Velkomin

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri

Fréttir og greinar


1. september 2025
Í dag tekur gildi nýtt örorku- og endurhæfingarkerfi sem markar tímamót í íslensku velferðarkerfi. Ég fagna þessum breytingum, en þær byggjast á lögum sem samþykkt voru í tíð fyrri ríkisstjórnar þann 22. júní 2024. Breytingarnar bæta afkomu, draga úr óþarfa skerðingum og gera fólki auðveldara að taka þátt á vinnumarkaði. Þetta er réttlátara, einfaldara og mannúðlegra kerfi. En það er líka staðreynd að þessar breytingar byggjast á áralangri baráttu Sjálfstæðisflokksins fyrir kerfi sem horfir á getu fólks og tækifæri þess, og ekki einungis á prósentustig örorku. Frumkvæði Sjálfstæðisflokksins og arfleifð Péturs Blöndals Pétur Blöndal heitinn, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, benti ítrekað á meginvanda gamla kerfisins. Svokallað 75% viðmið varð til þess að fólki var ýtt inn í þröskuldakerfi þar sem örlítið lægra mat gat þýtt mun lakari réttindi. Því sköpuðust hvatar sem drógu úr trú á eigin getu og löttu fólk til þátttöku í atvinnulífi. Pétur talaði fyrir því að við hættum að spyrja hvað fólk geti ekki og förum að spyrja hvað það geti. Það er kjarni starfsgetumats og heildrænnar nálgunar sem nú er orðið meginregla. Á eftir Pétri tóku aðrir Sjálfstæðismenn við keflinu. Óli Björn Kárason vann ötullega að því í velferðarnefnd og víðar að festa hugmyndir um starfsgetumat, sveigjanleika og virka þjónustu í sessi. Sjálfstæðisflokkurinn hefur haldið þessari stefnu á lofti árum saman. Markmiðið er skýrt. Að efla einstaklinginn, brjóta niður gildrur fátæktar, byggja undir aukin réttindi og gera vinnu að raunhæfum kosti með sanngjörnum hvötum. Nýja kerfið endurspeglar þessa sýn. Læknisfræðilegum þröskuldum er skipt út fyrir samþætt sérfræðimat þar sem horft er á heilsu, færni og aðstæður á heildstæðan hátt. Hlutaörorkulífeyrir gerir fólki með skerta starfsgetu kleift að vinna eftir getu án þess að tapa öllu öryggi. Tekjutengingar minnka og frítekjumörk hækka svo það borgi sig að afla tekna. Sjúkra- og endurhæfingargreiðslur tryggja samfellu meðan fólk er í meðferð eða í endurhæfingu. Vinnumarkaðsúrræði og skýr samvinna stofnana á þjónustugátt gera fólki auðveldara að rata milli úrræða og forða því frá að falla á milli kerfa. Þetta eru umbætur sem standa í anda ábyrgðar, frelsis og virðingar fyrir mannlegri reisn. Það má hrósa félags- og húsnæðisráðherra fyrir að þessar hugmyndir séu orðnar að veruleika. Það er jákvætt og meginstoðir kerfisins eru sprottnar upp úr hugmyndavinnu og baráttu Sjálfstæðisflokksins. Pétur Blöndal lagði grunn að nýrri hugsun. Óli Björn Kárason fylgdi eftir með markvissum vinnubrögðum. Flokkurinn hélt málinu á dagskrá þar til samstaða náðist um að stíga stóru skrefin. Við eigum ekki að gera lítið úr framlagi annarra, en við eigum heldur ekki að leyfa sögunni að gleymast. Kerfi sem hvetur til þátttöku Nú stendur yfir lykilverkefni sem er fagleg og vönduð innleiðing. Þar mun reyna á að kerfið virki í raun fyrir einstaklinginn, ekki bara á pappír. Sjálfstæðisflokkurinn mun fylgja innleiðingunni eftir, tryggja að þjónustan sé mannsæmandi og sveigjanleg og vinna áfram að frekari umbótum þar sem reynslan sýnir þörf. Við viljum að ungt fólk lendi ekki varanlega utan vinnumarkaðar eftir veikindi eða slys. Við viljum að sérsniðin endurhæfing, menntun og ráðgjöf skili fólki aftur inn í samfélagið með styrk og sjálfstæði. Nýja örorkukerfið er því ekki endastöð heldur upphaf nýs kafla. Það er ávöxtur hugmynda sem við höfum barist fyrir lengi. Það er vitnisburður um að skynsemi, virðing og trú á getu fólks skila árangri. Við skulum fylgja þessu vel eftir. Þannig byggjum við upp samfélag þar sem velferð er örugg, réttlæti ríkir og tækifæri standa öllum til boða.
Eftir Stefán Friðrik Stefánsson 30. ágúst 2025
Ólafur Adolfsson tók í dag við formennsku í þingflokki Sjálfstæðisflokksins á þingflokksfundi sem haldinn var í höfuðstöðvum flokksins í Valhöll. Tekur hann við af Hildi Sverrisdóttur sem verið hefur þingflokksformaður síðan 2023 og sagði af sér formennsku í gær. „Ég þakka fyrir traustið og Hildi fyrir öflug störf. Nú leggjum við af stað sem samheldið lið með skýra sýn: að standa vörð um stefnu Sjálfstæðisflokksins og vinna að hagsmunum þjóðarinnar. Ég tek við verkefninu af auðmýkt og horfi bjartsýnn til framtíðar,“ segir Ólafur Adolfsson nýkjörinn þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. „Ég óska Ólafi velfarnaðar í nýju hlutverki. Hann hefur víðtæka reynslu og sterka leiðtogahæfni sem mun styrkja þingflokkinn. Um leið þakka ég Hildi fyrir vandaða og trausta forystu, en hún heldur áfram mikilvægum störfum fyrir flokkinn á þingi. Framundan eru bjartir tímar fyrir Sjálfstæðisflokkinn,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Sjálfstæðisflokksins Ólafur er fæddur 18. október 1967. Hann er 1. þingmaður Norðvesturkjördæmis og hefur setið á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn síðan 2024. Hann er lyfjafræðingur að mennt og hefur rekið eigin lyfsölu síðan 2006. Ólafur var bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akranesi á árunum 2014-2022 og hefur gegnt fjölmörgum öðrum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn, sat m.a. í miðstjórn um árabil.
Eftir Stefán Friðrik Stefánsson 29. ágúst 2025
Bæjarmálafundur Sjálfstæðisflokksins verður haldinn í Geislagötu 5 mánudaginn 1. september kl. 17:30. Bæjarfulltrúar fara yfir helstu mál sem verða á dagskrá bæjarstjórnar og taka yfirferð á þeim málum sem hæst standa að loknu sumarleyfi bæjarstjórnar og hafa verið í gangi frá síðasta bæjarmálafundi í júní. Fundarstjóri: Lára Halldóra Eiríksdóttir, bæjarfulltrúi Allir velkomnir - heitt á könnunni.
20. ágúst 2025
Seðlabankinn stöðvaði í dag vaxtalækkunarferlið sem hófst í október 2024. Í aðdraganda kosninga hét forsætisráðherra því að hún myndi negla vextina niður með sleggju. Nú er staðan sú að sleggjunni hefur ekki verið lyft og slagkraftur hennar er enginn. Verðbólga er enn mikil, húsnæði dýrt og vextir háir. Sjálfstæðisflokkurinn hefur alla tíð talað fyrir festu í ríkisfjármálum, aðhaldi í opinberum rekstri og minni álögum á heimili og fyrirtæki. Það er leiðin að lægri vöxtum. En ríkisstjórnin hefur farið þveröfuga leið; aukið útgjöld, hækkað skatta og aukið óvissu. Á sama tíma og Seðlabankinn sendir skýr skilaboð um að vextir haldist háir á meðan verðbólgan þokast ekki frekar í átt að markmiði boðar ríkisstjórnin hverja útgjaldaaukninguna á fætur annarri. Í ofanálag benda vísbendingar til þess að nú hægi á húsnæðisuppbyggingu. Verktakar haldi að sér höndum, fjárfestar hiki og framtíðaráformum slegið á frest. Helsta ástæðan er hár fjármagnskostnaður. Stjórnvöld bregðast við með því að þrengja enn frekar að einkaframtakinu með auknum álögum og þyngra regluverki, sérstaklega í Reykjavík. Það er engin sleggja. Ekkert plan. Sjálfstæðisflokkurinn vill frjálst atvinnulíf, lægri álögur og raunverulegar lausnir. Við viljum samfélag þar sem fólk getur keypt sér eigið húsnæði. Ekki samfélag sem treystir á niðurgreiðslur og hvers kyns ríkisafskipti út í hið óendanlega. Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Sjálfstæðisflokksins
Sýna meira
Fleiri fréttir

Golfmót

Golfmót Sjálfstæðisflokksins á Akureyri
Sjá alla viðburði