Ný staða í bæjarmálum - áskoranir og verkefni næstu 20 mánuði

Í dag eru tímamót í lífi mínu og félaga minna í bæjarstjórn Akureyrarbæjar. Við höfum náð þeim merka áfanga að mynda einskonar „þjóðstjórn“ í bæjarstjórninni. Við ætlum hér eftir að ganga eins samhent til verka og mögulegt er. Pólitíkin mun fyrst og síðast snúast um verkefni og málefni, en alls ekki um annað.

Þrátt fyrir að vera öll komin saman í eitt lið er alveg skýrt í huga okkar allra að við verðum alltaf að standa með sannfæringu okkar og stunda gagnrýna umræðu á málefnalegum nótum. Við höfum því frelsi til að vera á móti ef svo verkast en rökstyðjum ávallt slíka afstöðu. Það er því ekki ólíklegt að á Akureyri verði meiri- og minnihluti með ýmsu móti allt eftir þeim málefnum sem um er fjallað á hverjum tíma.

Fyrirkomulag sem þetta kallar á mikið traust og hreinskipta umræðu. Ég tel að sá hópur sem nú skipar bæjarstjórn séu traustsins verður og það hefur verið einstaklega gott að vinna með þessum hópi að þeim málefnasáttmála og samskiptasáttmála sem nú liggur fyrir.

Við erum að innleiða nýja starfshætti og hverfa frá pólitíkinni þar sem „óvinurinn“ hefur verið skilgreindur og er þekktur af öllum. Það er eðlilegt að margir velti vöngum yfir þessu og hafi áhyggjur af því hver veiti aðhaldið og hvenær. Það er okkar mat að með þessu nýja sniði megi ná meiri og betri árangri í að koma þeim málum fram sem ákveðið er að fara í.

Það er mikilvægt í dag að við tökum höndum saman um að takast á við þau verkefni sem bíða, því þau eru stór og mikil. Því höfum við markað okkur skýra framtíðarsýn til fimm ára og mun allt okkar starf hverfast um að gera hana að veruleika. Það verður ekki létt verk en þegar margar samhentar hendur koma að verki ætti það að verða eilítið léttara. Við erum sammála um að allar ákvarðanir verði teknar af mjög vel ígrunduðu máli og byggðar á gögnum. Þetta er svo sem ekki nýtt fyrir okkur en við þurfum að gera betur í þessum efnum og getum það.

Þegar sú staða kom upp að þetta fyrirkomulag í bæjarstjórn væri mögulegt var aldrei spurning í mínum huga. Það væri í raun ábyrgðarhluti að taka ekki þátt í því að takast á við málefni bæjarins í ljósi stöðunnar sem upp er komin. Það verður ekki síður mikilvægt fyrir okkur að hlusta eftir röddum bæjarbúa og er það því eitt af mikilvægustu verkefnum okkar að stór auka íbúasamráð.

Akureyrarbær er einstaklega fallegt sveitarfélag sem er þekkt fyrir veðursæld, fallegt umhverfi, góða skóla og öflugt menningarlíf. Hér er gott að búa og það verður að vera svo áfram. Ég vil leggja mitt af mörkum til að svo verði áfram og hér verði enn betra og fjölbreyttara mannlíf í framtíðinni.

Gunnar Gíslason
bæjarfulltrúi og oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook