Meðalhófið skiptir máli

Eft­ir því sem áætlan­ir um bólu­setn­ing­ar ganga eft­ir mun þjóðlífið hér inn­an­lands smám sam­an fær­ast í eðli­legt horf í sum­ar. Á allra næstu dög­um verða sleg­in met hér á landi í fjölda þeirra sem fá bólu­setn­ingu. Jafn­framt er út­lit fyr­ir að auk­inn þungi fær­ist í bólu­setn­ing­ar inn­an ríkja Evr­ópu­sam­bands­ins á næstu vik­um. Því má gera ráð fyr­ir að síðla sum­ars muni ferðalög milli Íslands og ríkja Evr­ópu – sem og til Banda­ríkj­anna, Bret­lands og Kan­ada – kom­ast í eðli­legt horf. Þetta eru gleðileg tíðindi.

Það hef­ur óneit­an­lega kostað fórn­ir að halda veirunni í skefj­um og eðli­lega hafa vaknað spurn­ing­ar um hve langt stjórn­völd mega ganga við skerðingu borg­ara­legra rétt­inda í þeim til­gangi. Við höf­um nú þurft að grípa til harðra aðgerða til að efla sótt­varn­ir á landa­mær­un­um. Fá­ein smit hafa ný­lega valdið hóp­sýk­ing­um hér inn­an­lands og við því varð að bregðast með tíma­bundn­um aðgerðum. Um leið munu bólu­setn­ing­ar draga úr þörf­inni fyr­ir slík sér­tæk viðbrögð. Aðgerðunum verður því hætt þegar stærst­ur hluti lands­manna hef­ur fengið bólu­efni gegn veirunni. Að öllu óbreyttu verður það um mitt sum­ar.

Rík­is­stjórn­ir víða um heim hafa neyðst til að grípa til sam­bæri­legra ráðstaf­ana. Í lýðræðis­ríkj­um, þar sem stjórn­skip­un­in hvíl­ir á hug­mynd­um rétt­ar­rík­is og sjón­ar­miðum mann­rétt­inda, verður að taka slík­ar ákv­arðanir að vel ígrunduðu máli og á grund­velli laga. Í mann­rétt­indakafla stjórn­ar­skrár­inn­ar og mann­rétt­inda­sátt­mála Evr­ópu er gert ráð fyr­ir heim­ild rík­is­valds­ins til að setja skorður við frelsi ein­stak­linga þegar al­manna­hags­mun­ir krefjast þess. Þegar heims­far­ald­ur geis­ar er stjórn­völd­um heim­ilt að skerða mann­rétt­indi ef það er bein­lín­is gert til að vernda líf og heilsu al­menn­ings.

Hætt­an þarf alltaf að vera mjög skýr til að gripið sé til slíkra aðgerða og það má aldrei mis­nota þessa heim­ild. Í lýðræðis- og rétt­ar­ríkj­um eru stjórn­völd­um, sem bet­ur fer, sett­ar ákveðnar skorður við fram­kvæmd­ina. Það þarf því alltaf að gæta meðal­hófs. Aðgerðir verða að eiga sér stoð í lög­um, þær mega ekki ganga lengra en til­efni er til og ekki vara leng­ur en nauðsyn kref­ur. Síðan er það grund­vall­ar­atriði að dóm­stól­ar hafa vald til að skera úr um vald­mörk stjórn­valda í þess­um efn­um eins og öðrum.

Við sem höf­um komið að ákvörðunum stjórn­valda á þess­um viðsjár­verðu tím­um erum meðvituð um þá skyldu okk­ar að gæta meðal­hófs í öll­um aðgerðum er lúta að skerðingu borg­ara­legra rétt­inda. Hversu langt er gengið skap­ar líka for­dæmi fyr­ir tak­mark­an­ir rétt­inda við aðrar kring­um­stæður. Það er því afar mik­il­vægt að tryggja að stjórn­völd gæti meðal­hófs og að þrösk­uld­ur­inn sé hár þegar kem­ur að því að skerða rétt­indi ein­stak­linga.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir
dómsmálaráðherra


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook