Varaþingmenn Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi

Valgerður Gunnarsdóttir
Valgerður fæddist á Dalvík 17. júlí 1955. Hún ólst upp á Dalvík, lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1975 og lauk BA-prófi frá Háskóla Íslands í íslenskum fræðum og bókmenntum. Valgerður lauk prófi í kennslu- og uppeldisfræðum í Háskólanum á Akureyri og hefur auk þess lokið diplómu í stjórnun og hefur að baki fjölbreytt starfstengd námskeið.

Valgerður fluttist til Húsavíkur árið 1982. Þar var hún ritari sýslumanns 1982-1983, bókari hjá Lífeyrissjóðnum Björgu 1983-1986 og gjaldkeri við Alþýðubankann á Húsavík 1986-1987. Valgerður hóf kennslu við Framhaldsskólann á Húsavík árið 1987 og kenndi þar til ársins 1999.

Valgerður sat í bæjarstjórn Húsavíkur 1986-1998 fyrir Kvennalista og var forseti bæjarstjórnar 1994-1996. Valgerður sat í skólanefnd Framhaldsskólans á Húsavík 1987-1999, í stjórn Listaverkasjóðs Húsavíkur 1990-1994, menningarmálanefnd Húsavíkur 1994-1998, fræðslu- og menningarmálanefnd Húsavíkur 1998-1999 og stjórn Útgerðarfélagsins Höfða 1986-1990.

Valgerður var skólameistari Framhaldsskólans á Laugum 1999-2013 og verið skólameistari Framhaldsskólans á Húsavík frá 2018. Valgerður sat í stjórn Skólameistarafélags Íslands 2000-2013 og var formaður Skólameistarafélagsins 2009-2013 og auk þess formaður Samstarfsnefndar framhaldsskóla á Norðurlandi 2006-2013.

Valgerður sat á Alþingi á árunum 2013-2017. Hún var formaður umhverfis- og samgöngunefndar og sat í allsherjar- og menntamálanefnd 2017. Á árunum 2013-2017 var Valgerður einn af varaforsetum Alþingis og sat í fjárlaganefnd og 
Íslandsdeild Norðurlandaráðs. Valgerður er varaþingmaður frá alþingiskosningum 2017.

Eiginmaður Valgerðar er Örlygur Hnefill Jónsson, héraðsdómslögmaður, og eiga þau þrjú börn; Emilíu Ástu, Örlyg Hnefil og Gunnar Hnefil, og sex barnabörn.



Arnbjörg Sveinsdóttir

Arnbjörg er fædd 18. febrúar 1956, dóttir hjónanna Sveins Guðmundssonar frá Mýrarlóni við Akureyri og Guðrúnar Björnsdóttur frá Seyðisfirði. Hún var alin upp á Seyðisfirði ásamt þremur systkinum. Arnbjörg tók landspróf frá Eiðum, þriðja bekk í MA en fjórða til sjötta í MR og lauk þaðan stúdentsprófi árið 1976. Arnbjörg lauk MBA gráðu frá HÍ árið 2012.

Á námsárum starfaði Arnbjörg við ýmislegt á Seyðisfirði, t.d. í fiski, sem sundlaugarvörður, við afgreiðslu Eimskips og Smyril, og kenndi í Seyðisfjarðarskóla veturinn eftir stúdentspróf. Á meðan hún bjó um tíma í Reykjavík vann Arnbjörg hjá launadeild Ríkisspítalanna. Eftir að austur var komið að nýju starfaði Arnbjörg á skrifstofu Fiskvinnslunnar og Gullbergs og loks sem fjármála- og skrifstofustjóri Fiskvinnslu Dvergasteins.

Arnbjörg var kjörin á Alþingi fyrir Austurlandskjördæmi árið 1995 og sat þar samfellt til ársins 2003 og svo aftur fyrir Norðausturkjördæmi á árunum 2004-2009. Arnbjörg var þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins 2005-2009 og sat að auki í mörgum nefndum Alþingis á þingferli sínum, t.d. sem formaður félagsmálanefndar. Arnbjörg var varaþingmaður 2009-2013 og aftur frá árinu 2016.

Arnbjörg sat í bæjarstjórn Seyðisfjarðar 1986-1998 og að nýju 2010-2018 og var forseti bæjarstjórnar og oddviti Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Seyðisfjarðar allan þann tíma. Arnbjörg gegnir stjórnarsetum í fjölmörgum fyrirtækjum og stofnunum, t.d. verið formaður Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi. Hún hefur rekið gistiheimilið Post Hostel frá árinu 2011.

Dætur Arnbjargar eru Guðrún Ragna, fædd 1976, og Brynhildur Bertha, fædd 1980. Guðrún Ragna er gift Jóni Val Sigurðssyni og eiga þau börnin Mikael, Breka og Magneu. Maki Brynhildar Berthu er Elvar Snær Kristjánsson og eiga þau soninn Aron.


 

Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  | Aðsetur: Kaupangi v/Mýrarveg  |  Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-Ak á facebook