Í tilefni Bæjarþingsins ætlar Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri að bjóða uppá hitting með varaformanni Sjálfstæðisflokksins Jens Garðari Helgasyni.
Velkomin
Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri
Fréttir og greinar

Lára Halldóra Eiríksdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, tilkynnti í færslu á facebook-síðu sinni í dag að hún gefi ekki kost á sér til endurkjörs í sveitarstjórnarkosningunum í vor. Lára Halldóra hefur verið bæjarfulltrúi frá kosningunum 2022 og setið í velferðarráði Akureyrarbæjar frá 2018 (varaformaður frá 2022). Lára er formaður SSNE. Áður var hún varabæjarfulltrúi 2018-2022 auk þess að vera varamaður í bæjarráði 2018-2019. Tilkynning Láru Halldóru er eftirfarandi: "Kæru vinir og félagar! Það var mér ekki léttvægt að taka ákvörðun um að gefa ekki kost á mér á lista Sjálfstæðisflokksins á Akureyri fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Þá ákvörðun tók ég af persónulegum ástæðum þar sem ég stefni að búferlaflutningum á höfuðborgarsvæðið þar sem flest allt mitt besta fólk er. Í því ljósi þykja mér þessar fréttir af samstöðu og samvinnu þeirra Berglindar Óskar og Heimis Arnar alveg hreint frábærar, ekki einungis fyrir okkur Sjálfstæðismenn á Akureyri heldur einnig sveitarfélagið allt. Ég hef lagt mig alla fram á síðustu fjórum árum sem bæjarfulltrúi og hef haft mikla ánægju af því að starfa fyrir ekki einungis Akureyrarbæ heldur einnig fyrir landshlutann allan sem formaður stjórnar SSNE. Það hafa verið fjölmörg verkefni sem mér hefur þótt sérstaklega ánægjulegt að vera þátttakandi í á kjörtímabilinu. Má þar til að mynda nefna vinnu við nýja Sóknaráætlun Norðurlands eystra, stofnun Fjölskylduheimilis á Akureyri, símalausa grunnskóla ásamt breytingum á gjaldskrá leikskóla. Það hafa verið forréttindi að starfa með öllu því öfluga fólki sem situr í stjórnum og ráðum bæjarins, ásamt að sjálfsögðu frábæru starfsfólki Akureyrarbæjar með Ásthildi Sturludóttur bæjarstjóra í fararbroddi. Ég styð Berglindi Ósk og Heimi Örn heilshugar og hvet þá Sjálfstæðismenn sem munu taka þátt í röðun á lista til þess að gera slíkt hið sama. Öllu máli skiptir að við verðum með öflugan og samheldinn lista sem er líklegur til þess að skila okkur góðri útkomu í kosningum og inn í meirihluta bæjarstjórnar."

Berglind Ósk Guðmundsdóttir og Heimir Örn Árnason hafa saman gefið út eftirfarandi yfirlýsingu: "Undanfarna mánuði hafa átt sér stað mikilvægar umræður innan Sjálfstæðisflokksins á Akureyri um framtíðina, næstu skref og hvernig best sé að mæta kjósendum fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2026. Í þeim samtölum hefur eitt verið okkur sérstaklega hugleikið: að sterkasta leiðin fram á við byggist á samstöðu, gagnkvæmu trausti og öflugri liðsheild. Í þeim anda höfum við, Heimir Örn Árnason, oddviti Sjálfstæðisflokksins og formaður bæjarráðs og Berglind Ósk Guðmundsdóttir, lögfræðingur og fyrrverandi alþingismaður, ákveðið að styðja hvort annað í aðdraganda röðunarfundar fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna á Akureyri. Heimir mun styðja framboð Berglindar til oddvitasætis og Berglind mun styðja Heimi í 2. sæti listans. Þessi ákvörðun er ekki tekin af léttúð heldur byggir á sameiginlegri sýn á það sem skiptir Akureyri mestu máli. Á síðasta kjörtímabili höfum við séð hversu mikilvægt það er að vinna saman að lausnum sem skila raunverulegum árangri fyrir bæjarbúa. Ábyrg fjármálastjórn, skýr forgangsröðun og lausnamiðuð nálgun hafa verið leiðarljós í störfum Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn. Við finnum sterkt að flokkurinn á áfram erindi við kjósendur, enda eru fjölmörg verkefni fram undan sem kalla á festu, þekkingu og framtíðarsýn. Við trúum bæði á gildi liðsheildar. Enginn einn einstaklingur er stærri en verkefnið eða flokkurinn sjálfur. Þvert á móti er það samspil fólks með ólíka reynslu, styrkleika og bakgrunn sem skapar sterkan heildarkraft. Endurnýjun og reynsla þurfa að fara hönd í hönd; þar liggur styrkurinn. Þegar traust ríkir og teymisvinna er höfð að leiðarljósi verða ákvarðanir betri og niðurstöðurnar skila sér til samfélagsins. Sú sátt og samvinna sem nú hefur skapast er að okkar mati skýr yfirlýsing um að hagsmunir bæjarbúa séu settir í fyrsta sæti. Með því að stilla saman strengi viljum við leggja grunn að sterkum lista, öflugri baráttu og áframhaldandi framförum fyrir Akureyri. Við vonumst til að flokksmenn sjái styrkinn í þessu samstarfi og styðji það á komandi röðunarfundi og hlökkum til að halda áfram samtalinu við félaga okkar og íbúa bæjarins. Markmiðið er skýrt: að vinna fyrir fólkið í samráði við fólkið og tryggja Akureyri sterka framtíð, betri þjónustu og samfélag sem nýtur góðs af ábyrgum og faglegum vinnubrögðum. Hlökkum til að sjá ykkur á röðunarfundinum þann 7. febrúar næstkomandi!"

Framundan er val okkar Sjálfstæðismanna á Akureyri um fulltrúa í bæjarstjórnarkosningum í vor. Ákveðið var á fundi fulltrúaráðs að hafa röðun í efstu fjögur sætin í samræmi við atkvæði á kjörfundi, og síðan leggur kjörnefnd fram tillögu að fullskipuðum framboðslista fyrir fulltrúaráð samkvæmt skipulagsreglum flokksins. Þegar ákvörðun um fyrirkomulag var tekin í fulltrúaráði, var komið fram eitt framboð sitjandi oddvita. Síðan héldum við glæsilegt Bæjarþing þar sem almennir flokksmenn gátu látið í sér heyra og skerpt á sínum áherslum. Í kjölfar þess hefur bæst við eitt framboð til oddvita og er nú komin lýðræðisleg samkeppni um oddvitasætið. Vonandi munu fleiri gefa kost á sér í þau sæti sem kosið verður um og þátttaka verði mikil frá fólki sem lætur sér annt um bæinn okkar. Röðun verður haldin laugardaginn 7. febrúar. Framboðsfrestur er til 6. febrúar kl. 12:00. Fyrir ríflega ári síðan hóf ég þátttöku á ný í starfi Sjálfstæðisflokksins eftir áratuga hlé. Til þess að hafa áhrif á sitt samfélag þýðir ekki að sitja heima og tuða yfir því sem aðrir eru að gera, heldur er lykillinn að vera þátttakandi í stefnumótun og samtali sem varðar samfélagið. Aðeins með uppbyggilegum skoðanaskiptum, fræðslu og félagsstarfi getum við lyft hverju öðru upp, stækkað og eflst, og myndað sterkari grunn til sóknar. Eins og margir tek ég þátt í þessu starfi af einlægum áhuga, en ekki endilega með það í huga að gefa kost á mér í kosningum, heldur að taka þátt í samfélaginu með fólki á svipaðri bylgjulengd. Félagsstarf sem við sinnum í frítíma okkar á að vera skemmtilegt, nærandi og uppbyggilegt, þrífast í ljósinu en ekki týnast í þoku eldri átaka sem hafa litla þýðingu fyrir málefni og viðfangsefni líðandi stundar. Kjörnefnd hefur ákveðið að halda kosningaupphitun miðvikudagskvöldið 4. febrúar á Hótel Akureyri kl 20:00 (þar sem hittingur fyrir bæjarþingið var). Þar munu frambjóðendur geta kynnt sig betur og gert grein fyrir helstu áherslumálum. Hér er frábært tækifæri til að gefa kost á sér eða spyrja frambjóðendur spjörunum úr í aðdraganda kosninga þann 7. febrúar. Það er von mín sem formanns kjörnefndar, að við höldum prúðmennsku í fyrirrúmi og að sem flestir gefi kost á sér til setu á lista. Eftir að búið er að sammælast um lista þann 7. febrúar verður gaman að ganga samstíga til móts við kosningar í vor. Við höfum góða sögu að segja, bærinn er í blóma og við höfum haft afar jákvæð áhrif á yfirstandandi kjörtímabili. Þessu þarf að koma skilmerkilega á framfæri og kynna síðan vel þá framtíðarsýn sem við hyggjumst berjast fyrir. Áfram og upp! Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson formaður kjörnefndar Sjálfstæðisflokksins á Akureyri

Bæjarmálafundur Sjálfstæðisflokksins á Akureyri verður haldinn í Geislagötu 5 mánudaginn 19. janúar kl. 18:00. Farið yfir stöðuna í bæjarmálunum, 11 mánaða yfirlit á ársreikningi Akureyrarbæjar, Blöndulínu 3 og skipulagsmál. Fundarstjóri: Heimir Örn Árnason, formaður bæjarráðs og oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri. Allir velkomnir - heitt á könnunni.

