31. júlí 2025
Verjum mikilvæga hagsmuni Íslands

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, skrifar um mikilvægi þess að verja hagsmuni Íslands gegn augljósum brotum á EES-samningnum. Athyglisvert sé að forsætisráðherra, æðsti trúnaðarmaður þjóðarinnar, þegi og tali ekki skýrt fyrir Íslands hönd þegar svo mikilvægir hagsmunir fyrir þjóðarheildina séu í húfi.
---
Evrópusambandið stendur nú frammi fyrir ákvörðun sem gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir íslenskt atvinnulíf. Ákvörðun sem er í beinni andstöðu við skuldbindingar samkvæmt EES samningnum. Slík framganga sýnir svart á hvítu að aðildarviðræður við Evrópusambandið eru hvorki tímabærar né skynsamlegar við núverandi aðstæður.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra hefur gagnrýnt þessi áform. Hún hefur sagt skýrt að fyrirhugaðir tollar Evrópusambandsins brjóti gegn EES samningnum. Það er mikilvægt og rétt viðbragð. En það eitt og sér dugir ekki.
Forsætisráðherra hefur enn ekki tjáð sig um fyrirhugaðar verndaraðgerðir Evrópusambandsins sem beinast gegn löndum utan tollabandalagsins, þar á meðal Íslandi og Noregi. Það vekur óneitanlega spurningar af hverju ríkisstjórnin lætur þetta mál viðgangast án þess að forsætisráðherra, æðsti trúnaðarmaður þjóðarinnar, tali skýrt fyrir Íslands hönd.
Ég skora því á Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra að leggjast á árarnar með þjóðinni. Við þurfum að tala skýrt og benda á með óumdeildum hætti að svona koma vinaþjóðir einfaldlega ekki fram hver við aðra.
Ég hef oft bent á, og ítreka það hér, að samkeppnishæft atvinnulíf er forsenda velferðar á Íslandi. Það eru hagsmunir almennings. Þess vegna ber okkur að standa vörð um þau störf og þau fyrirtæki sem tryggja verðmætasköpun og stöðugleika í samfélaginu. Í því samhengi skiptir engu hvort þrýstingurinn birtist í formi innlendra skattahækkana eða erlendra tollaálagna. Niðurstaðan er sú sama: veikara atvinnulíf og verri kjör fyrir fólkið í landinu.
Sama hvaða afstöðu fólk hefur til aðildar að Evrópusambandinu, þá ættum við öll að geta verið sammála um það grundvallaratriði að hagsmunir Íslands eigi alltaf að vera í forgangi, sérstaklega í málum sem snerta sjálfstæði okkar og lífskjör.
Ég tel tímabært að stjórnarandstaða og stjórnarmeirihluti sameinist um að verja þessa mikilvægu hagsmuni Íslands. Við verðum að tala með einni röddu, óháð flokkslínum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ávallt lagt áherslu á sjálfstæða hagsmunagæslu Íslands og það hlutverk er brýnt nú sem aldrei fyrr.
Það er sameiginleg skylda okkar allra.
Guðrún Hafsteinsdóttir
formaður Sjálfstæðisflokksins
Guðrún Hafsteinsdóttir
formaður Sjálfstæðisflokksins