Þjóðarsátt um landbúnaðarstefnu fyrir Ísland

Viðbrögð við Rækt­um Ísland! gefa fyr­ir­heit um að umræðuskjalið geti orðið grund­völl­ur að víðtækri sátt um land­búnaðar­stefnu fyr­ir Ísland. Ég hef lagt ríka áherslu á náið sam­ráð við mót­un stefn­unn­ar og því boða ég ásamt verk­efn­is­stjórn um land­búnaðar­stefnu fyr­ir Ísland á næstu 16 dög­um til alls 10 funda um allt land. Þeir fund­ir eru mik­il­væg­ir liður í vinn­unni, bæði til að kynna skjalið fyr­ir fólki, en það sem er mik­il­væg­ara; að hlusta eft­ir viðhorfi fólks, hug­mynd­um og ábend­ing­um.

Þriggja ára vinna

Það eru tæp­lega þrjú ár liðin síðan vinna við mót­un land­búnaðar­stefnu fyr­ir Ísland hófst. Sam­ráðshóp­ur um end­ur­skoðun bú­vöru­samn­inga, sem leidd­ur var af Bryn­hildi Pét­urs­dótt­ur, fram­kvæmda­stjóra Neyt­enda­sam­tak­anna, og Har­aldi Bene­dikts­syni alþing­is­manni, gerði til­lögu til mín um að unn­in yrði sviðsmynda­grein­ing um framtíð land­búnaðar­ins til árs­ins 2040. Sú vinna var af­skap­lega um­fangs­mik­il. Fól meðal ann­ars í sér gagna­öfl­un með viðtöl­um, net­könn­un, opn­um fund­um á sex lands­svæðum og grein­ingu á op­in­ber­um gögn­um. Haldn­ar voru vinnu­stof­ur þar sem sviðsmynd­ir um framtíð land­búnaðar voru mótaðar og í kjöl­farið hófst úr­vinnsla og sam­an­tekt niðurstaðna. Alls tóku um 400 ein­stak­ling­ar þátt í verk­efn­inu.

Það var síðan í sept­em­ber í fyrra sem ég skipaði verk­efn­is­stjórn um land­búnaðar­stefnu fyr­ir Ísland. Í henni sitja Björn Bjarna­son, fyrr­ver­andi ráðherra og þingmaður, og Hlé­dís Sveins­dótt­ir, ráðgjafi og verk­efna­stjóri. Með henni hafa starfað Bryn­dís Ei­ríks­dótt­ir, sér­fræðing­ur í at­vinnu­vega- og ný­sköp­un­ar­ráðuneyt­inu, og Sig­ur­geir Þor­geirs­son, fyrr­ver­andi ráðuneyt­is­stjóri.

Nýr tónn

Í byrj­un maí kynnt­um við op­in­ber­lega Rækt­um Ísland!, umræðuskjal um land­búnaðar­stefnu fyr­ir Ísland, sem er afrakst­ur vinnu verk­efn­is­stjórn­ar­inn­ar. Í skjal­inu er sleg­inn nýr tónn í umræðu um ís­lensk­an land­búnað sem mark­ar að mínu mati tíma­mót. Skjalið bygg­ist á þrem­ur lyk­il­breyt­um: (1) land­nýt­ingu, (2) lofts­lags­mál­um og um­hverf­is­vernd og (3) tækni og ný­sköp­un. Þess­ar þrjár breyt­ur setja sterk­an svip á 19 meg­in­at­riði sem eru dreg­in fram og rök­studd í skjal­inu.

Þar er meðal ann­ars komið inn á fæðuör­yggi, mat­væla­ör­yggi, land­notk­un, bein tengsl bænda og neyt­enda, kol­efnis­jöfn­un land­búnaðar og mennt­un, rann­sókn­ir, ráðgjöf og ný­sköp­un. Í grein í Morg­un­blaðinu 14. maí sl. út­skýr­ir Björn Bjarna­son að hver sem les þann texta „sér hins veg­ar að hann mót­ast mjög af fjórðu meg­in­breyt­unni sem skýrðist æ bet­ur eft­ir því sem leið að verklok­um: alþjóðleg­um straum­um“.

Já­kvæð viðbrögð

Rækt­um Ísland! var birt á sam­ráðsgátt stjórn­valda. Þær um­sagn­ir sem þar komu fram gefa fyr­ir­heit um að skjalið geti orðið grund­völl­ur að víðtækri sátt um land­búnaðar­stefnu fyr­ir Ísland. Slík samstaða er í mín­um huga af­skap­lega dýr­mæt og mark­ar út af fyr­ir sig tíma­mót í umræðu um ís­lensk­an land­búnað. Að sama skapi er sú samstaða merki um að við séum á réttri leið með þessa vinnu sem að mínu mati er stærsta hags­muna­mál ís­lensks land­búnaðar nú um stund­ir.

Eðli­lega hafa og munu koma fram ábend­ing­ar um ein­staka atriði og það verður verk­efni okk­ar á næstu vik­um að hlusta eft­ir þeim ábend­ing­um og taka til­lit til þeirra eins og kost­ur er.

Þjóðarsam­tal

Sem fyrr seg­ir er næsti fasi þessa verk­efn­is alls 10 opn­ir fund­ir um allt land á næstu 16 dög­um. Fyrsti fund­ur verður hald­inn í Land­búnaðar­há­skól­an­um á Hvann­eyri í kvöld. Ég hvet alla til að mæta til þess­ara funda – hlusta eft­ir þeim hug­mynd­um sem liggja fyr­ir og láta í sér heyra varðandi fram­haldið.

Ég er full­ur til­hlökk­un­ar að eiga sam­tal við fólk hring­inn í kring­um landið um framtíð ís­lensks land­búnaðar. Ræða um hvernig við ger­um ís­lensk­um land­búnaði sem best kleift að horfa fram á veg­inn og leiða fram stefnu sem styður við og efl­ir ís­lensk­an landbúnað til framtíðar.


Kristján Þór Júlíusson

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook