22. júlí 2025
Njáll Trausti vill fund hið fyrsta í atvinnuveganefnd

Njáll Trausti Friðbertsson, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi og nefndarmaður í atvinnuveganefnd Alþingis, óskaði í morgun eftir fundi í atvinnuveganefnd með atvinnuvegaráðherra sem haldinn verði sem fyrst. Bergþór Ólason og Jón Gunnarsson hafa tekið undir fundarbeiðnina.
Tilefni þess að óskað er eftir nefndarfundi í atvinnuveganefnd er viljayfirlýsing milli Íslands og Evrópusambandsins um „aukið samstarf í málefnum hafsins og sjávarútvegs“ sem Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra undirritaði ásamt Costas Kadis, sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins 15. júlí s.l.
Í yfirlýsingunni segir m.a.: „Í tengslum við undirritun viljayfirlýsingarinnar funduðu Hanna Katrín Friðriksson og Costas Kadis um fjölmörg mál tengd fiskveiðum og hafinu, þar á meðal þörfina á heildarsamkomulagi um skiptingu sameiginlegra stofna í Norðaustur Atlantshafi, bláa hagkerfið og málefni hafsins. Bæði lögðu áherslu á mikilvægi alþjóðlegs samstarfs til að tryggja að nýting sjávarauðlinda byggist á bestu fáanlegu vísindalegu ráðgjöf.“
Njáll Trausti telur afar mikilvægt að atvinnuveganefnd Alþingis fái kynningu á þessari viljayfirlýsingu þar sem býsna stórir málaflokkar eru undir sem skipta íslenskt atvinnulíf og íslenskt samfélag miklu máli.