Hreinn og umhverfisvænn bær

Akureyri er fallegur og snyrtilegur bær sem gott er að búa í. Þannig viljum við hafa bæinn okkar og leggjum því áherslu á að öll hreinsun og umhirða sé til prýði. Græn svæði í bænum skulu vera vel snyrt og útivistarsvæði falleg, með fjölbreyttum afþreyingarmöguleikum.

Mikilvægt er að bærinn sé umhverfisvænn. Sorpflokkunarkerfið okkar er að mörgu leyti til fyrirmyndar en við teljum að hægt sé að gera það enn skilvirkara með aukinni fræðslu og bættri aðstöðu við grenndarstöðvar. 

Plastmengun í sjó og á landi er gífurleg og áhrif hennar ekki fullkönnuð. Mjög mikilvægt er að fara í markvissar aðgerðir til þess að draga úr plastmengun. Við þurfum því að gera allt sem í okkar valdi stendur til að draga úr notkun einnota plastumbúða, tryggja að plast sé flokkað til endurvinnslu og í nánustu framtíð þarf að hreinsa plastagnir úr fráveitunni. 

Svifryksmengun í bænum er of oft yfir mörkum. Skoða þarf nýjar leiðir til hálkuvarna, draga úr sandnotkun og hætta notkun á salti með það að markmiði að draga úr menguninni. Enn markvissari og meiri hreinsun gatna og gangstétta er einnig liður í því að draga úr svifryksmengun. 

Huga þarf að andrúmsloftinu okkar. Mikilvægt er að nýta umhverfisvæna orkugjafa og því er nauðsynlegt að styðja við framleiðslu á eldsneyti með endurvinnslu. Áfram þarf bærinn að leggja áherslu á að kaupa bíla og tæki sem nýta umhverfisvæna orkugjafa og hvetja bæjarbúa til að gera slíkt hið sama. Einnig þarf að auka umferð gangandi og hjólandi og tryggja öryggi þeirra meðal annars með góðum göngu- og hjólastígum og leiðum.

Sameinumst um að halda bænum okkar snyrtilegum, umhverfisvænum og fallegum. Gleðilegt sumar!


Lára Halldóra Eiríksdóttir, grunnskólakennari
skipar 4. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins á Akureyri


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook