11. september 2025

Ræða Ólafs Adolfssonar í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra

Ræða Ólafs Adolfssonar, þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins, í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi 10. september 2025.

---

Kæru landsmenn, háttvirtir alþingismenn og góðir gestir.

Nú hefst nýtt löggjafarþing. Það er mér mikill heiður að standa hér í fyrsta sinn sem þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins og fá að ávarpa þjóðina. Ég kem inn á þing úr atvinnulífinu, eftir mörg ár í eigin rekstri. Ég hef kynnst því að taka áhættu, leggja inn vinnu sem enginn annar sér, standa vaktina kvölds og morgna, og finna jafnframt gleðina þegar vel tekst til, þegar ný störf verða til og þegar viðskiptavinurinn fer út með bros á vör.

Þessi reynsla er mér ómetanleg. Hún hefur kennt mér að ekkert gerist af sjálfu sér. Það þarf kjark, það þarf þolinmæði og það þarf að hafa trú á framtíðina. Ég hef séð með eigin augum að þar sem hugrekki og dugnaður fá að njóta sín, þar blómstrar samfélagið allt.

Öflugt atvinnulíf er stoð og stytta samfélagsins. Það er í fyrirtækjunum, stórum sem smáum, sem verðmæti verða til. Þar skapast launin, arðurinn og skatttekjurnar sem halda uppi velferðarkerfinu okkar. Þess vegna er mikilvægt að við gleymum aldrei hverjir eru raunverulegir burðarásar í hagkerfinu.

Smá og meðalstór fyrirtæki – sem sprottin eru upp um land allt – eru hryggjarstykki atvinnulífsins. Í þeim starfa tveir af hverjum þremur Íslendingum. Þar vinnur fólk sem ber ábyrgð á sínu nærumhverfi, fólk sem hefur hugmyndir, lætur til sín taka og skapar tækifæri fyrir aðra. Þetta eru smiðirnir, verslunarfólkið, hárgreiðslumeistararnir, bóndinn og sjómennirnir. Þetta eru fyrirtækin sem halda samfélögunum okkar lifandi.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf lagt áherslu á að styðja þetta fólk. Við trúum því að frjálst framtak, drifið áfram af hugviti og ábyrgð, sé besta leiðin til að skapa velsæld fyrir alla.

Ég þekki það sjálfur úr rekstri hversu flókið regluverkið getur verið. Reglur eru nauðsynlegar – en þegar þær verða of margar, of flóknar eða illa samræmdar, þá verða þær að klafa á öxlum þeirra sem reyna að byggja upp fyrirtæki.

Ísland hefur um árabil verið með þungt regluverk í samanburði við mörg önnur ríki. Þetta er ekki bara pappírsvinna. Þetta eru kostnaðarliðir sem bitna á rekstrinum. Þetta eru tafir sem hamla því að hugmyndir komist hratt í framkvæmd. Og þetta er stundum sú tilfinning að ríkið sé ekki samstarfsaðili heldur hindrun.

Við í Sjálfstæðisflokknum viljum breyta þessu. Við viljum skera burt óþarfa skriffinnsku, einfalda regluverk og gera það gagnsærra. Það á ekki að þurfa lögfræðingaher til að hefja rekstur. Það á ekki að taka mánuði að fá leyfi fyrir einföldum framkvæmdum. Við eigum að hafa regluverk sem tryggir sanngirni og öryggi, en sem jafnframt gefur fólki svigrúm til að skapa og starfa.

Þegar við lítum út fyrir landsteinana sjáum við að samkeppnin er hörð. Það sem heldur lífskjörum okkar uppi er að við stöndum okkur í samanburði við aðra. Ef regluverk er of íþyngjandi, ef skattar eru of háir eða ef óvissan er of mikil, þá missum við forskotið. Þá dregur úr fjárfestingu, nýsköpun og atvinnusköpun.

Þess vegna viljum við leggja áherslu á einfalt og sanngjarnt skattkerfi. Við viljum tryggja stöðugleika í efnahagsmálum. Við viljum að Ísland sé land tækifæranna – land sem laðar að sér hugvit og dugnað. Það er það sem tryggir okkur betri lífskjör, ekki bara í dag heldur til framtíðar.

Kæru landsmenn.

Þetta verkefni er stærra en einn þingmaður, stærra en einn flokkur. Þetta er sameiginlegt verkefni okkar allra.

Þegar atvinnulífið blómstrar þá blómstrar samfélagið. Þegar fyrirtæki dafna þá verður svigrúm til að bæta kjörin, efla þjónustu og styrkja innviði. Þetta eru einföld sannindi, en þau eru grundvöllur þess að við getum staðið saman sem þjóð.

Sjálfstæðisflokkurinn mun halda áfram að berjast fyrir frelsi til athafna, fyrir verðmætasköpun og fyrir því að lítil og meðalstór fyrirtæki fái rými til að eflast. En við þurfum líka að tala beint til fólksins. Þetta snýst ekki um tölur í ríkisreikningi eða glærur í ráðuneytum. Þetta snýst um lífskjör venjulegra Íslendinga: sjómannsins, bóndans, kennarans, hársnyrtisins. Allra sem leggja sitt af mörkum.

Ég er bjartsýnn á framtíðina. Ég trúi því að með samstilltu átaki getum við byggt upp atvinnulíf sem er sterkara, fjölbreyttara og samkeppnishæfara en nokkru sinni fyrr. Við getum gert Ísland að landi tækifæranna – landi þar sem hugvit og dugnaður fær að njóta sín, og þar sem lífskjör allra batna.

Kæru landsmenn, við höfum verk að vinna. Nú skulum við hefjast handa.


Ólafur Adolfsson
þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins