11. desember 2025

Björn Dagbjartsson látinn

Björn Dagbjartsson, fyrrum alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Norðurlandskjördæmi eystra, sendiherra og framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, lést á Landsspítalanum í dag, 11. desember, 88 ára að aldri. 

Björn fæddist 19. janúar 1937 í Álftagerði í Mývatnssveit, elstur sex barna hjónanna Dagbjarts Sigurðssonar og Kristjönu Ásbjörnsdóttur. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1959 og prófi í efnaverkfræði frá Technische Hochschule í Stuttgart 1964 og síðan doktorsprófi í matvælaverkfræði frá Rutgers University í New Jersey 1972.

Hann starfaði sem verkfræðingur hjá Fiskimjölsverksmiðjunni í Vestmannaeyjum 1965–1966. Árin 1966–1969 og 1972–1974 starfaði hann sem sérfræðingur hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og var þar forstjóri 1974–1984. Þá var hann aðstoðarmaður sjávarútvegsráðherra 1979–1980 og ritaði margar greinar um fiskiðnað í innlend og erlend tímarit og bækur. Björn var valinn Penni ársins af ritstjórn Dagblaðsins Vísis árið 1982 fyrir stuttar, skýrar og skilmerkilegar greinar um þjóðmál.

Björn var varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðurlandskjördæmi eystra 1979-1984 og alþingismaður 1984–1987 eftir að Lárus Jónsson hætti þátttöku í stjórnmálum. Litlu munaði að Björn næði kjöri í kosningunum 1987 en tilkoma Borgaraflokksins, sérframboðs Alberts Guðmundssonar, setti þar strik í reikninginn.

Björn var framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands 1987–2001 og sinnti brautryðjendastarfi við uppbyggingu þróunarsamstarfs Íslands og landanna sunnan Sahara. Frá 2001 til 2005 var hann sendiherra Íslands í Mósambík, Suður-Afríku og Namibíu. Var hann fyrsti sendiherra Íslands, búsettur í Afríku.

Björn var virkur í starfi Rótarýhreyfingarinnar á Íslandi um áratugaskeið og kom ásamt Gunnhildi Sigurðardóttur á samstarfi milli Rótarýklúbba á Íslandi og í Kimberley í Suður-Afríku um byggingu og rekstur barnaheimilis í einu af fátækustu hverfum borgarinnar.

Eiginkona Björns var Sigrún Valdimarsdóttir, bankastarfsmaður og leiðsögumaður, fædd 9. janúar 1936, en hún lést 6. maí 2001.

Sambýliskona Björns var Sigríður Jóhannesdóttir bankastarfsmaður, fædd 8. júní 1939, en hún lést 18. september 2005.

Eftirlifandi sambýliskona Björns er Gunnhildur Sigurðardóttir hjúkrunarfræðingur en einnig lætur Björn eftir sig dæturnar Sigurveigu Huld Sigurðardóttur og Brynhildi Björnsdóttur, fimm barnabörn og sjö barnabarnabörn.

----

Sjálfstæðismenn í Norðausturkjördæmi minnast Björns Dagbjartssonar með hlýju og virðingu. Hann sat vissulega stutta stund á þingi en var farsæll þingmaður sem vann vel fyrir umbjóðendur sína, Eyfirðinga og Þingeyinga - öflugur í ræðu og riti í pólitísku starfi. Björn sýndi og sannaði styrk sinn eftir þingferilinn með því að leiða farsælt alþjóðastarf á fjarlægri grundu á mikilvægu skeiði, öflugur fulltrúi lítillar þjóðar á stóru mikilvægu svæði um langt árabil. 

Við færum fjölskyldu Björns innilegar samúðarkveðjur að leiðarlokum. Blessuð sé minning hans.


Stefán Friðrik Stefánsson 
ritstjóri Íslendings, vefrits sjálfstæðisfélaganna á Akureyri