24. júlí 2025
Strandveiðifrumvarpið átti sér aldrei Viðreisnar von

Vilhjálmur Árnason, alþingismaður og ritari Sjálfstæðisflokksins, skrifar um örlög strandveiðifrumvarpsins sem dagaði uppi við þinglok. Ríkisstjórnin beri þar fulla ábyrgð á því að það sigldi í strand. Staðreyndin sé þó að frumvarpið hafi ekki átt sér Viðreisnar von.
Atvinnuvegaráðherra hefur ítrekað látið að því liggja að stjórnarandstaðan hafi „kæft“ strandveiðifrumvarpið. Það stenst enga skoðun. Raunveruleikinn er sá að ríkisstjórnin sjálf ber fulla ábyrgð á því að málið sigldi í strand.
Vandræðagangurinn var slíkur í kringum málið að flytja þurfti málið á milli ráðuneyta, til innviðaráðherra Flokks fólksins, flokks sem hafði lofað strandveiðisjómönnum auknum aflaheimildum. Það loforð reyndist orðin tóm, enda steytti frumvarpið endanlega á skeri undir hans forystu.
Þegar ríkisstjórnin reynir nú að kenna stjórnarandstöðunni um eigið klúður er hún einfaldlega að varpa ábyrgðinni frá sér. Dagskrárvaldið er í höndum ríkisstjórnarinnar, það er óumdeilt. Hefði hún ætlað sér að tryggja 48 daga strandveiðar hefði frumvarpið verið lagt fram fyrr, farið hratt og örugglega í gegnum nefnd og sett á dagskrá þingsins í tíma.
Staðreyndin er sú að ríkisstjórnin fer með óskorað dagskrárvald á Alþingi. Hún ræður því hvaða mál fá forgang og hvaða mál eru tekin til þinglokasamninga. Strandveiðifrumvarpið var aldrei sett í þann forgang sem nauðsynlegur var til að klára málið í tæka tíð.
Til marks um það var frumvarpið ekki lagt fram fyrr en 28. maí, tveimur heilum mánuðum eftir að lögbundinn frestur rann út til að leggja fram mál á Alþingi. Því næst dróst málið í nefnd allt til loka júní og komst ekki á dagskrá þingsins fyrr en 8. júlí. Þegar mál eru sett svona seint fram, í miðri sumarbyrjun, þarf engan að undra að þau nái ekki fram að ganga.
Steytti á skeri undir forystu Flokks fólksins
Vandræðagangurinn var slíkur í kringum málið að flytja þurfti málið á milli ráðuneyta, til innviðaráðherra Flokks fólksins, flokks sem hafði lofað strandveiðisjómönnum auknum aflaheimildum. Það loforð reyndist orðin tóm, enda steytti frumvarpið endanlega á skeri undir hans forystu.
Viðreisn hafði frá upphafi engan raunverulegan vilja til að samþykkja málið. Það sýnir sig best í því að málaflokkurinn var færður á milli ráðuneyta og afgreiðslu málsins seinkað þar til aflaheimildir kláruðust. Niðurstaðan talar sínu máli.
Stjórnarandstaðan hafði raunar aldrei í hyggju að standa í vegi fyrir strandveiðifrumvarpinu, heldur var það einungis skortur á samstöðu og skipulagi innan ríkisstjórnarinnar sem tafði framgang málsins.
Skortur á samstöðu og vilja gerði út um málið
Þegar ríkisstjórnin reynir nú að kenna stjórnarandstöðunni um eigið klúður er hún einfaldlega að varpa ábyrgðinni frá sér. Dagskrárvaldið er í höndum ríkisstjórnarinnar, það er óumdeilt. Hefði hún ætlað sér að tryggja 48 daga strandveiðar hefði frumvarpið verið lagt fram fyrr, farið hratt og örugglega í gegnum nefnd og sett á dagskrá þingsins í tíma.
Það er ríkisstjórnin sjálf sem ber alla ábyrgð á þessu klúðri. Hún hafði bæði tækin og tækifærin til að sigla málinu í höfn, en skortur á samstöðu og vilja gerði út um málið. Það er í raun Viðreisn sem hafði engan áhuga á að afgreiða málið, enda færist málaflokkur ekki milli ráðuneyta að ástæðulausu.
Atburðarásin sýnir skýrt að frumvarpið átti sér í raun aldrei Viðreisnar von.
Vilhjálmur Árnason
alþingismaður og ritari Sjálfstæðisflokksins
Vilhjálmur Árnason
alþingismaður og ritari Sjálfstæðisflokksins