Berglind Ósk flytur jómfrúarræðu sína á Alþingi

Berglind Ósk Guðmundsdóttir, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, flutti jómfrúarræðu sína á Alþingi í dag. Þar fór hún yfir mikilvægi þess að bæta flutningskerfi raforku til að efla tækifæri landsbyggðarinnar. 

-----


Virðulegi forseti. Við höfum á undanförnum árum fjölgað stoðum atvinnulífsins með tilkomu öflugs hugverkaiðnaðar og ferðaþjónustu. Tækifærin þar liggja ekki síst úti á landsbyggðinni. Ein meginforsenda sóknar í atvinnulífi landsbyggðarinnar er aðgengi að raforku og eftirspurnin þar hefur aldrei verið meiri. Þetta er merki um mikinn kraft í samfélaginu.

En flutningskerfi raforkunnar er flöskuháls. Það er högg fyrir þjóðina að við upphaf langþráðrar loðnuvertíðar verði að skerða afhendingu á raforku til fiskimjölsverksmiðja og annarra stórnotenda vegna ónægar flutningsgetu orkunnar. Skerðingin hefur það í för með sér að sjávarútveginn er tilneyddur til að brenna jarðefnaeldsneyti fyrir framleiðslu sem hægt væri að knýja með grænni orku, notkun sem greinin metur að geti numið allt að 20 milljónum lítra á vertíðinni.

Það skýtur skökku við að upp sé komin sú staða að þjóðhagslega mikilvægir innviðir eins og flutningskerfi raforku geti ekki þjónustað atvinnulífið vegna annmarka á kerfinu. Á sama tíma er sorglegt til þess að vita að árlega falli til ónýtt raforka sem samsvarar afkastagetu Kröfluvirkjunar. Við höfum látið tækifæri í nýtingu á sjálfbærum orkulindum fram hjá okkur fara og okkur hefur ekki tekist að einfalda nægilega reglur öllum til hagsbóta. Það má jafnframt vera ljóst að þetta gengur gegn stefnu Íslands í orku- og loftslagsmálum.

Ég vil því hvetja hæstv. orku- og loftslagsmálaráðherra til dáða og ég veit að hann gengur hratt til verka. Ég hef fulla trú á því að við náum hér samstöðu um skynsamlega uppbyggingu mikilvægra innviða. Það er þjóðþrifamál, ekki bara fyrir aukinn hagvöxt og velsæld þjóðarinnar og ekki aðeins til þess að koma í veg fyrir að við köstum atvinnutækifærum á glæ vegna þess að innviðirnir geta ekki annað eftirspurn, heldur fyrir framtíð komandi kynslóða.


Berglind Ósk Guðmundsdóttir
alþingismaður


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook