Bæjarmálin


Eftir Stefán Friðrik Stefánsson 17. desember 2025
Halldór Blöndal, fyrrum ráðherra og forseti Alþingis, lést á Landspítalanum í Fossvogi, þriðjudaginn 16. desember, 87 ára að aldri. Halldór var um áratugaskeið lykilmaður í starfi Sjálfstæðisflokksins í Norðurlandskjördæmi eystra, allt frá námsárum virkur í félagsstarfi hér á Akureyri, erindreki flokksins og síðar meir forystumaður sjálfstæðismanna í kjördæminu og fyrstur til að leiða Sjálfstæðisflokkinn í nýju og stærra kjördæmi í byrjun nýrrar aldar - röggsamur leiðtogi í orði og verki. Halldór fæddist í Reykjavík 24. ágúst 1938 og ólst upp á Laugavegi 66, sonur hjónanna Kristjönu Benediktsdóttur og Lárusar Blöndal. Systkini hans voru fjögur talsins; Benedikt hæstaréttardómari, Kristín framhaldsskólakennari, Haraldur hæstaréttarlögmaður, og Ragnhildur bókasafnsfræðingur. Kristjana lést langt um aldur fram árið 1955 en Lárus lést árið 1999. Halldór var alinn upp í miðpunkti pólitísks starfs, áhugasamur um þjóðmál alla tíð. Móðurbróðir hans, Bjarni Benediktsson eldri, var um árabil í forystusveit Sjálfstæðisflokksins; borgarstjóri, ráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins - síðar meir forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins til dánardags 1970. Bjarni mótaði utanríkisstefnu lýðveldisins Íslands, var utanríkisráðherra þegar Ísland gekk í NATÓ 30. mars 1949. Halldór fylgdist með átökunum á Austurvelli þegar aðildin var samþykkt og rifjaði þá tíma upp í viðtölum á ævikvöldi sínu. Það mótaði ungan og áhugasaman pilt, herti hann og hvatti til þátttöku í stjórnmálum. Halldór hélt til náms hér nyrðra þar sem hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskól anum á Akureyri árið 1959 og las lögfræði í Háskóla Íslands. Halldór vann margvísleg störf sem mótuðu hann mjög. Hann var t.d. 15 vertíðir í Hvalstöðinni í Hvalfirði á árunum 1954-74. Kennslan varð starfsvettvangur hans um árabil; hann kenndi bæði í Reykjavík og á Akureyri og var svo blaðamaður á Morgunblaðinu með hléum á árunum 1961-79. Halldór hóf pólitíska þátttöku sína á námsárunum í Menntaskólanum á Akureyri og var síðar meir erindreki flokksins á Norðurlandi. Lykilmaður í pólitísku starfi flokksins á Akureyri í tæpa hálfa öld, formaður tveggja félaga og leiddi ungliðastarfið sem formaður Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna, og síðar meir uppbyggingarstarf sem formaður Málfundafélagsins Sleipnis í Verkalýðsráði Sjálfstæðisflokksins. Segja má að Halldór hafi í raun verið tengdur þingstörfum með einum eða öðrum hætti allt frá árinu 1961, fyrst sem þingfréttamaður og síðar starfsmaður flokksins og loks sem alþingismaður og forystumaður eldri flokksmanna fram undir ævilok - sat þingflokksfundi meginhluta þess tíma, í formannstíð níu af tíu formönnum flokksins, allt frá Ólafi Thors til Bjarna Benediktssonar yngri og sat einnig þingflokksfund sem sérstakur gestur eftir að Guðrún Hafsteinsdóttir varð formaður Sjálfstæðisflokksins. Meðan Halldór var enn í námi hóf hann að koma að útgáfu Íslendings, blaðs Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, í ritstjóratíð Jakobs Ó. Péturssonar, kom að skoðanagreinum og frægum dálkaskrifum sem kennd voru við Jón í Grófinni - sinnti því um nokkuð skeið með öðrum verkefnum. Síðar meir var Halldór lykilmaður í endurreisn blaðsins eftir að hlé varð á sameiginlegri útgáfu Íslendings-Ísafoldar. Fyrsta blað eftir breytingar kom út undir ritstjórn Halldórs í október 1973 og kom hann keflinu síðar meir með farsælum hætti áfram til Sigrúnar Stefánsdóttur og Gísla Sigurgeirssonar, en lagði drjúga hönd á plóg með skrifum sínum. Sumarið 1984 tók Halldór aftur að sér tímabundið ritstjórn meðfram þingstörfum. Þá voru tímarnir breyttir, upphaf endaloka flokksblaðaútgáfu. Íslendingur hætti að koma út sem vikublað haustið 1985 en síðar meir gefið áfram út í kosningastarfi Sjálfstæðisflokksins. Þegar Íslendingur hóf útgáfu sína á netinu á afmælisdegi gamla Íslendings 9. apríl 2001 var það auðvitað Halldór sem opnaði vefinn. Halldór hafði beint leið sinni suður yfir heiðar þegar sjálfstæðismenn í Norðurlandskjördæmi eystra hvöttu hann til þingframboðs í sumarkosningunum 1971, stuttu eftir sviplegt fráfall Bjarna móðurbróður hans. Hann varð við kalli félaga sinna nyrðra og gaf kost á sér. Hann var varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu á árunum 1971-1979. Halldór náði kjöri á Alþingi í desemberkosningunum 1979, á fæðingardegi afa síns, Benedikts Sveinssonar, þingforseta, 2. desember. Halldór sat á þingi í tæpa þrjá áratugi. Fyrst við hlið Lárusar Jónssonar, sem tók við oddvitakeflinu í miklum sviptingum 1979 til ársins 1984 þegar Lárus söðlaði um og hætti þátttöku í stjórnmálum og Björn Dagbjartsson tók sæti hans á þingi. Halldór leiddi Sjálfstæðisflokkinn í Norðurlandi eystra eftir það uns kjördæmið stækkaði til muna á nýrri öld. Það voru Halldóri mikil vonbrigði að Björn næði ekki kjöri í kosningunum 1987. Þegar Björn hélt til krefjandi verkefna við stjórn Þróunarsamvinnustofnunar í Afríku varð Tómas Ingi Olrich varaþingmaður Halldórs í stað Björns. Saman urðu Halldór og Tómas sterkt forystuteymi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Norðurlandi eystra. Þeir leiddu flokkinn hlið við hlið í rúman áratug og héldu saman til framboðs í nýju kjördæmi síðar meir. Í kosningunum 1991 og 1995 náði Tómas Ingi kjöri sem landskjörinn þingmaður við hlið Halldórs og var Svanhildur Árnadóttir á Dalvík varaþingmaður þeirra þessi tvö kjörtímabil til ársins 1999. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn myndaði ríkisstjórn í byrjun 10. áratugarins voru Halldóri falin verðug verkefni. Hann var landbúnaðarráðherra 1991-1995 og samgönguráðherra 1991-1999, ötull baráttumaður sinna málaflokka í átta ára ráðherratíð; vann að mikilvægum umbótamálum í landbúnaði og framfaramaður í samgöngumálum; kláraði til dæmis að malbika veginn milli Akureyrar og Reykjavíkur lýðveldisafmælisárið 1994, lagði drög að malbikun hringvegarins og útrýmingu einbreiðra brúa í þjóðvegakerfinu. Halldór átti sætasta pólitíska sigur sinn í alþingiskosningunum 1999. Þá tókst honum að leiða Sjálfstæðisflokkinn til sigurs í síðustu kosningunum í Norðurlandskjördæmi eystra - hlaut flest atkvæði í kjördæminu og Halldór því fyrsti þingmaður þess, fyrstur sjálfstæðismanna og Tómas Ingi kjördæmakjörinn þingmaður. Fram að því höfðu framsóknarmenn ríkt í kjördæminu og alltaf verið langstærstir. Sögulegur og ógleymanlegur sigur fyrir sjálfstæðismenn nyrðra. Það voru því Halldóri eðlilega nokkur vonbrigði að verða ekki áfram ráðherra eftir kosningarnar. En um leið voru mikil tækifæri í því fólgin fyrir þingreyndan mann eins og Halldór, eftir tvo áratugi á þingi, að vera tilnefndur forseti Alþingis vorið 1999. Halldór var röggsamur þingforseti og stóð ríkulega vörð um virðingu Alþingis. Halldór sat á forsetastóli í rúm sex ár, allt til haustsins 2005 þegar hann varð formaður utanríkismálanefndar Alþingis undir lok þingferilsins. Sem forseti Alþingis stýrði Halldór eftirminnilegum ríkisráðsfundi á Heimastjórnarafmælinu 1. febrúar 2004 þegar þáverandi forseti Íslands var víðsfjarri eins og margfrægt varð. Kjördæmabreytingin í upphafi nýrrar aldar var önnur verðug áskorun fyrir Halldór. Hann veiktist af krabbameini í aldarbyrjun og varð að taka sér leyfi frá þingstörfum en sigraðist á meini sínu og sneri aftur til þingstarfa af krafti. Halldór ákvað að fara fram að nýju og sækjast eftir því að leiða Sjálfstæðisflokkinn í hinu nýja og víðfeðma Norðausturkjördæmi, sem náði frá Siglufirði áleiðis til Djúpavogs. Það voru mikil vonbrigði fyrir Halldór og Tómas Inga að ná ekki þriðja manni inn í kosningunum. Tómas Ingi vék í kjölfarið af pólitískum vettvangi og varð sendiherra í París en Arnbjörg Sveinsdóttir, sem hafði fallið af þingi í kosningunum, tók sæti hans og var við hlið Halldórs uns hann dró sig í hlé árið 2007. Eftir að þingferlinum lauk varð Halldór formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands 2007-2009 og stóð því í miklum örlagavindi við stýrið þegar bankahrunið reið yfir haustið 2008. Að loknum þingkosningum 2009 varð Halldór formaður Samtaka eldri sjálfstæðismanna, leiddi þar öflugt félagsstarf í 15 ár - stýrði fjölmennum og rómuðum pólitískum fundum með áhugaverðum gestum í Valhöll í hádeginu á miðvikudögum, sem héldu áfram eftir að hann lét af formennsku. Halldór var heiðursfélagi í Verði, félagi ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, sæmdur þeirri nafnbót á 75 ára afmæli félagsins í febrúar 2004 og Málfundafélaginu Sleipni, sæmdur þeirri nafnbót á fundi félagsins í október 2016. Rétt eins og segir í Morgunblaðinu í dag var Halldór "fljótur til svars og skeleggur og vini átti hann í öllum flokkum. Þegar hann varð áttræður var hann í afmælisviðtali í Morgunblaðinu beðinn að líta yfir sinn pólitíska feril og kvaðst ekki geta verið annað en sáttur: „Upp úr stendur Háskólinn á Akureyri, og í samgöngumálum að mér tókst að opna leiðina milli Norður- og Austurlands og náði því fram að göng voru gerð um Héðinsfjörð milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar.“ Halldór var mikill hagyrðingur og landsþekktur fyrir vísur sínar. Lesend ur Morgunblaðsins nutu góðs af því, fyrst í Vísnaleik, sem Halldór hélt úti frá miðjum áttunda áratugnum til 1989, og Vísnahorninu, sem hann sá um frá 2013-24. Halldór kvæntist Renötu Brynju Kristjánsdóttur 1960. Þau áttu saman dæturnar Ragnhildi og Stellu. Þau skildu og lést hún 1982. Árið 1969 kvæntist Halldór Kristrúnu Eymundsdóttur, framhaldsskólakennara. Þau eignuðust saman soninn Pétur, en fyrir átti Kristrún tvo syni Eymund Matthíasson Kjeld og Þóri Bjarka Matthíasson Kjeld. Kristrún var mik­il mála­mann­eskja. Hún kenndi frönsku, ensku og dönsku við ýmsa fram­halds­skóla, meðal ann­ars við Mennta­skól­ann á Ak­ur­eyri og síðast við Verzl­un­ar­skóla Íslands. Þá var hún leiðsögumaður í mörg ár. Kristrún var einn af um­sjón­ar­mönn­um Laga unga fólks­ins á RÚV frá 1959-1961. Hún þýddi leik­ritið Síðasta tangó í Sal­ford fyr­ir RÚV árið 1981 og Alfa Beta eft­ir Whitehead sem sett var upp í Leik­fé­lagi Ak­ur­eyr­ar árið 1978. Kristrún lést í desember 2018. Rúna var Halldóri Blöndal trygg stoð í pólitísku starfi hans í kjördæminu og í ábyrgðarmiklum verkefnum á þingi og í ríkisstjórn - þau voru glæsilegt par. Halldór var líka stoð Kristrúnar í erfiðum veikindum hennar síðustu árin. Barnabörn Halldórs eru sex og barna barnabörnin sjö. ----- Sjálfstæðismenn í Norðausturkjördæmi minnast Halldórs Blöndal með hlýhug og virðingu. Við þökkum fyrir farsæla forystu hans hér nyrðra um áratugaskeið, ötult félagsstarf og útgáfustarf Íslendings þar sem hann reyndist lykilmaður í því að efla flokkinn til dáða í ræðu og riti. Einnig er ómetanleg leiðsögn hans til þeirra sem yngri voru í félagsstarfinu þar sem hann var ávallt hvetjandi og einlægur. Halldór var vinnusamur leiðtogi sem vann vel fyrir umbjóðendur sína, alltaf með puttann á púlsinum út í kjördæminu og afar vel tengdur við hinar dreifðu byggðir. Stuðningsmönnum flokksins hér nyrðra var annt um oddvita sinn. Vinir Dóra voru fjölmargir og vildu veg hann sem mestan, unnu af krafti til að svo yrði... svo hann næði árangri fyrir flokksheildina alla í kjördæminu - rödd flokksins í kjördæminu yrði öflug á þingi. Halldór sýndi og sannaði atorku sína og metnað í flokksstarfinu með því að helga sig uppbyggingu félagsstarfs eldri flokksmanna eftir að þingferlinum lauk þar sem hann sinnti blómlegu félagsstarfi langt fram á níræðisaldur meðan heilsan entist. Hann mætti á sinn síðasta landsfund í marsmánuði og flutti þar röggsama kveðjuræðu til félaga sinna sem eftir var tekið. Hann var einfaldlega fremstur meðal jafningja í pólitísku starfi á sínu svæði og verðugur fulltrúi okkar um víðan völl, sannur karakter sem gaf pólítísku lífi lit og mannlegt gildi. Við leiðarlok þökkum við Halldóri langa og farsæla samfylgd og vinskapinn. Við vottum fjölskyldu hans innilega samúð. Stefán Friðrik Stefánsson ritstjóri Íslendings
Eftir Stefán Friðrik Stefánsson 16. desember 2025
Í dag eru 100 ár liðin frá fæðingu Geirs Hallgrímssonar fyrrum forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins. Þegar 80 ár voru liðin frá fæðingu Geirs skrifaði ég ítarlega grein um Geir á vef SUS sem ég ritstýrði þá. Ég endurbirti þá grein hér í tilefni 100 ára ártíðar Geirs. Á löngum stjórnmálaferli sínum varð Geir Hallgrímsson í senn bæði sigursæll leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í borgar- og landsmálum og leiddi hann ennfremur á miklum erfiðleikatímum sem mörkuðust bæði af klofningi innan flokksins og áberandi deilum í forystusveit hans á áttunda og níunda áratug 20. aldar. Honum auðnaðist þó að leiða flokkinn út úr þeirri miklu kreppu og skilaði honum heilum af sér við lok formannsferils síns í flokknum og er hann vék af hinu pólitíska sviði. Í þessum pistli verður farið yfir ævi hans og stjórnmálaferil. Geir Hallgrímsson fæddist í Reykjavík, 16. desember 1925. Foreldrar hans voru Hallgrímur Benediktsson og Áslaug Geirsdóttir Zoëga. Faðir Geirs var áberandi í íslensku þjóðlífi til fjölda ára. Hann rak í upphafi öfluga heildverslun en stofnaði síðar fyrirtækið H. Benediktsson & Co. Hann átti sæti í stjórnum fjölda fyrirtækja og átti þátt í stofna öflug fyrirtæki sem mörg hver setja enn sterkan svip á íslenskt samfélag. Var Hallgrímur einn af þeim kaupsýslumönnum sem gengust fyrir stofnun Verslunarráðs Íslands (sem nú heitir Viðskiptaráð Íslands) og var lengi formaður þess. Hallgrímur tók ennfremur þátt í stjórnmálastarfi. Hann sat í bæjarstjórn Reykjavíkur á árunum 1926-1930 og var aftur kjörinn í hana árið 1946 og átti þar sæti allt til dauðadags í febrúar 1954. Hann var um tíma ennfremur varaþingmaður flokksins í borginni. Geir hafði allt frá upphafi mikinn áhuga á stjórnmálum og haslaði sér völl á þeim vettvangi ungur. Geir útskrifaðist frá Menntaskólanum í Reykjavík á lýðveldisdaginn, 17. júní 1944, sama dag og íslenska lýðveldið var stofnað að Þingvöllum. Að því loknu hóf hann nám í lagadeild Háskóla Íslands og brautskráðist þaðan fjórum árum síðar, árið 1948. Þykir það skammur námstími. Var Geir formaður Stúdentaráðs HÍ síðasta námsár sitt, 1947-1948. Um haustið hélt hann til náms í lögfræði og hagfræði við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum. Vistin varð skemmri en ella vegna snöggra veikinda föður hans ári síðar sem leiddi til þess að hann sneri heim að nýju. Hóf hann þá strax störf við fyrirtæki föður hans. Árið 1951 öðlaðist hann réttindi sem héraðsdómslögmaður og opnaði það ár eigin lögfræðistofu, sem hann rak meðfram öðrum störfum til ársins 1959. Eftir lát föður síns varð hann forstjóri fjölskyldufyrirtækisins á árunum 1955-1959. Varð hann hæstaréttarlögmaður árið 1957. Skömmu fyrir för sína til Bandaríkjanna, árið 1948, kvæntist Geir, Ernu Finnsdóttur. Eignuðust þau fjögur börn. Geir Hallgrímsson var alla tíð mjög virkur í stjórnmálaþátttöku. Hann varð forystumaður í flokksstarfinu strax í upphafi sjötta áratugarins. Hann var kjörinn formaður Heimdallar árið 1952 og gegndi formennsku þar í tvö ár, allt til ársins 1954. Það vor var hann kjörinn til setu í bæjarstjórn Reykjavíkur. Tók Geir sæti á framboðslista flokksins, skömmu eftir lát föður síns, sem lést í upphafi kosningaársins eins og fyrr segir frá. Geir Hallgrímsson var kjörinn formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna á þingi sambandsins í október 1957. Sigraði hann þar Sverri Hermannsson í kjöri. Hlaut Geir 72 atkvæði en Sverrir hlaut 50. Var það í fyrsta skipti sem formaður SUS var kosinn í átakakosningu á sambandsþingi. Geir sat á formannsstóli í SUS eitt tímabil, tvö ár, eða til ársins 1959. Geir fór í framboð fyrsta sinni, eins og fyrr segir frá, í bæjarstjórnarkosningunum (þá var talað um bæjarstjórn í Reykjavík en ekki borgarstjórn eins og síðar varð) 1954. Skipaði hann þá fjórða sæti á framboðslistanum. Hlaut flokkurinn meirihluta atkvæða, þá eins og jafnan til ársins 1978. Tók Geir, sem þá var aðeins 29 ára gamall, strax sæti í bæjarráði að loknum kosningunum. Þá var Gunnar Thoroddsen borgarstjóri í Reykjavík og leiðtogi framboðslistans. Hafði hann tekið við borgarstjóraembætti árið 1947, er forveri hans dr. Bjarni Benediktsson tók sæti í ríkisstjórn. Gunnar var mjög vinsæll borgarstjóri og leiddi flokkinn af krafti í tólf ár. Stærsta sigur sinn vann hann í kosningunum 1958, þegar að Sjálfstæðisflokkurinn hlaut um 60% atkvæða og 10 borgarfulltrúa kjörna. Gunnar og Geir hófu þá fyrst virkt samstarf í stjórnmálum. Óhætt er að segja að það samstarf þeirra hafi verið langvinnt en mjög stormasamt, einkum í seinni tíð eins og ég kem síðar að. Gunnar Thoroddsen tók við embætti fjármálaráðherra í ríkisstjórn Ólafs Thors í nóvember 1959. Þá blasti auðvitað við að hann þyrfti að víkja af borgarstjórastóli. Ekki var ljóst í upphafi hvort að stjórnin myndi verða skammlíf eða endast kjörtímabilið á enda. Var því brugðið á það ráð að tveir tækju við borgarstjóraembættinu í stað Gunnars fyrsta árið, en staða mála yrði metin að því loknu. Ákveðið var að Geir og Auður Auðuns tækju við af Gunnari. Sögulegt varð er Auður varð borgarstjóri. Hún varð enda fyrsta konan til að taka við embættinu. Hún varð ennfremur fyrst kvenna forseti bæjarstjórnar nokkrum árum áður og hafði lengi verið í forystusveit flokksins í borgarmálum. Hún varð fyrsta konan til að taka við ráðherraembætti. Hún varð dómsmálaráðherra árið 1970. Auður varð fyrsta konan sem brautskráðist úr lagadeild Háskóla Íslands. Það er því óhætt að segja að Auður hafi víða markað sér spor í söguna. Á árinu 1960 var ákveðið í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins að Geir tæki einn við borgarstjóraembættinu og Gunnar Thoroddsen baðst formlega lausnar frá embættinu, en sat í borgarstjórn til loka kjörtímabilsins. Stjórn Ólafs hafði þá orðið mun fastari í sessi. Ekki þurfti að hræðast mikið um líf hennar næstu árin. Varð enda fyrrnefnd stjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, sem gengur í sögubókum samtímans undir nafninu Viðreisnarstjórnin, langlífasta ríkisstjórn lýðveldistímans og sat í tólf ár, allt til ársins 1971. Geir tók við embætti borgarstjóra af krafti og vann sér mikinn sess í embættinu og þótti glæsilegur borgarstjóri að sögn flestra. Í borgarstjórastarfinu naut Geir Hallgrímsson mikilla vinsælda. Hann var stjórnmálamaður sem leiddi áfram mikilvæg verkefni – var maður framkvæmda og staðfestu. Á borgarstjóraferli hans var borgin malbikuð og ráðist var í mörg öflug verkefni sem báru vitni farsælli forystu Geirs í borgarmálum. Í alþingiskosningunum 1959 gaf Geir kost á sér á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og varð varaþingmaður flokksins til fjölda ára og tók nokkrum sinnum sæti á þingi. Kjörtímabilið 1967-1971 var hann fyrsti varamaður flokksins í borginni. Árið 1970 vann Geir sinn þriðja kosningasigur í borgarstjórn. Var sá sigur mjög naumur og töldu margir á kjördag að borgin væri töpuð og stefna myndi í vinstristjórn í borginni. Þá var viðreisnarstjórnin nokkuð tekin að verða óvinsæl vegna aðsteðjandi vanda í samfélaginu í kjölfar hruns síldarstofnanna undir lok sjöunda áratugarins. Rúmum mánuði eftir borgarstjórnarkosningarnar sumarið 1970 urðu mikil þáttaskil innan Sjálfstæðisflokksins sem höfðu mikil áhrif á stjórnmálaferil Geirs. 10. júlí 1970 fórst Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og formaður flokksins, í eldsvoða í forsætisráðherrabústaðnum á Þingvöllum ásamt eiginkonu sinni og dóttursyni. Mikill harmur var kveðinn að þjóðinni. Jóhann Hafstein tók við formennsku í Sjálfstæðisflokknum og embætti forsætisráðherra. Viðreisnarstjórnin sat til loka kjörtímabilsins, en Auður Auðuns tók sæti í ríkisstjórninni nokkrum mánuðum síðar, fyrst kvenna á ráðherrastóli, eins og fyrr hefur verið sagt frá. Ákveðið var að boða ekki til kosninga um haustið, vegna andláts Bjarna, eins og margir sjálfstæðismenn höfðu viljað. Ákveðið var að kosningar yrðu á áður tilsettum tíma, í júní 1971. Geir Hallgrímsson tók sæti Bjarna á Alþingi. Hann var orðinn þingmaður samhliða borgarstjóraembættinu. Hann gaf kost á sér í prófkjöri flokksins haustið 1970. Sigraði hann í prófkjörinu og hlaut fyrsta sæti listans. Jóhann Hafstein sem orðinn var formaður flokksins og forsætisráðherra lenti í öðru sætinu. Voru þetta Jóhanni mikil vonbrigði. Ákvað Geir að afsala sér fyrsta sætinu til Jóhanns og tók annað sætið þess í stað. Þótti þetta vera mjög til vitnis um drenglyndi Geirs. Í prófkjörinu 1970 gaf Gunnar Thoroddsen kost á sér og hlaut góða kosningu. Markaði það endurkomu hans í stjórnmálin. Fimm árum áður hafði hann yfirgefið hið pólitíska svið, verandi fjármálaráðherra í viðreisnarstjórninni og varaformaður flokksins. Tók Jóhann Hafstein þá við varaformennsku og sat á þeim stóli þar til að Bjarni lést. Tók Gunnar við sendiherraembætti í Kaupmannahöfn. Gunnar gaf kost á sér í forsetakosningunum 1968, er Ásgeir Ásgeirsson, tengdafaðir hans, lét af embætti. Beið Gunnar lægri hlut fyrir dr. Kristjáni Eldjárn þjóðminjaverði. Hélt hann að því loknu til sendiherrastarfa að nýju. Gunnar kom heim að nýju í ársbyrjun 1970 og tók sæti sem dómari við hæstarétt Íslands. Við andlát Bjarna, síðar um árið, tók hann ákvörðun um að hefja á ný stjórnmálaþátttöku og vék úr réttinum og gaf kost á sér í prófkjörinu. Á landsfundi árið 1971 tókust Geir og Gunnar á um varaformennsku flokksins. Geir hlaut 375 atkvæði en Gunnar 328. Fyrstu, en langt í frá seinustu rimmu þeirra, lauk með dramatískum hætti. Geir Hallgrímsson lét af embætti borgarstjóra í Reykjavík þann 1. desember 1972. Eftirmaður hans í embættinu varð Birgir Ísleifur Gunnarsson. Helgaði Geir sig landsmálum við þau þáttaskil og gaf ekki kost á sér í borgarstjórnarkosningunum 1974, og vék þá af þeim vettvangi eftir 20 ára setu. Geir var endurkjörinn varaformaður flokksins á landsfundi árið 1973 og Jóhann sem formaður. Nokkrum vikum eftir landsfundinn, í októbermánuði 1973, veiktist Jóhann Hafstein snögglega og ákvað að segja af sér formennsku flokksins vegna þeirra veikinda. Þáttaskil höfðu orðið á stjórnmálaferli Geirs Hallgrímssonar. 47 ára að aldri var hann orðinn formaður Sjálfstæðisflokksins. Magnús Jónsson frá Mel, sem verið hafði fjármálaráðherra í viðreisnarstjórninni 1965-1971, var kjörinn varaformaður flokksins af miðstjórn nokkrum vikum síðar og gegndi varaformennsku í tæpt ár. Geir Hallgrímsson leiddi Sjálfstæðisflokkinn til glæsilegasta kosningasigurs síns í landsmálum í alþingiskosningunum 1974. Hlaut flokkurinn rúmlega 42% atkvæða og 25 þingmenn kjörna af 60. Til kosninganna hafði verið boðað með sögulegum hætti. Ólafur Jóhannesson forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, hafði rofið þing með atbeini Kristjáns Eldjárns forseta, er stefndi í að vinstristjórnin hefði misst þingmeirihluta sinn. Fór Kristján eftir ráðum Ólafs og boðaði til kosninga, þó ekki hefði reynt á að annar meirihluti væri til staðar sem gæti tekið við stjórn landsins. Flokkurinn hlaut glæsilega kosningu og hlaut Geir stjórnarmyndunarumboð að loknum kosningunum. Að lokinni nokkrri stjórnarkreppu mynduðu Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur ríkisstjórn undir forsæti Geirs. 48 ára að aldri var Geir Hallgrímsson orðinn forsætisráðherra og hafði hlotið eldskírn í landsmálaforystu með glæsilegum árangri í kosningunum. Um haustið 1974 varð Magnús frá Mel að segja af sér varaformennsku vegna veikinda. Gunnar Thoroddsen var kjörinn til varaformennsku af miðstjórn. Gunnar sem snúið hafði aftur eins og fyrr sagði í pólitík í kosningunum 1971 hafði endurheimt varaformennskuna níu árum eftir að hafa látið af henni til að hasla sér völl sem sendiherra í Danmörku og þrem árum eftir að hafa tapað í varaformannskjöri fyrir Geir. Tók Gunnar sæti í ríkisstjórn Geirs sem iðnaðar- og félagsmálaráðherra. Ásamt þeim sátu í stjórninni af hálfu flokksins þeir Matthías Á. Mathiesen og Matthías Bjarnason. Stjórnin sat kjörtímabilið á enda. Nokkrir erfiðleikar höfðu orðið í landsmálum undir lok kjörtímabilsins og neyddist stjórnin til að grípa til óvinsælla ákvarðana í kjaraviðræðum. Leiddu þær aðgerðir til óvinsælda Sjálfstæðisflokksins og ríkisstjórnarinnar. Missti flokkurinn völdin í borgarstjórnarkosningunum sumarið 1978, fyrsta sinni í sögu hans. Var það tap flokknum og forystumönnum hans mikil vonbrigði og hafði áhrif á stemmninguna innan flokksins í þingkosningunum sem fram fóru síðar sama sumar. Sjálfstæðisflokkurinn tapaði allnokkru fylgi í þeim kosningum – missti fimm þingmenn. Samtals misstu stjórnarflokkarnir tíu þingsæti. Í stað þess að hafa 42 sæti á Alþingi höfðu stjórnarflokkarnir 32 sæti af 60. Framsóknarflokkurinn var orðinn minnsti flokkur landsins eftir kosningarnar. Vinstriflokkarnir hlutu sögulegan sigur, bættu við sig tíu sætum. Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag hlutu 28 þingsæti af 60, 14 hvor. Vissulega hafði ríkisstjórn enn meirihluta í þinginu. Tapið varð þó það mikið að ljóst varð fljótlega eftir kosningar að stjórnin myndi ekki halda áfram. Stjórnarkreppa var meginpart sumarsins. Að lokum samdist um stjórnarsamstarf vinstriflokkanna og Framsóknarflokks, undir forsæti Ólafs Jóhannessonar, en Framsókn hafði eins og fyrr segir beðið afhroð í kosningunum. Geir Hallgrímsson varð leiðtogi stjórnarandstöðunnar á Alþingi í septemberbyrjun 1978. Fjögurra forsætisráðherraferli Geirs var lokið og flokkurinn var í sárum – sat einn eftir í þingminnihluta. Á nokkrum vikum hafði Sjálfstæðisflokkurinn bæði misst völdin í Reykjavíkurborg og stjórnarforystuna í ríkisstjórn. Krísuástand var innan flokksins. Á fundum innan flokksfélaga og í forystusveitinni var skýringa leitað á sögulegu tapi flokksins og niðurlægingu í kosningunum tveim. Þá kom í fyrsta skipti með almennilegum hætti upp niðurbæld kreppa sem ríkti í samskiptum milli þeirra Geirs og Gunnars. Segja má að valdabarátta hafi ríkt milli þeirra til fjölda ára, allt frá því í borgarstjórn þar til að þeir voru formaður og varaformaður flokksins. Eins og fyrr segir höfðu þeir tekist á um varaformennsku flokksins árið 1971 og aldrei í raun gróið fyllilega um heilt þar á milli. Á næstu árum átti valdabarátta þeirra eftir að taka á sig aðra og beittari mynd. Svo fór að vinstristjórnin gafst upp eftir stormasama samvist í októberbyrjun 1979. Alþýðuflokkurinn sprengdi stjórn Ólafs með miklum hvelli og gekk á dyr. Það rúma ár sem hún sat hafði hún gengið í gegnum mikinn og erfiðan öldugang. Stjórninni hafði aldrei tekist að vera heilsteypt og stóð allt eftir í logum þegar fallið kom. Stjórnarkreppa var skammvinn. Sjálfstæðisflokkurinn ákvað, að tillögu Geirs, en við andstöðu Gunnars og fylgismanna hans innan þingflokksins, að verja minnihlutastjórn Alþýðuflokksins falli og boðað var til alþingiskosninga í desemberbyrjun. Um miðjan október tók stjórn Alþýðuflokksins formlega við völdum og Benedikt Gröndal varð forsætisráðherra. Að loknum kosningunum var sama pattstaðan uppi og verið hafði eftir kosningarnar ári áður. Formenn flokkanna skiptust á að fara með umboð til stjórnarmyndunar. Mikið vantaði á traust og eðlileg samskipti milli forystumanna stjórnmálaflokkanna. Geir hafði stjórnarmyndunarumboð í nokkrar vikur í desember og janúar. Er líða tók að lokum janúarmánaðar 1980 og aðeins vangaveltur höfðu farið á milli forystumanna flokkanna eftir tveggja mánaða stjórnarkreppu tók Kristján Eldjárn mjög að ókyrrast. Lagði hann þá drög að utanþingsstjórn. Náði vinna Kristjáns það langt að búið var að velja flestalla ráðherra stjórnarinnar og við blasti að Jóhannes Nordal seðlabankastjóri, myndi veita henni forsæti. Var þessi vinna vel á veg komin. Eins og við má búast er staða mála með myndun utanþingsstjórnar á skrifborði forsetans varð ljós tóku stjórnmálamennirnir við sér af hraði. Í tómarúminu sem var í miðju stjórnleysinu greip aldursforseti Alþingis, dr. Gunnar Thoroddsen, af skarið fyrstur allra. Hann efndi til viðræðna við forystumenn Alþýðubandalags og Framsóknarflokks. Leiddi það af sér formlegar viðræður um myndun stjórnar undir forsæti Gunnars. Auk Gunnars komu að viðræðunum nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Er viðræðurnar spurðust út varð mikill órói innan Sjálfstæðisflokksins. Gunnar var enda í viðræðum án samþykkis þingflokksins og forystu Sjálfstæðisflokksins. Á hitafundi í þingflokknum 1. febrúar 1980 ákvað meginþorri þingflokksins að fylkja sér að baki Geir og ítrekað var af meirihluta þingflokksins að hann færi með stjórnarmyndunarumboðið að hálfu flokksins. Niðurstaða fundarins varð ekki til að letja Gunnar. Hann hélt umræðunum áfram af krafti og nokkrir þingmenn flokksins ákváðu að styðja Gunnar til verksins. Er fyrir lá að meirihluti alþingismanna stæði að baki viðræðum undir forystu Gunnars veitti Kristján Eldjárn, Gunnari, sem verið hafði andstæðingur hans í forsetakosningunum 1968, formlegt umboð til stjórnarmyndunar. 32 þingmenn studdu viðræðurnar og því fékk Gunnar blessun forseta til að hefja stjórnarmyndunarviðræður. Leiddu þær til þeirrar niðurstöðu að stjórnin varð mynduð og tók hún við völdum þann 8. febrúar 1980. Einni lengstu stjórnarkreppu Íslandssögunnar hafði lokið með allsögulegum hætti. Dr. Gunnar var orðinn forsætisráðherra elstur allra, sjötugur að aldri. Sjálfstæðisflokkurinn var í sárum, altént verulega klofinn, með stjórnarmyndun varaformanns síns. Sú einkennilega staða var uppi að Sjálfstæðisflokkurinn studdi ekki stjórn varaformanns síns og formaður flokksins, Geir Hallgrímsson, stóð snupraður eftir. Stjórnin var mynduð með samþykki forsetans, sem veitt hafði formlegt umboð Gunnari til handa. Morgunblaðið hafði skrifað af krafti gegn stjórnarmyndun Gunnars og forystumenn Sjálfstæðisflokksins voru æfir yfir ákvörðun forsetans að allt að því veita Gunnari forsæti í ríkisstjórn Íslands. Áralangir erfiðleikar í samskiptum Geirs og Gunnars voru endanlega staðfestir – vík hafði orðið þeirra á milli. Valdataflið í forystusveit flokksins var opinber. Geir hafði tekið stjórnarmyndun Gunnars mjög þunglega og varð vonsvikinn með vinnubrögð þeirra sem hann taldi samherja sína í flokksstarfinu. Geir leiddi flokkinn áfram að lokinni þessari undarlegu stjórnarmyndun. Var hann í mjög erfiðu hlutskipti. Hann leiddi stjórnarandstöðu sem í var aðeins hluti flokksins og baráttan varð mest áberandi við fyrrum samherja í flokknum, Gunnar og fylgismenn hans. Formaður og varaformaður flokksins tilheyrðu sitt hvorri fylkingunni í þinginu og tekist var á af krafti um hitamálin. Sjálfstæðisflokkurinn gekk þá í gegnum sína dimmustu daga – sína mestu erfiðleika. Hlutskipti Geirs á þessum árum var hvorki öfundsvert né áhugavert að neinu leyti. Háværar raddir voru um það að vísa ætti varaformanninum og fylgismönnum hans úr flokknum – losa sig við þá sem stóðu að stjórnarmyndun á bakvið formann Sjálfstæðisflokksins, Geir Hallgrímsson. Geir barði niður þá umræðu og taldi mikilvægt að tryggja einingu í flokknum þegar þessu tímabili lyki. Var hann alla tíð talsmaður þess að flokkurinn ætti að halda saman, hvað sem á bjátaði. Tók Geir þar afstöðu sem var mjög til marks um mannkosti hans – hann var heill í þeim málum og staðráðinn í að flokkurinn héldi velli sem stærsti flokkur landsins. Andstæðingum hans tækist ekki að hrósa sigri yfir honum í næstu kosningum og hann skyldi sameinaður í þeim kosningum. Segja má að Geir hafi þá gengið í gegnum mestu umbrotatíma sína sem stjórnmálamaður. En það má ennfremur segja að þessi ár hafi sannað best hversu öflugur stjórnmálamaður Geir var. Á flokksstjórnarfundi í Valhöll 10. febrúar 1980, tveim dögum eftir að Gunnar varð forsætisráðherra, var tekist á fyrir opnum tjöldum og ágreiningurinn var ræddur með hreinskilnum hætti. Rafmagnað andrúmsloft var er Geir og Gunnar tókust í hendur með sögulegum hætti frammi fyrir fjölmiðlamönnum og myndatökuvélum. Tekist var á milli armanna ennfremur á landsfundi 1981. Sögulegt varð þá er Gunnar og kona hans, Vala, sátu sem fastast að lokinni setningarræðu Geirs og klöppuðu ekki. Á landsfundinum árið 1981 lét Gunnar af varaformennsku og vék úr forystusveit flokksins. Var þetta ennfremur síðasti landsfundurinn sem Gunnar sat. Friðrik Sophusson tók við varaformennsku. Stjórn Gunnars sat til loka kjörtímabilsins vorið 1983, þrátt fyrir mikla erfiðleika og innri átök. Tekist var á um leiðir til að laga erfiðleika í efnahagsmálum. Undir lokin hafði stjórnin misst þingmeirihluta sinn en tókst að sitja allt til enda tímabilsins, þrátt fyrir það. Gunnar gaf ekki kost á sér í þingkosningunum 1983 – hann lést um haustið 1983 úr krabbameini. Í aðdraganda kosninganna var haldið prófkjör flokksins í Reykjavík. Þar urðu þau sögulegu tíðindi að Geir féll niður í sjöunda sæti. Niðurstaðan varð Geir mikið áfall og um tíma hugleiddi hann að taka ekki sætið og láta af formennsku á landsfundi sem kalla skyldi saman fyrir kosningar. Svo fór að hann gerði það ekki. Hann ákvað að klára ferlið vegna kosninganna – sameina flokkinn en víkja svo á landsfundi á tilsettum tíma, í nóvember 1983. Sjálfstæðisflokkurinn stóð af sér innri vandræði vegna stjórnarmyndunar Gunnars og bauð fram sameinaður í kosningum í apríl 1983. Flokkurinn hlaut góða kosningu, en skugga setti á úrslitin að Geir náði ekki kjöri. Eftir þrettán ára þingsetu var Geir Hallgrímsson formaður flokksins, varaþingmaður að nýju, rétt eins og 1959-1970. Það var sögulegt en Geir var staðráðinn í að klára það verkefni sem hann hafði einsett sér: sameina flokkinn og skilja við forystu hans með þeim hætti sem eftir yrði tekið. Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur náðu samkomulagi um stjórnarmyndun. Það varpar skugga á stöðu mála að mínu mati að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins skyldi ekki bera gæfa til þess við lok stjórnarmyndunarferlisins að kjósa Geir sem forsætisráðherra – en taka þess í stað þann kost að hljóta fleiri ráðherrastóla til að sinna eigin metnaði. Sárnaði Geir mjög þær málalyktir ef marka má lýsingu t.d. í ítarlegri grein Davíðs Oddssonar um Geir í riti Andvara árið 1994. Geir varð utanríkisráðherra í ríkisstjórn undir forystu Steingríms Hermannssonar formanns Framsóknarflokksins. Á landsfundi flokksins í nóvember 1983 lét Geir af formennsku í flokknum, eftir að hafa leitt hann samfleytt í tíu ár. Sá tími hafði einkennst bæði af sætum sigrum og mótbyr og innri ólgu innan flokksins. Geir studdi Þorstein Pálsson til formennsku og fór það svo að hann náði kjöri. Geir sat áfram í ríkisstjórn eftir landsfundinn og leiddi ráðherrahóp flokksins, enda tók Þorsteinn Pálsson ekki sæti í stjórninni eftir formannskjör sitt. Svo fór að lokum að Þorsteinn tók að ókyrrast og vildi taka sæti í stjórninni. Er að því kom vildi enginn ráðherra flokksins hliðra til fyrir honum. Niðurstaðan varð sú að Geir Hallgrímsson vék úr ríkisstjórn og myndaði rými fyrir eftirmanni sínum á formannsstóli. Það var Geir og fylgismönnum hans nokkur vonbrigði hvernig það þróaðist og fór hann ef marka má lýsingar fullur eftirsjár af vettvangi stjórnmála. Geir Hallgrímsson varð bankastjóri við Seðlabanka Íslands í janúar 1986, er hann lét af embætti utanríkisráðherra. Tók hann við af Davíð Ólafssyni sem verið hafði bankastjóri allt frá árinu 1961. Geir undi sér vel í störfum sínum í bankanum ef marka má lýsingar í ritum um ævi hans. Hann veiktist af ólæknandi sjúkdómi langt um aldur fram, skömmu eftir að hann tók við embætti. Hann lést 1. september 1990, 64 ára að aldri. Í minningargrein um hann í september 1990 sagði Auður Auðuns svo um Geir, sem var félagi hennar í flokksstarfinu og samstarfsmaður í borgarstjórnarflokknum um langt skeið: “Í stjórnmálum hlýtur maður að hugleiða hvaða kosti maður metur mest í fari stjórnmálamanns. Verða mér þá ofarlega í huga mannkostir Geirs Hallgrímssonar, heilindi hans og heiðarleiki í öllum samskiptum og gætni, samfara miklum framkvæmdahug. Það er manni mikilsvirði að hafa starfað með slíkum drengskaparmanni”. Jafnan hefur mér þótt mikið til Geirs koma. Ég hef lesið mér mikið til um feril hans og verk hans á vettvangi stjórnmálanna. Skrifaði ég um hann ritgerð eitt sinn, sem þessi grein er að mestu byggð á. Geir hóf stjórnmálaþátttöku ungur og helgaði Sjálfstæðisflokknum krafta sína alla tíð á þeim vettvangi. Stjórnmálaferill hans var lengst af sigursæll, hann var borgarstjóri samfellt í 13 ár og varð forsætisráðherra 1974, eftir glæstasta kosningasigur Sjálfstæðisflokksins. Eftir tvær kosningar 1978 gjörbreyttist staða Geirs og var ferill hans á næstu fimm árum ein sorgarsaga. Flokkurinn klofnaði vegna stjórnarmyndunar 1980 og óróleiki varð innan hans vegna þess. En Geir sannaði styrk sinn með því að landa málinu með því að sameina brotin við lok formannsferils síns 1983. Það merkilegasta við arfleifð Geirs að mínu mati er það að hann skilaði flokknum heilum og vann verk sín af hógværð og heiðarleika – var heill í verkum sínum. Geir var að mati samherja og andstæðinga í stjórnmálum heilsteyptur stjórnmálamaður sem hugsaði um hagsmuni heildarinnar umfram eigin og stöðu stjórnmálalega séð. Hann var maður hugsjóna og drenglyndis í stjórnmálastarfi. Óháð átökum kom hann fram með drengilegum hætti – talaði opinberlega í ræðu og riti ekki illa um andstæðinga sína, innan flokks og utan. Til dæmis er víða talað um að þrátt fyrir átök rifust hann og Gunnar Thoroddsen aldrei opinberlega. Þrátt fyrir valdabaráttu var tekist á með hætti heiðursmanna. Hann var öflugur á vettvangi stjórnmála - jafnt í meðbyr sem mótbyr. Það er með þeim hætti sem ég tel að hans verði minnst, bæði af samtíðarmönnum og eins þeim sem síðar lesa stjórnmálasögu 20. aldarinnar og kynna sér persónu og verk Geirs Hallgrímssonar á löngum ferli. Stefán Friðrik Stefánsson ritstjóri Íslendings, vefrits sjálfstæðisfélaganna á Akureyri og formaður Málfundafélagsins Sleipnis
Eftir Stefán Friðrik Stefánsson 14. desember 2025
Bæjarmálafundur Sjálfstæðisflokksins á Akureyri verður haldinn í Geislagötu 5 mánudaginn 15. desember kl. 17:30. Farið yfir stöðuna í bæjarmálunum, dagskrá bæjarstjórnarfundar og helstu mál SSNE á kjörtímabilinu. Fundarstjóri: Lára Halldóra Eiríksdóttir, bæjarfulltrúi og formaður SSNE Allir velkomnir - heitt á könnunni.
Eftir Stefán Friðrik Stefánsson 11. desember 2025
Björn Dagbjartsson, fyrrum alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Norðurlandskjördæmi eystra, sendiherra og framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, lést á Landsspítalanum í dag, 11. desember, 88 ára að aldri. Björn fæddist 19. janúar 1937 í Álftagerði í Mývatnssveit, elstur sex barna hjónanna Dagbjarts Sigurðssonar og Kristjönu Ásbjörnsdóttur. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1959 og prófi í efnaverkfræði frá Technische Hochschule í Stuttgart 1964 og síðan doktorsprófi í matvælaverkfræði frá Rutgers University í New Jersey 1972. Hann starfaði sem verkfræðingur hjá Fiskimjölsverksmiðjunni í Vestmannaeyjum 1965–1966. Árin 1966–1969 og 1972–1974 starfaði hann sem sérfræðingur hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og var þar forstjóri 1974–1984. Þá var hann aðstoðarmaður sjávarútvegsráðherra 1979–1980 og ritaði margar greinar um fiskiðnað í innlend og erlend tímarit og bækur. Björn var valinn Penni ársins af ritstjórn Dagblaðsins Vísis árið 1982 fyrir stuttar, skýrar og skilmerkilegar greinar um þjóðmál. Björn var varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðurlandskjördæmi eystra 1979-1984 og alþingismaður 1984–1987 eftir að Lárus Jónsson hætti þátttöku í stjórnmálum. Litlu munaði að Björn næði kjöri í kosningunum 1987 en tilkoma Borgaraflokksins, sérframboðs Alberts Guðmundssonar, setti þar strik í reikninginn. Björn var framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands 1987–2001 og sinnti brautryðjendastarfi við uppbyggingu þróunarsamstarfs Íslands og landanna sunnan Sahara. Frá 2001 til 2005 var hann sendiherra Íslands í Mósambík, Suður-Afríku og Namibíu. Var hann fyrsti sendiherra Íslands, búsettur í Afríku. Björn var virkur í starfi Rótarýhreyfingarinnar á Íslandi um áratugaskeið og kom ásamt Gunnhildi Sigurðardóttur á samstarfi milli Rótarýklúbba á Íslandi og í Kimberley í Suður-Afríku um byggingu og rekstur barnaheimilis í einu af fátækustu hverfum borgarinnar. Eiginkona Björns var Sigrún Valdimarsdóttir, bankastarfsmaður og leiðsögumaður, fædd 9. janúar 1936, en hún lést 6. maí 2001. Sambýliskona Björns var Sigríður Jóhannesdóttir bankastarfsmaður, fædd 8. júní 1939, en hún lést 18. september 2005. Eftirlifandi sambýliskona Björns er Gunnhildur Sigurðardóttir hjúkrunarfræðingur en einnig lætur Björn eftir sig dæturnar Sigurveigu Huld Sigurðardóttur og Brynhildi Björnsdóttur, fimm barnabörn og sjö barnabarnabörn. ---- Sjálfstæðismenn í Norðausturkjördæmi minnast Björns Dagbjartssonar með hlýju og virðingu. Hann sat vissulega stutta stund á þingi en var farsæll þingmaður sem vann vel fyrir umbjóðendur sína, Eyfirðinga og Þingeyinga - öflugur í ræðu og riti í pólitísku starfi. Björn sýndi og sannaði styrk sinn eftir þingferilinn með því að leiða farsælt alþjóðastarf á fjarlægri grundu á mikilvægu skeiði, öflugur fulltrúi lítillar þjóðar á stóru mikilvægu svæði um langt árabil. Við færum fjölskyldu Björns innilegar samúðarkveðjur að leiðarlokum. Blessuð sé minning hans. Stefán Friðrik Stefánsson ritstjóri Íslendings, vefrits sjálfstæðisfélaganna á Akureyri
Eftir Stefán Friðrik Stefánsson 2. desember 2025
Fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna á Akureyri samþykkti á fundi sínum í kvöld tillögu stjórnar um að röðun fari fram við val á fjórum efstu sætum framboðslista við sveitarstjórnarkosningar vorið 2026. Að lokinni röðun mun kjörnefnd leggja fram tillögu að fullskipuðum framboðslista. Tillagan var samþykkt með auknum meirihluta, tveimur þriðju atkvæða, í samræmi við reglur Sjálfstæðisflokksins. Fulltrúaráðið samþykkti að auki tillögu um að tvöfalt fulltrúaráð, aðal- og varamenn, komi saman við valið og það fari fram eigi síðar en laugardaginn 7. febrúar nk. Kjörnefnd tekur ákvörðun um dagsetningu röðunar innan þess tímaramma. Á fundinum var kjörnefnd til að sjá um ferlið fram að afgreiðslu framboðslista kjörin. Í henni eiga sæti níu fulltrúar - fjórir frá fulltrúaráði og einn frá hverju sjálfstæðisfélagi. Fulltrúaráð Aðalmenn: Heiðrún Ósk Ólafsdóttir, Jósavin Arason, Karl Guðmundsson, María H. Marinósdóttir Varamenn: Atli Þór Ragnarsson, Jóhann Gunnar Kristjánsson Málfundafélagið Sleipnir Aðalmaður: Stefán Friðrik Stefánsson – Varamaður: Harpa Halldórsdóttir Sjálfstæðisfélag Akureyrar Aðalmaður: Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson – Varamaður: Daníel Sigurður Eðvaldsson Vörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri Aðalmaður: Hafþór Hermannsson – Varamaður: Gunnlaugur Geir Gestsson Vörn, félag sjálfstæðiskvenna á Akureyri Aðalmaður: Gerður Ringsted – Varamaður: Aðalheiður Steina Guðmundsdóttir Sjálfstæðisfélag Hríseyjar Aðalmaður: Valdemar Karl Kristinsson – Varamaður: Kristinn Frímann Árnason
29. nóvember 2025
Bæjarmálafundur Sjálfstæðisflokksins á Akureyri verður haldinn í Geislagötu 5 mánudaginn 1. desember kl. 17:30. Farið yfir breytingar á fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar 2026-2029 (seinni umræða fer nú fram í bæjarstjórn) og áherslur í fræðslu- og lýðheilsuráði á kjörtímabilinu. Fundarstjóri: Heimir Örn Árnason, formaður bæjarráðs og oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri Allir velkomnir - heitt á könnunni.
26. nóvember 2025
Öflugt millilandaflug til Akureyrar er ekki gæluverkefni heldur drifkraftur sem skapar tækifæri og beinan efnahagslegan, samfélagslegan og umhverfislegan ávinning fyrir landið allt. Flug sem skapar verðmæti Ef Ísland ætlar að byggja upp fjölbreyttara, sjálfbærara og sterkara efnahagslíf, þarf landið að nýta alla sína styrkleika. Norðurland sem atvinnusvæði hefur verið í sókn. Millilandaflug um Akureyri er eitt þeirra verkefna sem getur stutt við hana, umbreytt ferðamennsku, atvinnulífi og byggð í senn – og styrkt stöðu Íslands á alþjóðavettvangi. Það er hlutverk sem þjónar ekki aðeins Norðurlandi – heldur Íslandi öllu. Nýleg skýrsla Rannsóknamiðstöðvar ferðamála sýnir að beint millilandaflug til Akureyrar stuðlar nú þegar að betri dreifingu ferðamanna um landið og styrkir ferðaþjónustu utan suðvesturhornsins. Þetta staðfestir reynslan af vetrarflugi easyJet 2023–2024, en ferðafólk sem nýtti sér þá flugið eyddi um 1,2 milljörðum króna á svæðinu – á rólegasta tíma ársins. Áhrifin ná líka langt út fyrir ferðaþjónustuna. Flugið skapaði tugi milljóna í skatttekjur til sveitarfélaga og ríkissjóðs og stuðlaði að auknum stöðugleika í atvinnulífi á Norðurlandi. Akureyri tengir Ísland betur við umheiminn Góðar tengingar við umheiminn eru auk þess forsenda að svæði séu samkeppnishæf um uppbyggingu og mannauð. Beinar flugtengingar laða að erlenda fjárfestingu, ný störf og hátækniverkefni – ekki síst þar sem þörf er á erlendum sérfræðingum og greiðu aðgengi að alþjóðamörkuðum. Millilandaflugið er því ekki aðeins mikilvægt fyrir ferðaþjónustu á öllu norðanverðu landinu, heldur sömuleiðis fyrir orkuiðnað, sjávarútveg, nýsköpun og menntun svo nokkuð sé nefnt. Með öflugum tengingum eykst bæði byggðafesta og möguleikar atvinnulífsins að norðan – og um leið styrkist íslenskt efnahagslíf í heild. Ég ætla því að leyfa mér að fullyrða að með eflingu millilandaflugs um Akureyrarflugvöll eykst samkeppnishæfni Íslands í heild. Tími til að hugsa stórt Haustþing Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE), sem haldið var í október síðastliðnum, hvatti í ályktun sinni stjórnvöld til að efla flugþróunarsjóð, styrkja innviði Akureyrarflugvallar og setja á fót sérstaka stjórn fyrir flugvöllinn. Slík stjórn gæti mótað framtíðarstefnu, tryggt samkeppnishæfni, samhæft uppbyggingu og haft leiðandi hlutverk í markaðssetningu flugsins í samstarfi við Markaðsstofu Norðurlands og Íslandsstofu. Tryggt millilandaflug er ekki kostnaður heldur fjárfesting í uppbyggingu, samkeppnishæfni og fleiri tækifærum. Til þess þarf fyrirsjáanleika og sameiginlegan vilja. Það er kominn tími til að líta á Akureyri sem það sem hún í raun er – aðra gátt inn í landið. Lára Halldóra Eiríksdóttir formaður stjórnar SSNE og bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri
Eftir Stefán Friðrik Stefánsson 25. nóvember 2025
Björg Ásta Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, hefur ákveðið að láta af störfum en hún hyggur á framboð í komandi sveitarstjórnarkosningum í heimabæ sínum, Sveitarfélaginu Vogum. „Undanfarnar vikur hef ég fengið mikla hvatningu til að bjóða mig fram í heimabæ mínum, Vogum, bæ sem ég brenn fyrir. Ég sé þar fjölmörg tækifæri til að efla þjónustu, treysta innviði og halda áfram að byggja upp sterkt og fjölskylduvænt samfélag,“ segir Björg Ásta og heldur áfram: Björg Ásta Þórðardóttir fráfarandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins. „Til að geta undirbúið þá vegferð í góðu samtali við mitt fólk og mína sveitunga, tel ég ástæðu til að stíga til hliðar sem framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins” Hún þakkar flokksmönnum öllum fyrir ánægjulegt samstarf og segist hlakka til að bjóða fram krafta sína fyrir flokkinn á vettvangi sveitarstjórnarstigsins. „Það hefur verið mér mikill heiður að starfa sem framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins með öflugum hópi sjálfstæðismanna um allt land Ég hef fulla trú á forystunni og því mikilvæga starfi sem framundan er. Þá vil ég óska nýjum framkvæmdastjóra flokksins alls hins besta og velfarnaðar í störfum.” Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir Björgu Ástu hafa lagt sterkt og sýnilegt mark á starf flokksins. „Björg Ásta hefur unnið afar mikilvægt starf fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hún hefur lagt mikið af mörkum við að efla innra starf flokksins, stutt við kjörna fulltrúa, lagt grunn að kosningabaráttunni framundan og tekið á málum af yfirvegun. Ég er þakklát fyrir hennar framlag og gleðst yfir því að hún ætli nú að beita reynslunni heima í Vogum. Sjálfstæðisflokkurinn stendur og fellur með sterku fólki í sveitastjórnum um allt land. Ég veit að hún mun láta mikið til sín taka á þeim vettvangi og óska henni velfarnaðar í nýjum verkefnum,” segir Guðrún Hafsteinsdóttir. Í hennar stað mun Tryggvi Másson taka við starfi framkvæmdastjóra. Tryggvi, sem er viðskiptafræðingur og atferlishagfræðingur að mennt, er flestum hnútum kunnugur innan Sjálfstæðisflokksins og hefur tekið virkan þátt í starfi flokksins um langt árabil. Tryggvi gegndi stöðu framkvæmdastjóra þingflokks Sjálfstæðisflokksins árin 2022-2024. Hann hefur undanfarið starfað við ráðgjöf í fiskeldi en þar áður starfaði hann við viðskiptaþróun hjá Klíníkinni. „Ég er fullur tilhlökkunar að taka við starfi framkvæmdastjóra flokksins og þakklátur fyrir það traust sem mér er sýnt. Í gegnum fyrra starf sem framkvæmdastjóri þingflokks þekki ég vel til flokksstarfsins og þess frábæra fólks sem starfar innan flokksins. Framundan eru sveitarstjórnarkosningar og ég er spenntur að leggja mitt af mörkum í samstarfi við grasrótina um land allt við undirbúning þeirra,“ segir Tryggvi Másson, nýr framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins.
MORE POSTS