1. júní 2025

Hetjur hafsins

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, skrifar um sjómannadaginn sem heiðrar framlag hetjanna okkar í sjávarútvegi - með öflugu framlagi sínu og verðmætasköpun hafa þeir verið burðarásar í íslensku atvinnulífi.

Íslend­ing­ar hafa um ára­tuga­skeið haldið hátíðleg­an sjó­mannadag til að heiðra sjó­menn­ina okk­ar, þess­ar hetj­ur hafs­ins sem hafa staðið vakt­ina á ólgu­sjó í blíðu og stríðu. Þessi dag­ur er ekki aðeins tæki­færi til að fagna með fjöl­skyld­um og vin­um, held­ur fyrst og fremst til að þakka sjó­mönn­um fyr­ir ómet­an­leg störf í þágu þjóðar­inn­ar. Á hverj­um ein­asta degi árs­ins leggja þeir líf sitt og limi í söl­urn­ar til að tryggja okk­ur hinum af­komu og ör­yggi; þeir sækja björg í bú yfir úf­inn sæ, skapa verðmæti úr auðlind­inni og skila þjóðarbú­inu gjald­eyris­tekj­um sem und­ir­byggja lífs­kjör okk­ar allra.

Íslend­ing­ar eiga langa sögu sjó­mennsku og sjáv­ar­tengdr­ar verðmæta­sköp­un­ar. Hún er ekki bara hluti af fortíðinni held­ur líka af nútíðinni og framtíðinni. Því án öfl­ugr­ar sjó­mennsku og öfl­ugs sjáv­ar­út­vegs vær­um við allt önn­ur þjóð. Við Íslend­ing­ar þurf­um á svona dög­um að leiða hug­ann að hlut­skipti sjó­manna og átta okk­ur á að sjálf­sögð gæði dag­legs lífs; fersk­ur fisk­ur á diskn­um, at­vinnu­tæki­færi um land allt, góðar tekj­ur þjóðarbús­ins, koma ekki af sjálfu sér. Þau verða til m.a. fyr­ir dugnað og þraut­seigju sjó­manna­stétt­ar­inn­ar, sem á skilið virðingu okk­ar og hlýhug.

Þó að margt hafi breyst í sjáv­ar­út­vegi hef­ur eitt staðið í stað: mik­il­vægi grein­ar­inn­ar fyr­ir efna­hag Íslands og sam­fé­lagið í heild. Sjó­menn og sjáv­ar­út­veg­ur skapa ekki bara störf og út­flutn­ings­tekj­ur – þau skapa líka festu í byggðum og teng­ingu við nátt­úru­auðlind­ir lands­ins. Það skipt­ir máli fyr­ir heila þjóð.

Já, sjó­menn eru lyk­ilfólk í ís­lensku at­vinnu­lífi. Þeir veiða af ábyrgð og þekk­ingu og með þeim hætti sem trygg­ir að við get­um skilað auðlind­inni áfram til næstu kyn­slóða. Sjáv­ar­út­veg­ur­inn hef­ur á síðustu ára­tug­um gengið í gegn­um gríðarlega umbreyt­ingu – frá erfiðis­vinnu í handafli yfir í háþróaða tækni, þekk­ingu og sjálf­bærni. Það er ár­ang­ur sem við get­um verið stolt af. Á sama tíma má ekki gleyma því að starfið sjálft – það að fara á sjó – krefst enn mik­ils. Það er dýr­mætt að þjóðin taki frá dag á hverju ári til að staldra við og þakka sjó­mönn­um fyr­ir þeirra fram­lag.

Þess vegna ber okk­ur skylda til að standa vörð um góð starfs­skil­yrði sjó­manna, öfl­ugt sam­keppn­is­hæft um­hverfi í sjáv­ar­út­vegi og að halda áfram að nýta auðlind­ina á ábyrgðarfull­an hátt. Við verðum að tryggja að ís­lensk­ur sjáv­ar­út­veg­ur verði áfram í fremstu röð, ekki bara í af­komu held­ur líka í ný­sköp­un, sjálf­bærni og virðingu fyr­ir mannauðnum sem knýr hann áfram.

Sem formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins vil ég nota tæki­færið og óska ykk­ur öll­um, fjöl­skyld­um ykk­ar og lands­mönn­um til ham­ingju með dag­inn. Takk fyr­ir störf­in, fram­takið og verðmæt­in. Takk fyr­ir að halda áfram að gera Ísland að sterk­ari, sjálf­bær­ari og öfl­ugri þjóð.

Til ham­ingju með sjó­mannadag­inn.


Guðrún Hafsteinsdóttir

formaður Sjálfstæðisflokksins