Yfirlit frétta


Eftir Stefán Friðrik Stefánsson 12. september 2025
Bæjarmálafundur Sjálfstæðisflokksins á Akureyri verður haldinn í Geislagötu 5 mánudaginn 15. september kl. 17:30. Bæjarfulltrúar fara yfir þau mál sem eru á dagskrá bæjarstjórnar - farið yfir 6 mánaða uppgjör Akureyrarbæjar og rætt um það helsta sem er að gerast í menntamálum sveitarfélagsins. Fundarstjóri: Heimir Örn Árnason, formaður bæjarráðs og oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri Allir velkomnir - heitt á könnunni.
11. september 2025
Virðulegi forseti Eins og svo oft áður stöndum við Íslendingar á tímamótum. Spurningin er einföld: Viljum við afhenda öðrum vald til að taka afdrifaríkar ákvarðanir um framtíð okkar, eða höfum við sjálfstraust, hugrekki og þor til að stýra áfram eigin málum með bjartsýni og áræðni að leiðarljósi? Fullveldi hefur reynst okkur vel. Það hefur fært okkur frelsi og farsæld. Við höfum átt samstarf við aðrar þjóðir í margvíslegu alþjóðlegu samstarfi – á okkar eigin forsendum og á grunni jafnræðis milli ríkja, án tillits til stærðar þeirra. Það sem skiptir íslensk heimili og fyrirtæki mestu máli er að ríkisfjármálin séu í lagi. Að vextir lækki. Að atvinnulífið hafi skilyrði til að skapa störf og verðmæti. Þar stendur ríkisstjórnin höllum fæti. Forsætisráðherra virðist skorta nauðsynlegan vilja eða kraft til að fylgja þeirri stefnu sem hún boðaði fyrir kosningar. Í stað þess að draga úr ríkisútgjöldum hefur hún lagt til ný útgjöld og skattahækkanir: nýjar álögur, hækkuð auðlindagjöld og íþyngjandi regluverk sem dregur úr frumkvæði fyrirtækja. Afleiðingin blasir við. Afkoma heimilanna versnar og fyrirtækin standa frammi fyrir auknum álögum. Þrátt fyrir yfirlýsingar fjármálaráðherra um „engar skattahækkanir á fólk og fyrirtæki“ fela fjárlögin í sér skattahækkanir fyrir tæpa 30 milljarða. Þetta er að sjálfsögðu greitt af fólki og fyrirtækjum: tekjuskattur hækkar með afnámi samnýtingar þrepa hjá hjónum, gjöld á ökutæki og eldsneyti hækka, álögur á raforkunotkun heimila aukast og skattheimta á arðgreiðslur er hækkuð. Að kalla þetta annað er að slá ryki í augu skattgreiðenda. Svona vinnum við ekki traust, svona seinkum við vaxtalækkunum. Sjálfstæðisflokkurinn leggur til aðra leið. Við viljum draga úr ríkisútgjöldum, tryggja festu í fjármálum ríkisins og skapa fyrirtækjum betri skilyrði til vaxtar og nýsköpunar. Það leiðir til lægri vaxta og meiri stöðugleika og er forsenda þess að heimilin rétti úr kútnum og atvinnulífið nái að standa undir góðum lífskjörum okkar allra. Ríkisstjórnin boðar þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við Evrópusambandið eigi síðar en árið 2027. Þetta eru fyrstu skrefin á braut sem þjóðin hefur ítrekað hafnað. Aðild myndi þýða að við færum aftur í tímann. Við myndum missa forræði yfir fiskimiðunum. Við myndum missa forræði yfir öðrum auðlindum eins og vatni og hreinni orku. Við myndum missa sjálfstæða rödd á alþjóðavettvangi. Við myndum ganga aftur inn í 12 mílur eftir áratugalanga baráttu fyrir 200 mílna landhelgi. Evrópusambandið myndi einnig öðlast áhrif í gegnum Ísland í Norðurheimskautsráðinu þar sem það hyggst véla við önnur stórveldi um auðlindir svæðisins. Þetta er ekki framtíðarsýn sem Íslendingar geta sætt sig við. Ísland hefur á sama tíma náð sér á strik með eigin stefnu og að eigin frumkvæði, á meðan stórar bandalagsþjóðir glíma við efnahagsvanda – svo ekki sé minnst á þjóðir í suður- og austurhluta álfunnar. Í heimi óvissu er varfærni dyggð. Það er vægast sagt vond forgangsröðun að leggja kapp á að hefja aðlögunarviðræður við bandalag sem gímir við eigin vandamál á meðan hér heima bíða verðbólga, háir vextir og húsnæðisskortur. Ríkisstjórnin ætlar að leita til erlendra sérfræðinga til að komast að fyrirséðri niðurstöðu: Að taka upp evru. Þetta er pöntuð niðurstaða sem á að réttlæta pólitískt markmið. Undirliggjandi virðist vera sú trú að evran sé töfralausn. En reynsla annarra þjóða sýnir að svo er ekki. Stöðugleiki næst ekki með því einu að skipta um gjaldmiðil heldur með ábyrgð í ríkisfjármálum og aga í efnahagsstjórn. Þú flytur ekki inn stöðugleika í efnahagsmálum. Við getum sjálf beitt aga í ríkisfjármálum. Við getum sjálf tryggt stöðugleikann. Reistu í verki viljans merki. Vilji er allt sem þarf. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er talað almennum orðum um lífeyri, hjúkrunarrými, byggðaaðgerðir og húsnæði. En stóru spurningunum er ekki svarað: - Hvernig á að bregðast við breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar? - Hvernig tryggjum við jafnvægi í byggð landsins? - Hvernig tryggjum við að ungt fólk jafnt sem eldri borgarar geti eignast heimili á sanngjörnu verði? Þetta eru ekki smámál. Þetta eru grundvallarspurningar sem ríkisstjórnin lætur liggja á milli hluta. Við í Sjálfstæðisflokknum segjum: Ísland á betra skilið. Við viljum ábyrga stefnu en ekki aukin útgjöld og skattahækkanir. Við viljum skapa atvinnulífinu hagstæð skilyrði. Öflugt atvinnulíf er undirstaða farsældar í landinu. Það skapar störfin, tekjurnar og verðmætin sem standa undir velferðinni. Við leggjum til að Ísland: - nýti betur auðlindir sínar, - efli sjálfbæra orkuframleiðslu, - standi vörð um atvinnulífið, - tryggi festu í útlendingamálum með ábyrgð og mannúð. Við Íslendingar höfum alla burði til að skapa nýtt blómaskeið. Það gerum við ekki með nýjum sköttum. Ekki með því að afhenda öðrum yfirráð í okkar málefnum. Við gerum það með því að treysta á okkur sjálf. Á atvinnulífið. Á auðlindirnar okkar. Og á þann kjark sem hefur fært þjóðinni farsæld eftir að hún öðlaðist langþráð frelsi og sjálfstæði á síðustu öld. Sjálfstæðisflokkurinn mun áfram standa vörð um frelsi einstaklinganna, fullveldi þjóðarinnar og ábyrgð í ríkisfjármálum. Það er leiðin til að tryggja betra samfélag fyrir alla Íslendinga. Framtíðin er okkar. Hún er björt, og hún byggir á frelsi og ábyrgð. Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Sjálfstæðisflokksins
11. september 2025
Kæru landsmenn, háttvirtir alþingismenn og góðir gestir. Nú hefst nýtt löggjafarþing. Það er mér mikill heiður að standa hér í fyrsta sinn sem þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins og fá að ávarpa þjóðina. Ég kem inn á þing úr atvinnulífinu, eftir mörg ár í eigin rekstri. Ég hef kynnst því að taka áhættu, leggja inn vinnu sem enginn annar sér, standa vaktina kvölds og morgna, og finna jafnframt gleðina þegar vel tekst til, þegar ný störf verða til og þegar viðskiptavinurinn fer út með bros á vör. Þessi reynsla er mér ómetanleg. Hún hefur kennt mér að ekkert gerist af sjálfu sér. Það þarf kjark, það þarf þolinmæði og það þarf að hafa trú á framtíðina. Ég hef séð með eigin augum að þar sem hugrekki og dugnaður fá að njóta sín, þar blómstrar samfélagið allt. Öflugt atvinnulíf er stoð og stytta samfélagsins. Það er í fyrirtækjunum, stórum sem smáum, sem verðmæti verða til. Þar skapast launin, arðurinn og skatttekjurnar sem halda uppi velferðarkerfinu okkar. Þess vegna er mikilvægt að við gleymum aldrei hverjir eru raunverulegir burðarásar í hagkerfinu. Smá og meðalstór fyrirtæki – sem sprottin eru upp um land allt – eru hryggjarstykki atvinnulífsins. Í þeim starfa tveir af hverjum þremur Íslendingum. Þar vinnur fólk sem ber ábyrgð á sínu nærumhverfi, fólk sem hefur hugmyndir, lætur til sín taka og skapar tækifæri fyrir aðra. Þetta eru smiðirnir, verslunarfólkið, hárgreiðslumeistararnir, bóndinn og sjómennirnir. Þetta eru fyrirtækin sem halda samfélögunum okkar lifandi. Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf lagt áherslu á að styðja þetta fólk. Við trúum því að frjálst framtak, drifið áfram af hugviti og ábyrgð, sé besta leiðin til að skapa velsæld fyrir alla. Ég þekki það sjálfur úr rekstri hversu flókið regluverkið getur verið. Reglur eru nauðsynlegar – en þegar þær verða of margar, of flóknar eða illa samræmdar, þá verða þær að klafa á öxlum þeirra sem reyna að byggja upp fyrirtæki. Ísland hefur um árabil verið með þungt regluverk í samanburði við mörg önnur ríki. Þetta er ekki bara pappírsvinna. Þetta eru kostnaðarliðir sem bitna á rekstrinum. Þetta eru tafir sem hamla því að hugmyndir komist hratt í framkvæmd. Og þetta er stundum sú tilfinning að ríkið sé ekki samstarfsaðili heldur hindrun. Við í Sjálfstæðisflokknum viljum breyta þessu. Við viljum skera burt óþarfa skriffinnsku, einfalda regluverk og gera það gagnsærra. Það á ekki að þurfa lögfræðingaher til að hefja rekstur. Það á ekki að taka mánuði að fá leyfi fyrir einföldum framkvæmdum. Við eigum að hafa regluverk sem tryggir sanngirni og öryggi, en sem jafnframt gefur fólki svigrúm til að skapa og starfa. Þegar við lítum út fyrir landsteinana sjáum við að samkeppnin er hörð. Það sem heldur lífskjörum okkar uppi er að við stöndum okkur í samanburði við aðra. Ef regluverk er of íþyngjandi, ef skattar eru of háir eða ef óvissan er of mikil, þá missum við forskotið. Þá dregur úr fjárfestingu, nýsköpun og atvinnusköpun. Þess vegna viljum við leggja áherslu á einfalt og sanngjarnt skattkerfi. Við viljum tryggja stöðugleika í efnahagsmálum. Við viljum að Ísland sé land tækifæranna – land sem laðar að sér hugvit og dugnað. Það er það sem tryggir okkur betri lífskjör, ekki bara í dag heldur til framtíðar. Kæru landsmenn. Þetta verkefni er stærra en einn þingmaður, stærra en einn flokkur. Þetta er sameiginlegt verkefni okkar allra. Þegar atvinnulífið blómstrar þá blómstrar samfélagið. Þegar fyrirtæki dafna þá verður svigrúm til að bæta kjörin, efla þjónustu og styrkja innviði. Þetta eru einföld sannindi, en þau eru grundvöllur þess að við getum staðið saman sem þjóð. Sjálfstæðisflokkurinn mun halda áfram að berjast fyrir frelsi til athafna, fyrir verðmætasköpun og fyrir því að lítil og meðalstór fyrirtæki fái rými til að eflast. En við þurfum líka að tala beint til fólksins. Þetta snýst ekki um tölur í ríkisreikningi eða glærur í ráðuneytum. Þetta snýst um lífskjör venjulegra Íslendinga: sjómannsins, bóndans, kennarans, hársnyrtisins. Allra sem leggja sitt af mörkum. Ég er bjartsýnn á framtíðina. Ég trúi því að með samstilltu átaki getum við byggt upp atvinnulíf sem er sterkara, fjölbreyttara og samkeppnishæfara en nokkru sinni fyrr. Við getum gert Ísland að landi tækifæranna – landi þar sem hugvit og dugnaður fær að njóta sín, og þar sem lífskjör allra batna. Kæru landsmenn, við höfum verk að vinna. Nú skulum við hefjast handa. Ólafur Adolfsson þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins
Eftir Stefán Friðrik Stefánsson 9. september 2025
157. löggjafarþing á Alþingi Íslendinga var sett við hátíðlega athöfn í alþingishúsinu í dag. Á fyrsta fundi þingsins var Njáll Trausti Friðbertsson, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, kjörinn í fjárlaganefnd að nýju. Njáll Trausti sat áður í fjárlaganefnd 2017-2020 og aftur 2023-2024. Hann var formaður fjárlaganefndar frá þingsetningu 2024 og stýrði sem formaður fjárlagaferlinu fyrir alþingiskosningarnar í nóvember á síðasta ári þegar enginn stjórnarmeirihluti var til staðar eftir stjórnarslit í október 2024. Áður var Njáll Trausti varaformaður fjárlaganefndar 2023-2024 og sat sem varamaður í nefndinni 2020-2023. Njáll Trausti hefur frá þingsetningu í febrúar sl. setið í atvinnuveganefnd og velferðarnefnd en víkur úr þeim nefndum nú þegar hann fer að nýju í fjárlaganefnd.
8. september 2025
Undanfarinn áratug, þó fyrst og fremst árin 2019 til 2025, hafa bein útgjöld ríkissjóðs vegna ýmissa efnahagsáfalla og náttúruhamfara verið rúmlega 337 milljarðar króna. Þetta setur allt tal núverandi stjórnarliða um óráðsíu og hallarekstur í nýtt samhengi, því óbeinu áhrifin eru hér ekki reiknuð. Fyrir þessa 337 milljarða hefði verið hægt að byggja 15 til 20 ný Hvalfjarðargöng víðs vegar um land. Það er ekki sjálfsagt fyrir ríki að geta tekist á við svona kostnaðarsöm óvænt áföll og undirstrikar hversu mikilvæg áhersla Sjálfstæðisflokksins á niðurgreiðslu skulda var árin áður. Í umræðu um fjármál ríkisins hef ég ítrekað bent á mikinn kostnað vegna téðra atburða. Það kemur engum á óvart að kórónuveirufaraldurinn hafi reynst dýrastur, þar sem bein útgjöld nema rúmlega 194 milljörðum. Hægt er að lesa nánar um útgjöldin í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn minni frá því í vor. Bein útgjöld eru bara önnur hlið peningsins Það er mikilvægt að skilja að þær tölur sem hér eru kynntar ná aðeins yfir bein útgjöld ríkissjóðs. Bein útgjöld eru fjárveitingar sem ríkið greiðir beint, eins og neyðaraðgerðir, stuðning við einstaklinga og fyrirtæki, eða fjármögnun stofnana sem sinna viðbrögðum. Hins vegar er raunverulegur kostnaður og áhrif áfalla miklu meiri. Tölurnar taka ekki til óbeinna áhrifa á ríkisfjármál og samfélagið allt, svo sem tekjumissis, samdráttar í efnahagsstarfsemi eða kostnaðar sem fellur á sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklinga. Þegar efnahagslífið dregst saman þá minnka skatttekjur ríkisins, til dæmis vegna þess að fólk kaupir minna og fyrirtæki selja minna. Þessi tekjumissir er ekki hluti af þeim tölum sem hér er rætt um heldur bætist hann ofan á en er alveg jafn raunverulegur og dýr fyrir samfélagið og bein útgjöld. Óbeinu áhrifin, sem nánast ógerlegt er að reikna, eru sennilega ekki minni heldur líklega mun umfangsmeiri og nema hundruðum milljarða. Hröð og markviss viðbrögð Á þessu tímabili stóðu stjórnvöld frammi fyrir ýmsum áskorunum sem kröfðust hraðra og markvissra viðbragða. Þau miklu útgjöld sem ráðist var í sem viðbrögð við heimsfaraldri voru nauðsynleg til að tryggja afkomu einstaklinga og fyrirtækja auk þess að vernda heilsu almennings eftir bestu upplýsingum sem í boði voru á þeim tíma. Næststærsta áfallið hafa verið jarðhræringar í Grindavík frá 2023, sem hafa leitt til rúmlega 82 milljarða útgjalda ríkissjóðs, þar sem uppkaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík vega þyngst. Aðrir stórir kostnaðarliðir voru viðbrögð og varnir gegn náttúruhamförum eins og fárviðrum, snjóflóðum og skriðuföllum og innrás Rússlands í Úkraínu árið 2022 sem birtist í viðbótarframlögum til utanríkismála, mannúðaraðstoðar og innlendra aðgerða. Að ógleymdu gjaldþroti flugfélagsins WOW air árið 2019 sem hafði í för með sér aukinn kostnað vegna greiðslu atvinnuleysisbóta og framlaga til Ábyrgðarsjóðs launa. Á þeim tíma lögðu stjórnvöld fram nýja fjármálaáætlun sem samþykkt var til að bregðast við áætluðum áhrifum á efnahagslífið. Búumst við hinu óvænta Svar ráðherra sýnir að það er erfitt að skilgreina nákvæmlega og meta heildarkostnað áfalla. Reynslan sýnir að ríkið þarf að vera undirbúið fyrir óvæntar aðstæður sem geta raskað skatttekjum og aukið útgjöld hratt. Því er mikilvægt að ríkisfjármál séu alltaf sveigjanleg og hafi nægilegan styrk til að mæta slíkum áskorunum og að búið sé vel í haginn fyrir mögru árin sem koma þegar við eigum síst von á. Við munum áfram leggja áherslu á það, nú næst í komandi umræðu um fyrstu fjárlög nýrrar ríkisstjórnar. Njáll Trausti Friðbertsson alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi
1. september 2025
Í dag tekur gildi nýtt örorku- og endurhæfingarkerfi sem markar tímamót í íslensku velferðarkerfi. Ég fagna þessum breytingum, en þær byggjast á lögum sem samþykkt voru í tíð fyrri ríkisstjórnar þann 22. júní 2024. Breytingarnar bæta afkomu, draga úr óþarfa skerðingum og gera fólki auðveldara að taka þátt á vinnumarkaði. Þetta er réttlátara, einfaldara og mannúðlegra kerfi. En það er líka staðreynd að þessar breytingar byggjast á áralangri baráttu Sjálfstæðisflokksins fyrir kerfi sem horfir á getu fólks og tækifæri þess, og ekki einungis á prósentustig örorku. Frumkvæði Sjálfstæðisflokksins og arfleifð Péturs Blöndals Pétur Blöndal heitinn, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, benti ítrekað á meginvanda gamla kerfisins. Svokallað 75% viðmið varð til þess að fólki var ýtt inn í þröskuldakerfi þar sem örlítið lægra mat gat þýtt mun lakari réttindi. Því sköpuðust hvatar sem drógu úr trú á eigin getu og löttu fólk til þátttöku í atvinnulífi. Pétur talaði fyrir því að við hættum að spyrja hvað fólk geti ekki og förum að spyrja hvað það geti. Það er kjarni starfsgetumats og heildrænnar nálgunar sem nú er orðið meginregla. Á eftir Pétri tóku aðrir Sjálfstæðismenn við keflinu. Óli Björn Kárason vann ötullega að því í velferðarnefnd og víðar að festa hugmyndir um starfsgetumat, sveigjanleika og virka þjónustu í sessi. Sjálfstæðisflokkurinn hefur haldið þessari stefnu á lofti árum saman. Markmiðið er skýrt. Að efla einstaklinginn, brjóta niður gildrur fátæktar, byggja undir aukin réttindi og gera vinnu að raunhæfum kosti með sanngjörnum hvötum. Nýja kerfið endurspeglar þessa sýn. Læknisfræðilegum þröskuldum er skipt út fyrir samþætt sérfræðimat þar sem horft er á heilsu, færni og aðstæður á heildstæðan hátt. Hlutaörorkulífeyrir gerir fólki með skerta starfsgetu kleift að vinna eftir getu án þess að tapa öllu öryggi. Tekjutengingar minnka og frítekjumörk hækka svo það borgi sig að afla tekna. Sjúkra- og endurhæfingargreiðslur tryggja samfellu meðan fólk er í meðferð eða í endurhæfingu. Vinnumarkaðsúrræði og skýr samvinna stofnana á þjónustugátt gera fólki auðveldara að rata milli úrræða og forða því frá að falla á milli kerfa. Þetta eru umbætur sem standa í anda ábyrgðar, frelsis og virðingar fyrir mannlegri reisn. Það má hrósa félags- og húsnæðisráðherra fyrir að þessar hugmyndir séu orðnar að veruleika. Það er jákvætt og meginstoðir kerfisins eru sprottnar upp úr hugmyndavinnu og baráttu Sjálfstæðisflokksins. Pétur Blöndal lagði grunn að nýrri hugsun. Óli Björn Kárason fylgdi eftir með markvissum vinnubrögðum. Flokkurinn hélt málinu á dagskrá þar til samstaða náðist um að stíga stóru skrefin. Við eigum ekki að gera lítið úr framlagi annarra, en við eigum heldur ekki að leyfa sögunni að gleymast. Kerfi sem hvetur til þátttöku Nú stendur yfir lykilverkefni sem er fagleg og vönduð innleiðing. Þar mun reyna á að kerfið virki í raun fyrir einstaklinginn, ekki bara á pappír. Sjálfstæðisflokkurinn mun fylgja innleiðingunni eftir, tryggja að þjónustan sé mannsæmandi og sveigjanleg og vinna áfram að frekari umbótum þar sem reynslan sýnir þörf. Við viljum að ungt fólk lendi ekki varanlega utan vinnumarkaðar eftir veikindi eða slys. Við viljum að sérsniðin endurhæfing, menntun og ráðgjöf skili fólki aftur inn í samfélagið með styrk og sjálfstæði. Nýja örorkukerfið er því ekki endastöð heldur upphaf nýs kafla. Það er ávöxtur hugmynda sem við höfum barist fyrir lengi. Það er vitnisburður um að skynsemi, virðing og trú á getu fólks skila árangri. Við skulum fylgja þessu vel eftir. Þannig byggjum við upp samfélag þar sem velferð er örugg, réttlæti ríkir og tækifæri standa öllum til boða.
Eftir Stefán Friðrik Stefánsson 30. ágúst 2025
Ólafur Adolfsson tók í dag við formennsku í þingflokki Sjálfstæðisflokksins á þingflokksfundi sem haldinn var í höfuðstöðvum flokksins í Valhöll. Tekur hann við af Hildi Sverrisdóttur sem verið hefur þingflokksformaður síðan 2023 og sagði af sér formennsku í gær. „Ég þakka fyrir traustið og Hildi fyrir öflug störf. Nú leggjum við af stað sem samheldið lið með skýra sýn: að standa vörð um stefnu Sjálfstæðisflokksins og vinna að hagsmunum þjóðarinnar. Ég tek við verkefninu af auðmýkt og horfi bjartsýnn til framtíðar,“ segir Ólafur Adolfsson nýkjörinn þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. „Ég óska Ólafi velfarnaðar í nýju hlutverki. Hann hefur víðtæka reynslu og sterka leiðtogahæfni sem mun styrkja þingflokkinn. Um leið þakka ég Hildi fyrir vandaða og trausta forystu, en hún heldur áfram mikilvægum störfum fyrir flokkinn á þingi. Framundan eru bjartir tímar fyrir Sjálfstæðisflokkinn,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Sjálfstæðisflokksins Ólafur er fæddur 18. október 1967. Hann er 1. þingmaður Norðvesturkjördæmis og hefur setið á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn síðan 2024. Hann er lyfjafræðingur að mennt og hefur rekið eigin lyfsölu síðan 2006. Ólafur var bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akranesi á árunum 2014-2022 og hefur gegnt fjölmörgum öðrum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn, sat m.a. í miðstjórn um árabil.
Eftir Stefán Friðrik Stefánsson 29. ágúst 2025
Bæjarmálafundur Sjálfstæðisflokksins verður haldinn í Geislagötu 5 mánudaginn 1. september kl. 17:30. Bæjarfulltrúar fara yfir helstu mál sem verða á dagskrá bæjarstjórnar og taka yfirferð á þeim málum sem hæst standa að loknu sumarleyfi bæjarstjórnar og hafa verið í gangi frá síðasta bæjarmálafundi í júní. Fundarstjóri: Lára Halldóra Eiríksdóttir, bæjarfulltrúi Allir velkomnir - heitt á könnunni.
20. ágúst 2025
Seðlabankinn stöðvaði í dag vaxtalækkunarferlið sem hófst í október 2024. Í aðdraganda kosninga hét forsætisráðherra því að hún myndi negla vextina niður með sleggju. Nú er staðan sú að sleggjunni hefur ekki verið lyft og slagkraftur hennar er enginn. Verðbólga er enn mikil, húsnæði dýrt og vextir háir. Sjálfstæðisflokkurinn hefur alla tíð talað fyrir festu í ríkisfjármálum, aðhaldi í opinberum rekstri og minni álögum á heimili og fyrirtæki. Það er leiðin að lægri vöxtum. En ríkisstjórnin hefur farið þveröfuga leið; aukið útgjöld, hækkað skatta og aukið óvissu. Á sama tíma og Seðlabankinn sendir skýr skilaboð um að vextir haldist háir á meðan verðbólgan þokast ekki frekar í átt að markmiði boðar ríkisstjórnin hverja útgjaldaaukninguna á fætur annarri. Í ofanálag benda vísbendingar til þess að nú hægi á húsnæðisuppbyggingu. Verktakar haldi að sér höndum, fjárfestar hiki og framtíðaráformum slegið á frest. Helsta ástæðan er hár fjármagnskostnaður. Stjórnvöld bregðast við með því að þrengja enn frekar að einkaframtakinu með auknum álögum og þyngra regluverki, sérstaklega í Reykjavík. Það er engin sleggja. Ekkert plan. Sjálfstæðisflokkurinn vill frjálst atvinnulíf, lægri álögur og raunverulegar lausnir. Við viljum samfélag þar sem fólk getur keypt sér eigið húsnæði. Ekki samfélag sem treystir á niðurgreiðslur og hvers kyns ríkisafskipti út í hið óendanlega. Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Sjálfstæðisflokksins
Eftir Stefán Friðrik Stefánsson 15. ágúst 2025
Nú sveiflum við til golfveislu! Golfmót Sjálfstæðisflokksins á Akureyri Golfmótið fer fram fimmtudaginn 18. september á Jaðarsvelli . Leikur hefst samtímis á öllum 9 teigum kl. 17:30 . Það er því um að gera að ryðja af sér rykið og æfa golfsveifluna! Athugið: Takmarkaður fjöldi þátttakenda - fyrstir koma, fyrstir fá. Skráning er hafin í GolfBox Golfarar með aðgang að Golfbox skrá sig þar Þeir sem ekki eru með Golfbox geta haft samband við skrifstofu Golfklúbbs Akureyrar á gagolf@gagolf.is Leikfyrirkomulag Leikið verður samkvæmt Texas Scramble , þar sem tveir leikmenn mynda lið: Báðir slá af teig Valinn er betri bolti, og báðir slá þaðan, sá sem á boltann slær fyrst Þannig heldur leikurinn áfram þar til bolti er í holu Texas Scramble er oft spilað með forgjöf og hefur fyrirkomulagið notið mikilla vinsælda á undanförnum árum, enda eru mörg af fjölmennustu mótum golfklúbba einmitt Texas Scramble mót. Lokahóf - Líka fyrir þá sem ekki keppa í mótinu! Að loknu móti verður haldið lokahóf á Jaðar Bistro, þar sem verðlaunaafhending og önnur dagskrá fer fram. Einnig verður boðið uppá veglega hamborgaraveislu á 3.500kr. Lokahófið er opið öllum. Skráning í hamborgaraveisluna fer fram hér á íslendingur.is. Barinn opinn. Verðlaun Veitt verða vegleg verðlaun á mótinu, þar á meðal fyrir: 🏌️‍♂️ Nándarverðlaun 🏌️‍♀️ Lengsta teighögg 🎁 Fleiri skemmtileg verðlaun í boði, og eflaust einhverjar óvæntar uppákomur Reglur og skilyrði Karlar spila af gulum teig, konur af rauðum Sá sem á boltann sem er valinn slær á undan Þegar komið er á flötina má liðið ákveða hvor leikmaður púttar fyrst Lið hafa sirka 1-15 cm (pútter haus) frá holu til að stilla og slá seinni boltann Sameiginleg vallarforgjöf kylfinganna er tekin saman og deilt í hana með tölunni 4 og má forgjöf liðs ekki vera hærri en leikforgjöf kylfings með lægri forgjöf Hámarks forgjöf einstaklings sem reiknuð er í vallarforgjöf er 30 Skráning í hamborgaraveisluna
Sjá fleiri fréttir