Njáll Trausti Friðbertsson - framboðskynning

Njáll Trausti Friðbertsson, alþingismaður, Akureyri, gefur kost á sér í 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi 29. maí nk. 

Njáll Trausti óskar eftir stuðningi í 1. sæti í prófkjörinu 29. maí.

Njáll Trausti Friðbertsson hefur verið alþingismaður Norðausturkjördæmis fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá árinu 2016. Í þingstörfum hefur hann talað fyrir frelsi og einkarekstri gegn oftrú á ríkisrekstri og sífellt sterkara miðstjórnarvaldi, eftirliti og aukinni skattlagningu.

Njáll Trausti er öflugur baráttumaður fyrir kjördæmið, mikill talsmaður samgöngubóta  og átti ríkan þátt í að „skoska leiðin” (Loftbrúin) varð að veruleika. Þá hefur hann beitt sér fyrir uppbyggingu alþjóðaflugvalla á Akureyri og Egilsstöðum og eflingu millilandaflugs þaðan.

Mótun nýrrar orkustefnu og aukið orkuöryggi er baráttumál hans. Í nefnd um norðurslóðastefnu lagði hann áherslu á stöðu Norðurlands sem miðstöðvar Norðurslóða á Íslandi.

Njáll Trausti hefur lengstum setið í fjárlaganefnd og atvinnuveganefnd þingsins og er nú varaformaður utanríkismálanefndar og formaður Íslandsdeildar NATO-þingsins.

Af félagsmálum má nefna að hann hefur frá 2013 verið annar tveggja formanna „Hjartans í Vatnsmýri“, baráttusamtaka fyrir Reykjavíkurflugvelli. Hann er einnig formaður Varðbergs – Samtaka um vestræna samvinnu og alþjóðamál.

Njáll Trausti er fæddur 31. desember 1969. Hann lauk stúdentsprófi frá MR 1990 og námi í flugumferðarstjórn 1993 og BS-prófi í viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri 2004. Starfaði sem flugumferðarstjóri á Akureyri og sat í bæjarstjórn Akureyrar. Njáll er kvæntur Guðrúnu Gyðu Hauksdóttur hjúkrunarfræðingi og eiga þau tvo syni, eitt barnabarn og heimilishundinn Bellu. 


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook