1. maí 2025
Nýtum tækifærin

Í tilefni verkalýðsdagsins 1. maí skrifar Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, grein um tækifærin í samfélaginu sem mikilvægt er að nýta til að efla atvinnulífið.
Við Íslendingar höfum byggt samfélagið okkar á elju, útsjónarsemi og samvinnu. Frjálsir einstaklingar hafa með eigin hugviti stofnað fyrirtæki, skapað verðmæti og störf sem lyft hafa lífskjörum. Þetta er ekki sjálfgefið, heldur afrakstur markvissrar stefnu og traustrar undirstöðu. Nú þurfum við að standa vörð um þau gildi sem tryggt hafa árangur: sjálfstætt atvinnulíf, ábyrg ríkisfjármál og stöðugan vinnumarkað.
Atvinnulífið er burðarás samfélagsins. Fyrirtæki landsins, stór sem smá, eru drifkraftur verðmætasköpunar og framfara. Án þeirra verður engum kjarasamningi viðhaldið og engin velsæld möguleg. Það er því sameiginlegt verkefni okkar allra að hlúa að umhverfi þar sem fyrirtæki geta vaxið, ráðið fólk til starfa og fjárfest í nýjungum og tækifærum. Í því samhengi er mikilvægt að launafólk, atvinnurekendur og stjórnvöld sýni samstöðu og ábyrgð – ekki sundrung eða pólitíska sýndarmennsku.
Síðustu ár hefur Sjálfstæðisflokkurinn talað skýrt fyrir raunsæjum og ábyrgum kjarasamningum, þar sem launahækkanir haldast í hendur við framleiðnivöxt og raunverulega verðmætasköpun. Þannig samningar tryggja að verðbólga haldist í skefjum og kaupmáttur vaxi. Góð reynsla er til af þessari nálgun, meðal annars með samningum sem bundu hækkanir við hagvöxt og juku ráðstöfunartekjur almennings. Slík samþætting er lykilatriði í því að byggja upp traust og festu.
En áskoranir dagsins í dag eru raunverulegar. Þótt atvinnuleysi sé lítið og þátttaka á vinnumarkaði mikil, þá hefur verðbólga hækkað og mælist nú 4,2%, sem er 0,4% hækkun frá síðasta mánuði. Á sama tíma heldur ríkisútgjaldaaukning áfram án skýrrar forgangsröðunar. Þetta dregur úr trausti og ýtir undir vaxtaálag, sem bitnar á heimilum og fyrirtækjum um land allt. Slíkt getur auðveldlega sett stöðugleika úr skorðum.
Síðasta ríkisstjórn lagði grunn að heilbrigðu efnahagsumhverfi með aðhaldi og festu. Sú stefna skapaði svigrúm fyrir vaxtalækkanir og aukna trú fjárfesta á framtíðinni. Núverandi stjórnvöld þurfa að fylgja þeirri braut með ábyrgum aðgerðum – ekki að stíga skref til baka. Ef við ætlum að halda verðbólgu í skefjum og tryggja stöðugleika þarf skýra sýn, skynsemi og traust.
Framtíðin er þó björt ef við nýtum tækifærin. Aukinn útflutningur þekkingar og þjónustu, stafrænar lausnir og nýsköpun kallar á nýja hugsun í menntakerfi, atvinnulífi og opinberri stefnumótun. Verkefnin fram undan – hvort sem þau snúa að bættri framleiðni, aukinni verðmætasköpun eða sterkari samkeppnishæfni – munu leysast ef við tökum höndum saman.
Með ábyrgð, stöðugleika og framtíðarsýn getum við tryggt að ávöxtur vinnu nýtist öllum. Ísland á að vera land þar sem hver og einn getur notið sannmælis af erfiði sínu, óháð búsetu eða bakgrunni. Sameinuð, með trú á eigin getu, getum við haldið áfram að bæta lífskjör og efla velsæld. Gleðilegan 1. maí!
Guðrún Hafsteinsdóttir
formaður Sjálfstæðisflokksins
Guðrún Hafsteinsdóttir
formaður Sjálfstæðisflokksins