Þingsályktunartillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar

Þingsályktunartillaga um að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar er komin á dagskrá þingsins. Njáll Trausti Friðbertsson, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, er fyrsti flutningsmaður tillögunnar, en með honum á tillögunni eru 24 þingmenn úr fimm flokkum; Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki, Miðflokki, Flokki fólksins og Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Njáll Trausti kynnti tillöguna í viðtali í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag.

Þingsályktunartillagan í heild sinni

Í greinargerð málsins kemur fram að með tillögunni fái þjóðin tækifæri til þess að segja hug sinn og hafa með því áhrif á hvar flugvöllurinn og miðstöð innanlands- og sjúkraflugs verði í fyrirsjáanlegri framtíð, t.d. með tilliti til þjóðhagslegra hagsmuna og þjóðaröryggis. Ríkir almannahagsmunir felist í greiðum samgöngum innan lands og staðsetning flugvallarins og miðstöðvar innanlandsflugs hafi mjög mikla þýðingu í því samhengi. Flugvöllurinn gegni mjög mikilvægu öryggishlutverki fyrir almenning í landinu vegna sjúkra- og neyðarflugs, og einnig sem varaflugvöllur. Þá gegni flugvöllurinn einnig mjög mikilvægu hlutverki í almannavarnakerfi landsins.

Staðsetning flugvallarins hefur verið umdeild í nokkurn tíma. Í kjölfar dóms Hæstaréttar 2016 var íslenska ríkinu skylt að loka norðaustur-suðvestur-flugbraut Reykjavíkurflugvallar í samræmi við samkomulag þáverandi innanríkisráðherra og borgarstjórans í Reykjavík 2013. Hefur umræddri flugbraut nú verið lokað. Eftir sem áður ríkir ekki einhugur um framtíðarstaðsetningu Reykjavíkurflugvallar og hlutverk hans sem samgöngumiðstöðvar til framtíðar, en aðalskipulag Reykjavíkur gerir ráð fyrir því að flugvöllurinn víki í áföngum eftir árið 2022.



Fyrir liggur að flugvöllurinn lokast í reynd þegar norður-suður-brautinni verður lokað sem Reykjavíkurborg stefnir að 2022. Í því sambandi þarf einnig að horfa til þess að í samgönguáætlun fyrir árin 2011–2022 er gert ráð fyrir því að flugvöllur verði í Reykjavík til ársins 2022 hið minnsta þótt ekki sé með skýrum hætti kveðið á um staðsetningu hans. Samhliða samgönguáætlun 2020–2034, sem samþykkt var á Alþingi í júní 2020, var kynnt fyrsta flugstefna Íslands. Markmið stefnunnar er m.a. að efla innanlandsflug sem hluta af almenningssamgangnakerfi landsins. Flugstefnan felur í sér að tryggja skilvirkt kerfi alþjóðaflugvalla hér á landi sem er samþætt og á einni hendi og byggja upp innviði alþjóðaflugvalla landsins með áherslu á að þeir mæti sem best þörfum flugrekenda fyrir varaflugvelli; þar gegna Egilsstaðaflugvöllur, Akureyrarflugvöllur og Reykjavíkurflugvöllur lykilhlutverki.

Þá má geta þess að í nefndaráliti meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis við afgreiðslu samgönguáætlunar 2020–2034 var lögð áhersla á að Reykjavíkurflugvelli yrði haldið við og hann byggður upp svo hægt verði að sinna því hlutverki sem hann nú gegnir á öruggan og viðunandi hátt og að öryggis- og þjónustustig vallarins verði ekki skert frekar en orðið er fyrr en nýjum flugvelli hefur verið fundinn staður og hann tilbúinn til notkunar.

Afar brýnt er því að þjóðin fái tækifæri til þess að segja hug sinn varðandi helstu samgöngumiðstöð landsins og hafi þar með áhrif á endanlega niðurstöðu málsins sem gæti m.a. falist í tilfærslu á skipulagslegu ákvörðunarvaldi með lögum, að teknu tilliti til mikilvægra almannahagsmuna.

Reykjavíkurflugvöllur gegnir fjölþættu hlutverki í samgöngum landsbyggðar og höfuðborgar. Völlurinn sé óumdeilanlega miðstöð innanlandsflugs og gegni í því sambandi lykilhlutverki fyrir allar byggðir landsins.


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook