30. ágúst 2025

Ólafur Adolfsson nýr þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins

Ólafur Adolfsson tók í dag við formennsku í þingflokki Sjálfstæðisflokksins á þingflokksfundi sem haldinn var í höfuðstöðvum flokksins í Valhöll. Tekur hann við af Hildi Sverrisdóttur sem verið hefur þingflokksformaður síðan 2023 og sagði af sér formennsku í gær.

„Ég þakka fyrir traustið og Hildi fyrir öflug störf. Nú leggjum við af stað sem samheldið lið með skýra sýn: að standa vörð um stefnu Sjálfstæðisflokksins og vinna að hagsmunum þjóðarinnar. Ég tek við verkefninu af auðmýkt og horfi bjartsýnn til framtíðar,“ segir Ólafur Adolfsson nýkjörinn þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.

„Ég óska Ólafi velfarnaðar í nýju hlutverki. Hann hefur víðtæka reynslu og sterka leiðtogahæfni sem mun styrkja þingflokkinn. Um leið þakka ég Hildi fyrir vandaða og trausta forystu, en hún heldur áfram mikilvægum störfum fyrir flokkinn á þingi. Framundan eru bjartir tímar fyrir Sjálfstæðisflokkinn,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Sjálfstæðisflokksins

Ólafur er fæddur 18. október 1967. Hann er 1. þingmaður Norðvesturkjördæmis og hefur setið á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn síðan 2024. Hann er lyfjafræðingur að mennt og hefur rekið eigin lyfsölu síðan 2006.

Ólafur var bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akranesi á árunum 2014-2022 og hefur gegnt fjölmörgum öðrum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn, sat m.a. í miðstjórn um árabil.