Hvert stefnir í rekstri Akureyrarbæjar 2016?

Gunnar Gíslason

Vönduð fjármálastjórn byggir m.a. á vandaðri fjárhagsáætlunargerð, skýrri stjórnunarstefnu og kerfisbundinni upplýsingaöflun. Gerð er krafa um að fjárhagsáætlun sé raunsæ, byggi á raunverulegum fjárhagslegum forsendum, skýr tengsl séu milli þjónustustigs og gæða m.t.t. fjárveitinga, hún sé gagnsæ og skýrt upp sett og þar sé svigrúm til pólitískrar forgangsröðunar. Þá þurfa að vera til staðar skýrar verklagsreglur sem kalla á vönduð vinnubrögð, almenn skoðanaskipti og skýra verkaskiptingu.

Í rammafjárhagsáætlunum eins og þeirri fjárhagsáætlun sem hér liggur fyrir, þarf að vinna starfsáætlun samhliða þar sem tilgreind eru markmið, magn og gæði þjónustu í einstökum málaflokkum. Markmiðin þurfa að tengjast skipulagi á starfsemi sveitarfélagsins, ákveðnum aðgerðum þess og framkvæmd almennrar þjónustu.

 

Það sem fram hefur komið hér að framan eru allt atriði sem tilgreind eru í skýrslu sem kynnt var á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í september s.l. Þar eru dregin fram þau vinnubrögð við fjármálastjórn og fjárhagsáætlunargerð sveitarfélaga sem þykja vera til fyrirmyndar. Ég dreg þetta fram hér því mér þykir mikið skorta á að vinnubrögð meirihluta bæjarstjórnar Akureyrarbæjar uppfyllið þessi skilyrði.

Þann 16. desember 2014 stóð ég í bæjarstjórn og tilkynnti að ég samþykkti fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar fyrir árið 2015 með því skilyrði að undirbúningur og vinna við fjárhagsáætlun ársins 2016 yrði hafinn ekki seinna en í mars á þessu ári. Þá yrði safnað grunnupplýsingum um starfsemi sveitarfélagsins s.s. fjölda stöðugilda á hverjum stað og þróun þeirra undanfarin ár. Við vorum að ég hélt öll sammála um það fyrir ári síðan að við værum ekki með nægjanlega skýr gögn um þjónustu, gæði, fjölda stöðugilda og önnur verkefni til að geta tekið vel upplýsta ákvörðun um þessa þætti í tengslum við fjárhagsáætlunina.

Þá lá einnig ljóst fyrir að fjárhagsáætlun aðalsjóðs var afgreidd með halla og það lá nokkuð ljóst fyrir að hallinn yrði enn meiri þegar á árið liði vegna fyrirliggjandi kjarasamninga. Þess vegna var að ég hélt sammæli um að við þyrftum að leggjast í mikla vinnu við að greina, meta og forgangsraða í rekstri bæjarins. Í stuttu máli sagt þá varð ekkert af þessu að veruleika. Vinnubrögðin hafa verið þau sömu aftur, þrátt fyrir ítrekaðar óskir um annað.


Fram hefur komið hjá formanni bæjarráðs að áfram sé gert ráð fyrir aðhaldi í rekstri og það sé snúið að breyta rekstri stórs sveitarfélags þar sem það sé eins og stórt olíuskip á siglingu sem ekki verði snúið svo auðveldlega. Í þessu sambandi hef ég kallað eftir svörum um það hvaða aðhald er hér í raun verið að tiltaka og bendi jafnframt á að til þess að breyta stefnu olíuskips eða sveitarfélags þarf í fyrsta lagi að liggja fyrir hvert skal stefna og í öðru lagi að grípa til aðgerða til þess að halda breyttri stefnu. Það þýðir ekki að bíða bara og vona.

Það er nefnilega fátt eða ekkert lagt hér til sem bendir til þess að stefnubreyting sé í vændum og í raun liggur ekkert fyrir um það hver stefna meirihluta bæjarstjórnar er. Þrátt fyrir fögur orð í stefnuskjali er ekki að sjá nein merki þess að þau fögru orð hafi verið eða eigi að útfæra í aðgerðir sem verði sýnilegar bæjarbúum. Þessi orð læt ég falla hér vegna þess að bæjarstjórn hefur ekki unnið eða samþykkt starfsáætlun undanfarin ár og það bendir ekkert til þess að svo verði nú. Þetta er þó eitt af þeim atriðum sem talin eru skipta miklu máli í rammaáætlanagerð. Stefna bæjarstjórnar þarf að vera leiðarljós fyrir nefndir og ráð bæjarins, þegar kemur að ákvörðun um markmið, magn og gæði þjónustu, sem er markaður fjárhagslegur rammi í fjárhagsáætlun.

 

Vegna þess hve fátæklegar og sundurlausar upplýsingar liggja fyrir í þessari vinnu, óskaði ég eftir upplýsingum um fjölda stöðugilda árið 2014, áætlaðan fjölda 2015 og fjölda stöðugilda í launaáætlunarkerfinu fyrir árið 2016. Þetta gerði ég vegna þess að ég hafði grun um að í fjárhagsáætlun 2015 hafi verið bætt við stöðugildum í reksturinn án þess að það lægi skýrt fyrir þegar bæjarstjórn samþykkti þá áætlun fyrir ári síðan. Þegar einungis eru teknir þeir málaflokkar þar sem stöðum fjölgar um 1 eða fleiri er fjölgunin 80 stöðugildi eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.




Það skal tekið fram hér að þessar tölur lýsa ekki heildarstöðugildaaukningu hjá bænum frá 2014 því um áramót tók ríkið rekstur Heilsugæslunnar yfir og þá fækkaði stöðugildum hjá bænum á móti milli áranna 2014 og 2015. Fjölgun stöðugilda í heildina er ríflega 40 frá árinu 2014 til áætlunar ársins 2016. Þessar tölur lýsa aukningu í kerfinu eins og upplýsingakerfið sýnir þær. Ég lagði þessa greiningu fram á fundi bæjarráðs fyrir nokkru síðan. Ég hef ekki fengið neinar ábendingar um annað en að í stærstum atriðum sé hér rétt með upplýsingar farið og ég hef heldur ekki séð að það sé í sjálfu sér gert neitt með þær heldur.

Það er þannig með samstarfið við gerð fjárhagsáætlunar að það á sér eingöngu stað inni á fundum en margar ákvarðanir eru teknar utan funda án samráðs, þó þær séu svo kynntar á fundum. Ég nefni þetta hér vegna þess að ef þær upplýsingar sem hér liggja fyrir eru réttar þá er aðhald í rekstri afar lítið og bæjarráð eða bæjarstjórn hefur ekki fjallað um þessa aukningu stöðugilda sem slíka nema í einstaka tilvikum eða sem nemur hugsanlega 5 stöðugildum í heildina. Þetta er umhugsunarvert í ljósi þess að hér er um verulega fjármuni að ræða eða allt að 400 milljónir á ársgrundvelli og þjónustuaukningu sem á samkvæmt 5. gr. Samþykktar um stjórn og fundarsköp Akureryarkaupstaðar, að vera á ábyrgð bæjarráðs og bæjarstjórnar.

Þessi þróun er einnig athyglisverð í ljósi þess að í „Forsendum fjárhagsáætlunar Akureyrarbæjar 2016“, sem saþykktar voru í bæjarstjórn í júní s.l. er eftirfarandi klausa: „
Allar tillögur eða óskir sem ekki rúmast innan rammans eða lúta ekki að áður samþykktum ákvörðunum bæjarstjórnar um þjónustu við bæjarbúa skal sækja um sérstaklega og gera grein fyrir þeim viðbótum.“


Miðað við þær upplýsingar sem fyrir liggja sé ég ekki betur en að þessum fyrirmælum hafi ekki verið fylgt, því eftir því sem ég fæ best séð er aukning og fjölgun stöðugilda inni í fjárhagsáætlunum flestra ef ekki allra nefnda án þess að það sé sérstaklega tilgreint eins og kveðið er á um nema í einstaka tilvikum. Það er ábyrgð þeirra pólitísku fulltrúa sem stýra áætlangerðinni að ganga á eftir því að leikreglum sé fylgt og skýra þær ef þær eru ekki nógu skýrar.


Með þessu er ég ekki að segja það að ekki sé þörf fyrir aukna mönnun víða vegna aukins álags í þjónustu eða vegna breytinga á þjónustu. Það sem ég er að segja er að bæjarstjórn sem ber hina endanlegu ábyrgð á rekstri sveitarfélagsins er ekki upplýst um það hvað er í gangi og hefur ekki yfirsýn yfir magn, gæði og framkvæmd þjónustu sem er eitt af meginskilyrðum fyrir ábyrgri fjármálastjórn. Hvar er þá aðhaldið í rekstrinu sem um er rætt?

 

Af því sem hér hefur komið fram má ljóst vera að vinnubrögðin við fjárhagsáætlunina eru gagnrýniverð svo ekki sé meira sagt. Ég kalla því eftir skilvirkari og markvissari vinnubrögðum hér eftir sem byggja á raungögnum þannig að taka megi upplýsta ákvörðun í öllum tilvikum.


Það liggur nú þegar fyrir að það verður mikill halli á Aðalsjóði á árinu 2015 og hugsanlega einnig á samstæðunni allri sem er mjög alvarleg staða. Það er því verulegt áhyggjuefni að í tillögu að fjárhagsáætlun 2016 er gert ráð fyrir mjög miklum halla á Aðalsjóði og einnig á samstæðunni allri sem er í raun algjörlega óásættanleg staða. Bæjarstjórn bíður því mikið og erfitt verkefni á næsta ári.

 

Við höfum lagt á það áherslu að í samþykktum okkar hér í bæjarstjórn og bæjarráði að að undanförnu að það sé ekki rétt gefið hvað varðar tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga og það hefur einnig komið víða fram á landsvísu. Vonandi fáum við leiðréttingu þar að lútandi og getum við þá andað léttar, en það leysir okkur ekki undan þeirri ábyrgð að vinna á skilvirkan og markvissan hátt þar sem við erum alltaf með fjárhagsáætlunina byggða á grunni upplýsinga um magn, gæði og framkvæmd þjónustunnar.


Það sem ég er að benda á og komið hefur fram hér að framan er að það er lítið sem ekkert gert til að takast á við verkefnið sem bíður okkar hvort sem okkur líkar það betur eða verr að gera aðalsjóð sjálfbæran. Eftir því sem við drögum það verkefni lengur verður verkefnið aðeins stærra og verra viðureignar. Það er nefnilega rétt sem komið hefur fram hjá formanni bæjarráðs að ef breyta á stefnu þarf að ætla góðan tíma til þess og vanda til verka.

Að lokum langar mig til að viðra þá skoðun mína að það eigi að veita almennum bæjarbúum meiri og betri aðgang að vinnslu fjárhagsáætlunar. Það er hægt að gera með því að byrja vinnuna fyrr, skipuleggja hana betur og halda umræðu- og kynningarfundi um afmörkuð málefni, þar sem bæjarbúum gæfist kostur á að leggja fram hugmyndir eða skoðanir á ákveðnum tillögum.

Hér hef ég viðrað mína sýn á þá fjárhagsáætlun sem fyrir liggur og má vera ljóst af því sem ég hef sett hér fram að ég er ekki sáttur við vinnubrögð eða framsetningu áætlunarinnar sem er á ábyrgð hins pólitíska meirihluta í bæjarstjórn. 


Gunnar Gíslason
oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook