16. desember 2025

100 ára ártíð Geirs Hallgrímssonar

Í dag eru 100 ár liðin frá fæðingu Geirs Hallgrímssonar fyrrum forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins. Þegar 80 ár voru liðin frá fæðingu Geirs skrifaði ég ítarlega grein um Geir á vef SUS sem ég ritstýrði þá. Ég endurbirti þá grein hér í tilefni 100 ára ártíðar Geirs.


Á löngum stjórnmálaferli sínum varð Geir Hallgrímsson í senn bæði sigursæll leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í borgar- og landsmálum og leiddi hann ennfremur á miklum erfiðleikatímum sem mörkuðust bæði af klofningi innan flokksins og áberandi deilum í forystusveit hans á áttunda og níunda áratug 20. aldar. Honum auðnaðist þó að leiða flokkinn út úr þeirri miklu kreppu og skilaði honum heilum af sér við lok formannsferils síns í flokknum og er hann vék af hinu pólitíska sviði. Í þessum pistli verður farið yfir ævi hans og stjórnmálaferil.

Geir Hallgrímsson fæddist í Reykjavík, 16. desember 1925. Foreldrar hans voru Hallgrímur Benediktsson og Áslaug Geirsdóttir Zoëga. Faðir Geirs var áberandi í íslensku þjóðlífi til fjölda ára. Hann rak í upphafi öfluga heildverslun en stofnaði síðar fyrirtækið H. Benediktsson & Co. Hann átti sæti í stjórnum fjölda fyrirtækja og átti þátt í stofna öflug fyrirtæki sem mörg hver setja enn sterkan svip á íslenskt samfélag. Var Hallgrímur einn af þeim kaupsýslumönnum sem gengust fyrir stofnun Verslunarráðs Íslands (sem nú heitir Viðskiptaráð Íslands) og var lengi formaður þess. Hallgrímur tók ennfremur þátt í stjórnmálastarfi. Hann sat í bæjarstjórn Reykjavíkur á árunum 1926-1930 og var aftur kjörinn í hana árið 1946 og átti þar sæti allt til dauðadags í febrúar 1954. Hann var um tíma ennfremur varaþingmaður flokksins í borginni. Geir hafði allt frá upphafi mikinn áhuga á stjórnmálum og haslaði sér völl á þeim vettvangi ungur.

Geir útskrifaðist frá Menntaskólanum í Reykjavík á lýðveldisdaginn, 17. júní 1944, sama dag og íslenska lýðveldið var stofnað að Þingvöllum. Að því loknu hóf hann nám í lagadeild Háskóla Íslands og brautskráðist þaðan fjórum árum síðar, árið 1948. Þykir það skammur námstími. Var Geir formaður Stúdentaráðs HÍ síðasta námsár sitt, 1947-1948. Um haustið hélt hann til náms í lögfræði og hagfræði við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum. Vistin varð skemmri en ella vegna snöggra veikinda föður hans ári síðar sem leiddi til þess að hann sneri heim að nýju. Hóf hann þá strax störf við fyrirtæki föður hans. Árið 1951 öðlaðist hann réttindi sem héraðsdómslögmaður og opnaði það ár eigin lögfræðistofu, sem hann rak meðfram öðrum störfum til ársins 1959. Eftir lát föður síns varð hann forstjóri fjölskyldufyrirtækisins á árunum 1955-1959. Varð hann hæstaréttarlögmaður árið 1957.

Skömmu fyrir för sína til Bandaríkjanna, árið 1948, kvæntist Geir, Ernu Finnsdóttur. Eignuðust þau fjögur börn. Geir Hallgrímsson var alla tíð mjög virkur í stjórnmálaþátttöku. Hann varð forystumaður í flokksstarfinu strax í upphafi sjötta áratugarins. Hann var kjörinn formaður Heimdallar árið 1952 og gegndi formennsku þar í tvö ár, allt til ársins 1954. Það vor var hann kjörinn til setu í bæjarstjórn Reykjavíkur. Tók Geir sæti á framboðslista flokksins, skömmu eftir lát föður síns, sem lést í upphafi kosningaársins eins og fyrr segir frá. Geir Hallgrímsson var kjörinn formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna á þingi sambandsins í október 1957. Sigraði hann þar Sverri Hermannsson í kjöri. Hlaut Geir 72 atkvæði en Sverrir hlaut 50. Var það í fyrsta skipti sem formaður SUS var kosinn í átakakosningu á sambandsþingi. Geir sat á formannsstóli í SUS eitt tímabil, tvö ár, eða til ársins 1959.

Geir fór í framboð fyrsta sinni, eins og fyrr segir frá, í bæjarstjórnarkosningunum (þá var talað um bæjarstjórn í Reykjavík en ekki borgarstjórn eins og síðar varð) 1954. Skipaði hann þá fjórða sæti á framboðslistanum. Hlaut flokkurinn meirihluta atkvæða, þá eins og jafnan til ársins 1978. Tók Geir, sem þá var aðeins 29 ára gamall, strax sæti í bæjarráði að loknum kosningunum. Þá var Gunnar Thoroddsen borgarstjóri í Reykjavík og leiðtogi framboðslistans. Hafði hann tekið við borgarstjóraembætti árið 1947, er forveri hans dr. Bjarni Benediktsson tók sæti í ríkisstjórn. Gunnar var mjög vinsæll borgarstjóri og leiddi flokkinn af krafti í tólf ár. Stærsta sigur sinn vann hann í kosningunum 1958, þegar að Sjálfstæðisflokkurinn hlaut um 60% atkvæða og 10 borgarfulltrúa kjörna. Gunnar og Geir hófu þá fyrst virkt samstarf í stjórnmálum. Óhætt er að segja að það samstarf þeirra hafi verið langvinnt en mjög stormasamt, einkum í seinni tíð eins og ég kem síðar að.

Gunnar Thoroddsen tók við embætti fjármálaráðherra í ríkisstjórn Ólafs Thors í nóvember 1959. Þá blasti auðvitað við að hann þyrfti að víkja af borgarstjórastóli. Ekki var ljóst í upphafi hvort að stjórnin myndi verða skammlíf eða endast kjörtímabilið á enda. Var því brugðið á það ráð að tveir tækju við borgarstjóraembættinu í stað Gunnars fyrsta árið, en staða mála yrði metin að því loknu. Ákveðið var að Geir og Auður Auðuns tækju við af Gunnari. Sögulegt varð er Auður varð borgarstjóri. Hún varð enda fyrsta konan til að taka við embættinu. Hún varð ennfremur fyrst kvenna forseti bæjarstjórnar nokkrum árum áður og hafði lengi verið í forystusveit flokksins í borgarmálum. Hún varð fyrsta konan til að taka við ráðherraembætti. Hún varð dómsmálaráðherra árið 1970. Auður varð fyrsta konan sem brautskráðist úr lagadeild Háskóla Íslands. Það er því óhætt að segja að Auður hafi víða markað sér spor í söguna.

Á árinu 1960 var ákveðið í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins að Geir tæki einn við borgarstjóraembættinu og Gunnar Thoroddsen baðst formlega lausnar frá embættinu, en sat í borgarstjórn til loka kjörtímabilsins. Stjórn Ólafs hafði þá orðið mun fastari í sessi. Ekki þurfti að hræðast mikið um líf hennar næstu árin. Varð enda fyrrnefnd stjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, sem gengur í sögubókum samtímans undir nafninu Viðreisnarstjórnin, langlífasta ríkisstjórn lýðveldistímans og sat í tólf ár, allt til ársins 1971. Geir tók við embætti borgarstjóra af krafti og vann sér mikinn sess í embættinu og þótti glæsilegur borgarstjóri að sögn flestra. Í borgarstjórastarfinu naut Geir Hallgrímsson mikilla vinsælda. Hann var stjórnmálamaður sem leiddi áfram mikilvæg verkefni – var maður framkvæmda og staðfestu. Á borgarstjóraferli hans var borgin malbikuð og ráðist var í mörg öflug verkefni sem báru vitni farsælli forystu Geirs í borgarmálum.

Í alþingiskosningunum 1959 gaf Geir kost á sér á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og varð varaþingmaður flokksins til fjölda ára og tók nokkrum sinnum sæti á þingi. Kjörtímabilið 1967-1971 var hann fyrsti varamaður flokksins í borginni. Árið 1970 vann Geir sinn þriðja kosningasigur í borgarstjórn. Var sá sigur mjög naumur og töldu margir á kjördag að borgin væri töpuð og stefna myndi í vinstristjórn í borginni. Þá var viðreisnarstjórnin nokkuð tekin að verða óvinsæl vegna aðsteðjandi vanda í samfélaginu í kjölfar hruns síldarstofnanna undir lok sjöunda áratugarins. Rúmum mánuði eftir borgarstjórnarkosningarnar sumarið 1970 urðu mikil þáttaskil innan Sjálfstæðisflokksins sem höfðu mikil áhrif á stjórnmálaferil Geirs. 10. júlí 1970 fórst Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og formaður flokksins, í eldsvoða í forsætisráðherrabústaðnum á Þingvöllum ásamt eiginkonu sinni og dóttursyni. Mikill harmur var kveðinn að þjóðinni.

Jóhann Hafstein tók við formennsku í Sjálfstæðisflokknum og embætti forsætisráðherra. Viðreisnarstjórnin sat til loka kjörtímabilsins, en Auður Auðuns tók sæti í ríkisstjórninni nokkrum mánuðum síðar, fyrst kvenna á ráðherrastóli, eins og fyrr hefur verið sagt frá. Ákveðið var að boða ekki til kosninga um haustið, vegna andláts Bjarna, eins og margir sjálfstæðismenn höfðu viljað. Ákveðið var að kosningar yrðu á áður tilsettum tíma, í júní 1971. Geir Hallgrímsson tók sæti Bjarna á Alþingi. Hann var orðinn þingmaður samhliða borgarstjóraembættinu. Hann gaf kost á sér í prófkjöri flokksins haustið 1970. Sigraði hann í prófkjörinu og hlaut fyrsta sæti listans. Jóhann Hafstein sem orðinn var formaður flokksins og forsætisráðherra lenti í öðru sætinu. Voru þetta Jóhanni mikil vonbrigði. Ákvað Geir að afsala sér fyrsta sætinu til Jóhanns og tók annað sætið þess í stað. Þótti þetta vera mjög til vitnis um drenglyndi Geirs.

Í prófkjörinu 1970 gaf Gunnar Thoroddsen kost á sér og hlaut góða kosningu. Markaði það endurkomu hans í stjórnmálin. Fimm árum áður hafði hann yfirgefið hið pólitíska svið, verandi fjármálaráðherra í viðreisnarstjórninni og varaformaður flokksins. Tók Jóhann Hafstein þá við varaformennsku og sat á þeim stóli þar til að Bjarni lést. Tók Gunnar við sendiherraembætti í Kaupmannahöfn. Gunnar gaf kost á sér í forsetakosningunum 1968, er Ásgeir Ásgeirsson, tengdafaðir hans, lét af embætti. Beið Gunnar lægri hlut fyrir dr. Kristjáni Eldjárn þjóðminjaverði. Hélt hann að því loknu til sendiherrastarfa að nýju. Gunnar kom heim að nýju í ársbyrjun 1970 og tók sæti sem dómari við hæstarétt Íslands. Við andlát Bjarna, síðar um árið, tók hann ákvörðun um að hefja á ný stjórnmálaþátttöku og vék úr réttinum og gaf kost á sér í prófkjörinu. Á landsfundi árið 1971 tókust Geir og Gunnar á um varaformennsku flokksins. Geir hlaut 375 atkvæði en Gunnar 328. Fyrstu, en langt í frá seinustu rimmu þeirra, lauk með dramatískum hætti.

Geir Hallgrímsson lét af embætti borgarstjóra í Reykjavík þann 1. desember 1972. Eftirmaður hans í embættinu varð Birgir Ísleifur Gunnarsson. Helgaði Geir sig landsmálum við þau þáttaskil og gaf ekki kost á sér í borgarstjórnarkosningunum 1974, og vék þá af þeim vettvangi eftir 20 ára setu. Geir var endurkjörinn varaformaður flokksins á landsfundi árið 1973 og Jóhann sem formaður. Nokkrum vikum eftir landsfundinn, í októbermánuði 1973, veiktist Jóhann Hafstein snögglega og ákvað að segja af sér formennsku flokksins vegna þeirra veikinda. Þáttaskil höfðu orðið á stjórnmálaferli Geirs Hallgrímssonar. 47 ára að aldri var hann orðinn formaður Sjálfstæðisflokksins. Magnús Jónsson frá Mel, sem verið hafði fjármálaráðherra í viðreisnarstjórninni 1965-1971, var kjörinn varaformaður flokksins af miðstjórn nokkrum vikum síðar og gegndi varaformennsku í tæpt ár.

Geir Hallgrímsson leiddi Sjálfstæðisflokkinn til glæsilegasta kosningasigurs síns í landsmálum í alþingiskosningunum 1974. Hlaut flokkurinn rúmlega 42% atkvæða og 25 þingmenn kjörna af 60. Til kosninganna hafði verið boðað með sögulegum hætti. Ólafur Jóhannesson forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, hafði rofið þing með atbeini Kristjáns Eldjárns forseta, er stefndi í að vinstristjórnin hefði misst þingmeirihluta sinn. Fór Kristján eftir ráðum Ólafs og boðaði til kosninga, þó ekki hefði reynt á að annar meirihluti væri til staðar sem gæti tekið við stjórn landsins. Flokkurinn hlaut glæsilega kosningu og hlaut Geir stjórnarmyndunarumboð að loknum kosningunum. Að lokinni nokkrri stjórnarkreppu mynduðu Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur ríkisstjórn undir forsæti Geirs. 48 ára að aldri var Geir Hallgrímsson orðinn forsætisráðherra og hafði hlotið eldskírn í landsmálaforystu með glæsilegum árangri í kosningunum.

Um haustið 1974 varð Magnús frá Mel að segja af sér varaformennsku vegna veikinda. Gunnar Thoroddsen var kjörinn til varaformennsku af miðstjórn. Gunnar sem snúið hafði aftur eins og fyrr sagði í pólitík í kosningunum 1971 hafði endurheimt varaformennskuna níu árum eftir að hafa látið af henni til að hasla sér völl sem sendiherra í Danmörku og þrem árum eftir að hafa tapað í varaformannskjöri fyrir Geir. Tók Gunnar sæti í ríkisstjórn Geirs sem iðnaðar- og félagsmálaráðherra. Ásamt þeim sátu í stjórninni af hálfu flokksins þeir Matthías Á. Mathiesen og Matthías Bjarnason. Stjórnin sat kjörtímabilið á enda. Nokkrir erfiðleikar höfðu orðið í landsmálum undir lok kjörtímabilsins og neyddist stjórnin til að grípa til óvinsælla ákvarðana í kjaraviðræðum. Leiddu þær aðgerðir til óvinsælda Sjálfstæðisflokksins og ríkisstjórnarinnar. Missti flokkurinn völdin í borgarstjórnarkosningunum sumarið 1978, fyrsta sinni í sögu hans.

Var það tap flokknum og forystumönnum hans mikil vonbrigði og hafði áhrif á stemmninguna innan flokksins í þingkosningunum sem fram fóru síðar sama sumar. Sjálfstæðisflokkurinn tapaði allnokkru fylgi í þeim kosningum – missti fimm þingmenn. Samtals misstu stjórnarflokkarnir tíu þingsæti. Í stað þess að hafa 42 sæti á Alþingi höfðu stjórnarflokkarnir 32 sæti af 60. Framsóknarflokkurinn var orðinn minnsti flokkur landsins eftir kosningarnar. Vinstriflokkarnir hlutu sögulegan sigur, bættu við sig tíu sætum. Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag hlutu 28 þingsæti af 60, 14 hvor. Vissulega hafði ríkisstjórn enn meirihluta í þinginu. Tapið varð þó það mikið að ljóst varð fljótlega eftir kosningar að stjórnin myndi ekki halda áfram. Stjórnarkreppa var meginpart sumarsins. Að lokum samdist um stjórnarsamstarf vinstriflokkanna og Framsóknarflokks, undir forsæti Ólafs Jóhannessonar, en Framsókn hafði eins og fyrr segir beðið afhroð í kosningunum.

Geir Hallgrímsson varð leiðtogi stjórnarandstöðunnar á Alþingi í septemberbyrjun 1978. Fjögurra forsætisráðherraferli Geirs var lokið og flokkurinn var í sárum – sat einn eftir í þingminnihluta. Á nokkrum vikum hafði Sjálfstæðisflokkurinn bæði misst völdin í Reykjavíkurborg og stjórnarforystuna í ríkisstjórn. Krísuástand var innan flokksins. Á fundum innan flokksfélaga og í forystusveitinni var skýringa leitað á sögulegu tapi flokksins og niðurlægingu í kosningunum tveim. Þá kom í fyrsta skipti með almennilegum hætti upp niðurbæld kreppa sem ríkti í samskiptum milli þeirra Geirs og Gunnars. Segja má að valdabarátta hafi ríkt milli þeirra til fjölda ára, allt frá því í borgarstjórn þar til að þeir voru formaður og varaformaður flokksins. Eins og fyrr segir höfðu þeir tekist á um varaformennsku flokksins árið 1971 og aldrei í raun gróið fyllilega um heilt þar á milli. Á næstu árum átti valdabarátta þeirra eftir að taka á sig aðra og beittari mynd.

Svo fór að vinstristjórnin gafst upp eftir stormasama samvist í októberbyrjun 1979. Alþýðuflokkurinn sprengdi stjórn Ólafs með miklum hvelli og gekk á dyr. Það rúma ár sem hún sat hafði hún gengið í gegnum mikinn og erfiðan öldugang. Stjórninni hafði aldrei tekist að vera heilsteypt og stóð allt eftir í logum þegar fallið kom. Stjórnarkreppa var skammvinn. Sjálfstæðisflokkurinn ákvað, að tillögu Geirs, en við andstöðu Gunnars og fylgismanna hans innan þingflokksins, að verja minnihlutastjórn Alþýðuflokksins falli og boðað var til alþingiskosninga í desemberbyrjun. Um miðjan október tók stjórn Alþýðuflokksins formlega við völdum og Benedikt Gröndal varð forsætisráðherra. Að loknum kosningunum var sama pattstaðan uppi og verið hafði eftir kosningarnar ári áður. Formenn flokkanna skiptust á að fara með umboð til stjórnarmyndunar. Mikið vantaði á traust og eðlileg samskipti milli forystumanna stjórnmálaflokkanna.

Geir hafði stjórnarmyndunarumboð í nokkrar vikur í desember og janúar. Er líða tók að lokum janúarmánaðar 1980 og aðeins vangaveltur höfðu farið á milli forystumanna flokkanna eftir tveggja mánaða stjórnarkreppu tók Kristján Eldjárn mjög að ókyrrast. Lagði hann þá drög að utanþingsstjórn. Náði vinna Kristjáns það langt að búið var að velja flestalla ráðherra stjórnarinnar og við blasti að Jóhannes Nordal seðlabankastjóri, myndi veita henni forsæti. Var þessi vinna vel á veg komin. Eins og við má búast er staða mála með myndun utanþingsstjórnar á skrifborði forsetans varð ljós tóku stjórnmálamennirnir við sér af hraði. Í tómarúminu sem var í miðju stjórnleysinu greip aldursforseti Alþingis, dr. Gunnar Thoroddsen, af skarið fyrstur allra. Hann efndi til viðræðna við forystumenn Alþýðubandalags og Framsóknarflokks. Leiddi það af sér formlegar viðræður um myndun stjórnar undir forsæti Gunnars. Auk Gunnars komu að viðræðunum nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins.

Er viðræðurnar spurðust út varð mikill órói innan Sjálfstæðisflokksins. Gunnar var enda í viðræðum án samþykkis þingflokksins og forystu Sjálfstæðisflokksins. Á hitafundi í þingflokknum 1. febrúar 1980 ákvað meginþorri þingflokksins að fylkja sér að baki Geir og ítrekað var af meirihluta þingflokksins að hann færi með stjórnarmyndunarumboðið að hálfu flokksins. Niðurstaða fundarins varð ekki til að letja Gunnar. Hann hélt umræðunum áfram af krafti og nokkrir þingmenn flokksins ákváðu að styðja Gunnar til verksins. Er fyrir lá að meirihluti alþingismanna stæði að baki viðræðum undir forystu Gunnars veitti Kristján Eldjárn, Gunnari, sem verið hafði andstæðingur hans í forsetakosningunum 1968, formlegt umboð til stjórnarmyndunar. 32 þingmenn studdu viðræðurnar og því fékk Gunnar blessun forseta til að hefja stjórnarmyndunarviðræður. Leiddu þær til þeirrar niðurstöðu að stjórnin varð mynduð og tók hún við völdum þann 8. febrúar 1980.

Einni lengstu stjórnarkreppu Íslandssögunnar hafði lokið með allsögulegum hætti. Dr. Gunnar var orðinn forsætisráðherra elstur allra, sjötugur að aldri. Sjálfstæðisflokkurinn var í sárum, altént verulega klofinn, með stjórnarmyndun varaformanns síns. Sú einkennilega staða var uppi að Sjálfstæðisflokkurinn studdi ekki stjórn varaformanns síns og formaður flokksins, Geir Hallgrímsson, stóð snupraður eftir. Stjórnin var mynduð með samþykki forsetans, sem veitt hafði formlegt umboð Gunnari til handa. Morgunblaðið hafði skrifað af krafti gegn stjórnarmyndun Gunnars og forystumenn Sjálfstæðisflokksins voru æfir yfir ákvörðun forsetans að allt að því veita Gunnari forsæti í ríkisstjórn Íslands. Áralangir erfiðleikar í samskiptum Geirs og Gunnars voru endanlega staðfestir – vík hafði orðið þeirra á milli. Valdataflið í forystusveit flokksins var opinber. Geir hafði tekið stjórnarmyndun Gunnars mjög þunglega og varð vonsvikinn með vinnubrögð þeirra sem hann taldi samherja sína í flokksstarfinu.

Geir leiddi flokkinn áfram að lokinni þessari undarlegu stjórnarmyndun. Var hann í mjög erfiðu hlutskipti. Hann leiddi stjórnarandstöðu sem í var aðeins hluti flokksins og baráttan varð mest áberandi við fyrrum samherja í flokknum, Gunnar og fylgismenn hans. Formaður og varaformaður flokksins tilheyrðu sitt hvorri fylkingunni í þinginu og tekist var á af krafti um hitamálin. Sjálfstæðisflokkurinn gekk þá í gegnum sína dimmustu daga – sína mestu erfiðleika. Hlutskipti Geirs á þessum árum var hvorki öfundsvert né áhugavert að neinu leyti. Háværar raddir voru um það að vísa ætti varaformanninum og fylgismönnum hans úr flokknum – losa sig við þá sem stóðu að stjórnarmyndun á bakvið formann Sjálfstæðisflokksins, Geir Hallgrímsson. Geir barði niður þá umræðu og taldi mikilvægt að tryggja einingu í flokknum þegar þessu tímabili lyki. Var hann alla tíð talsmaður þess að flokkurinn ætti að halda saman, hvað sem á bjátaði.

Tók Geir þar afstöðu sem var mjög til marks um mannkosti hans – hann var heill í þeim málum og staðráðinn í að flokkurinn héldi velli sem stærsti flokkur landsins. Andstæðingum hans tækist ekki að hrósa sigri yfir honum í næstu kosningum og hann skyldi sameinaður í þeim kosningum. Segja má að Geir hafi þá gengið í gegnum mestu umbrotatíma sína sem stjórnmálamaður. En það má ennfremur segja að þessi ár hafi sannað best hversu öflugur stjórnmálamaður Geir var. Á flokksstjórnarfundi í Valhöll 10. febrúar 1980, tveim dögum eftir að Gunnar varð forsætisráðherra, var tekist á fyrir opnum tjöldum og ágreiningurinn var ræddur með hreinskilnum hætti. Rafmagnað andrúmsloft var er Geir og Gunnar tókust í hendur með sögulegum hætti frammi fyrir fjölmiðlamönnum og myndatökuvélum. Tekist var á milli armanna ennfremur á landsfundi 1981. Sögulegt varð þá er Gunnar og kona hans, Vala, sátu sem fastast að lokinni setningarræðu Geirs og klöppuðu ekki.

Á landsfundinum árið 1981 lét Gunnar af varaformennsku og vék úr forystusveit flokksins. Var þetta ennfremur síðasti landsfundurinn sem Gunnar sat. Friðrik Sophusson tók við varaformennsku. Stjórn Gunnars sat til loka kjörtímabilsins vorið 1983, þrátt fyrir mikla erfiðleika og innri átök. Tekist var á um leiðir til að laga erfiðleika í efnahagsmálum. Undir lokin hafði stjórnin misst þingmeirihluta sinn en tókst að sitja allt til enda tímabilsins, þrátt fyrir það. Gunnar gaf ekki kost á sér í þingkosningunum 1983 – hann lést um haustið 1983 úr krabbameini. Í aðdraganda kosninganna var haldið prófkjör flokksins í Reykjavík. Þar urðu þau sögulegu tíðindi að Geir féll niður í sjöunda sæti. Niðurstaðan varð Geir mikið áfall og um tíma hugleiddi hann að taka ekki sætið og láta af formennsku á landsfundi sem kalla skyldi saman fyrir kosningar. Svo fór að hann gerði það ekki. Hann ákvað að klára ferlið vegna kosninganna – sameina flokkinn en víkja svo á landsfundi á tilsettum tíma, í nóvember 1983.

Sjálfstæðisflokkurinn stóð af sér innri vandræði vegna stjórnarmyndunar Gunnars og bauð fram sameinaður í kosningum í apríl 1983. Flokkurinn hlaut góða kosningu, en skugga setti á úrslitin að Geir náði ekki kjöri. Eftir þrettán ára þingsetu var Geir Hallgrímsson formaður flokksins, varaþingmaður að nýju, rétt eins og 1959-1970. Það var sögulegt en Geir var staðráðinn í að klára það verkefni sem hann hafði einsett sér: sameina flokkinn og skilja við forystu hans með þeim hætti sem eftir yrði tekið. Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur náðu samkomulagi um stjórnarmyndun. Það varpar skugga á stöðu mála að mínu mati að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins skyldi ekki bera gæfa til þess við lok stjórnarmyndunarferlisins að kjósa Geir sem forsætisráðherra – en taka þess í stað þann kost að hljóta fleiri ráðherrastóla til að sinna eigin metnaði. Sárnaði Geir mjög þær málalyktir ef marka má lýsingu t.d. í ítarlegri grein Davíðs Oddssonar um Geir í riti Andvara árið 1994.

Geir varð utanríkisráðherra í ríkisstjórn undir forystu Steingríms Hermannssonar formanns Framsóknarflokksins. Á landsfundi flokksins í nóvember 1983 lét Geir af formennsku í flokknum, eftir að hafa leitt hann samfleytt í tíu ár. Sá tími hafði einkennst bæði af sætum sigrum og mótbyr og innri ólgu innan flokksins. Geir studdi Þorstein Pálsson til formennsku og fór það svo að hann náði kjöri. Geir sat áfram í ríkisstjórn eftir landsfundinn og leiddi ráðherrahóp flokksins, enda tók Þorsteinn Pálsson ekki sæti í stjórninni eftir formannskjör sitt. Svo fór að lokum að Þorsteinn tók að ókyrrast og vildi taka sæti í stjórninni. Er að því kom vildi enginn ráðherra flokksins hliðra til fyrir honum. Niðurstaðan varð sú að Geir Hallgrímsson vék úr ríkisstjórn og myndaði rými fyrir eftirmanni sínum á formannsstóli. Það var Geir og fylgismönnum hans nokkur vonbrigði hvernig það þróaðist og fór hann ef marka má lýsingar fullur eftirsjár af vettvangi stjórnmála.

Geir Hallgrímsson varð bankastjóri við Seðlabanka Íslands í janúar 1986, er hann lét af embætti utanríkisráðherra. Tók hann við af Davíð Ólafssyni sem verið hafði bankastjóri allt frá árinu 1961. Geir undi sér vel í störfum sínum í bankanum ef marka má lýsingar í ritum um ævi hans. Hann veiktist af ólæknandi sjúkdómi langt um aldur fram, skömmu eftir að hann tók við embætti. Hann lést 1. september 1990, 64 ára að aldri. Í minningargrein um hann í september 1990 sagði Auður Auðuns svo um Geir, sem var félagi hennar í flokksstarfinu og samstarfsmaður í borgarstjórnarflokknum um langt skeið: “Í stjórnmálum hlýtur maður að hugleiða hvaða kosti maður metur mest í fari stjórnmálamanns. Verða mér þá ofarlega í huga mannkostir Geirs Hallgrímssonar, heilindi hans og heiðarleiki í öllum samskiptum og gætni, samfara miklum framkvæmdahug. Það er manni mikilsvirði að hafa starfað með slíkum drengskaparmanni”.

Jafnan hefur mér þótt mikið til Geirs koma. Ég hef lesið mér mikið til um feril hans og verk hans á vettvangi stjórnmálanna. Skrifaði ég um hann ritgerð eitt sinn, sem þessi grein er að mestu byggð á. Geir hóf stjórnmálaþátttöku ungur og helgaði Sjálfstæðisflokknum krafta sína alla tíð á þeim vettvangi. Stjórnmálaferill hans var lengst af sigursæll, hann var borgarstjóri samfellt í 13 ár og varð forsætisráðherra 1974, eftir glæstasta kosningasigur Sjálfstæðisflokksins. Eftir tvær kosningar 1978 gjörbreyttist staða Geirs og var ferill hans á næstu fimm árum ein sorgarsaga. Flokkurinn klofnaði vegna stjórnarmyndunar 1980 og óróleiki varð innan hans vegna þess. En Geir sannaði styrk sinn með því að landa málinu með því að sameina brotin við lok formannsferils síns 1983. Það merkilegasta við arfleifð Geirs að mínu mati er það að hann skilaði flokknum heilum og vann verk sín af hógværð og heiðarleika – var heill í verkum sínum.

Geir var að mati samherja og andstæðinga í stjórnmálum heilsteyptur stjórnmálamaður sem hugsaði um hagsmuni heildarinnar umfram eigin og stöðu stjórnmálalega séð. Hann var maður hugsjóna og drenglyndis í stjórnmálastarfi. Óháð átökum kom hann fram með drengilegum hætti – talaði opinberlega í ræðu og riti ekki illa um andstæðinga sína, innan flokks og utan. Til dæmis er víða talað um að þrátt fyrir átök rifust hann og Gunnar Thoroddsen aldrei opinberlega. Þrátt fyrir valdabaráttu var tekist á með hætti heiðursmanna. Hann var öflugur á vettvangi stjórnmála - jafnt í meðbyr sem mótbyr. Það er með þeim hætti sem ég tel að hans verði minnst, bæði af samtíðarmönnum og eins þeim sem síðar lesa stjórnmálasögu 20. aldarinnar og kynna sér persónu og verk Geirs Hallgrímssonar á löngum ferli.

Stefán Friðrik Stefánsson
ritstjóri Íslendings, vefrits sjálfstæðisfélaganna á Akureyri og formaður Málfundafélagsins Sleipnis