17. desember 2025

Halldór Blöndal látinn

Halldór Blöndal, fyrrum ráðherra og forseti Alþingis, lést á Landspítalanum í Fossvogi, þriðjudaginn 16. desember, 87 ára að aldri.

Halldór var um áratugaskeið lykilmaður í starfi Sjálfstæðisflokksins í Norðurlandskjördæmi eystra, allt frá námsárum virkur í félagsstarfi hér á Akureyri, erindreki flokksins og síðar meir forystumaður sjálfstæðismanna í kjördæminu og fyrstur til að leiða Sjálfstæðisflokkinn í nýju og stærra kjördæmi í byrjun nýrrar aldar - röggsamur leiðtogi í orði og verki. 

Halldór fæddist í Reykjavík 24. ágúst 1938 og ólst upp á Laugavegi 66, sonur hjónanna Kristjönu Benediktsdóttur og Lárusar Blöndal. Systkini hans voru fjögur talsins; Benedikt hæstaréttardómari, Kristín framhaldsskólakennari, Haraldur hæstaréttarlögmaður, og Ragnhildur bókasafnsfræðingur. Kristjana lést langt um aldur fram árið 1955 en Lárus lést árið 1999.

Halldór var alinn upp í miðpunkti pólitísks starfs, áhugasamur um þjóðmál alla tíð. Móðurbróðir hans, Bjarni Benediktsson eldri, var um árabil í forystusveit Sjálfstæðisflokksins; borgarstjóri, ráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins - síðar meir forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins til dánardags 1970. Bjarni mótaði utanríkisstefnu lýðveldisins Íslands, var utanríkisráðherra þegar Ísland gekk í NATÓ 30. mars 1949. Halldór fylgdist með átökunum á Austurvelli þegar aðildin var samþykkt og rifjaði þá tíma upp í viðtölum á ævikvöldi sínu. Það mótaði ungan og áhugasaman pilt, herti hann og hvatti til þátttöku í stjórnmálum.

Halldór hélt til náms hér nyrðra þar sem hann 
lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1959 og las lögfræði í Háskóla Íslands. Halldór vann margvísleg störf sem mótuðu hann mjög. Hann var t.d. 15 vertíðir í Hvalstöðinni í Hvalfirði á árunum 1954-74. Kennslan varð starfsvettvangur hans um árabil; hann kenndi bæði í Reykjavík og á Akureyri og var svo blaðamaður á Morgunblaðinu með hléum á árunum 1961-79.

Halldór hóf pólitíska þátttöku sína á námsárunum í Menntaskólanum á Akureyri og var síðar meir erindreki flokksins á Norðurlandi. Lykilmaður í pólitísku starfi flokksins á Akureyri í tæpa hálfa öld, formaður tveggja félaga og leiddi ungliðastarfið sem formaður Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna, og síðar meir uppbyggingarstarf sem formaður Málfundafélagsins Sleipnis í Verkalýðsráði Sjálfstæðisflokksins.

Segja má að Halldór hafi í raun verið tengdur þingstörfum með einum eða öðrum hætti allt frá árinu 1961, fyrst sem þingfréttamaður og síðar starfsmaður flokksins og loks sem alþingismaður og forystumaður eldri flokksmanna fram undir ævilok - sat þingflokksfundi meginhluta þess tíma, í formannstíð níu af tíu formönnum flokksins, allt frá Ólafi Thors til Bjarna Benediktssonar yngri og sat einnig þingflokksfund sem sérstakur gestur eftir að Guðrún Hafsteinsdóttir varð formaður Sjálfstæðisflokksins.

Meðan Halldór var enn í námi hóf hann að koma að útgáfu Íslendings, blaðs Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, í ritstjóratíð Jakobs Ó. Péturssonar, kom að skoðanagreinum og frægum dálkaskrifum sem kennd voru við Jón í Grófinni - sinnti því um nokkuð skeið með öðrum verkefnum. Síðar meir var Halldór lykilmaður í endurreisn blaðsins eftir að hlé varð á sameiginlegri útgáfu Íslendings-Ísafoldar.

Fyrsta blað eftir breytingar kom út undir ritstjórn Halldórs í október 1973 og kom hann keflinu síðar meir með farsælum hætti áfram til Sigrúnar Stefánsdóttur og Gísla Sigurgeirssonar, en lagði drjúga hönd á plóg með skrifum sínum. Sumarið 1984 tók Halldór aftur að sér tímabundið ritstjórn meðfram þingstörfum. Þá voru tímarnir breyttir, upphaf endaloka flokksblaðaútgáfu. Íslendingur hætti að koma út sem vikublað haustið 1985 en síðar meir gefið áfram út í kosningastarfi Sjálfstæðisflokksins. Þegar Íslendingur hóf útgáfu sína á netinu á afmælisdegi gamla Íslendings 9. apríl 2001 var það auðvitað Halldór sem opnaði vefinn.

Halldór hafði beint leið sinni suður yfir heiðar þegar sjálfstæðismenn í Norðurlandskjördæmi eystra hvöttu hann til þingframboðs í sumarkosningunum 1971, stuttu eftir sviplegt fráfall Bjarna móðurbróður hans. Hann varð við kalli félaga sinna nyrðra og gaf kost á sér. Hann var varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu á árunum 1971-1979. Halldór náði kjöri á Alþingi í desemberkosningunum 1979, á 
fæðingardegi afa síns, Benedikts Sveinssonar, þingforseta, 2. desember.

Halldór sat á þingi í tæpa þrjá áratugi. Fyrst við hlið Lárusar Jónssonar, sem tók við oddvitakeflinu í miklum sviptingum 1979 til ársins 1984 þegar Lárus söðlaði um og hætti þátttöku í stjórnmálum og Björn Dagbjartsson tók sæti hans á þingi. Halldór leiddi Sjálfstæðisflokkinn í Norðurlandi eystra eftir það uns kjördæmið stækkaði til muna á nýrri öld. Það voru Halldóri mikil vonbrigði að Björn næði ekki kjöri í kosningunum 1987. Þegar Björn hélt til krefjandi verkefna við stjórn Þróunarsamvinnustofnunar í Afríku varð Tómas Ingi Olrich varaþingmaður Halldórs í stað Björns.

Saman urðu Halldór og Tómas sterkt forystuteymi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Norðurlandi eystra. Þeir leiddu flokkinn hlið við hlið í rúman áratug og héldu saman til framboðs í nýju kjördæmi síðar meir. Í kosningunum 1991 og 1995 náði Tómas Ingi kjöri sem landskjörinn þingmaður við hlið Halldórs og var Svanhildur Árnadóttir á Dalvík varaþingmaður þeirra þessi tvö kjörtímabil til ársins 1999.

Þegar Sjálfstæðisflokkurinn myndaði ríkisstjórn í byrjun 10. áratugarins voru Halldóri falin verðug verkefni. Hann var landbúnaðarráðherra 1991-1995 og samgönguráðherra 1991-1999, ötull baráttumaður sinna málaflokka í átta ára ráðherratíð; vann að mikilvægum umbótamálum í landbúnaði og framfaramaður í samgöngumálum; kláraði til dæmis að malbika veginn milli Akureyrar og Reykjavíkur lýðveldisafmælisárið 1994, lagði drög að malbikun hringvegarins og útrýmingu einbreiðra brúa í þjóðvegakerfinu.

Halldór átti sætasta pólitíska sigur sinn í alþingiskosningunum 1999. Þá tókst honum að leiða Sjálfstæðisflokkinn til sigurs í síðustu kosningunum í Norðurlandskjördæmi eystra - hlaut flest atkvæði í kjördæminu og Halldór því fyrsti þingmaður þess, fyrstur sjálfstæðismanna og Tómas Ingi kjördæmakjörinn þingmaður. Fram að því höfðu framsóknarmenn ríkt í kjördæminu og alltaf verið langstærstir. Sögulegur og ógleymanlegur sigur fyrir sjálfstæðismenn nyrðra.

Það voru því Halldóri eðlilega nokkur vonbrigði að verða ekki áfram ráðherra eftir kosningarnar. En um leið voru mikil tækifæri í því fólgin fyrir þingreyndan mann eins og Halldór, eftir tvo áratugi á þingi, að vera tilnefndur forseti Alþingis vorið 1999. Halldór var röggsamur þingforseti og stóð ríkulega vörð um virðingu Alþingis. Halldór sat á forsetastóli í rúm sex ár, allt til haustsins 2005 þegar hann varð formaður utanríkismálanefndar Alþingis undir lok þingferilsins. Sem forseti Alþingis stýrði Halldór eftirminnilegum ríkisráðsfundi á Heimastjórnarafmælinu 1. febrúar 2004 þegar þáverandi forseti Íslands var víðsfjarri eins og margfrægt varð.

Kjördæmabreytingin í upphafi nýrrar aldar var önnur verðug áskorun fyrir Halldór. Hann veiktist af krabbameini í aldarbyrjun og varð að taka sér leyfi frá þingstörfum en sigraðist á meini sínu og sneri aftur til þingstarfa af krafti. Halldór ákvað að fara fram að nýju og sækjast eftir því að leiða Sjálfstæðisflokkinn í hinu nýja og víðfeðma Norðausturkjördæmi, sem náði frá Siglufirði áleiðis til Djúpavogs. Það voru mikil vonbrigði fyrir Halldór og Tómas Inga að ná ekki þriðja manni inn í kosningunum. Tómas Ingi vék í kjölfarið af pólitískum vettvangi og varð sendiherra í París en Arnbjörg Sveinsdóttir, sem hafði fallið af þingi í kosningunum, tók sæti hans og var við hlið Halldórs uns hann dró sig í hlé árið 
2007.

Eftir að þingferlinum lauk varð Halldór formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands 2007-2009 og stóð því í miklum örlagavindi við stýrið þegar bankahrunið reið yfir haustið 2008. Að loknum þingkosningum 2009 varð Halldór formaður Samtaka eldri sjálfstæðismanna, leiddi þar öflugt félagsstarf í 15 ár - stýrði fjölmennum og rómuðum pólitískum fundum með áhugaverðum gestum í Valhöll í hádeginu á miðvikudögum, sem héldu áfram eftir að hann lét af formennsku.

Halldór var heiðursfélagi í Verði, félagi ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, sæmdur þeirri nafnbót á 75 ára afmæli félagsins í febrúar 2004 og Málfundafélaginu Sleipni, sæmdur þeirri nafnbót á fundi félagsins í október 2016.

Rétt eins og segir í Morgunblaðinu í dag var Halldór "fljótur til svars 
og skeleggur og vini átti hann í öllum flokkum. Þegar hann varð áttræður var hann í afmælisviðtali í Morgunblaðinu beðinn að líta yfir sinn pólitíska feril og kvaðst ekki geta verið annað en sáttur: „Upp úr stendur Háskólinn á Akureyri, og í samgöngumálum að mér tókst að opna leiðina milli Norður- og Austurlands og náði því fram að göng voru gerð um Héðinsfjörð milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar.“

Halldór var mikill hagyrðingur og landsþekktur fyrir vísur sínar. Lesendur Morgunblaðsins nutu góðs af því, fyrst í Vísnaleik, sem Halldór hélt úti frá miðjum áttunda áratugnum til 1989, og Vísnahorninu, sem hann sá um frá 2013-24.


Halldór kvæntist Renötu Brynju Kristjánsdóttur 1960. Þau áttu saman dæturnar Ragnhildi og Stellu. Þau skildu og lést hún 1982. Árið 1969 kvæntist Halldór Kristrúnu Eymundsdóttur, framhaldsskólakennara. Þau eignuðust saman soninn Pétur, en fyrir átti Kristrún tvo syni Eymund Matthíasson Kjeld og Þóri Bjarka Matthíasson Kjeld.

Kristrún var mik­il mála­mann­eskja. Hún kenndi frönsku, ensku og dönsku við ýmsa fram­halds­skóla, meðal ann­ars við Mennta­skól­ann á Ak­ur­eyri og síðast við Verzl­un­ar­skóla Íslands. Þá var hún leiðsögumaður í mörg ár. 
Kristrún var einn af um­sjón­ar­mönn­um Laga unga fólks­ins á RÚV frá 1959-1961. Hún þýddi leik­ritið Síðasta tangó í Sal­ford fyr­ir RÚV árið 1981 og Alfa Beta eft­ir Whitehead sem sett var upp í Leik­fé­lagi Ak­ur­eyr­ar árið 1978. 

Kristrún lést í desember 2018. Rúna var Halldóri Blöndal trygg stoð í pólitísku starfi hans í kjördæminu og í ábyrgðarmiklum verkefnum á þingi og í ríkisstjórn - þau voru glæsilegt par. Halldór var líka stoð Kristrúnar í erfiðum veikindum hennar síðustu árin. Barnabörn Halldórs eru sex og barnabarnabörnin sjö. 

-----

Sjálfstæðismenn í Norðausturkjördæmi minnast Halldórs Blöndal með hlýhug og virðingu. Við þökkum fyrir farsæla forystu hans hér nyrðra um áratugaskeið, ötult félagsstarf og útgáfustarf Íslendings þar sem hann reyndist lykilmaður í því að efla flokkinn til dáða í ræðu og riti. Einnig er ómetanleg leiðsögn hans til þeirra sem yngri voru í félagsstarfinu þar sem hann var ávallt hvetjandi og einlægur. 

Halldór var vinnusamur leiðtogi sem vann vel fyrir umbjóðendur sína, alltaf með puttann á púlsinum út í kjördæminu og afar vel tengdur við hinar dreifðu byggðir. Stuðningsmönnum flokksins hér nyrðra var annt um oddvita sinn. Vinir Dóra voru fjölmargir og vildu veg hann sem mestan, unnu af krafti til að svo yrði... svo hann næði árangri fyrir flokksheildina alla í kjördæminu - rödd flokksins í kjördæminu yrði öflug á þingi.

Halldór sýndi og sannaði atorku sína og metnað í flokksstarfinu með því að helga sig uppbyggingu félagsstarfs eldri flokksmanna eftir að þingferlinum lauk þar sem hann sinnti blómlegu félagsstarfi langt fram á níræðisaldur meðan heilsan entist. Hann mætti á sinn síðasta landsfund í marsmánuði og flutti þar röggsama kveðjuræðu til félaga sinna sem eftir var tekið. Hann var einfaldlega fremstur meðal jafningja í pólitísku starfi á sínu svæði og verðugur fulltrúi okkar um víðan völl, sannur karakter sem gaf pólítísku lífi lit og mannlegt gildi.

Við leiðarlok þökkum við Halldóri langa og farsæla samfylgd og vinskapinn. Við vottum fjölskyldu hans innilega samúð.


Stefán Friðrik Stefánsson
ritstjóri Íslendings