14. júlí 2025
Að deila og drottna

Jens Garðar Helgason, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, skrifar um áhrif veiðigjaldamálsins og gerir upp við átökin í þinginu um málið sem lauk með beitingu 71. greinar þingskaparlaga, kjarnorkuákvæðisins svokallaða.
Forsætisráðherra, Kristrún Frostadóttir, skrifaði sjálfa sig í sögubækurnar fyrir helgi þegar henni, fyrst forsætisráðherra í 66 ár, mistókst að miðla málum - og það í skattamáli. Fordæmið sem hún setti mun vofa yfir öllum þingstörfum um ókomna tíð.
Jens Garðar Helgason
varaformaður Sjálfstæðisflokksins og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi
Leikritið sem sett var á svið til þess að réttlæta aðför meirihlutans að lýðræðinu var vel skrifað og því vel leikstýrt. Í dag blasir auðvitað við það sem okkur í þingflokki Sjálfstæðisflokksins hafði lengi grunað: Að svona átti þetta alltaf að fara.
Fagleg vinna í þinginu, lögbundið samráð við hagsmunaaðila og samtal við minnihluta þóttu lengi, og þar til fyrir mjög stuttu, sjálfsagðar reglur í þinginu. Forverar Kristrúnar Frostadóttur síðastliðin 66 ár byggðu á þessum reglum þegar þau komu öllum þingmálum í gegnum þingið frá 1959. Nú voru þessar reglur hafðar að engu, og skattahækkun Kristrúnar Frostadóttur lamin í gegn.
Meirihlutinn talar um réttlæti. Hann segir að búið sé að koma til móts við litlar og meðalstórar útgerðir og þetta muni ekki hafa nein áhrif á sveitarfélögin í landinu.
Tölum þá bara um tölurnar eins og þær eru. Meðalstór útgerð á Patreksfirði eins og Oddi mun sjá á eftir 75-80% af rekstrarafkomu í opinber gjöld. Hraðfrystihús Gunnvarar á Ísafirði mun greiða um 91% af afkomu fyrirtækisins í opinber gjöld.
Fyrirtæki í Fjarðabyggð munu greiða þrjá milljarða aukalega í skatt. Þetta eru fyrirtæki sem fjárfest hafa fyrir tugi milljarða í heimabyggð undanfarin ár. Nú er þeim sagt að betur færi á að opinberir starfsmenn á höfuðborgarsvæðinu ráðstafi því fé.
Þetta sama fólk heldur því fram, gegn betri vitund vona ég, að þetta muni engin áhrif hafa á samfélagið á Patreksfirði, á Ísafirði, heima í Fjarðabyggð og í sjávarþorpum um allt land.
Kristrún, Þorgerður og Inga voru tilbúnar til þess að taka lýðræðið úr sambandi til að hækka skatta á sjávarútveginn. Framundan eru skattahækkanir á ferðaþjónustuna, útsvarshækkanir, hækkun tryggingagjalds og afnám samsköttunar hjóna svo eitthvað sé nefnt.
Í dag var það sjávarútvegurinn. Hver er næstur?
Jens Garðar Helgason
varaformaður Sjálfstæðisflokksins og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi