Flýtilyklar
Bjarni Benediktsson verður forsætisráðherra
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins verður forsætisráðherra í stað Katrínar Jakobsdóttur í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Vinstri grænna. Þetta var tilkynnt á blaðamannafundi í Hörpu í dag. Bjarni gegndi áður embætti forsætisráðherra í tíu mánuði árið 2017 í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.
Barni sagði á fundinum að flokkarnir hafi átt í mjög góðum viðræðum undanfarna daga og komist að niðurstöðu. Hann sagði að ríkisstjórnin vilji standa fyrir pólitískum stöðugleika. Hann sagði mikið kappsmál að láta brotthvarf Katrínar Jakobsdóttur úr ríkisstjórn ekki setja stjórnmálin í uppnám.
Sagði Bjarni að ríkisstjórnarflokkarnir telji sig hafa góðan grunn og að mikilvæg mál liggi fyrir þessu þingi sem þurfi að klára. Nefndi hann þar meðal annars frumvarp félagsmálaráðherra um örorkumál, frumvarp um orkuöflun og frumvörp um breytingar sem fyrirhugaðar eru á stofnanakerfi þess málaflokks. Þá nefndi hann útlendingamálin sem væri afar mikilvægur og viðkvæmur málaflokkur, ekki síst það sem snýr að hælisleitendum. Það sé algjört forgangsmál að klára það á þessu þingi. Hann sagði ríkisstjórnarflokkana stefna mjög bjartsýna fram veginn í átt að frekari orkuöflum og að taka betri stjórn á landamærunum. Þá ætli ríkisstjórnin að ná enn meiri árangri í að ná niður verðbólgu.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, verður utanríkisráðherra að nýju. Fjármála- og efnahagsráðuneytið færist yfir til Framsóknarflokksins og verður Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, ráðherra þess málaflokks. Innviðaráðuneytið færist yfir til Vinstri grænna og verður Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir verður nýr matvælaráðherra. Aðrar breytingar verða ekki á ríkisstjórn í þessum hrókeringum.
Ríkisráðsfundur hefur verið boðaður kl. 19:00 í kvöld þar sem annað ráðuneyti Bjarna Benediktssonar tekur við.