11. september 2025
Ræða Guðrúnar Hafsteinsdóttur í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra

Ræða Guðrúnar Hafsteinsdóttur, formanns Sjálfstæðisflokksins, í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi 10. september 2025
---
Virðulegi forseti
Þetta eru ekki smámál. Þetta eru grundvallarspurningar sem ríkisstjórnin lætur liggja á milli hluta.
- nýti betur auðlindir sínar,
Við Íslendingar höfum alla burði til að skapa nýtt blómaskeið. Það gerum við ekki með nýjum sköttum. Ekki með því að afhenda öðrum yfirráð í okkar málefnum.
Eins og svo oft áður stöndum við Íslendingar á tímamótum. Spurningin er einföld: Viljum við afhenda öðrum vald til að taka afdrifaríkar ákvarðanir um framtíð okkar, eða höfum við sjálfstraust, hugrekki og þor til að stýra áfram eigin málum með bjartsýni og áræðni að leiðarljósi?
Fullveldi hefur reynst okkur vel. Það hefur fært okkur frelsi og farsæld. Við höfum átt samstarf við aðrar þjóðir í margvíslegu alþjóðlegu samstarfi – á okkar eigin forsendum og á grunni jafnræðis milli ríkja, án tillits til stærðar þeirra.
Það sem skiptir íslensk heimili og fyrirtæki mestu máli er að ríkisfjármálin séu í lagi. Að vextir lækki. Að atvinnulífið hafi skilyrði til að skapa störf og verðmæti. Þar stendur ríkisstjórnin höllum fæti.
Forsætisráðherra virðist skorta nauðsynlegan vilja eða kraft til að fylgja þeirri stefnu sem hún boðaði fyrir kosningar. Í stað þess að draga úr ríkisútgjöldum hefur hún lagt til ný útgjöld og skattahækkanir: nýjar álögur, hækkuð auðlindagjöld og íþyngjandi regluverk sem dregur úr frumkvæði fyrirtækja. Afleiðingin blasir við. Afkoma heimilanna versnar og fyrirtækin standa frammi fyrir auknum álögum.
Þrátt fyrir yfirlýsingar fjármálaráðherra um „engar skattahækkanir á fólk og fyrirtæki“ fela fjárlögin í sér skattahækkanir fyrir tæpa 30 milljarða. Þetta er að sjálfsögðu greitt af fólki og fyrirtækjum: tekjuskattur hækkar með afnámi samnýtingar þrepa hjá hjónum, gjöld á ökutæki og eldsneyti hækka, álögur á raforkunotkun heimila aukast og skattheimta á arðgreiðslur er hækkuð. Að kalla þetta annað er að slá ryki í augu skattgreiðenda. Svona vinnum við ekki traust, svona seinkum við vaxtalækkunum.
Sjálfstæðisflokkurinn leggur til aðra leið. Við viljum draga úr ríkisútgjöldum, tryggja festu í fjármálum ríkisins og skapa fyrirtækjum betri skilyrði til vaxtar og nýsköpunar. Það leiðir til lægri vaxta og meiri stöðugleika og er forsenda þess að heimilin rétti úr kútnum og atvinnulífið nái að standa undir góðum lífskjörum okkar allra.
Ríkisstjórnin boðar þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við Evrópusambandið eigi síðar en árið 2027. Þetta eru fyrstu skrefin á braut sem þjóðin hefur ítrekað hafnað.
Aðild myndi þýða að við færum aftur í tímann. Við myndum missa forræði yfir fiskimiðunum. Við myndum missa forræði yfir öðrum auðlindum eins og vatni og hreinni orku. Við myndum missa sjálfstæða rödd á alþjóðavettvangi. Við myndum ganga aftur inn í 12 mílur eftir áratugalanga baráttu fyrir 200 mílna landhelgi. Evrópusambandið myndi einnig öðlast áhrif í gegnum Ísland í Norðurheimskautsráðinu þar sem það hyggst véla við önnur stórveldi um auðlindir svæðisins.
Þetta er ekki framtíðarsýn sem Íslendingar geta sætt sig við. Ísland hefur á sama tíma náð sér á strik með eigin stefnu og að eigin frumkvæði, á meðan stórar bandalagsþjóðir glíma við efnahagsvanda – svo ekki sé minnst á þjóðir í suður- og austurhluta álfunnar. Í heimi óvissu er varfærni dyggð.
Það er vægast sagt vond forgangsröðun að leggja kapp á að hefja aðlögunarviðræður við bandalag sem gímir við eigin vandamál á meðan hér heima bíða verðbólga, háir vextir og húsnæðisskortur.
Ríkisstjórnin ætlar að leita til erlendra sérfræðinga til að komast að fyrirséðri niðurstöðu: Að taka upp evru. Þetta er pöntuð niðurstaða sem á að réttlæta pólitískt markmið. Undirliggjandi virðist vera sú trú að evran sé töfralausn. En reynsla annarra þjóða sýnir að svo er ekki. Stöðugleiki næst ekki með því einu að skipta um gjaldmiðil heldur með ábyrgð í ríkisfjármálum og aga í efnahagsstjórn.
Þú flytur ekki inn stöðugleika í efnahagsmálum. Við getum sjálf beitt aga í ríkisfjármálum. Við getum sjálf tryggt stöðugleikann.
Reistu í verki viljans merki. Vilji er allt sem þarf.
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er talað almennum orðum um lífeyri, hjúkrunarrými, byggðaaðgerðir og húsnæði. En stóru spurningunum er ekki svarað:
- Hvernig á að bregðast við breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar?
- Hvernig tryggjum við jafnvægi í byggð landsins?
- Hvernig tryggjum við að ungt fólk jafnt sem eldri borgarar geti eignast heimili á sanngjörnu verði?
Þetta eru ekki smámál. Þetta eru grundvallarspurningar sem ríkisstjórnin lætur liggja á milli hluta.
Við í Sjálfstæðisflokknum segjum: Ísland á betra skilið. Við viljum ábyrga stefnu en ekki aukin útgjöld og skattahækkanir. Við viljum skapa atvinnulífinu hagstæð skilyrði. Öflugt atvinnulíf er undirstaða farsældar í landinu. Það skapar störfin, tekjurnar og verðmætin sem standa undir velferðinni.
Við leggjum til að Ísland:
- nýti betur auðlindir sínar,
- efli sjálfbæra orkuframleiðslu,
- standi vörð um atvinnulífið,
- tryggi festu í útlendingamálum með ábyrgð og mannúð.
Við Íslendingar höfum alla burði til að skapa nýtt blómaskeið. Það gerum við ekki með nýjum sköttum. Ekki með því að afhenda öðrum yfirráð í okkar málefnum.
Við gerum það með því að treysta á okkur sjálf. Á atvinnulífið. Á auðlindirnar okkar. Og á þann kjark sem hefur fært þjóðinni farsæld eftir að hún öðlaðist langþráð frelsi og sjálfstæði á síðustu öld.
Sjálfstæðisflokkurinn mun áfram standa vörð um frelsi einstaklinganna, fullveldi þjóðarinnar og ábyrgð í ríkisfjármálum. Það er leiðin til að tryggja betra samfélag fyrir alla Íslendinga.
Framtíðin er okkar.
Hún er björt, og hún byggir á frelsi og ábyrgð.
Guðrún Hafsteinsdóttir
formaður Sjálfstæðisflokksins
Guðrún Hafsteinsdóttir
formaður Sjálfstæðisflokksins