Flýtilyklar
Halldór Blöndal lætur af formennsku í SES
Fullt var út úr dyrum í Valhöll í hádeginu í dag á aðalfundi Samtaka eldri sjálfstæðismanna, þeim síðasta undir stjórn Halldórs Blöndal sem kjörinn var formaður SES 2. desember 2009 og hefur því gegnt formennsku í vel á hálfan annan áratug.
Óhætt er að segja að Halldór Blöndal hafi tileinkað sjálfstæðisstefnunni líf sitt. Hann sat sinn fyrsta þingflokksfund Sjálfstæðisflokksins árið 1960 sem þingfréttaritari og sinn síðasta á mánudaginn sem formaður SES. Hann sat því þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins nær óslitið í 64 ár.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins flutti Halldóri þakkarorð fyrir hönd forystu Sjálfstæðisflokksins og færði honum blómvönd. Í máli hennar kom fram að Halldór hefði setið þingflokksfundi með öllum formönnum Sjálfstæðisflokksins frá upphafi að frátöldum Jóni Þorlákssyni fyrsta formanni flokksins. Sagði hún að enginn eigi sér slíka sögu.
Halldór tók sæti sem varaþingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn árið 1971, var kjörinn á þing árið 1979 og sat sem slíkur til ársins 2007 eða samfellt í 28. Hann var forseti Alþingis 1999-2005 en hann hafði gegnt ráðherradómi árin 1991-1999.
„Í dag lætur Halldór af formennsku í SES, þar sem hann hefur verið formaður í hartnær 15 ár, en hann tók við formennsku af Salóme Þorkelsdóttur fyrrverandi forseta Alþingis árið 2009. Þannig hefur Halldór unnið áfram að framgangi sjálfstæðisstefnunnar og tekið hagsmuni flokksins fram fyrir sína eigin,“ sagði Þórdís Kolbrún.
Hafa haldið á sjötta hundrað hádegisfunda
Þá sagði hún SES hafa haft yfir að búa afar öflugu fólki sem undir forystu Halldórs hafi haldið á sjötta hundrað vikulegra hádegisfunda í Valhöll, lagt til mikilvæga stefnumótunarvinnu fyrir landsfundi flokksins og kosningabaráttur.
„Án öflugra einstaklinga eins og Halldórs og annarra sem skipað hafa forystusveit SES, næði flokkurinn ekki að vera málsvari eins stórra hópa og raun ber vitni,“ sagði Þórdís Kolbrún.
Þakkaði hún að lokum Halldóri fyrir hans óeigingjarna starf fyrir Sjálfstæðisflokkinn. „Ekki síst fyrir, í hálfan annan áratug, að hafa leitt þessi stóru og áhrifamiklu samtök sem SES eru. Fyrir að hafa eflt samtökin, haldið þingflokki, ráðherrum og landsfundi við efnið, fyrir góðan vinskap hans og ráð,“ sagði hún. Þá færði hún honum kveðjur frá Bjarna Benediktssyni formanni flokksins sem staddur er erlendis.
Bjarni ritaði grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann þakkaði Halldóri fyrir sín þýðingarmiklu störf í þágu sjálfstæðisstefnunnar – greinina má finna hér.
Nýr formaður SES var kjörin Bessí Jóhannsdóttir. Ingibjörg H. Sverrisdóttir var kjörin varaformaður og Drífa Hjartardóttir ritari samtakanna. Aðrir í stjórn SES eru; Hafsteinn Valsson, Guðjón Guðmundsson, Finnbogi Björnsson, Guðmundur Hallvarðsson, Leifur A. Ísaksson og Þór Guðmundsson.