Við áramót

Ágæta sjálfstæðisfólk og Akureyringar allir.

 

Á Akureyri er gott að búa. Hér er flest til alls þegar hugað er að tómstundum og afþreyingu, menntun og menningu, verslun og þjónustu, heilbrigðisþjónustu og hér er einnig að finna fjölbreytt atvinnutækifæri. Hér má því finna þá fjölbreytni sem borg hefur upp á að bjóða í leik og starfi, en einnig samkennd sem einkennir minni samfélög og veita þeim styrk.

Þessi staða Akureyrar hefur ekki orðið til úr engu. Hér hafa margir lagt hönd á plóg og það af metnaði og framsýni. Það er því mikilvægt að varðveita þann grunn sem til staðar er og byggja ofan á hann af þeirri framsýni og metnaði sem gerir Akureyri að þeirri borg og því samfélagi sem við viljum öll sjá. Borg sem býður upp á fjölbreytt lífsgæði og samfélag sem byggir á frelsi og mennsku í enn ríkari mæli.


Til þess að slík þróun verði að veruleika þarf styrkan fjárhagslegan grunn. Sá grunnur hefur verið til staðar hjá Akureyrarbæ undnafarin ár og frekar verið að styrkjast hin seinni ár. Nú horfir hins vegar til verri vegar og í mínum huga er árið 2015 að mörgu leyti ár hinna glötuðu tækifæra.

Því miður var ekki brugðist við fyrirsjáanlega vaxandi útgjöldum bæjarins strax í byrjun ársins með greiningum og ákvörðunum sem dregið hefðu getað úr útgjöldum og aðgerðum sem hefðu getað aukið tekjur bæjarsjóðs á næsta ári eða því þar næsta. Því miður hefur ekki verið unnið að því að móta þá framtíðarsýn sem lýst er hér að framan.

En það hefur kviknað á ljósi í myrkrinu. Samþykkt var á síðasta fundi bæjarstjórnar að stofna aðgerðahóp sem í eiga sæti fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna og að ráðinn verði utanaðkomandi aðili til að vinna með hópnum. Þessum hópi er ætlað að vinna tillögur að því að gera aðalsjóð Akureyrarbæjar sjálfbæran, þ.e. að á hverju ári standi tekjur undir rekstrarkostnaði.

Þetta er mikið verk þar sem hallinn á árinu 2016 nemur ríflega 600 milljónum og 2017 er hann áætlaður ríflega 800 milljónir ef ekkert er að gert. Það er því morgun ljóst að verkefnið er stórt. Þetta verður ekki gert með þvi einu að skera niður útgjöld, því hér hefur verið byggð upp öflug og á margan hátt skilvirk þjónusta á mjög mörgum sviðum sem við viljum öll halda í.

Það má hins vegar velta upp möguleikum til að sinna þjónustu og starfsemi með öðrum eða breyttum hætti til að gera hana enn öflugri en áður með minni tilkostnaði. Þá verður einnig að horfa til þess hvernig auka má tekjur bæjarsjóðs. Það er hins vegar langtíma verkefni, en þó liggja tækifærin víða til að efla starfsemi í bænum t.d. með aukinni þjónustu við ferðamenn og auknu millilandaflugi sem vonandi verður að veruleika á árinu 2016.

Við þurfum að styrkja innviðina í ferðaþjónustunni enn frekar og skapa fyrirtækjum og einstaklingum tækifæri til að byggja upp hótel og aukna afþreyingu, þannig að hver ferðamaður skili meiri tekjum til samfélagsins hér. Þá verður einnig að huga sérstaklega að því að styrkja þá atvinnustarfsemi sem hér er fyrir með ráðum og dáð.

 

Þetta verður ekki unnið öðruvísi en með aðkomu stjórnenda og starfsmanna bæjarins og íbúum einnig, því hér þarf samtakamáttinn til. Í mínum huga er í þessu verkefni tækifæri til að virkja íbúa meir en gert hefur verið. Þar kemur til að starfshópur sá sem bæjarstjórn setti á fót fyrir rúmu ári síðan til þess að skoða leiðir til aukins íbúalýðræðis, mun skila af sér tillögum snemma á árinu 2016.

Þær tillögur sem þar gætu komið fram gefa hugsanlega tækifæri til að virkja fleiri en færri íbúa bæjarins þegar kemur að umræðu og ákvarðanatöku um viðkvæm og umdeild mál. Þetta er einmitt verið að gera nú þegar í verkefninu Brothættar byggðir sem hefur það að markmiði að styrkja og efla byggð í Hrísey og Grímsey. Við það verkefni byggja allir sem að koma mikilar vonir.

 

Tækifæri okkar Akureyringa liggja víða en til þess að þau verði að gagni og efli og styrki samfélagið þarf að grípa þau og nýta. Það hlýtur að verða meginverkefni okkar á næstu árum. Til þess að geta unnið markvisst þarf skýra sýn til framtíðar og finna leiðir til að gera hana að veruleika.

 

Við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins höfum lýst okkur reiðubúin til að koma að slíkri vinnu af heilum hug með bæjarstjórninni allri. Það er von okkar að haldið verði þannig á málum að þið bæjarbúar allir geti orðið og verði virkir þátttakendur í þeirri vinnu því mikið liggur við.

Reynsla mín og trú er sú að með samstilltu átaki verði Akureyri orðin sú borg og það samfélag sem fólk sækist enn frekar eftir að búa í innan fárra ára.

 

Megi nýtt ár verða okkur öllum farsælt með ósk um gleðilegt ár og þökkum fyrir það liðna.

 

Gunnar Gíslason
bæjarfulltrúi og oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook