24. júlí 2025

Strandveiðifrumvarpið átti sér aldrei Viðreisnar von

Vilhjálmur Árnason, alþingismaður og ritari Sjálfstæðisflokksins, skrifar um örlög strandveiðifrumvarpsins sem dagaði uppi við þinglok. Ríkisstjórnin beri þar fulla ábyrgð á því að það sigldi í strand. Staðreyndin sé þó að frumvarpið hafi ekki átt sér Viðreisnar von.

At­vinnu­vegaráðherra hef­ur ít­rekað látið að því liggja að stjórn­ar­andstaðan hafi „kæft“ strand­veiðifrum­varpið. Það stenst enga skoðun. Raun­veru­leik­inn er sá að rík­is­stjórn­in sjálf ber fulla ábyrgð á því að málið sigldi í strand.

Staðreynd­in er sú að rík­is­stjórn­in fer með óskorað dag­skrár­vald á Alþingi. Hún ræður því hvaða mál fá for­gang og hvaða mál eru tek­in til þingloka­samn­inga. Strand­veiðifrum­varpið var aldrei sett í þann for­gang sem nauðsyn­leg­ur var til að klára málið í tæka tíð.

Til marks um það var frum­varpið ekki lagt fram fyrr en 28. maí, tveim­ur heil­um mánuðum eft­ir að lög­bund­inn frest­ur rann út til að leggja fram mál á Alþingi. Því næst dróst málið í nefnd allt til loka júní og komst ekki á dag­skrá þings­ins fyrr en 8. júlí. Þegar mál eru sett svona seint fram, í miðri sum­ar­byrj­un, þarf eng­an að undra að þau nái ekki fram að ganga.

Steytti á skeri und­ir for­ystu Flokks fólks­ins

Vand­ræðagang­ur­inn var slík­ur í kring­um málið að flytja þurfti málið á milli ráðuneyta, til innviðaráðherra Flokks fólks­ins, flokks sem hafði lofað strand­veiðisjó­mönn­um aukn­um afla­heim­ild­um. Það lof­orð reynd­ist orðin tóm, enda steytti frum­varpið end­an­lega á skeri und­ir hans for­ystu.

Viðreisn hafði frá upp­hafi eng­an raun­veru­leg­an vilja til að samþykkja málið. Það sýn­ir sig best í því að mála­flokk­ur­inn var færður á milli ráðuneyta og af­greiðslu máls­ins seinkað þar til afla­heim­ild­ir kláruðust. Niðurstaðan tal­ar sínu máli.

Stjórn­ar­andstaðan hafði raun­ar aldrei í hyggju að standa í vegi fyr­ir strand­veiðifrum­varp­inu, held­ur var það ein­ung­is skort­ur á sam­stöðu og skipu­lagi inn­an rík­is­stjórn­ar­inn­ar sem tafði fram­gang máls­ins.

Skort­ur á sam­stöðu og vilja gerði út um málið

Þegar rík­is­stjórn­in reyn­ir nú að kenna stjórn­ar­and­stöðunni um eigið klúður er hún ein­fald­lega að varpa ábyrgðinni frá sér. Dag­skrár­valdið er í hönd­um rík­is­stjórn­ar­inn­ar, það er óum­deilt. Hefði hún ætlað sér að tryggja 48 daga strand­veiðar hefði frum­varpið verið lagt fram fyrr, farið hratt og ör­ugg­lega í gegn­um nefnd og sett á dag­skrá þings­ins í tíma.

Það er rík­is­stjórn­in sjálf sem ber alla ábyrgð á þessu klúðri. Hún hafði bæði tæk­in og tæki­fær­in til að sigla mál­inu í höfn, en skort­ur á sam­stöðu og vilja gerði út um málið. Það er í raun Viðreisn sem hafði eng­an áhuga á að af­greiða málið, enda fær­ist mála­flokk­ur ekki milli ráðuneyta að ástæðulausu.

At­b­urðarás­in sýn­ir skýrt að frum­varpið átti sér í raun aldrei Viðreisn­ar von.


Vilhjálmur Árnason
alþingismaður og ritari Sjálfstæðisflokksins