Við áramót

Ágætu félagar og Akureyringar allir.

Ég óska ykkur öllum gleðilegs nýárs með þökk fyrir árið sem nú er liðið um leið og ég óska ykkur hamingju og velfarnaðar á árinu 2024.

Áramót eru kjörinn tími til að setja markmið til framtíðar og meta árangur liðinna tíma, og þegar horft er um öxl þá hefur árið 2023 verið gott fyrir Akureyrarbæ. Að sjálfsögðu má finna eitthvað sem betur hefði mátt fara en þannig er það alltaf. Það er mikilvægt að horfa fram á veginn með bjartsýni og gleði til góðra verka. 

Í júní á þessu ári hætti ég sem forseti bæjarstjórnar og tók við sem formaður bæjarráðs og hélt áfram sem formaður fræðslu- og lýðheilsuráðs. Ég er afar stoltur af því að hafa fengið traust meirihlutans til að sinna þessu ábyrgðarfulla verkefni og hefur samstarfið verið afar gott bæði við kjörna fulltrúa sem og starfsmenn Akureyrarbæjar.

Það hafa komið upp mörg krefjandi verkefni á árinu en eitt af þeim brýnustu var að útvega öllum börnum í sveitarfélaginu leikskólapláss. Það eru jákvæðar fréttir fyrir Akureyri að fleiri börn en gert var ráð fyrir þurfi leikskólapláss en fyrir vikið þurfti að fara í mikla lausnaleit á stuttum tíma. En brugðist var við því með því að opna fimm ára deild í Síðuskóla og til bráðabirgða 12-18 mánaða deild í húsnæði Oddeyrarskóla.

Með þessum úrræðum hefur verið mögulegt að bjóða nánast öllum 12 mánaða börnum og eldri leikskólapláss. Ég verð að fá að hrósa fræðslu- og lýðheilsusviði, umhverfis- og mannvirkjasviði og starfsmönnum Síðu- og Oddeyrarskóla fyrir frábært samstarf í þessu verkefni.

Miklar breytingar verða á gjaldskrám leikskóla og frístundar í grunnskólum en þær verða tekjutengdar frá áramótum. Einnig verður skólatími milli 8 og 14 gjaldfrjáls en skólagjald er innheimt fyrir tíma umfram það. Þetta er tilraunaverkefni til eins árs og verða kostir þess og gallar metnir eftir 6 og 12 mánuði. En miðað við fyrstu tölur frá Kópavogi þá virðist þessi leið hafa heppnast afar vel.

Fjöldi eldri borgara eykst jafnt og þétt á Akureyri og lífsgæði þeirra sem eru að eldast líka. Við höfum lagt ríka áherslu á gott samtal við öldungaráð og félag eldri borgara, sem er að skila okkur frábæru verkefni sem kallað er virk efri ár og hafa viðtökur verið mjög góðar.

Einnig er hafið samtal um mögulegan lífsgæðakjarna sem er afskaplega spennandi verkefni sem verður að fylgja vel eftir.

Það er óhætt að fullyrða að hreyfing og útivera er ofarlega í huga Akureyringa. Í jólafríinu þá má sjá fólk að hlaupa, ganga, skokka, á gönguskíðum, í sundi og að renna sér á skíðum í Hlíðarfjalli. Akureyri er lýðheilsubær og þess vegna erum við afar ánægð með útkomu Lýðheilsukortsins sem hefur heppnast vel og verið vel nýtt. Við munum halda áfram að bæta aðstöðu Akureyringa til íþróttaiðkunar og hreyfingar almennt.

Viðræður eru í gangi við nokkur íþrótta- og tómstundafélög um framtíðarsýn og jafnt og þétt erum við að bæta við nýjum göngu- og útivistarstígum samkvæmt stígaskipulagi bæjarins.

Sjálfstæðisfélag Akureyrar í samstarfi með Round table félagsskapnum fengu nýtt húsnæði á árinu sem hefur nýst vel til fundahalda og fleiri uppákoma og vonandi getum við verið þar sem lengst.

Ég verð að hrósa sjálfboðaliðum fyrir magnað starf við að koma þessu húsnæði í það stand það sem það er í dag.

Annars óska ég íbúum Akureyrarbæjar, starfsfólki og bæjarstjórn farsældar á komandi ári með þökk fyrir ánægjulega samfylgd og samstarf á árinu 2023.

Kær kveðja

Heimir Örn Árnason
formaður bæjarráðs og formaður fræðslu- og lýðheilsuráðs 


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri | Geislagötu 5 | Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson | XD-AK | XD-Norðaustur