15. október 2025
Ljósið - samtök út í bæ

Jens Garðar Helgason, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, skrifar um undarlega forgangsröðun stjórnarflokkanna sem sker niður framlög t.d. til Ljóssins, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöðvar fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein, en styrkir þess í stað alþjóðleg samtök um veglegar upphæðir.
Forsætisráðherra vafðist tunga um tönn þegar að undirritaður spurði hana út í forgangsröðun í fjárlögum, nánar tiltekið tvö hundruð milljóna króna niðurskurð til Ljóssins, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöðvar fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þess. Ljósið hefur lyft grettistaki með starfsemi sinni og í hverjum mánuði njóta um 600 manns endurhæfingar og aðstoðar. Þúsundir Íslendinga sem tekist hafa á við krabbamein og aðstandendur þeirra hafa notið þjónustu Ljóssins í gegnum árin.
Ríkisstjórnin hefur nú boðað að skerða fjárframlög ríkisins til Ljóssins um 40% frá síðasta ári. Þetta setur skiljanlega þessa mikilvægu starfsemi í uppnám og einsýnt að skera þurfi niður þjónustu og biðlistar fari að myndast, sem í dag er ekki reyndin.
Fátt var um svör hjá forsætisráðherra þegar hún var spurð út í forgangsröðun ríkisstjórnarinnar á skattfé borgaranna og hvort mikilvægara væri að setja 150 milljónir í alþjóðleg samtök hinsegin fólks, tvö til þrjú þúsund milljónir í stækkun Þjóðleikhússins eða kostnað við starfslok eins opinbers starfsmanns upp á 350 milljónir frekar en 200 milljónir í Ljósið. Sagði forsætisráðherra raunar að henni þætti sérstakt að vera spurð út í hennar „persónulegu afstöðu til þess hvort ákveðin samtök úti í bæ gætu þegið nokkrar milljónir í viðbót“. Þá vitum við það. Ljósið, sem sparar íslenska ríkinu með starfsemi sinni yfir milljarð á ári, eru samtök „úti í bæ“ í huga forsætisráðherra. Samtök sem eru með starfsemi á heimsmælikvarða og hafa hjálpað þúsundum krabbameinssjúklinga og aðstandendum þeirra.
Þetta eru kaldar kveðjur frá leiðtoga ríkisstjórnarinnar. Hvorki ég né aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins skiljum á hvaða vegferð ríkisstjórnin er. Að minnsta kosti er hún ekki að standa vörð um þá sem standa höllustum fæti í samfélaginu.
Er það von mín að við þingmenn, sama hvað flokki þeir eru, snúi bökum saman og standi vörð um starfsemi Ljóssins. Ábyrgðin er okkar.
Jens Garðar Helgason
varaformaður Sjálfstæðisflokksins og oddviti í Norðausturkjördæmi
Jens Garðar Helgason
varaformaður Sjálfstæðisflokksins og oddviti í Norðausturkjördæmi