Stjórnmálaályktun kjördæmisþings Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi

Stjórnmálaályktun Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi
- kjördæmisþing á Eskifirði 21. mars 2015

Undanfarið hafa verið stigin mikilvæg skref í þá átt að bæta aðstæður og umhverfi heimila og atvinnulífs þó enn séu ærin og krefjandi verkefni framundan. Hagtölur bera aukinni hagsæld vitni. Flestir mælikvarðar sýna bætta stöðu í efnahagsmálum.

Mikilvægt er að áfram verðið unnið markvisst að afnámi gjaldeyrishafta. Afnám þeirra er mikilvæg forsenda framtíðaruppbyggingar í íslensku atvinnulífi.

Hagstæðar skattareglur eru atvinnulífinu mikilvægar en jafnframt er áríðandi að ríkisstjórnin hafi frumkvæði að einföldun regluverks og eftirlitsumhverfis sem fyrirtæki búa við. Kjördæmisráð hvetur ríkisstjórnina til enn frekari skattalækkana.

Ábyrg stefna í ríkisfjármálum, áframhaldandi hagvöxtur, stöðugleiki, aukin verðmætasköpun, hærra atvinnustig og vaxandi atvinnuvegafjárfesting eru helstu forsendur frekari uppbyggingu þeirrar grunnþjónustu sem ríkið á að tryggja öllum borgurum. Þar eru viðfangsefnin víða bæði umfangsmikil og ærin. Ýmis verkefni munu krefjast aukinna fjárframlaga en nauðsynlegar kerfisbreytingar þurfa einnig að koma til sem auka munu skilvirkni og tryggja betri nýtingu opinbers fjár.

Kjördæmisráð Norðurausturkjördæmis fagnar því að skuldasöfnun ríkissjóðs hefur verið stöðvuð og hvetur ríkisstjórnina til þess að halda áfram á þeirri braut.

Gott vegakerfi er forsenda atvinnulífs og þar með byggðar í dreifbýli. Á komandi árum verður að ráðast í umfangsmiklar fjárfestingar á sviði samgöngumála.

Sjálfstæðisflokkurinn ítrekar að næsta forgangsmál á eftir Norðfjarðargöngum verði göng til Seyðisfjarðar, undir Fjarðarheiði. Kjördæmisráð Sjálfstæðisflokksins telur gríðarlega mikilvægt að aukið fé verði lagt í rannsóknir á gerð jarðganga til Seyðisfjarðar í ljósi aðstæðna íbúa á Seyðisfirði í vegamálum að vetri til.

Mikilvægt er að ríkið tryggi nægt fjármagn til uppbyggingar flugvalla á Akureyri og á Egilsstöðum. Brýnt er að ráðast í framkvæmdir við uppbyggingu flughlaða til að tryggja það að flugvellirnir geti vaxið sem millilandaflugvellir. Aukin markaðssetning flugvallanna sem millilandaflugvellir og uppbygging þeirra er mikilvæg ekki síst til að draga úr álagi vegna fjölgun ferðamanna á suðvesturhorni landsins sem tilkomin er vegna þeirrar eingáttastefnu sem ríkir í milliflandaflugi á Íslandi.

Kjördæmisráð Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi hvetur borgarstjórn Reykjavíkurborgar til að endurskoða afstöðu sína varðandi Reykjavíkurflugvöll og ítrekar að flugvöllurinn er ekki einkamál Reykvíkinga. Reykjavíkurflugvöllur er grundvallarþáttur í samgöngum landsins.

Stöðugt þarf  að gæta þess að allir þegnar landsins eigi jafna möguleika og hafi, óháð búsetu, aðgengi að góðri heilbrigðisþjónustu og menntun á öllum skólastigum. Kjördæmisráð hvetur ríkisstjórnin til að halda áfram þeirri meginstefnu að forgangsraða í þágu heilbrigðis, - mennta- og samgöngumála.

Mikilvægur þáttur í að skapa góð búsetuskilyrði um land allt er markviss uppbygging á fjarskiptum og háhraðatengingum. Kjördæmisráð fagnar þeim áherslum sem fram hafa komið í skýrslu vinnuhóps innanríkisráðherra, um alþjónustu í fjarskiptum og útbreiðslu háhraða nettenginga, þar sem meðal annars segir „Aðgangur að háhraða fjarskiptatengingu verði grunnþjónusta sem standa skal öllum landsmönnum til boða óháð búsetu.“

Það er viðvarandi verkefni stjórnvalda að tryggja að atvinnulíf á landsbyggðinni líði ekki fyrir samgönguleysi og háar álögur s.s. óhóflegan flutningskostnað.

Mikilvægt er að skapa sátt um sjávarútveg landsins. Arðbær sjávarútvegur er forsenda byggðar um allt land þar sem sjávaarútvegurinn greiði sanngjarnt gjald fyrir aðgengi að nýtingu sameiginlegrar auðlindar.

Störf á vettvangi ríkisins eiga að vera í boði á landsbyggðinni en einskorðist ekki við höfðborgarsvæðið. Kjördæmisráð hvetur ríkisstjórnina til að tryggja að ný störf hjá hinu opinbera dreifist á landsbyggðina.

Flutningskerfi raforku er víða komið að þolmörkum og hamlar orðið mikilvægri atvinnuuppbyggingu í kjördæminu. Mikilvægt er að setja styrkingu kerfisins í forgang og tryggja með því nauðsynlegt raforkuöryggi þannig að áfram sé hægt að byggja upp og til að sú atvinnustarfsemi sem þegar er til staðar sé ekki í hættu. Þetta á hvort tveggja við innan kjördæmisins og eins milli landsfjórðunga.

Kjördæmisráð hvetur ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks til að hafa hag heimilanna áfram í forgrunni með því að halda áfram á braut skattalækkana til góða fyrir bæði einstaklinga og atvinnulíf.


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook