra fái fleiri stöðugildi lögreglumanna og ráðinn verði forvarnafulltrúi að nýju.

    • Akureyri verði formlega miðstöð norðurslóðamála á Íslandi.

    • Hús þjóðskáldanna verði viðurkennd sem þjóðargersemi.

Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook