Lög kjördæmisráðs

LÖG KJÖRDÆMISRÁÐS SJÁLFSTÆÐISFLOKKSINS Í Norðausturkjördæmi


Kjördæmisráð

1. grein
Sjálfstæðisfélögin og fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Norðausturkjördæmi mynda með sér sameiginlegt ráð, er nefnist Kjördæmisráð Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi.

2. grein
Hlutverk kjördæmisráðs er að fara með sameiginleg flokksmál í kjördæminu í umboði miðstjórnar.

Skipan kjördæmisráðs

3. grein

1. Fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna kjósa hvert um sig fulltrúa í kjördæmisráð, einn fulltrúa fyrir hverja 10 fulltrúaráðsmeðlimi eða brot úr þeirri tölu, sbr. 27. gr. skipulagsreglna Sjálfstæðisflokksins.

2. Að auki kjósa félögin í kjördæmisráð sem svarar einum fulltrúa fyrir hverja 50 fullgilda félagsmenn sjálfstæðisfélaga í umdæminu eða brot úr þeirri tölu eða meira, í réttu hlutfalli við fjölda fullgildra félagsmanna á síðasta aðalfundi félagsins. Þó skal félag, sem ekki nær þessari tölu hafa rétt til að kjósa einn fulltrúa í kjördæmisráð. Stjórn fulltrúaráðs skiptir fulltrúum milli félaganna eftir þessari reglu. Vilji félögin ekki una þeirri skiptingu, geta þau lagt ágreininginn undir úrskurð almenns fundar í fulltrúaráðinu, en síðar má skjóta málinu til kjördæmisráðs, sem hefur endanlegt úrskurðarvald.

3. Formenn fulltrúaráða, formenn kjördæmissamtaka ungra sjálfstæðismanna, kvenna og eldri sjálfstæðismanna og formaður launþegaráðs sem nær yfir kjördæmið, kjörnir þingmenn flokksins í kjördæminu og stjórnarmenn í stjórn kjördæmisráðs eru sjálfkjörnir í kjördæmisráð.

4. Frambjóðendur í aðalsætum á lista Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu við hverjar alþingiskosningar, aðrir en kjörnir alþingismenn, skulu hafa rétt til fundarsetu á fundum kjördæmisráðs, með málfrelsi og tillögurétti, en hafa þar ekki atkvæðisrétt nema þeir séu kjörnir fulltrúar. Sama á við flokksráðsmenn í kjördæminu og oddvita á framboðslistum til sveitarstjórna eigi þeir ekki sæti í kjördæmisráðinu.

4. grein
Fulltrúar í kjördæmisráði skulu kosnir árlega á aðalfundum fulltrúaráða og sjálfstæðisfélaga. Umboð kjördæmisráðsfulltrúa gilda frá aðalfundi viðkomandi fulltrúaráðs eða sjálfstæðisfélags til næsta aðalfundar þess. Þrátt fyrir ákvæði í 1. mgr. falla umboð kjördæmisráðsfulltrúa úr gildi ef meira en átján mánuðir eru liðnir frá því þeir voru kosnir, miðað við fundardag kjördæmisráðs.

Stjórn kjördæmisráðs og verkefni hennar

5. grein
Stjórn kjördæmisráðs skal skipuð 15 mönnum og jafnmörgum til vara. Skal formaður kosinn sérstaklega. Formaður kjördæmasamtaka ungra er sjálfkjörinn í stjórn kjördæmisráðs.

6. grein
Stjórn kjördæmisráðs skal:

1. Annast framkvæmdastjórn kjördæmisráðs.
2. Sjá um, að flokkskerfið í kjördæminu sé í samræmi við skipulagsreglur flokksins.
3. Fylgjast með því, að fulltrúaráðin og sjálfstæðisfélögin kjósi reglulega fulltrúa í kjördæmisráð.
4. Hafa vörslu sjóðs kjördæmisráðs og annarra sameiginlegra eigna flokksins í kjördæminu.

7. grein
Árgjald sem ákveðið er á aðalfundi skal greitt í sjóð kjördæmisráðs fyrir hvern fullgildan félagsmann í sjálfstæðisfélögum þeim, sem standa að kjördæmisráðinu.

8. grein
Stjórn kjördæmisráðs hefur heimild til að skipa þær starfsnefndir fyrir kjördæmisráð, sem þörf krefur á hverjum tíma.

Kjörnefnd vegna alþingiskosninga

9. grein
Í kjörnefnd eru sjálfkjörnir: Formaður kjördæmisráðs og formenn fulltrúaráða sjálfstæðisfélaganna í kjördæminu, en í forföllum þeirra varaformaður kjördæmisráðs og varaformenn fulltrúaráðanna. Kjörnefnd kýs sér formann.

Á aðalfundi kjördæmisráðs skal kjósa fulltrúa í kjörnefndina, einum fleiri en tala hinna sjálfkjörnu fulltrúa er hverju sinni. Jafnframt skal kjósa þrjá varamenn er taki sæti kjörinna aðalmanna í forföllum þeirra. 

Kjörnefnd gerir tillögur til kjördæmisráðs um framboðslista flokksins við kosningar til Alþingis.

10. grein
Kjördæmisráð ákveður framboðslista flokksins við kosningar til Alþingis. Þegar ákveða skal framboð, skal til þess fundar boðað á þann hátt, að allir ráðsmenn fái örugglega vitneskju um fundinn og dagskrá hans með minnst viku fyrirvara. Til þess að listi sé lögmætur, þarf meirihluti atkvæðisbærra fundarmanna að samþykkja hann. Skylda er að hafa leynilega atkvæðagreiðslu, ef þess er óskað.

Stjórn kjördæmisráðs skal leita staðfestingar miðstjórnar á framboðslistum í samræmi við 54. grein skipulagsreglna Sjálfstæðisflokksins.

11. grein
Þegar framboðslisti flokksins til alþingiskosninga hefur verið ákveðinn, skal stjórn kjördæmisráðs, ásamt formönnum fulltrúaráðanna og frambjóðendum í aðalsætum á lista flokksins, mynda kosningastjórn, sem sameiginlega stjórnar og ber ábyrgð á kosningunum. Kosningastjórn ræður eða skipar síðan 3 menn í framkvæmdastjórn.

Prófkjör

12. grein
Ákveði kjördæmisráð að viðhafa prófkjör við val á frambjóðendum til alþingiskosninga skal það fara fram í samræmi við samræmdar framkvæmdareglur miðstjórnar Sjálfstæðisflokksins sbr. 56. grein skipulagsreglna Sjálfstæðisflokksins.

Aðalfundur kjördæmisráðsins

13. grein
Aðalfundur kjördæmisráðs skal haldinn ár hvert og eigi síðar en fyrir lok marsmánaðar. Fundinn skal boða öllum aðildarfélögum með minnst 3ja vikna fyrirvara. Stjórn kjördæmisráðs boðar til aðalfundar og ákveður fundarstað og tíma og gildir hið sama um aðra fundi kjördæmisráðs.

14. grein
Á aðalfundi kjördæmisráðs skal starfa uppstillingarnefnd, er gerir tillögur um kosningu stjórnar, kjörnefndar og fulltrúa í flokksráð og skal hún skal skipuð formönnum fulltrúaráðanna. Formaður kjördæmisráðs boðar nefndina til fyrsta fundar, en nefndin kýs sér formann.

15. grein
Á aðalfundi kjördæmisráðs skal eftirtalið tekið fyrir:

1. Skýrsla fráfarandi stjórnar og reikningar kjördæmisráðsins.
2. Lagabreytingar.
3. Ákvörðun árgjalds.
4. Stjórnarkjör.

a. Kosning formanns.
b. Kosning 14 stjórnarmanna.
c. Kosning 15 varamanna.
5. Kosning kjörnefndar.
6. Kosning til miðstjórnar skv. 23. gr. skipulagsreglna Sjálfstæðisflokksins.
7. Kosning fulltrúa í flokksráð skv. 13.gr. skipulagsreglna Sjálfstæðisflokksins.
8. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga og eins til vara.
9. Önnur mál.

16. grein
Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi og þarf 2/3 hluta atkvæða allra atkvæðisbærra fundarmanna til að breytingin nái fram að ganga.

17. grein
Nú óska a.m.k. 20 kjördæmisráðsmenn skriflega eftir því við stjórn kjördæmisráðs að fundur verði haldinn í ráðinu um tiltekið mál og skal stjórnin þá verða við þessari ósk eigi síðar en 14 dögum eftir að henni barst hin skriflega ósk um fund. Þessi fundur er ekki ályktunarfær nema helmingur kjördæmisráðsmanna sé mættur.

18. grein
Lög þessi öðlast þegar gildi.


Þannig samþykkt á aðalfundi kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, sem haldinn var á Húsavík laugardaginn 3. nóvember 2001. Lagabreytingar gerðar á aukaaðalfundi kjördæmisráðsins sem haldinn var á Akureyri laugardaginn 24. mars 2012.

Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri | Geislagötu 5 | Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson | XD-AK | XD-Norðaustur