Yfirlit greina


Eftir Stefán Friðrik Stefánsson 16. desember 2025
Í dag eru 100 ár liðin frá fæðingu Geirs Hallgrímssonar fyrrum forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins. Þegar 80 ár voru liðin frá fæðingu Geirs skrifaði ég ítarlega grein um Geir á vef SUS sem ég ritstýrði þá. Ég endurbirti þá grein hér í tilefni 100 ára ártíðar Geirs. Á löngum stjórnmálaferli sínum varð Geir Hallgrímsson í senn bæði sigursæll leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í borgar- og landsmálum og leiddi hann ennfremur á miklum erfiðleikatímum sem mörkuðust bæði af klofningi innan flokksins og áberandi deilum í forystusveit hans á áttunda og níunda áratug 20. aldar. Honum auðnaðist þó að leiða flokkinn út úr þeirri miklu kreppu og skilaði honum heilum af sér við lok formannsferils síns í flokknum og er hann vék af hinu pólitíska sviði. Í þessum pistli verður farið yfir ævi hans og stjórnmálaferil. Geir Hallgrímsson fæddist í Reykjavík, 16. desember 1925. Foreldrar hans voru Hallgrímur Benediktsson og Áslaug Geirsdóttir Zoëga. Faðir Geirs var áberandi í íslensku þjóðlífi til fjölda ára. Hann rak í upphafi öfluga heildverslun en stofnaði síðar fyrirtækið H. Benediktsson & Co. Hann átti sæti í stjórnum fjölda fyrirtækja og átti þátt í stofna öflug fyrirtæki sem mörg hver setja enn sterkan svip á íslenskt samfélag. Var Hallgrímur einn af þeim kaupsýslumönnum sem gengust fyrir stofnun Verslunarráðs Íslands (sem nú heitir Viðskiptaráð Íslands) og var lengi formaður þess. Hallgrímur tók ennfremur þátt í stjórnmálastarfi. Hann sat í bæjarstjórn Reykjavíkur á árunum 1926-1930 og var aftur kjörinn í hana árið 1946 og átti þar sæti allt til dauðadags í febrúar 1954. Hann var um tíma ennfremur varaþingmaður flokksins í borginni. Geir hafði allt frá upphafi mikinn áhuga á stjórnmálum og haslaði sér völl á þeim vettvangi ungur. Geir útskrifaðist frá Menntaskólanum í Reykjavík á lýðveldisdaginn, 17. júní 1944, sama dag og íslenska lýðveldið var stofnað að Þingvöllum. Að því loknu hóf hann nám í lagadeild Háskóla Íslands og brautskráðist þaðan fjórum árum síðar, árið 1948. Þykir það skammur námstími. Var Geir formaður Stúdentaráðs HÍ síðasta námsár sitt, 1947-1948. Um haustið hélt hann til náms í lögfræði og hagfræði við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum. Vistin varð skemmri en ella vegna snöggra veikinda föður hans ári síðar sem leiddi til þess að hann sneri heim að nýju. Hóf hann þá strax störf við fyrirtæki föður hans. Árið 1951 öðlaðist hann réttindi sem héraðsdómslögmaður og opnaði það ár eigin lögfræðistofu, sem hann rak meðfram öðrum störfum til ársins 1959. Eftir lát föður síns varð hann forstjóri fjölskyldufyrirtækisins á árunum 1955-1959. Varð hann hæstaréttarlögmaður árið 1957. Skömmu fyrir för sína til Bandaríkjanna, árið 1948, kvæntist Geir, Ernu Finnsdóttur. Eignuðust þau fjögur börn. Geir Hallgrímsson var alla tíð mjög virkur í stjórnmálaþátttöku. Hann varð forystumaður í flokksstarfinu strax í upphafi sjötta áratugarins. Hann var kjörinn formaður Heimdallar árið 1952 og gegndi formennsku þar í tvö ár, allt til ársins 1954. Það vor var hann kjörinn til setu í bæjarstjórn Reykjavíkur. Tók Geir sæti á framboðslista flokksins, skömmu eftir lát föður síns, sem lést í upphafi kosningaársins eins og fyrr segir frá. Geir Hallgrímsson var kjörinn formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna á þingi sambandsins í október 1957. Sigraði hann þar Sverri Hermannsson í kjöri. Hlaut Geir 72 atkvæði en Sverrir hlaut 50. Var það í fyrsta skipti sem formaður SUS var kosinn í átakakosningu á sambandsþingi. Geir sat á formannsstóli í SUS eitt tímabil, tvö ár, eða til ársins 1959. Geir fór í framboð fyrsta sinni, eins og fyrr segir frá, í bæjarstjórnarkosningunum (þá var talað um bæjarstjórn í Reykjavík en ekki borgarstjórn eins og síðar varð) 1954. Skipaði hann þá fjórða sæti á framboðslistanum. Hlaut flokkurinn meirihluta atkvæða, þá eins og jafnan til ársins 1978. Tók Geir, sem þá var aðeins 29 ára gamall, strax sæti í bæjarráði að loknum kosningunum. Þá var Gunnar Thoroddsen borgarstjóri í Reykjavík og leiðtogi framboðslistans. Hafði hann tekið við borgarstjóraembætti árið 1947, er forveri hans dr. Bjarni Benediktsson tók sæti í ríkisstjórn. Gunnar var mjög vinsæll borgarstjóri og leiddi flokkinn af krafti í tólf ár. Stærsta sigur sinn vann hann í kosningunum 1958, þegar að Sjálfstæðisflokkurinn hlaut um 60% atkvæða og 10 borgarfulltrúa kjörna. Gunnar og Geir hófu þá fyrst virkt samstarf í stjórnmálum. Óhætt er að segja að það samstarf þeirra hafi verið langvinnt en mjög stormasamt, einkum í seinni tíð eins og ég kem síðar að. Gunnar Thoroddsen tók við embætti fjármálaráðherra í ríkisstjórn Ólafs Thors í nóvember 1959. Þá blasti auðvitað við að hann þyrfti að víkja af borgarstjórastóli. Ekki var ljóst í upphafi hvort að stjórnin myndi verða skammlíf eða endast kjörtímabilið á enda. Var því brugðið á það ráð að tveir tækju við borgarstjóraembættinu í stað Gunnars fyrsta árið, en staða mála yrði metin að því loknu. Ákveðið var að Geir og Auður Auðuns tækju við af Gunnari. Sögulegt varð er Auður varð borgarstjóri. Hún varð enda fyrsta konan til að taka við embættinu. Hún varð ennfremur fyrst kvenna forseti bæjarstjórnar nokkrum árum áður og hafði lengi verið í forystusveit flokksins í borgarmálum. Hún varð fyrsta konan til að taka við ráðherraembætti. Hún varð dómsmálaráðherra árið 1970. Auður varð fyrsta konan sem brautskráðist úr lagadeild Háskóla Íslands. Það er því óhætt að segja að Auður hafi víða markað sér spor í söguna. Á árinu 1960 var ákveðið í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins að Geir tæki einn við borgarstjóraembættinu og Gunnar Thoroddsen baðst formlega lausnar frá embættinu, en sat í borgarstjórn til loka kjörtímabilsins. Stjórn Ólafs hafði þá orðið mun fastari í sessi. Ekki þurfti að hræðast mikið um líf hennar næstu árin. Varð enda fyrrnefnd stjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, sem gengur í sögubókum samtímans undir nafninu Viðreisnarstjórnin, langlífasta ríkisstjórn lýðveldistímans og sat í tólf ár, allt til ársins 1971. Geir tók við embætti borgarstjóra af krafti og vann sér mikinn sess í embættinu og þótti glæsilegur borgarstjóri að sögn flestra. Í borgarstjórastarfinu naut Geir Hallgrímsson mikilla vinsælda. Hann var stjórnmálamaður sem leiddi áfram mikilvæg verkefni – var maður framkvæmda og staðfestu. Á borgarstjóraferli hans var borgin malbikuð og ráðist var í mörg öflug verkefni sem báru vitni farsælli forystu Geirs í borgarmálum. Í alþingiskosningunum 1959 gaf Geir kost á sér á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og varð varaþingmaður flokksins til fjölda ára og tók nokkrum sinnum sæti á þingi. Kjörtímabilið 1967-1971 var hann fyrsti varamaður flokksins í borginni. Árið 1970 vann Geir sinn þriðja kosningasigur í borgarstjórn. Var sá sigur mjög naumur og töldu margir á kjördag að borgin væri töpuð og stefna myndi í vinstristjórn í borginni. Þá var viðreisnarstjórnin nokkuð tekin að verða óvinsæl vegna aðsteðjandi vanda í samfélaginu í kjölfar hruns síldarstofnanna undir lok sjöunda áratugarins. Rúmum mánuði eftir borgarstjórnarkosningarnar sumarið 1970 urðu mikil þáttaskil innan Sjálfstæðisflokksins sem höfðu mikil áhrif á stjórnmálaferil Geirs. 10. júlí 1970 fórst Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og formaður flokksins, í eldsvoða í forsætisráðherrabústaðnum á Þingvöllum ásamt eiginkonu sinni og dóttursyni. Mikill harmur var kveðinn að þjóðinni. Jóhann Hafstein tók við formennsku í Sjálfstæðisflokknum og embætti forsætisráðherra. Viðreisnarstjórnin sat til loka kjörtímabilsins, en Auður Auðuns tók sæti í ríkisstjórninni nokkrum mánuðum síðar, fyrst kvenna á ráðherrastóli, eins og fyrr hefur verið sagt frá. Ákveðið var að boða ekki til kosninga um haustið, vegna andláts Bjarna, eins og margir sjálfstæðismenn höfðu viljað. Ákveðið var að kosningar yrðu á áður tilsettum tíma, í júní 1971. Geir Hallgrímsson tók sæti Bjarna á Alþingi. Hann var orðinn þingmaður samhliða borgarstjóraembættinu. Hann gaf kost á sér í prófkjöri flokksins haustið 1970. Sigraði hann í prófkjörinu og hlaut fyrsta sæti listans. Jóhann Hafstein sem orðinn var formaður flokksins og forsætisráðherra lenti í öðru sætinu. Voru þetta Jóhanni mikil vonbrigði. Ákvað Geir að afsala sér fyrsta sætinu til Jóhanns og tók annað sætið þess í stað. Þótti þetta vera mjög til vitnis um drenglyndi Geirs. Í prófkjörinu 1970 gaf Gunnar Thoroddsen kost á sér og hlaut góða kosningu. Markaði það endurkomu hans í stjórnmálin. Fimm árum áður hafði hann yfirgefið hið pólitíska svið, verandi fjármálaráðherra í viðreisnarstjórninni og varaformaður flokksins. Tók Jóhann Hafstein þá við varaformennsku og sat á þeim stóli þar til að Bjarni lést. Tók Gunnar við sendiherraembætti í Kaupmannahöfn. Gunnar gaf kost á sér í forsetakosningunum 1968, er Ásgeir Ásgeirsson, tengdafaðir hans, lét af embætti. Beið Gunnar lægri hlut fyrir dr. Kristjáni Eldjárn þjóðminjaverði. Hélt hann að því loknu til sendiherrastarfa að nýju. Gunnar kom heim að nýju í ársbyrjun 1970 og tók sæti sem dómari við hæstarétt Íslands. Við andlát Bjarna, síðar um árið, tók hann ákvörðun um að hefja á ný stjórnmálaþátttöku og vék úr réttinum og gaf kost á sér í prófkjörinu. Á landsfundi árið 1971 tókust Geir og Gunnar á um varaformennsku flokksins. Geir hlaut 375 atkvæði en Gunnar 328. Fyrstu, en langt í frá seinustu rimmu þeirra, lauk með dramatískum hætti. Geir Hallgrímsson lét af embætti borgarstjóra í Reykjavík þann 1. desember 1972. Eftirmaður hans í embættinu varð Birgir Ísleifur Gunnarsson. Helgaði Geir sig landsmálum við þau þáttaskil og gaf ekki kost á sér í borgarstjórnarkosningunum 1974, og vék þá af þeim vettvangi eftir 20 ára setu. Geir var endurkjörinn varaformaður flokksins á landsfundi árið 1973 og Jóhann sem formaður. Nokkrum vikum eftir landsfundinn, í októbermánuði 1973, veiktist Jóhann Hafstein snögglega og ákvað að segja af sér formennsku flokksins vegna þeirra veikinda. Þáttaskil höfðu orðið á stjórnmálaferli Geirs Hallgrímssonar. 47 ára að aldri var hann orðinn formaður Sjálfstæðisflokksins. Magnús Jónsson frá Mel, sem verið hafði fjármálaráðherra í viðreisnarstjórninni 1965-1971, var kjörinn varaformaður flokksins af miðstjórn nokkrum vikum síðar og gegndi varaformennsku í tæpt ár. Geir Hallgrímsson leiddi Sjálfstæðisflokkinn til glæsilegasta kosningasigurs síns í landsmálum í alþingiskosningunum 1974. Hlaut flokkurinn rúmlega 42% atkvæða og 25 þingmenn kjörna af 60. Til kosninganna hafði verið boðað með sögulegum hætti. Ólafur Jóhannesson forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, hafði rofið þing með atbeini Kristjáns Eldjárns forseta, er stefndi í að vinstristjórnin hefði misst þingmeirihluta sinn. Fór Kristján eftir ráðum Ólafs og boðaði til kosninga, þó ekki hefði reynt á að annar meirihluti væri til staðar sem gæti tekið við stjórn landsins. Flokkurinn hlaut glæsilega kosningu og hlaut Geir stjórnarmyndunarumboð að loknum kosningunum. Að lokinni nokkrri stjórnarkreppu mynduðu Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur ríkisstjórn undir forsæti Geirs. 48 ára að aldri var Geir Hallgrímsson orðinn forsætisráðherra og hafði hlotið eldskírn í landsmálaforystu með glæsilegum árangri í kosningunum. Um haustið 1974 varð Magnús frá Mel að segja af sér varaformennsku vegna veikinda. Gunnar Thoroddsen var kjörinn til varaformennsku af miðstjórn. Gunnar sem snúið hafði aftur eins og fyrr sagði í pólitík í kosningunum 1971 hafði endurheimt varaformennskuna níu árum eftir að hafa látið af henni til að hasla sér völl sem sendiherra í Danmörku og þrem árum eftir að hafa tapað í varaformannskjöri fyrir Geir. Tók Gunnar sæti í ríkisstjórn Geirs sem iðnaðar- og félagsmálaráðherra. Ásamt þeim sátu í stjórninni af hálfu flokksins þeir Matthías Á. Mathiesen og Matthías Bjarnason. Stjórnin sat kjörtímabilið á enda. Nokkrir erfiðleikar höfðu orðið í landsmálum undir lok kjörtímabilsins og neyddist stjórnin til að grípa til óvinsælla ákvarðana í kjaraviðræðum. Leiddu þær aðgerðir til óvinsælda Sjálfstæðisflokksins og ríkisstjórnarinnar. Missti flokkurinn völdin í borgarstjórnarkosningunum sumarið 1978, fyrsta sinni í sögu hans. Var það tap flokknum og forystumönnum hans mikil vonbrigði og hafði áhrif á stemmninguna innan flokksins í þingkosningunum sem fram fóru síðar sama sumar. Sjálfstæðisflokkurinn tapaði allnokkru fylgi í þeim kosningum – missti fimm þingmenn. Samtals misstu stjórnarflokkarnir tíu þingsæti. Í stað þess að hafa 42 sæti á Alþingi höfðu stjórnarflokkarnir 32 sæti af 60. Framsóknarflokkurinn var orðinn minnsti flokkur landsins eftir kosningarnar. Vinstriflokkarnir hlutu sögulegan sigur, bættu við sig tíu sætum. Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag hlutu 28 þingsæti af 60, 14 hvor. Vissulega hafði ríkisstjórn enn meirihluta í þinginu. Tapið varð þó það mikið að ljóst varð fljótlega eftir kosningar að stjórnin myndi ekki halda áfram. Stjórnarkreppa var meginpart sumarsins. Að lokum samdist um stjórnarsamstarf vinstriflokkanna og Framsóknarflokks, undir forsæti Ólafs Jóhannessonar, en Framsókn hafði eins og fyrr segir beðið afhroð í kosningunum. Geir Hallgrímsson varð leiðtogi stjórnarandstöðunnar á Alþingi í septemberbyrjun 1978. Fjögurra forsætisráðherraferli Geirs var lokið og flokkurinn var í sárum – sat einn eftir í þingminnihluta. Á nokkrum vikum hafði Sjálfstæðisflokkurinn bæði misst völdin í Reykjavíkurborg og stjórnarforystuna í ríkisstjórn. Krísuástand var innan flokksins. Á fundum innan flokksfélaga og í forystusveitinni var skýringa leitað á sögulegu tapi flokksins og niðurlægingu í kosningunum tveim. Þá kom í fyrsta skipti með almennilegum hætti upp niðurbæld kreppa sem ríkti í samskiptum milli þeirra Geirs og Gunnars. Segja má að valdabarátta hafi ríkt milli þeirra til fjölda ára, allt frá því í borgarstjórn þar til að þeir voru formaður og varaformaður flokksins. Eins og fyrr segir höfðu þeir tekist á um varaformennsku flokksins árið 1971 og aldrei í raun gróið fyllilega um heilt þar á milli. Á næstu árum átti valdabarátta þeirra eftir að taka á sig aðra og beittari mynd. Svo fór að vinstristjórnin gafst upp eftir stormasama samvist í októberbyrjun 1979. Alþýðuflokkurinn sprengdi stjórn Ólafs með miklum hvelli og gekk á dyr. Það rúma ár sem hún sat hafði hún gengið í gegnum mikinn og erfiðan öldugang. Stjórninni hafði aldrei tekist að vera heilsteypt og stóð allt eftir í logum þegar fallið kom. Stjórnarkreppa var skammvinn. Sjálfstæðisflokkurinn ákvað, að tillögu Geirs, en við andstöðu Gunnars og fylgismanna hans innan þingflokksins, að verja minnihlutastjórn Alþýðuflokksins falli og boðað var til alþingiskosninga í desemberbyrjun. Um miðjan október tók stjórn Alþýðuflokksins formlega við völdum og Benedikt Gröndal varð forsætisráðherra. Að loknum kosningunum var sama pattstaðan uppi og verið hafði eftir kosningarnar ári áður. Formenn flokkanna skiptust á að fara með umboð til stjórnarmyndunar. Mikið vantaði á traust og eðlileg samskipti milli forystumanna stjórnmálaflokkanna. Geir hafði stjórnarmyndunarumboð í nokkrar vikur í desember og janúar. Er líða tók að lokum janúarmánaðar 1980 og aðeins vangaveltur höfðu farið á milli forystumanna flokkanna eftir tveggja mánaða stjórnarkreppu tók Kristján Eldjárn mjög að ókyrrast. Lagði hann þá drög að utanþingsstjórn. Náði vinna Kristjáns það langt að búið var að velja flestalla ráðherra stjórnarinnar og við blasti að Jóhannes Nordal seðlabankastjóri, myndi veita henni forsæti. Var þessi vinna vel á veg komin. Eins og við má búast er staða mála með myndun utanþingsstjórnar á skrifborði forsetans varð ljós tóku stjórnmálamennirnir við sér af hraði. Í tómarúminu sem var í miðju stjórnleysinu greip aldursforseti Alþingis, dr. Gunnar Thoroddsen, af skarið fyrstur allra. Hann efndi til viðræðna við forystumenn Alþýðubandalags og Framsóknarflokks. Leiddi það af sér formlegar viðræður um myndun stjórnar undir forsæti Gunnars. Auk Gunnars komu að viðræðunum nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Er viðræðurnar spurðust út varð mikill órói innan Sjálfstæðisflokksins. Gunnar var enda í viðræðum án samþykkis þingflokksins og forystu Sjálfstæðisflokksins. Á hitafundi í þingflokknum 1. febrúar 1980 ákvað meginþorri þingflokksins að fylkja sér að baki Geir og ítrekað var af meirihluta þingflokksins að hann færi með stjórnarmyndunarumboðið að hálfu flokksins. Niðurstaða fundarins varð ekki til að letja Gunnar. Hann hélt umræðunum áfram af krafti og nokkrir þingmenn flokksins ákváðu að styðja Gunnar til verksins. Er fyrir lá að meirihluti alþingismanna stæði að baki viðræðum undir forystu Gunnars veitti Kristján Eldjárn, Gunnari, sem verið hafði andstæðingur hans í forsetakosningunum 1968, formlegt umboð til stjórnarmyndunar. 32 þingmenn studdu viðræðurnar og því fékk Gunnar blessun forseta til að hefja stjórnarmyndunarviðræður. Leiddu þær til þeirrar niðurstöðu að stjórnin varð mynduð og tók hún við völdum þann 8. febrúar 1980. Einni lengstu stjórnarkreppu Íslandssögunnar hafði lokið með allsögulegum hætti. Dr. Gunnar var orðinn forsætisráðherra elstur allra, sjötugur að aldri. Sjálfstæðisflokkurinn var í sárum, altént verulega klofinn, með stjórnarmyndun varaformanns síns. Sú einkennilega staða var uppi að Sjálfstæðisflokkurinn studdi ekki stjórn varaformanns síns og formaður flokksins, Geir Hallgrímsson, stóð snupraður eftir. Stjórnin var mynduð með samþykki forsetans, sem veitt hafði formlegt umboð Gunnari til handa. Morgunblaðið hafði skrifað af krafti gegn stjórnarmyndun Gunnars og forystumenn Sjálfstæðisflokksins voru æfir yfir ákvörðun forsetans að allt að því veita Gunnari forsæti í ríkisstjórn Íslands. Áralangir erfiðleikar í samskiptum Geirs og Gunnars voru endanlega staðfestir – vík hafði orðið þeirra á milli. Valdataflið í forystusveit flokksins var opinber. Geir hafði tekið stjórnarmyndun Gunnars mjög þunglega og varð vonsvikinn með vinnubrögð þeirra sem hann taldi samherja sína í flokksstarfinu. Geir leiddi flokkinn áfram að lokinni þessari undarlegu stjórnarmyndun. Var hann í mjög erfiðu hlutskipti. Hann leiddi stjórnarandstöðu sem í var aðeins hluti flokksins og baráttan varð mest áberandi við fyrrum samherja í flokknum, Gunnar og fylgismenn hans. Formaður og varaformaður flokksins tilheyrðu sitt hvorri fylkingunni í þinginu og tekist var á af krafti um hitamálin. Sjálfstæðisflokkurinn gekk þá í gegnum sína dimmustu daga – sína mestu erfiðleika. Hlutskipti Geirs á þessum árum var hvorki öfundsvert né áhugavert að neinu leyti. Háværar raddir voru um það að vísa ætti varaformanninum og fylgismönnum hans úr flokknum – losa sig við þá sem stóðu að stjórnarmyndun á bakvið formann Sjálfstæðisflokksins, Geir Hallgrímsson. Geir barði niður þá umræðu og taldi mikilvægt að tryggja einingu í flokknum þegar þessu tímabili lyki. Var hann alla tíð talsmaður þess að flokkurinn ætti að halda saman, hvað sem á bjátaði. Tók Geir þar afstöðu sem var mjög til marks um mannkosti hans – hann var heill í þeim málum og staðráðinn í að flokkurinn héldi velli sem stærsti flokkur landsins. Andstæðingum hans tækist ekki að hrósa sigri yfir honum í næstu kosningum og hann skyldi sameinaður í þeim kosningum. Segja má að Geir hafi þá gengið í gegnum mestu umbrotatíma sína sem stjórnmálamaður. En það má ennfremur segja að þessi ár hafi sannað best hversu öflugur stjórnmálamaður Geir var. Á flokksstjórnarfundi í Valhöll 10. febrúar 1980, tveim dögum eftir að Gunnar varð forsætisráðherra, var tekist á fyrir opnum tjöldum og ágreiningurinn var ræddur með hreinskilnum hætti. Rafmagnað andrúmsloft var er Geir og Gunnar tókust í hendur með sögulegum hætti frammi fyrir fjölmiðlamönnum og myndatökuvélum. Tekist var á milli armanna ennfremur á landsfundi 1981. Sögulegt varð þá er Gunnar og kona hans, Vala, sátu sem fastast að lokinni setningarræðu Geirs og klöppuðu ekki. Á landsfundinum árið 1981 lét Gunnar af varaformennsku og vék úr forystusveit flokksins. Var þetta ennfremur síðasti landsfundurinn sem Gunnar sat. Friðrik Sophusson tók við varaformennsku. Stjórn Gunnars sat til loka kjörtímabilsins vorið 1983, þrátt fyrir mikla erfiðleika og innri átök. Tekist var á um leiðir til að laga erfiðleika í efnahagsmálum. Undir lokin hafði stjórnin misst þingmeirihluta sinn en tókst að sitja allt til enda tímabilsins, þrátt fyrir það. Gunnar gaf ekki kost á sér í þingkosningunum 1983 – hann lést um haustið 1983 úr krabbameini. Í aðdraganda kosninganna var haldið prófkjör flokksins í Reykjavík. Þar urðu þau sögulegu tíðindi að Geir féll niður í sjöunda sæti. Niðurstaðan varð Geir mikið áfall og um tíma hugleiddi hann að taka ekki sætið og láta af formennsku á landsfundi sem kalla skyldi saman fyrir kosningar. Svo fór að hann gerði það ekki. Hann ákvað að klára ferlið vegna kosninganna – sameina flokkinn en víkja svo á landsfundi á tilsettum tíma, í nóvember 1983. Sjálfstæðisflokkurinn stóð af sér innri vandræði vegna stjórnarmyndunar Gunnars og bauð fram sameinaður í kosningum í apríl 1983. Flokkurinn hlaut góða kosningu, en skugga setti á úrslitin að Geir náði ekki kjöri. Eftir þrettán ára þingsetu var Geir Hallgrímsson formaður flokksins, varaþingmaður að nýju, rétt eins og 1959-1970. Það var sögulegt en Geir var staðráðinn í að klára það verkefni sem hann hafði einsett sér: sameina flokkinn og skilja við forystu hans með þeim hætti sem eftir yrði tekið. Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur náðu samkomulagi um stjórnarmyndun. Það varpar skugga á stöðu mála að mínu mati að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins skyldi ekki bera gæfa til þess við lok stjórnarmyndunarferlisins að kjósa Geir sem forsætisráðherra – en taka þess í stað þann kost að hljóta fleiri ráðherrastóla til að sinna eigin metnaði. Sárnaði Geir mjög þær málalyktir ef marka má lýsingu t.d. í ítarlegri grein Davíðs Oddssonar um Geir í riti Andvara árið 1994. Geir varð utanríkisráðherra í ríkisstjórn undir forystu Steingríms Hermannssonar formanns Framsóknarflokksins. Á landsfundi flokksins í nóvember 1983 lét Geir af formennsku í flokknum, eftir að hafa leitt hann samfleytt í tíu ár. Sá tími hafði einkennst bæði af sætum sigrum og mótbyr og innri ólgu innan flokksins. Geir studdi Þorstein Pálsson til formennsku og fór það svo að hann náði kjöri. Geir sat áfram í ríkisstjórn eftir landsfundinn og leiddi ráðherrahóp flokksins, enda tók Þorsteinn Pálsson ekki sæti í stjórninni eftir formannskjör sitt. Svo fór að lokum að Þorsteinn tók að ókyrrast og vildi taka sæti í stjórninni. Er að því kom vildi enginn ráðherra flokksins hliðra til fyrir honum. Niðurstaðan varð sú að Geir Hallgrímsson vék úr ríkisstjórn og myndaði rými fyrir eftirmanni sínum á formannsstóli. Það var Geir og fylgismönnum hans nokkur vonbrigði hvernig það þróaðist og fór hann ef marka má lýsingar fullur eftirsjár af vettvangi stjórnmála. Geir Hallgrímsson varð bankastjóri við Seðlabanka Íslands í janúar 1986, er hann lét af embætti utanríkisráðherra. Tók hann við af Davíð Ólafssyni sem verið hafði bankastjóri allt frá árinu 1961. Geir undi sér vel í störfum sínum í bankanum ef marka má lýsingar í ritum um ævi hans. Hann veiktist af ólæknandi sjúkdómi langt um aldur fram, skömmu eftir að hann tók við embætti. Hann lést 1. september 1990, 64 ára að aldri. Í minningargrein um hann í september 1990 sagði Auður Auðuns svo um Geir, sem var félagi hennar í flokksstarfinu og samstarfsmaður í borgarstjórnarflokknum um langt skeið: “Í stjórnmálum hlýtur maður að hugleiða hvaða kosti maður metur mest í fari stjórnmálamanns. Verða mér þá ofarlega í huga mannkostir Geirs Hallgrímssonar, heilindi hans og heiðarleiki í öllum samskiptum og gætni, samfara miklum framkvæmdahug. Það er manni mikilsvirði að hafa starfað með slíkum drengskaparmanni”. Jafnan hefur mér þótt mikið til Geirs koma. Ég hef lesið mér mikið til um feril hans og verk hans á vettvangi stjórnmálanna. Skrifaði ég um hann ritgerð eitt sinn, sem þessi grein er að mestu byggð á. Geir hóf stjórnmálaþátttöku ungur og helgaði Sjálfstæðisflokknum krafta sína alla tíð á þeim vettvangi. Stjórnmálaferill hans var lengst af sigursæll, hann var borgarstjóri samfellt í 13 ár og varð forsætisráðherra 1974, eftir glæstasta kosningasigur Sjálfstæðisflokksins. Eftir tvær kosningar 1978 gjörbreyttist staða Geirs og var ferill hans á næstu fimm árum ein sorgarsaga. Flokkurinn klofnaði vegna stjórnarmyndunar 1980 og óróleiki varð innan hans vegna þess. En Geir sannaði styrk sinn með því að landa málinu með því að sameina brotin við lok formannsferils síns 1983. Það merkilegasta við arfleifð Geirs að mínu mati er það að hann skilaði flokknum heilum og vann verk sín af hógværð og heiðarleika – var heill í verkum sínum. Geir var að mati samherja og andstæðinga í stjórnmálum heilsteyptur stjórnmálamaður sem hugsaði um hagsmuni heildarinnar umfram eigin og stöðu stjórnmálalega séð. Hann var maður hugsjóna og drenglyndis í stjórnmálastarfi. Óháð átökum kom hann fram með drengilegum hætti – talaði opinberlega í ræðu og riti ekki illa um andstæðinga sína, innan flokks og utan. Til dæmis er víða talað um að þrátt fyrir átök rifust hann og Gunnar Thoroddsen aldrei opinberlega. Þrátt fyrir valdabaráttu var tekist á með hætti heiðursmanna. Hann var öflugur á vettvangi stjórnmála - jafnt í meðbyr sem mótbyr. Það er með þeim hætti sem ég tel að hans verði minnst, bæði af samtíðarmönnum og eins þeim sem síðar lesa stjórnmálasögu 20. aldarinnar og kynna sér persónu og verk Geirs Hallgrímssonar á löngum ferli. Stefán Friðrik Stefánsson ritstjóri Íslendings, vefrits sjálfstæðisfélaganna á Akureyri og formaður Málfundafélagsins Sleipnis
26. nóvember 2025
Öflugt millilandaflug til Akureyrar er ekki gæluverkefni heldur drifkraftur sem skapar tækifæri og beinan efnahagslegan, samfélagslegan og umhverfislegan ávinning fyrir landið allt. Flug sem skapar verðmæti Ef Ísland ætlar að byggja upp fjölbreyttara, sjálfbærara og sterkara efnahagslíf, þarf landið að nýta alla sína styrkleika. Norðurland sem atvinnusvæði hefur verið í sókn. Millilandaflug um Akureyri er eitt þeirra verkefna sem getur stutt við hana, umbreytt ferðamennsku, atvinnulífi og byggð í senn – og styrkt stöðu Íslands á alþjóðavettvangi. Það er hlutverk sem þjónar ekki aðeins Norðurlandi – heldur Íslandi öllu. Nýleg skýrsla Rannsóknamiðstöðvar ferðamála sýnir að beint millilandaflug til Akureyrar stuðlar nú þegar að betri dreifingu ferðamanna um landið og styrkir ferðaþjónustu utan suðvesturhornsins. Þetta staðfestir reynslan af vetrarflugi easyJet 2023–2024, en ferðafólk sem nýtti sér þá flugið eyddi um 1,2 milljörðum króna á svæðinu – á rólegasta tíma ársins. Áhrifin ná líka langt út fyrir ferðaþjónustuna. Flugið skapaði tugi milljóna í skatttekjur til sveitarfélaga og ríkissjóðs og stuðlaði að auknum stöðugleika í atvinnulífi á Norðurlandi. Akureyri tengir Ísland betur við umheiminn Góðar tengingar við umheiminn eru auk þess forsenda að svæði séu samkeppnishæf um uppbyggingu og mannauð. Beinar flugtengingar laða að erlenda fjárfestingu, ný störf og hátækniverkefni – ekki síst þar sem þörf er á erlendum sérfræðingum og greiðu aðgengi að alþjóðamörkuðum. Millilandaflugið er því ekki aðeins mikilvægt fyrir ferðaþjónustu á öllu norðanverðu landinu, heldur sömuleiðis fyrir orkuiðnað, sjávarútveg, nýsköpun og menntun svo nokkuð sé nefnt. Með öflugum tengingum eykst bæði byggðafesta og möguleikar atvinnulífsins að norðan – og um leið styrkist íslenskt efnahagslíf í heild. Ég ætla því að leyfa mér að fullyrða að með eflingu millilandaflugs um Akureyrarflugvöll eykst samkeppnishæfni Íslands í heild. Tími til að hugsa stórt Haustþing Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE), sem haldið var í október síðastliðnum, hvatti í ályktun sinni stjórnvöld til að efla flugþróunarsjóð, styrkja innviði Akureyrarflugvallar og setja á fót sérstaka stjórn fyrir flugvöllinn. Slík stjórn gæti mótað framtíðarstefnu, tryggt samkeppnishæfni, samhæft uppbyggingu og haft leiðandi hlutverk í markaðssetningu flugsins í samstarfi við Markaðsstofu Norðurlands og Íslandsstofu. Tryggt millilandaflug er ekki kostnaður heldur fjárfesting í uppbyggingu, samkeppnishæfni og fleiri tækifærum. Til þess þarf fyrirsjáanleika og sameiginlegan vilja. Það er kominn tími til að líta á Akureyri sem það sem hún í raun er – aðra gátt inn í landið. Lára Halldóra Eiríksdóttir formaður stjórnar SSNE og bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri
13. nóvember 2025
Sjálfstæðisflokkurinn er stærsta umbótaaflið í íslenskum stjórnmálum. Sú staðreynd skiptir öllu í þeirri stöðu sem þjóðin stendur frammi fyrir. Þegar aðrir setja fram frasa og nýyrði fyrir skattahækkanir setjum við fram skýrar leiðir til raunverulegra umbóta. Skýr stefna – sterkara Ísland. Á laugardaginn var héldum við sjálfstæðismenn vel heppnaðan fund þar sem við ræddum leiðina áfram, en tilgangur fundarins var að senda skýr skilaboð um að landsmenn hafa aðra valkosti en skattahækkunarstjórn Kristrúnar Frostadóttur. Fyrst efnahagsmálin. Við sjálfstæðismenn berjumst gegn skattahækkunarvæðingu og viljum setja sjálfbæran rekstur ríkisins í forgang. Við leggjum til lægri tekjuskatt á fjölskyldur og fyrirtæki. Við viljum taka tryggingagjaldið til gagngerrar endurskoðunar og hækka veltumörk virðisaukaskatts svo smærri fyrirtæki og einyrkjar fái svigrúm til að ráða, fjárfesta og borga hærri laun. Stöðug ríkisfjármál, agi í útgjöldum og einfaldara regluverk eru forsendur lægri vaxta. Þannig verður meira eftir í veskinu í lok mánaðar og trúverðugleiki eykst í baráttunni við verðbólgu. Húsnæðismálin eru prófsteinn á stjórnsýslu og forgangsröðun. Draumur fólks um eigið heimili á ekki að fjarlægjast. Við skulum muna að séreignarstefnan er frelsisstefna og leið að því markmiði að launafólk búi við fjárhagslegt sjálfstæði. Við munum auka framboð lóða, stytta afgreiðslutíma leyfa og fækka reglum sem hækka byggingarkostnað án ávinnings fyrir öryggi eða gæði. Við viljum hækka endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu á byggingarstað, fella niður stimpilgjöld við íbúðakaup einstaklinga og gera fólki kleift að nota séreignarsparnað betur og lengur. Eign á að vera á allra færi. Innviðir og orka ráða lífsgæðum á Íslandi til næstu áratuga og þar er markmiðið skýrt. Við viljum klára helstu samgöngumannvirki og jarðgöng á tuttugu og fimm árum með ábyrgri fjármögnun. Lífeyrissjóðir geta tekið þátt á markaðskjörum. Útboð verða gegnsæ og verklistar opinberir. Við nýtum jarðvarma og vatnsafl af skynsemi og tökum nýja tækni í notkun til að lækka orkukostnað heimila og fyrirtækja. Öflugir orkuinnviðir skapa störf, auka framleiðni og styrkja græna samkeppnishæfni landsins. Sjálfstæðisflokkurinn náði árangri í útlendingamálum Í útlendingamálum er línan skýr. Vinnandi fólk sem vill leggja sitt af mörkum er velkomið. Þeim sem hingað koma til að misnota kerfið og leggja ekkert til samfélagsins verður vísað frá landi. Svo einfalt er það. Það ber að fylgja lögum og reglum, málsmeðferð verður hraðari og endursendingar verða skilvirkari. Þannig tryggjum við réttlæti og traust á kerfinu. Móttaka á að hefjast við landamærin þannig að umsóknir fái skjóta niðurstöðu og þeir sem fá höfnun komist ekki inn í íslenskt samfélag. Þeir sem fá vernd eiga að fá markvissa aðlögun og við gerum skýra kröfu um þátttöku þeirra í samfélaginu. Þetta er sanngjarnt, skilvirkt og byggir upp traust. Heilbrigðiskerfið á að þjóna sjúklingum, ekki ferlum. Heilsugæslan verður að vera hryggjarstykkið og Landspítali á að sinna flóknustu tilfellum. Við eigum að nýta sjálfstæðan rekstur þar sem hann styttir bið og bætir gæði. Við viljum fjölga heilbrigðisstarfsfólki, bæta starfsumhverfi og skapa hvata til að laða unga sérfræðinga heim. Betra aðgengi að fjarlækningum um land allt dregur úr ójöfnuði og sparar tíma og fjármuni. Menntakerfið er grundvöllur framfara og við gerum þá sjálfsögðu kröfu að eftir tíu ára grunnskólanám kunni börnin okkar að lesa, skrifa og reikna. Þá kemur allt hitt. Við viljum skýrar og gagnlegar mælingar á árangri sem kennarar og foreldrar geta notað. Við treystum kennarastéttinni og hvetjum til fjölbreytni í rekstri þar sem það bætir þjónustu við börn og foreldra. Við viljum taka upp samræmd próf sem raunhæft viðmið. Við viljum sjá sterka grunnfærni, meira sjálfstraust og betri lífskjör til framtíðar. Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur stórra hugmynda og framkvæmda. Við ætlum að leiða næsta framfaraskeið á Íslandi með ábyrgð, festu og trú á krafta fólksins í landinu. Nú er tími skýrra ákvarðana sem sjást í daglegu lífi. Nú er tími lægri álaga, hraðari afgreiðslu og sterkari grunnstoða. Skýr stefna – sterkara Ísland. Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Sjálfstæðisflokksins
1. nóvember 2025
Í dag, 1. nóvember, eru liðin tvö ár síðan byrjað var að rukka varaflugvallagjald á nýjan leik. Gamla varaflugvallagjaldið var lagt af í maí 2011 og hafði það slæmar afleiðingar á flugvallakerfi landsins. Niðurlagning þess var mikið óheillaskref og varúðarorð þeirra sem best þekktu til voru að engu höfð. Tekjustofn til nýframkvæmda og viðhalds á flugvöllum landsins hrundi á sama tíma og millilandaflug til og frá Íslandi margfaldaðist. Alþjóðaflugvallakerfið Á Íslandi eru fjórir alþjóðaflugvellir. Keflavíkurflugvöllur, Akureyrarflugvöllur, Egilsstaðaflugvöllur og Reykjavíkurflugvöllur. Þessir fjórir flugvellir mynda alþjóðaflugvallakerfi landsins og gegna allir mikilvægu hlutverki innan þess. Hér er rétt að hafa í huga að leiðin er löng frá Íslandi til annarra alþjóðaflugvalla við N-Atlantshafið. Keflavíkurflugvöllur er rekinn af Isavia ohf og allar nýframkvæmdir, viðhald og rekstur þess flugvallar er fjármagnaður í gegnum efnahagsreikning félagsins. Flugvallakerfi landsins fyrir utan Keflavíkurflugvöll er rekið í gegnum þjónustusamning sem íslenska ríkið hefur gert við Isavia Innanlandsflugvelli ehf. sem er dótturfyrirtæki Isavia ohf. Í þeim samningi hefur á undanförnum árum einungis verið gert ráð fyrir 350-500 milljónum í nýframkvæmdir og viðhald við flugvallakerfið allt, að Keflavíkurflugvelli undanskildum. Nýtt varaflugvallagjald Eftir að gamla varaflugvallagjaldið var lagt af fyrir að verða 15 árum varð til mikil innviðaskuld í kerfinu, flugbrautir og fasteignir á flugvöllunum byrjuðu að grotna niður. Markmið nýs varaflugvallagjalds var að bæta úr þessari slæmu stöðu. Greinarhöfundur stýrði á sínum tíma vinnu hóps sem skilaði skýrslu hvernig best væri að standa að málum til þess að styrkja fjármögnum alþjóðaflugvallakerfis landsins fyrir utan Keflavíkurflugvöll. Nýtt varaflugvallagjald skyldi fjármagna nýframkvæmdir á Akureyrarflugvelli, Egilsstaðaflugvelli og Reykjavíkurflugvelli þannig að vellirnir gætu betur sinnt skyldum sínum sem alþjóðaflugvellir og því mikilvæga hlutverki að vera varaflugvellir í millilandafluginu fyrir hvern annan. Hér er rétt að benda á að það varaflugvallagjald sem nú er rukkað er margfalt lægra en gamla varaflugvallagjaldið á hvern flugfarþega. Miðað við gefnar forsendur má reikna með að varaflugvallagjaldið skili um 1,5 milljörðum króna á ári. Það fór að sjá til sólar fyrir tveimur árum þegar nýja varaflugvallagjaldið var tekið upp. Því er það geysilega mikilvægt að innviðaráðherra haldi því til haga í nýrri samgönguáætlun sem er boðuð á næstu vikum að nýja varaflugvallagjaldið renni áram til alþjóðaflugvallanna þriggja á Akureyri, Egilsstöðum og í Reykjavík og þá einnig að það fjármagn til nýframkvæmda og viðhalds í innanlandsflugvallakerfinu og til lendingarstaða haldi sér í gegnum þjónustusamninginn. Egilsstaðaflugvöllur Í þingræðum og fyrri greinum um málaflokkinn hef ég lengi bent á að næsta framkvæmd sem eðlilegt er að fjármagna með varaflugvallagjaldinu er að hefja framkvæmdir við fyrsta áfangann við gerð akstursbrautar við norðurenda flugbrautarinnar á Egilsstaðarflugvelli sem er mikilvægt flugöryggismál. Svokallaða „lúppu“ þar sem hægt væri að koma fyrir 4-6 farþegaþotum í neyð. Framkvæmdakostnaður við slíka framkvæmd er áætlaður 3 til 3,5 milljarðar. Hér er um algjört forgangsmál að ræða og mikilvægt að þessi framkvæmd sé í forgangi í framkvæmdarhluta nýrrar samgönguáætlunar. Flugöryggismál Þegar frumvarpið um varaflugvallagjald var lagt fram fyrri hluta árs 2023 var lagt til að sérstakt gjald skyldi innheimt til að standa straum af kostnaði við uppbyggingu varaflugvalla. Þá kemur fram í greinargerð frumvarpsins að nauðsynlegt sé með tilliti til flugöryggis að starfræktir séu fleiri flugvellir sem hafa burði til að taka á móti nokkrum fjölda loftfara þegar ekki er hægt að lenda í Keflavík. Varaflugvallagjaldið snýst fyrst og fremst um að tryggja flugöryggi. Njáll Trausti Friðbertsson alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi
30. október 2025
Ríkisstjórnin hitti naglann á höfuðið þegar hún tilkynnti þegnum þessa lands að nú með haustskrúða náttúrunnar hæfist nýtt skeið í lýðveldissögunni; verðmætasköpunarhaust. Fyrirtæki og almenningur settu sig í stellingar, viðbúin uppskerunni. Þrátt fyrir fögur fyrirheit er ríkisstjórnin líkt og dæmigert haustveður á Íslandi. Svona í stuttu máli: Lægð með roki, rigningu, frosti; snjór og svell svo að hvergi sér í gras eða gróður. Ríkisstjórninni til varnar þá eru sumir hlutir sem hún sjálf ræður ekki við. Samdráttur í álframleiðslu hér á landi er ekki henni að kenna. Útlit fyrir loðnuleysi brýnir aðra í röð sömu leiðis. Ástandið á Grundartanga, lokun eins af þremur ofnum Elkem eða lokun PCC á Bakka er ekki hægt að skrifa á hana heldur. Sama má segja með gjaldþrot Play sem varð til þess að beint og óbeint misstu 600 manns vinnuna. En samtals mun ofangreint minnka útflutningstekjur um a.m.k. 100–130 milljarða á næsta ári. Getur ríkisstjórnin þá ekkert gert? Jú, svo sannarlega. Hækkun vörugjalda á bifreiðar upp á 7,5 milljarða, kílómetragjald upp á 3,5 milljarða, innviðagjöld á skemmtiferðaskip, boðaður skattur á ferðaþjónustuna, tollfrelsi minnkað á barnafatnaði, streymisveitnaskattur sem heitir „menningarframlag“ hjá ríkisstjórninni, veiðigjald sem hefur orðið til þess að á annað hundrað manns hafa misst vinnuna og þjónustufyrirtæki tengd sjávarútvegi hafa hætt starfsemi, lokað fyrir samsköttun hjóna, skrúfað fyrir að fólk geti nýtt séreignarsparnað í húsnæðiskaup, ný búvörulög sem munu hækka verð til neytenda, hækkun skatta á áfengi, prósentuhækkanir á öll gjöld umfram verðbólgumarkmið, tenging örorkubóta við launavísitölu og svona mætti lengi telja. Þvert á móti. Skatta- og gjaldasýki þyngja róður þeirra svo um munar. Það er í besta falli broslegt að á sama tíma og allt þetta dynur á fólkinu í landinu að boðað sé „heildstæð atvinnustefna“. Eina atvinnustefna ríkisstjórnarinnar í dag ætti að vera að draga til baka boðaðar hækkanir skatta og gjalda á atvinnulíf og almenning. Draga verulega úr ríkisútgjöldum og nýta svigrúmið til frekari skattalækkana. Þannig, og bara þannig, styður ríkisstjórnin við heimilin og fyrirtækin í landinu. Jens Garðar Helgason varaformaður Sjálfstæðisflokksins
Eftir Stefán Friðrik Stefánsson 24. október 2025
Sjálfstæðiskonur hafa unnið mikið og gott starf í sögu Sjálfstæðisflokksins. Á þetta erum við minnt nú þegar hálf öld er liðin frá kvennafrídeginum 24. október 1975 sem markaði þáttaskil í jafnréttisbaráttu á Íslandi. Sjálfstæðisflokkurinn var í forystu í þeim efnum. Sjálfstæðiskonan Auður Auðuns var brautryðjandi í jafnréttisbaráttunni sem fyrsta konan til að verða lögfræðingur frá Háskóla Íslands, forseti borgarstjórnar, borgarstjóri í Reykjavík og ráðherra, en hún varð dómsmálaráðherra árið 1970. Í þessum pistli ætlum við hinsvegar að fjalla um stjórnmálaferil Ragnhildar Helgadóttur, sem um langt árabil sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn og varð önnur kvenna ráðherra í maí 1983 og áberandi sem menntamála- og heilbrigðisráðherra 1983-1987. Ragnhildur var ein þriggja kvenna sem sátu á þingi þegar kvennafrídagurinn var haldinn 24. október 1975 og fetaði í spor Auðar sem önnur konan til að taka við ráðherraembætti og hún varð einnig fyrsta konan sem var kjörin forseti Norðurlandaráðs á svipuðum tíma og kvennafrídagurinn var haldinn. Þessa grein ritaði ég haustið 2006 þegar ég var ritstjóri heimasíðu SUS og Landssamband sjálfstæðiskvenna fagnaði 50 ára afmæli og gaf af því tilefni út greinasafnið 90 raddir sjálfstæðiskvenna. Greinin er birt hér að nýju í tilefni dagsins, örlítið breytt. Ragnhildur Helgadóttir fæddist í Reykjavík 26. maí 1930. Hún lauk stúdentsprófi frá MR árið 1949 og lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands á árinu 1958. Ragnhildur hóf þátttöku í stjórnmálum mjög ung. Hún var kjörin á Alþingi aðeins 25 ára gömul árið 1956. Það var þegar ljóst á þessum árum karlaveldisins að Ragnhildur var í stjórnmálum af hugsjónakrafti og þótti innkoma hennar afar eftirtektarverð á þeim tíma. Hún var yngsta konan sem tók sæti á Alþingi á 20. öld - allir vissu strax á þessum árum að þar væri komin framtíðarkona í flokksstarfinu. Fáar konur höfðu setið á þingi er þarna var komið sögu. Vissulega höfðu öflugar konur á borð við Ingibjörgu H. Bjarnason, Guðrúnu Lárusdóttur og Auði Auðuns tekið sæti á þingi, en Ragnhildur var ólík þeim auðvitað að því leyti að hún var ung kona nýrra kynslóða. Á þessum árum þótti sjálfsagt að karlmenn skipuðu flest af efstu sætum flokkanna og lítil grunnkrafa var fyrir hendi um að konur yrðu meira ráðandi á listum. Ragnhildur markaði ný spor í kvennastarfi flokksins. Hún hafði annan bakgrunn en þær konur sem höfðu starfað innan flokksins í forystusveitinni. Hún hafði ekki lokið laganámi sínu er hún hlaut fyrst kjör á Alþingi - ung kona með fjölskyldu. Þegar að Ragnhildur tók sæti á þingi átti hún enda ung börn og mikla athygli vakti að hún væri þetta mikið virk í stjórnmálum meðfram barnauppeldi. Að því kom að hún ákvað að taka sér hlé frá þingsetu árið 1963 til að sinna heimili sínu. Var hún utanþings á árunum 1963-1971 og var því ekki mjög virk innan þings meginhluta viðreisnaráranna á þeim tíma sem dr. Bjarni Benediktsson var forsætisráðherra á árunum 1963 til 1970, er hann lést sviplega í eldsvoða í forsætisráðherrabústaðnum á Þingvöllum. Hún var þó mjög virk í flokksstarfinu á árunum sem hún var utanþings, en hún var formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna á árunum 1965-1969 og var ennfremur í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins á árunum 1963-1971. Ragnhildur gaf kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík haustið 1970. Mikil þáttaskil blöstu við flokknum eftir sumarið og prófkjörið varð sögulegt. Bjarni hafði látist um sumarið og það var gríðarlegt áfall fyrir flokkinn, enda hafði Bjarni verið forystumaður innan flokksins um áratugaskeið og lykilmaður í öllu starfi hans. Við blasti því uppgjör um það hver hlyti forystusess í höfuðvígi flokksins á næstu árum. Jóhann Hafstein var orðinn forsætisráðherra og formaður flokksins. Geir Hallgrímsson, borgarstjóri í Reykjavík, hafði tekið sæti á þingi við lát Bjarna, enda fyrsti varaþingmaður flokksins í borginni. Hann gaf kost á sér í prófkjörinu. Ennfremur sneri dr. Gunnar Thoroddsen aftur í stjórnmálin eftir fimm ára vist sem sendiherra í Kaupmannahöfn og skamma setu í Hæstarétti. Gunnar hafði hætt í stjórnmálum árið 1965 og farið út til að búa í haginn fyrir sig í forsetakjöri 1968. Hann tapaði kosningunum mjög illa en fékk sæti í Hæstarétt í sárabót, en það var ekki nóg til að sefa metnað hans. Andlát Bjarna breytti miklu innan flokksins. Ekki var nein öflug festa í forystusveitinni og öllum ljóst að prófkjörið réði úrslitum um stöðu mála í aðdraganda kosninganna og hvað næstu árin varðaði. Gunnar sneri aftur til að reyna að endurheimta fyrri stöðu sína. Úrslitin þóttu merkileg. Geir sigraði í prófkjörinu og hlaut flest atkvæði en Jóhann varð annar - krossaprófkjör var haldið þar sem krossað var við nöfn en ekki raðað til sætis, umdeilt fyrirkomulag sem var við lýði fram á níunda áratuginn. Öllum var ljóst að Bjarni hafði fyrir andlát sitt talið Geir eftirmann sinn. Hann var maður nýrra tíma á borð við Ragnhildi og hafði mikinn stuðning til forystu innan þess kjarna flokksins sem mest hafði stutt Bjarna. Fráfall Bjarna kom svo óvænt að auðvitað varð varaformaðurinn eftirmaður hans. Jóhann tók við forystunni, þó að honum væri það í raun þvert á móti skapi. Vel kemur fram í grein Jóhanns um Bjarna að honum látnum að það hefði hann talið skylduverkefni á örlagatímum en ekki neitt sem hann hefði kosið sjálfur. En svo fór og hann tók verkefninu sem skyldu fyrir flokkinn. Það þótti gríðarlegt áfall fyrir forsætisráðherrann Jóhann að verða í öðru sæti í prófkjörinu árið 1970. Fram að því hafði það aldrei gerst að sitjandi formaður og að auki forsætisráðherra yrði undir í forkosningu innan eigin flokks. Gunnar markaði sér aftur skref innan flokksins og varð þriðji á eftir þeim Geir og Jóhanni. Eftir það varð Gunnar áhrifamaður í stjórnmálum að nýju og átti eftir að byggja upp sinn feril af krafti með örlagaríkum hætti. Ragnhildur náði öruggu sæti í prófkjörinu og viðunandi árangri. Þegar að kom að endanlegri uppstillingu listans á fulltrúaráðsfundi hjá Verði lá fyrir sú ákvörðun Geirs að taka ekki fyrsta sætið, enda ekki verið ásetningur hans að leiða listann, það hefði aðeins gerst vegna fyrirkomulags krossaprófkjörsins. Hart var lagt að Geir að taka sætið en hann ákvað að gera það ekki er á hólminn kom. Formaður flokksins leiddi því listann, en vissulega beygður eftir prófkjörið. Ragnhildur náði kjöri á Alþingi í kosningunum sem fram fóru í júnímánuði 1971. Kosningarnar 1971 mörkuðu þáttaskil fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Viðreisnarstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks féll eftir tólf ára samfellda setu. Í kjölfarið mynduðu fyrrum stjórnarandstöðuflokkar ríkisstjórn og Sjálfstæðisflokkurinn fór í stjórnarandstöðu. Í kjölfar kosninganna var boðað til landsfundar. Jóhann Hafstein var þar kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins formlega. Í varaformannskjöri var tekist á. Gunnar Thoroddsen og Geir Hallgrímsson áttust við um varaformennskuna. Gunnar hafði verið varaformaður 1961-1965 og verið eftirmaður Bjarna Benediktssonar sem varaformaður. Er þarna var komið sögu vildi Geir ekki hopa til hliðar fyrir Gunnar. Hann taldi sinn tíma kominn í forystusveitinni, einkum eftir prófkjörið 1970 og taldi eins og svo margir að tími Gunnars væri liðinn. Upphófust þar gríðarleg átök millum þeirra, sem áttu eftir að verða söguleg fyrir Sjálfstæðisflokkinn er á hólminn kom. Ragnhildur Helgadóttir var alla tíð mikill samherji Geirs Hallgrímssonar. Þau voru af sömu kynslóð í flokksstarfinu og hún hafði alla tíð dáðst af verkum hans í stjórnmálum, bæði er hann var forystumaður í ungliðastarfinu og síðar er hann varð borgarstjóri í Reykjavík. Hún studdi hann í prófkjörinu 1970 og í þeim átökum sem eftir það tóku. Hún talaði máli hans af mikilli hörku og var einn af hans nánustu samherjum innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins alla tíð eftir það. Ragnhildur taldi rétt að Geir yrði framtíðarmaður flokksins og það myndi markast með varaformannskjörinu 1971. Gunnar og Geir mynduðu fylkingar sínar í þessum átökum og þær áttu eftir að verða til staðar lengi enn. Þessi fyrsti sýnilegi slagur þeirra um völd og áhrif varð gríðarlega harður og í fyrsta skipti var tekist á með sýnilegum hætti um forystuembætti innan Sjálfstæðisflokksins. Svo fór að Geir var kjörinn varaformaður. Hann hlaut 375 atkvæði en Gunnar 328. Eftir þetta var framtíð Geirs mörkuð innan flokksins. Hann var endurkjörinn varaformaður á landsfundinum 1973. Nokkrum vikum síðar varð Jóhann að segja af sér formennsku vegna alvarlegra veikinda og vék til hliðar. Geir varð þá formaður flokksins. Hann leiddi Sjálfstæðisflokkinn til glæsilegasta kosningasigurs í sögu sinni sumarið 1974 og varð forsætisráðherra þá um sumarið, 48 ára að aldri. Ragnhildi voru um leið falin ábyrgðarmeiri skyldur í kjölfar þess að Geir tók við flokknum. Hún varð forseti neðri deildar á kjörtímabilinu 1974-1978. Ragnhildur markaði sér svo skref í norræna stjórnmálasögu þegar að hún varð fyrst kvenna árið 1975 til að setjast á forsetastól Norðurlandaráðs. Það var greinilegt að Sjálfstæðisflokkurinn fól henni aukna ábyrgð og á þessu kjörtímabili náði hún þeim stall að verða forystukona innan flokksins, en á þessum árum hætti Auður Auðuns í stjórnmálum eftir langan stjórnmálaferil sinn. Mikil þáttaskil urðu í jafnréttisbaráttunni þegar konur fylktu liði á kvennafrídeginum 24. október 1975. Ragnhildur var þá ein þriggja kvenna sem sátu á Alþingi. Kvennafrídagurinn hafði mikil áhrif á aukin réttindi kvenna; 1980 var Vigdís Finnbogadóttir kjörin forseti Íslands, sérstakt kvennaframboð kom til sögunnar í kjölfarið og Ragnhildur varð annar kvenráðherrann á svipuðum tíma. Úrslit þing- og borgarstjórnarkosninganna 1978 voru gríðarlegt áfall fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hann sat eftir valdalaus í borgar- og landsmálum. Sjálfstæðisflokkurinn var sem eyland eftir kosningarnar og þar var allt fullt af spurningum sem brunnu á vörum almennra flokksmanna. Heimdallur, félag ungra sjálfstæðismanna, hélt fund í Valhöll sumarið 1978 þar sem leitast var við að greina vandann sem hrjáði flokkinn stefnulega sem forystulega og fara yfir stöðuna. Öllum var ljóst að ekkert trúnaðarsamband var á milli Geirs Hallgrímssonar, formanns, og Gunnars Thoroddsens, sem aftur varð varaformaður flokksins árið 1974. Það var rætt á fundinum og greint. Flokkurinn byggði sig upp aftur og markaði sér nýja stefnu. Það var í senn ungliðarnir sem tryggðu að menn byrjuðu uppbyggingarstarfið. Það var í takt við allt annað, enda á ungliðahreyfingin að vera samviska flokksins alla tíð. Vinstristjórnin gafst upp í október 1979 og sprakk í loft upp með sögulegum hætti. Í kjölfarið ákvað Sjálfstæðisflokkurinn að verja minnihlutastjórn Alþýðuflokksins, sem veitt hafði vinstristjórninni náðarhöggið, falli og tryggja að hún sæti framyfir þingkosningar sem fram skyldu fara í desember 1979. Ragnhildur gaf kost á sér aftur í þessum sögulegu kosningum sem haldnar voru um hávetur. Hún féll af þingi í kosningunum og var því utanþings þá mánuði sem framundan voru og urðu örlagaríkir fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hvorki gekk né rak að mynda ríkisstjórn lengi vel. Eftir árangurslausar stjórnarmyndunarviðræður var utanþingsstjórn í pípunum. Þá greip Gunnar tækifærið og fékk til liðs við sig sína menn í Sjálfstæðisflokknum og myndaði ríkisstjórn með eftirminnilegum hætti með framsóknar- og alþýðubandalagsmönnum. Eftir stóð formaður Sjálfstæðisflokksins snupraður af eigin varaformanni. Ragnhildur Helgadóttir tók eins og ávallt fyrr skýra afstöðu með Geir Hallgrímssyni í þessum þrengingum Sjálfstæðisflokksins. Á þessum mánuðum upplifðu bæði flokksstofanir Sjálfstæðisflokksins miklar þrengingar og erfiðleika og ekki síður formaðurinn Geir Hallgrímsson. Það var erfitt hlutskipti að leiða stjórnarandstöðu gegn ríkisstjórn sem stýrt var af varaformanni eigin flokks. Þarna fór Sjálfstæðisflokkurinn í gegnum sína dimmustu dali og við öllum blasir sem kannar þessa tíma að erfitt var yfir allri stöðunni. Flokksráð, miðstjórn, þingflokkur og landsfundur Sjálfstæðisflokksins tóku öll sem eitt afstöðu gegn ríkisstjórn Gunnars. Fyrst í stað mældist stjórnin með 70-80% fylgi. Gunnar var metinn bjargvættur þingræðisins og var elskaður af mörgum landsmönnum fyrir lipra og öfluga forystu sína út úr harðvítugu stjórnarmyndunarferli og um leið hataður af rótgrónum sjálfstæðismönnum sem töldu hann vera svikara við málstað flokksins. Á landsfundi 1981 fór fram uppgjör fylkinganna. Þar mættust Gunnar og Geir á sama velli og tókust á. Átök voru harkaleg á þessum fundi og töluðu Gunnar og Geir af hörku gegn hvorum öðrum. Frægt varð er Gunnar og Vala Thoroddsen stóðu ekki á fætur að lokinni yfirlitsræðu Geirs við setningu landsfundar og klöppuðu fyrir honum. Tekist var á af krafti milli fylkinga við forystukjör á landsfundi. Gunnar Thoroddsen ákvað að gefa ekki kost á sér til varaformennsku að nýju. Tókust Friðrik Sophusson og Ragnhildur Helgadóttir á um varaformennskuna. Fór svo að Friðrik sigraði Ragnhildi með 549 atkvæðum gegn 381. Friðrik var metinn nær Gunnari í skoðunum en Geir og greinilegt að Gunnarshópurinn studdi Friðrik auk fjöldamargra, t.d. ungliðanna, sem voru vissulega Geirsmegin. Geir var endurkjörinn formaður í síðasta skipti en fékk mótframboð frá Pálma Jónssyni, landbúnaðarráðherra, er var leiðtogi flokksins í Norðurlandi vestra. Það tókst að sameina brotin við lok kjörtímabilsins. Gunnar hætti í stjórnmálum vegna alvarlegra veikinda sinna og menn tóku höndum saman við að tryggja samhentan Sjálfstæðisflokk í kosningunum 1983. Geir Hallgrímsson varð fyrir gríðarlegu áfalli í prófkjöri flokksins í Reykjavík 1982 er hann lenti í sjöunda sætinu. Ofan við hann urðu Albert Guðmundsson, Friðrik Sophusson, Birgir Ísleifur Gunnarsson, Ellert B. Schram, Ragnhildur og Pétur Sigurðsson. Geir ákvað að taka sjöunda sætið, þó sár vonbrigði voru, og leiddi Sjálfstæðisflokkinn í gegnum kosningarnar. Samherjar Gunnars héldu velli um allt land. Það voru Ragnhildi sár vonbrigði að sjá sinn gamla félaga og samherja, Geir, fá slíka útreið í Reykjavík og höfðu þessi úrslit víðtæk áhrif fyrir flokkinn. En menn tóku höndum saman. Ragnhildur komst aftur á þing. Flokkurinn fékk góð úrslit í kosningunum og stóð af sér allar þrengingar kjörtímabilsins og komu samhent fram til verka. Geir náði þó ekki kjöri í Reykjavík. Samkomulag tókst á milli Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að loknum kosningunum 1983. Geir stýrði stjórnarmyndunarviðræðum af hálfu flokksins og lagði fyrir þingflokkinn hvort að flokkurinn tæki færri ráðherrastóla og fá með því forsæti ríkisstjórnarinnar eða fleiri ráðherrastóla og myndi verða undir forsæti Steingríms Hermannssonar, formanns Framsóknarflokksins. Ragnhildur og aðrir samherjar Geirs innan þingflokksins unnu að því öllum árum að tryggja að Geir yrði forsætisráðherra, þó utanþings væri, og tryggt væri að Sjálfstæðisflokkurinn stýrði ríkisstjórninni þó að flokkurinn fengi með því færri ráðherrastóla og ráðuneyti. Leynileg kosning var innan þingflokksins um tillögurnar. Geir og samherjum hans til sárra vonbrigða var valið að fá fleiri ráðherrastóla en um leið forsæti Framsóknar í ríkisstjórninni. Það er alveg ljóst að tilhugsunin um ráðherradrauma varð mörgum þingmönnum meira freistandi. Ragnhildur Helgadóttir var valin af þingflokknum til setu í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar sem tók formlega við völdum þann 26. maí 1983. Þann dag kvaddi Gunnar Thoroddsen íslensk stjórnmál er hann lét af embætti forsætisráðherra, þá orðinn fárveikur af krabbameini. Hann lést um haustið og átti þá að baki einn sögulegasta stjórnmálaferil í sögu íslenskra stjórnmála. Geir varð utanríkisráðherra í ríkisstjórninni og leiddi samstarfið innan Sjálfstæðisflokksins. Það kom í hlut Ragnhildar að verða menntamálaráðherra. Með þessu varð Ragnhildur Helgadóttir önnur konan sem var valin til ráðherrastarfa. Aðeins Auður Auðuns, samstarfskona og lærimóðir Ragnhildar í stjórnmálastarfi hennar í kvennafylkingu flokksins, hafði verið ráðherra er þarna kom sögu. Ragnhildur tók til starfa og var alla tíð ljóst að hún vildi láta til sín taka í verkum í ráðuneytinu. Hún markaði söguleg skref í kjölfar verkfalls ríkisstarfsmanna haustið 1984. Það ár lamaðist allt samfélagið vegna þess að opinberir starfsmenn lögðu niður vinnu. Meðal þess sem lamaðist var starf og útsendingar Ríkisútvarpsins. Á þessum árum voru rásir Ríkisútvarpsins, Rás 1 og Rás 2 í útvarpi og Ríkissjónvarpið einu stöðvarnar sem leyft var að starfa á ljósvakamarkaði. Allt frá stofnun Ríkisútvarpsins árið 1930 hafði verið einokun á þessum markaði og ríkið ekki leyft einkaaðilum að starfa á markaðnum. Þetta var orðið úrelt boð og bönn og á þessum örlagatímum reyndi á það. Hið eina sem leyft var að útvarpa í Ríkisútvarpinu voru veðurfregnir, en auðvitað urðu landsmenn að fá sína veðurspár þrátt fyrir allt. Fréttastofur ríkisins voru auðvitað lamaðar vegna verkfallsins og fréttastreymi stöðvaðist með öllu. Ástandið varð óviðunandi. Í skugga verkfallsins fengu hægrisinnaðir einstaklingar nóg og beittu sér fyrir stofnun einkastöðva sem störfuðu án leyfis í borginni og miðluðu upplýsingum til almennings. Starfsemin var vissulega ólögleg en almenningi var orðið ljóst að tími ríkiseinokunar á ljósvakamarkaði var með öllu liðinn. Verkfallsátökin mörkuðu því viss þáttaskil. Til fjölda ára var talað um almannavarnarhlutverk Ríkisútvarpsins og það væri svo mikilvægt landsmönnum. Það tal var sem hjóm eitt á þessu hausti með þessa fjölmiðla steindauða og óstarfandi vegna verkfallsátaka. Svo kom að Ragnhildur Helgadóttir, menntamálaráðherra, fékk algjörlega nóg af stöðunni. Í hita verkfallsátaka þar sem engir ljósvakamiðlar voru starfandi með löglegum hætti tók hún af skarið í stöðunni. Hún boðaði ný útvarpslög, þar sem einokun ríkisins væri afnumin með öllu. Það væri fortíðarhyggja að halda öllu lengur í haftir liðinna tíma og frelsi skyldi nú verða að fullu að veruleika á ljósvakamarkaði. Ungir sjálfstæðismenn glöddust mjög með menntamálaráðherra sinn, sem hikaði ekki þessar örlagaríku vikur og tók af skarið með miklum krafti. Er Alþingi var sett 10. október var staða mála kynnt af menntamálaráðherranum. Ragnhildur mælti fyrir frumvarpi sínu um afnám einokunar ríkisins á ljósvakamarkaði nokkrum dögum síðar. Vart var við andstöðu innan Framsóknarflokksins. Hinsvegar höfðu orðið þáttaskil í þessu verkfalli. Landsmenn höfðu flestallir fengið nóg og töldu rétt að breyta til með þessum hætti. Vinstrimenn sátu fastir við sinn keip og börðust gegn breytingunum. Það er þó svo að þáttaskilin í þessu urðu þessar haustvikur árið 1984 þegar að vinstrimenn stýrðu verkfallsátökum og stöðvuðu útsendingar ríkisfjölmiðlanna. Óverjandi var að bregðast ekki við. Það var enda ekki gert og látið til skarar skríða. Ragnhildur sté fram af krafti og ákveðni og leiddi málið rétta leið. Hennar frumkvæði var gríðarlega mikils virði. Eftir sviptingasamt verkfall opnuðust ríkisfjölmiðlarnir aftur undir lok októbermánaðar. En staðan var varanlega breytt og lagabreytingin varð að veruleika. Það var komið fram á árið 1985 þegar að Alþingi loksins staðfesti hin nýju útvarpslög sem Ragnhildur hafði lagt fram um haustið. Þrír þingmenn Framsóknarflokks, þeir Halldór Ásgrímsson, Guðmundur Bjarnason og Stefán Valgeirsson, greiddu atkvæði gegn nýju lögunum og vildu áfram ríkiseinokun á ljósvakamarkaði. Það kemur fáum á óvart að allir vinstrimenn á þingi voru andvígir því að afnema ríkiseinokuninni og vildu áfram að einkaaðilum væri bannað að reka ljósvakafjölmiðla. Meðal þeirra sem greiddu atkvæði gegn breytingunni á þeim væng stjórnmálanna voru Jón Baldvin Hannibalsson, Svavar Gestsson og Jóhanna Sigurðardóttir. Ragnhildur vann þetta haust í anda ungra sjálfstæðismanna og hlaut mikið lof fyrir afdráttarlausa framkomu sína í þessu máli. Hún stýrði málinu rétta leið og átti frumkvæðið að breytingunni, sem var og er gríðarlega virðingarvert. Ráðherrahrókeringar urðu meðal sjálfstæðismanna í október 1985. Þorsteinn Pálsson, sem kjörinn hafði verið eftirmaður Geirs sem formaður í nóvember 1983, tók þá loks sæti í ríkisstjórninni sem fjármálaráðherra. Ákveðið var að Geir Hallgrímsson færi úr ríkisstjórn í ársbyrjun 1986. Allir ráðherrar flokksins skiptu um ráðuneyti og mikil uppstokkun varð að því leyti. Matthías Á. Mathiesen vék úr ríkisstjórn en tók svo aftur sæti sem utanríkisráðherra þegar að Geir hætti formlega. Ragnhildur varð heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra í stað Matthíasar Bjarnasonar, sem varð viðskiptaráðherra. Sverrir Hermannsson varð menntamálaráðherra og Albert Guðmundsson varð iðnaðarráðherra. Þessi mikla uppstokkun þótti umdeild. Í raun hefði verið best fyrir flokkinn að Þorsteinn hefði einfaldlega leyst Geir af hólmi en flækjur milli Alberts Guðmundssonar og Þorsteins Pálssonar leiddu til þessarar miklu róteringar, sem varð mjög misheppnuð. Ragnhildur var ekki síður öflug sem heilbrigðisráðherra en sem menntamálaráðherra áður. Hún kom t.d. í gegn því mikla framfaramáli að lengja til muna fæðingarorlofið. Fæðingarorlofslöggjöf Ragnhildar var mjög lofuð og markaði þáttaskil í þeim efnum. Þessi tvö mál, fæðingarorlofslöggjöfin og breytt útvarpslög sem tryggðu frjálst útvarp og sjónvarp, marka hápunkt Ragnhildar sem ráðherra og halda merki hennar hátt á lofti. Hún vann altént mjög að baráttumálum ungra sjálfstæðismanna og þótti farsæl í starfi sínu. Rétt eins og Ragnhildur var ötull stuðningsmaður Geirs Hallgrímssonar studdi hún af krafti Þorstein Pálsson lengst af í formannstíð hans og fylgismaður hans í formannskjörinu 1983. Ragnhildi sárnaði nokkur pólitísk endalok Geirs Hallgrímssonar, eins og öðrum samherjum hans og hún var alla tíð þeirrar skoðunar að Sjálfstæðisflokkurinn hefði betur getað stutt leiðtoga sinn og endalokin hefðu ekki hæft hans mikla framlagi fyrir flokkinn. Ragnhildur missti ráðherrastól sinn að loknum þingkosningunum 1987, enda ákvað Þorsteinn að skipta um alla ráðherra af hálfu flokksins, utan Matthíasar Á. Mathiesen, leiðtoga flokksins á Reykjanesi, sem náði að halda sínu sæti með baráttu. Þorsteinn Pálsson myndaði eigin ríkisstjórn með Framsóknarflokki og Alþýðuflokki og tók hún við völdum í júlí 1987. Störf þeirrar stjórnar voru mjög söguleg. Ragnhildur varð áberandi í nefndastörfum að nýju í þinginu og var t.d. mikið í störfum á vettvangi Evrópuþingsins og í nefndum á erlendum vettvangi. Ragnhildur Helgadóttir tók þá ákvörðun haustið 1990 að gefa ekki kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og hætta þátttöku í stjórnmálum eftir áratugaferil. Þá var hún þó aðeins sextug að aldri en átti engu að síður að baki 23 ára þingmannsferil með hléi eins og fyrr segir. Hún byrjaði mjög ung í stjórnmálum og taldi rétt að hætta við þingkosningarnar 1991, taldi mikilvægt að kynslóðaskipti urðu og þá komu nýjar öflugar konur í þingflokkinn. Ein þeirra sem þá tók sæti, Sólveig Pétursdóttir, varð ráðherra við aldamót og fjöldi sjálfstæðiskvenna fylgdi svo í kjölfarið á nýrri öld. Ragnhildur lést í ársbyrjun 2016. Ég minntist hennar þá í grein hér á vefritinu. Ragnhildur Helgadóttir telst hiklaust til fremstu forystumanna Sjálfstæðisflokksins á áttunda og níunda áratug 20. aldar. Eins og sést á þessari upptalningu, einkum verkunum á ráðherraferlinum, var hún mikil merkiskona sem vann farsæl verk fyrir flokk sinn og þjóð. Hennar verður altént lengi minnst fyrir verk sín í ríkisstjórninni 1983-1987. Hún vann af krafti fyrir frjálsum fjölmiðlum og fæðingarorlofslöggjöfinni og þau verk munu halda merki hennar hátt á lofti um alla tíð. Stefán Friðrik Stefánsson ritstjóri Íslendings
15. október 2025
Forsætisráðherra vafðist tunga um tönn þegar að undirritaður spurði hana út í forgangsröðun í fjárlögum, nánar tiltekið tvö hundruð milljóna króna niðurskurð til Ljóssins, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöðvar fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þess. Ljósið hefur lyft grettistaki með starfsemi sinni og í hverjum mánuði njóta um 600 manns endurhæfingar og aðstoðar. Þúsundir Íslendinga sem tekist hafa á við krabbamein og aðstandendur þeirra hafa notið þjónustu Ljóssins í gegnum árin. Ríkisstjórnin hefur nú boðað að skerða fjárframlög ríkisins til Ljóssins um 40% frá síðasta ári. Þetta setur skiljanlega þessa mikilvægu starfsemi í uppnám og einsýnt að skera þurfi niður þjónustu og biðlistar fari að myndast, sem í dag er ekki reyndin. Fátt var um svör hjá forsætisráðherra þegar hún var spurð út í forgangsröðun ríkisstjórnarinnar á skattfé borgaranna og hvort mikilvægara væri að setja 150 milljónir í alþjóðleg samtök hinsegin fólks, tvö til þrjú þúsund milljónir í stækkun Þjóðleikhússins eða kostnað við starfslok eins opinbers starfsmanns upp á 350 milljónir frekar en 200 milljónir í Ljósið. Sagði forsætisráðherra raunar að henni þætti sérstakt að vera spurð út í hennar „persónulegu afstöðu til þess hvort ákveðin samtök úti í bæ gætu þegið nokkrar milljónir í viðbót“. Þá vitum við það. Ljósið, sem sparar íslenska ríkinu með starfsemi sinni yfir milljarð á ári, eru samtök „úti í bæ“ í huga forsætisráðherra. Samtök sem eru með starfsemi á heimsmælikvarða og hafa hjálpað þúsundum krabbameinssjúklinga og aðstandendum þeirra. Þetta eru kaldar kveðjur frá leiðtoga ríkisstjórnarinnar. Hvorki ég né aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins skiljum á hvaða vegferð ríkisstjórnin er. Að minnsta kosti er hún ekki að standa vörð um þá sem standa höllustum fæti í samfélaginu. Er það von mín að við þingmenn, sama hvað flokki þeir eru, snúi bökum saman og standi vörð um starfsemi Ljóssins. Ábyrgðin er okkar. Jens Garðar Helgason varaformaður Sjálfstæðisflokksins og oddviti í Norðausturkjördæmi
21. september 2025
Í gær 20. september voru liðnir sjö mánuðir frá því að ósk níu þingmanna um að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra ynni skýrslu vegna lokunar austur- vestur flugbrautar Reykjavíkurflugvallar var samþykkt á Alþingi. Vegna þessara miklu tafa sem hafa orðið á afhendingu skýrslunnar og nú þegar nýtt þing er hafið þarf á nýjan leik að leggja fram beiðni um að þessi skýrsla sé unnin. Saga máls Í byrjun febrúar á þessu ári kom upp sú sérkennilega staða þegar austur-vestur flugbraut Reykjavíkurflugvallar var lokað. Reykjavíkurborg hafði ekki staðið við skuldbindingar sínar um að fella tré í Öskjuhlíðinni sem vaxið höfðu upp í hindrunarfleti Reykjavíkurflugvallar og ekki hægt að tryggja hindrunarlaust aðflug og brottflug frá austur-vestur brautinni (flugbraut 13/31). Í skýrslubeiðninni er óskað eftir tímalínu á samskiptum þeirra aðila sem koma að málinu frá því í apríl 2013. Tilskipun Samgöngustofu Samgöngustofa gaf út tilskipun vegna málsins þar sem sagði m.a: „Hvorki Isavia innanlandsflugvöllum né Samgöngustofu hefur tekist að fá hindranir fjarlægðar þrátt fyrir skýr ákvæði Skipulagsreglna Reykjavíkurflugvallar og hefur Reykjavíkurborg verið veittur frestur til 17. febrúar nk. til að upplýsa Samgöngustofu um hvernig staðið verður að uppfyllingu þeirra krafna. Samgöngustofa beinir þeim fyrirmælum hér með til Isavia innanlandsflugvalla að takmarka notkun flugbrautar 13/31 þannig að flugbrautin sé ekki notuð til flugtaks og lendinga sem reynir á þá hindranafleti sem ekki eru hindranafríir. Þetta felur í sér að loka skal fyrir lendingar á flugbraut 13 og flugbraut 31, og að loka skal fyrir flugtök á flugbraut 13. Með vísan í fyrri samskipti þá ítrekar Samgöngustofa að bannið nær einnig til sjúkraflugs. Nota má flugbraut 31 til flugtaks og til aksturs loftfara og ökutækja.“ Um hvað er beðið í skýrslubeiðninni: Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra flytji Alþingi skýrslu um framkvæmd Samgöngustofu við lokun austur/vesturbrautar Reykjavíkurflugvallar og viðbrögð Reykjavíkurborgar við erindum stofnunarinnar, m.a. með tilliti til meginreglna stjórnsýsluréttar. Í skýrslunni verði fjallað um eftirfarandi atriði: 1. Samskipti Reykjavíkurborgar, Samgöngustofu, Isavia og eftir atvikum annarra aðila í aðdraganda lokunar flugbrautarinnar og tímalínu málsins frá undirritun samkomulags ríkisins og Reykjavíkurborgar um endurbætur á aðstöðu fyrir farþega og þjónustuaðila á Reykjavíkurflugvelli frá 19. apríl 2013. 2. Verklag og verklagsreglur Samgöngustofu og Isavia við lokun flugbrauta. 3. Hvort verklag Reykjavíkurborgar, Samgöngustofu og Isavia í aðdraganda lokunarinnar hafi verið í samræmi við góða stjórnsýsluhætti. 4. Hvort Reykjavíkurborg hafi fylgt skipulagsreglum um Reykjavíkurflugvöll frá árinu 2009. 5. Hvort framkvæmd lokunar flugbrautarinnar og háttsemi Reykjavíkurborgar, Samgöngustofu og Isavia hafi verið í samræmi við ákvæði laga um loftferðir, nr. 80/2022, m.a. með tilliti til flugöryggis og almannaöryggis. 6. Hvort samningsaðilar hafi uppfyllt skyldur sínar samkvæmt samkomulagi ríkis og Reykjavíkurborgar um fellingu trjáa í Öskjuhlíð. 7. Hvernig staðið var að skipun starfshóps vegna setningar skipulagsreglna fyrir Reykjavíkurflugvöll, sbr. 1. mgr. 147. gr. laga um loftferðir, nr. 80/2022, og hvernig vinnu starfshópsins hefur miðað. Almannaöryggi Lokun flugbrautarinnar setti sjúkraflugið í landinu í alvarlega stöðu. Lokunin á sínum tíma kom til þess að ekki var vilji hjá Reykjavíkurborg til að standa við skyldur sínar. Borgaryfirvöld höfðu vitað af þessu vandamáli í að minnsta kosti áratug. Reykjavíkurflugvöllur er eitt af helstu öryggismannvirkjum landsins. Því er um grundvallarhagsmuni að ræða sem varðar öryggi landsmanna. Í 150. grein laga um loftferðir eru til staðar skýrar heimildir Samgöngustofu um það hvernig megi koma í veg fyrir að þessa ótrúlega staða hafi komið upp 8.febrúar síðastliðinn. Þeir þingmenn sem óska eftir að þessi skýrsla verði unnin telja eðlilegt að tekin verði saman gögn um það hvernig lokunin atvikaðist og hvort almannaöryggis hafi verið gætt í því ferli, í samskiptum Samgöngustofu, Reykjavíkurborgar og Isavia Innanlands Njáll Trausti Friðbertsson alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi
16. september 2025
Hvers vegna þreytist ég ekki á því að benda á að árið 1995 opnuðu Nýsjálendingar aðra gátt inní landið sitt og bera það saman við þá uppbyggingu sem við eigum að standa að á Akureyrarflugvelli og Akureyri? Jú, Queenstown er umlukin fjöllum líkt og Akureyri og gerir því aðflugið sambærilegt. En þetta þarf nefnilega að vera pólitísk ákvörðun og landsbyggðarstefna en ég fullyrði að þetta er ein hagkvæmasta efnahagsaðgerð sem hægt er að fara í á Íslandi í dag. Allt tal um að Ísland sé uppselt og að við getum ekki tekið við fleiri ferðamönnum á ekki við hér á Norðausturlandi. Hér er töluvert rými til að bæta í allt árið og hagsmunaaðilar annarsstaðar á landinu eiga ekki að geta komið í veg fyrir að hér byggist upp alvöru alþjóðaflugvöllur og þar með önnur alvöru gátt inn í landið. Uppbyggingin Queenstown í Nýja-Sjálandi umbreyttist úr litlum fjalla- og skíðabæ eins og Akureyri er yfir í alþjóðlega ferðamannamiðstöð eftir að reglulegt millilandaflug hófst árið 1995. Ferðaþjónustan óx hratt og gerði svæðið að einum þekktasta „all-season“ áfangastað Nýja-Sjálands. Íbúafjöldinn á svæðinu hefur meira en þrefaldast frá 1996 til 2023 einfaldlega með því að ákveða að opna aðra gátt inní landið og vinna stöðugt að bættu aðflugi og uppbyggingu flugvallarins. Þróunin Uppbygging ferðamannastaðarins hófst árið 1995 þegar fyrsta reglubundna alþjóðlega flugleiðin (Sydney – Queenstown) var opnuð. Þetta gjörbreytti aðgengi að svæðinu og setti af stað mikla uppbyggingu í gistingu og afþreyingu. Mikil áhersla var á vetraríþróttir og skíðasvæði voru þróuð áfram, þannig varð Queenstown „vetrarhöfuðborg“ Nýja-Sjálands. Á árunum 1995 til 2000 fjölgaði svo flugleiðunum, aðallega frá Ástralíu. Á árunum 2000 til 2010 var áfangastaðurinn þróaður yfir allt árið, ekki lengur bara vetrartengt aðdráttarafl. Áhersla var á uppbyggingu hótela, veitingastaða og ævintýra afþreyingar. Á árunum 2010 til 2019 fjölgaði gestum verulega sem fóru um flugvöllinn ár hvert og var komið í 2,3 milljónir farþega 2019. Stórir alþjóðlegir fjárfestar komu inn í hótelgeirann, Queenstown flugvöllur var stækkaður og ferðaþjónusta varð langstærsti atvinnuvegur svæðisins. 2020–2021 COVID-19 leiddi til algörs hruns í komu ferðamanna líkt og annarsstaðar í heiminum. Fjöldi íbúa á svæðinu jókst þó áfram. Undanfarin ár eða 2022 til 2025 hefur orðið mjög hröð endurreisn ferðaþjónustu eftir covid og hefur gestafjöldi nálgast aftur fyrra hámark eða yfir 2,5 milljónir ferðamanna sem fara um flugvöllinn á ári. Íbúaþróun (Queenstown - Lakes District): - 1996 ~15.000 íbúar - 2006 ~22.000 íbúar - 2013 ~29.000 íbúar - 2018 ~39.000 íbúar - 2023 ~52.000 íbúar Akureyri hefur alla burði til að þróast næstu 30 árin líkt og Qeenstown gerði í það að verða 50 þúsund manna borg með daglegu millilandaflugi og stóraukinni ferðaþjónustu og afþreyingu allt árið. Við þurfum einfaldlega að ákveða að það sé það sem við viljum gera til að auka atvinnutækifæri og hagsæld í okkar landshluta en tækifærið er svo sannarlega til staðar. Þórhallur Jónsson varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri
16. september 2025
Þann 12. júní s.l. lagði undirritaður fram þingsályktunartillögu um Samgöngufélagið Þjóðbraut. Eru nítján aðrir þingmenn úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Framsóknarflokksins meðflutningsmenn mínir á tillögunni. Í ályktuninni er innviðaráðherra falið að láta framkvæma heilstæða úttekt á þeim möguleika að stofna samgöngufélag, er verði hlutafélag, með það að markmiði að fjármagna, byggja, eiga og reka helstu samgöngumannvirki landsins, svo sem stofnbrautir, jarðgöng og stórar brýr. Félagið skuli bera nafnið Þjóðbraut hf. Er fyrirmynd af félaginu Spölur ehf, sem var stofnaður um rekstur Hvalfjarðaganga, og Tunnil p/f í Færeyjum. Í þingsályktunartillögunni er ráðherra einnig falið kanna leiðir til að gjaldtaka taki mið af tekjulíkani Spalar ehf. þannig að áskrifendur greiði lægra gjald en þeir sem borga fyrir staka ferð. Ráðherra er einnig falið að athuga hvað skatta og gjöld á umferð, t.d. vörugjöld á ökutæki, mætti lækka eða fella niður á móti. Telur undirritaður að þetta sé farsælli lausn á fjármögnun en með boðuðu kílómetragjaldi ríkisstjórnarinnar. Ef okkur lánast að stofna Samgöngufélagið Þjóðbraut hf. þá erum við að höggva á þann hnút sem skapast hefur í að koma stærri samgöngumannvirkjum í framkvæmd. Félag, sem hefur tekjustraum af innheimtu gjalda af helstu stofnvegum og stærri samgöngumannvirkjum, getur sótt fjármögnun erlendis, líkt og Færeyingar gera, sem og innanlands hjá lífeyrissjóðum eða öðrum lánastofnunum. Með þessu erum við að taka brýna innviðauppbyggingu úr karpi stjórnmálanna og setja í hendur hlutafélags sem hefur það eitt að markmiði að flýta fyrir innviðauppbyggingu samgöngumannvirkja á Íslandi. Er hægt að nefna tvöföldun Vesturlandsvegar, Reykjanesbrautar, Suðurlandsvegar, tvöföldun Hvalfjarðarganga og Sundabraut. Á landsbyggðinni eru jarðgöng á Austfjörðum, Norðurlandi og Vestfjörðum brýn ásamt endurnýjun stærri brúa, sérstaklega í Norðausturkjördæmi. Í þingsályktunartillögunni er farið yfir þau tækifæri sem eru við stofnun Þjóðbrautar. Þau eru m.a. hraðari uppbygging innviða, sérhæfð stjórn og rekstur, fjárhagslegur stöðugleiki og erlendar fyrirmyndir gefa tilefni til bjartsýni. Er það von mín og þeirra þingmanna sem að þessari þingsályktunartillögu standa, að ríkisstjórnin taki undir með flutningsmönnum og undirbúi stofnun Þjóðbrautar hf. Jens Garðar Helgason varaformaður Sjálfstæðisflokksins og oddviti í Norðausturkjördæmi
Sýna fleiri