16. júlí 2025
Njáll Trausti ræðukóngur Alþingis á vorþinginu

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins raða sér í flest efstu sætin á lista yfir þá sem töluðu mest á liðnum þingvetri. Njáll Trausti Friðbertsson, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, talaði lengst á vorþinginu og flutti flestar ræður og hlýtur því titilinn ræðukóngur Alþingis.
Alþingi var sett hinn 4. febrúar eða fyrir rúmum fimm mánuðum. Á þeim tíma var haldinn 91 þingfundur og stóðu þeir samtals yfir í um 710 klukkustundir. Sá lengsti varði í átján og hálfan tíma og líkt og fram hefur komið var lengsta umræðan um veiðigjöld en rætt var um málið í um 162 klukkustundir.
Njáll Trausti talaði í 1.548 mínútur eða tæpar 26 klukkustundir. Í viðtali við vísir.is segir Njáll Trausti: "Það er búið að vera mikil umræða um mörg stór mál síðan í byrjun febrúar og þetta er kannski svolítið mikið á mínum þekkingarsviðum og áhugasviðum sem umræðan hefur verið. Þannig það er bara áhugavert að lenda í þessari stöðu".
Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, talaði næst mest, eða í 1.509 mínútur og þar á eftir er Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins, sem talaði í 1.492 mínútur. Í fjórða sæti er Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem talaði í 1.399 mínútur.
Njáll Trausti segir umræðuna um veiðigjöld standa upp úr þar á þinginu sem hann hafi viðrað áhyggjur sínar af áhrifum breytinganna á sjávarþorp í kringum landið.
"En svo höfum líka verið að ræða varnar- og öryggismálin, búin að ræða innviði í samfélaginu, og ég hef haft mikinn áhuga á samgöngumálum og raforkumálum".
Njáll Trausti segir þingveturinn hafa verið sérstakan að mörgu leyti en bindur vondir við gott samstarf í haust.
"Vonandi er skárri þingvetur fram undan en það sem við höfum verið að upplifa síðustu mánuði, sem ég held að sé alveg fordæmalaust".