Elías Gunnar Þorbjörnsson (4. - 6. sæti)

Elías Gunnar Þorbjörnsson, skólastjóri og varabæjarfulltrúi, gefur kost á sér í 4.- 6. sæti í röðun Sjálfstæðisflokksins á Akureyri 3. febrúar nk.

Ég fæddist 7. mars 1980 og er því 37 ára í dag. Ég er giftur og á ég tvö börn, tveggja og sjö ára.

Í dag starfa ég sem skólastjóri Lundarskóla á Akureyri, þar hef ég starfað í rúm fimm ár. Áður kenndi ég bæði við Giljaskóla og Glerárskóla á Akureyri.

Ég útskrifaðist sem grunnskólakennari frá Háskólanum á Akureyri (2004) en að auki hef ég tvær meistaragráður í stjórnun, aðra frá háskólanum í Jyvaskyla í Finnlandi (2010) og hina frá HA (2012).

Ég hef tekið virkan þátt í starfi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri undanfarin ár. Á þessu kjörtímabili hef ég verið varabæjarfulltrúi og setið fundi í bæjarstjórn. Ég var fulltrúi flokksins í atvinnumálanefnd auk þess að vera varamaður í íþrótta- og tómstundaráði síðari hluta kjörtímabils. Ég hef einnig setið í fræðsluráði sem fulltrúi skólastjóra og hef því nokkra reynslu af nefndarstörfum og vinnu í nefndum bæjarins.

Meðfram námi og starfi hefur ég gegnt ýmsum trúnaðarstörfum, t.d. var ég varaformaður Félags stúdenta við Háskólann á Akureyri (2002-2004) og sat í stjórn Bandalags kennara á Norðurlandi Eystra, bæði sem gjaldkeri og varaformaður (2006-2008 og 2010-2012), í dag sit ég í kjararáði Skólastjórafélags Íslands.

Helstu áherslumál
Mín helstu áherslumál snúa að þjónustu við íbúa bæjarins og þá helst atvinnumál, skóla- og dagvistarmál og íþrótta- og tómstundamál.

Atvinnumál
Í atvinnumálum þurfum við að gera fyrirtækjum kleyft að dafna og gera Akureyri vænlegan kost til að setja upp starfsemi. Í þeim málum tel ég mikilvægast að koma rafmagnsmálum Akureyrar í gott horf. Það er algerlega óásættanlegt að ekki sé til orka til að fyrirtæki geti starfað af fullum afköstum aða eigi á hættu að verða fyrir skerðingum eða þurfi að flytja framleiðslu annað eins og dæmi eru um.

Flugvallarmál þurfa að klárast með aðflugsbúnaði svo að flug raskist minna en nú er. Þetta er ferðaþjónustunni mjög mikilvægt sem og okkur öllum íbúum Akureyrar sem viljum geta ferðast á auðveldan og þægilegan hátt.

Skólamál

Skólamál hafa mikið verið í umræðu og þá helst málefni dagforeldra og leikskóla þar sem erfitt ástand hefur verið undanfarið. Verkefnið er hinsvegar lúxus vandi þar sem fleira fólk hefur flutt til bæjarins en áætlanir hafa verið uppi um. Við þurfum að eiga borð fyrir báru í þessum málum og hafa pláss fyrir börn sem flytja í bæinn. Þetta er gríðarlegt hagsmunamál fyrir bæði foreldra og atvinnulíf. Ef börn komast ekki til dagforeldra eða á leikskóla geta foreldrar ekki verið á vinnumarkaði og fyrirtæki ekki fengið fólk til starfa á Akureyri.

Á kjörtímabilinu var tveim leikskólum lokað og annar ekki opnaður. Til stendur að gera leikskóla við Glerárskóla en á sama tíma stefnir í lokun leikskólans Pálmholts. Þarna þarf að hafa vaðið fyrir neðan sig og legg ég til að áður en Pálmholti verður lokað verði byggður leikskóli við Lundarskóla og þannig komið í veg fyrir skort á leikskólaplássi á brekkunni. 


Íþrótta- og tómstundamál
Á Akureyri er öflugt og gott starf unnið í íþrótta- og tómstundamálum og er aðstaðan nokkuð góð. Við þurfum að halda áfram að styðja við uppbyggingu í þessum málaflokki. Þar horfi ég t.d. til Hlíðarfjalls þar sem hægt er að koma upp heilsárs afþreyingu fyrir bæjarbúa sem og ferðamenn.

Í tómstundamálum gegnir starfsemi Rósenborgar einnig lykilhlutverki en þangað sækja oft ungmenni sem finna sig ekki í íþróttahreifingunni og er þar unnið frábært starf í forvörnum og fræðslu til ungs fólks.

Lokaorð
Á Akureyri er gott að búa, ég vil leggja mitt af mörkum svo að hér dafni áfram gott mannlíf í samfélagi sem að er framsækið og öflugt. Við höfum uppá svo margt að bjóða ég held að okkur eigi eftir að fjölga umtalsvert á næstu árum og jafnvel umfram spár. Ef það gengur eftir þá þurfum við að vera tilbúin og búin að bregðast við, svo að við lendum ekki alltaf í því að það komi okkur á óvart að fleiri flytjist til bæjarins en við bjuggumst við og fara þá að byggja upp þegar það er of seint.

Ég óska eftir atkvæði þínu í 4. – 6. sæti í röðuninni 3. febrúar næstkomandi. Saman getum við gert góðan bæ enn betri.

Bestu kveðjur,
Elías Gunnar Þorbjörnsson

Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook