Velkomin

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri

Bæjarmálafundur

Bæjarmálafundur Sjálfstæðisflokksins á Akureyri verður haldinn í Geislagötu 5 mánudaginn 15. september kl. 17:30.

Golfmót

Golfmót Sjálfstæðisflokksins á Akureyri

48. sambandsþings SUS

Stjórn Sambands ungra Sjálfstæðismanna boðar til 48. sambandsþings SUS helgina 3. - 5. október 2025.
Sjá alla viðburði

Fréttir og greinar


Eftir Stefán Friðrik Stefánsson 24. október 2025
Sjálfstæðiskonur hafa unnið mikið og gott starf í sögu Sjálfstæðisflokksins. Á þetta erum við minnt nú þegar hálf öld er liðin frá kvennafrídeginum 24. október 1975 sem markaði þáttaskil í jafnréttisbaráttu á Íslandi. Sjálfstæðisflokkurinn var í forystu í þeim efnum. Sjálfstæðiskonan Auður Auðuns var brautryðjandi í jafnréttisbaráttunni sem fyrsta konan til að verða lögfræðingur frá Háskóla Íslands, forseti borgarstjórnar, borgarstjóri í Reykjavík og ráðherra, en hún varð dómsmálaráðherra árið 1970. Í þessum pistli ætlum við hinsvegar að fjalla um stjórnmálaferil Ragnhildar Helgadóttur, sem um langt árabil sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn og varð önnur kvenna ráðherra í maí 1983 og var áberandi sem menntamála- og heilbrigðisráðherra 1983-1987. Ragnhildur var ein þriggja kvenna sem sátu á þingi þegar kvennafrídagurinn var haldinn 24. október 1975 og átti eftir að feta í spor Auðar sem önnur konan til að taka við ráðherraembætti og hún varð einnig fyrsta konan sem var kjörin forseti Norðurlandaráðs á svipuðum tíma og kvennafrídagurinn var haldinn. Þessa grein ritaði ég haustið 2006 þegar ég var ritstjóri heimasíðu SUS og Landssamband sjálfstæðiskvenna fagnaði 50 ára afmæli og gaf af því tilefni út greinasafnið 90 raddir sjálfstæðiskvenna. Greinin er birt hér að nýju í tilefni dagsins, örlítið breytt. Ragnhildur Helgadóttir fæddist í Reykjavík 26. maí 1930. Hún lauk stúdentsprófi frá MR árið 1949 og lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands á árinu 1958. Ragnhildur hóf þátttöku í stjórnmálum mjög ung. Hún var kjörin á Alþingi aðeins 25 ára gömul árið 1956. Það var þegar ljóst á þessum árum karlaveldisins að Ragnhildur var í stjórnmálum af hugsjónakrafti og þótti innkoma hennar afar eftirtektarverð á þeim tíma. Hún var yngsta konan sem tók sæti á Alþingi á 20. öld - allir vissu strax á þessum árum að þar væri komin framtíðarkona í flokksstarfinu. Fáar konur höfðu setið á þingi er þarna var komið sögu. Vissulega höfðu öflugar konur á borð við Ingibjörgu H. Bjarnason, Guðrúnu Lárusdóttur og Auði Auðuns tekið sæti á þingi, en Ragnhildur var ólík þeim auðvitað að því leyti að hún var ung kona nýrra kynslóða. Á þessum árum þótti sjálfsagt að karlmenn skipuðu flest af efstu sætum flokkanna og lítil grunnkrafa var fyrir hendi um að konur yrði meira ráðandi á listum. Ragnhildur markaði ný spor í kvennastarfi flokksins. Hún hafði annan bakgrunn en þær konur sem höfðu starfað innan flokksins í forystusveitinni. Hún hafði ekki lokið laganámi sínu er hún hlaut fyrst kjör á Alþingi og var ung kona með fjölskyldu. Þegar að hún tók sæti á þingi átti hún enda ung börn og mikla athygli vakti að hún væri þetta virk í stjórnmálum meðfram barnauppeldi. Að því kom að hún ákvað að taka sér hlé frá þingsetu árið 1963 til að sinna heimili sínu. Var hún utanþings á árunum 1963-1971 og var því ekki mjög virk innan þings meginhluta viðreisnaráranna á þeim tíma sem dr. Bjarni Benediktsson var forsætisráðherra á árunum 1963 til 1970, er hann lést sviplega í eldsvoða í forsætisráðherrabústaðnum á Þingvöllum. Hún var þó mjög virk í flokksstarfinu á árunum sem hún var utanþings, en hún var formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna á árunum 1965-1969 og var ennfremur í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins á árunum 1963-1971. Ragnhildur gaf kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins haustið 1970. Mikil þáttaskil blöstu við flokknum eftir sumarið og prófkjörið varð sögulegt. Bjarni hafði látist um sumarið og það var gríðarlegt áfall fyrir flokkinn, enda hafði Bjarni verið forystumaður innan flokksins um áratugaskeið og lykilmaður í öllu starfi hans. Við blasti því uppgjör um það hver hlyti forystusessinn í höfuðvígi flokksins á næstu árum. Jóhann Hafstein var orðinn forsætisráðherra og formaður flokksins. Geir Hallgrímsson, borgarstjóri í Reykjavík, hafði tekið sæti við lát Bjarna, enda fyrsti varaþingmaður flokksins í borginni. Hann gaf kost á sér í prófkjörinu. Ennfremur sneri dr. Gunnar Thoroddsen aftur í stjórnmálin eftir fimm ára vist sem sendiherra í Kaupmannahöfn og skamma setu í Hæstarétti. Gunnar hafði hætt í stjórnmálum árið 1965 og farið út til að búa í haginn fyrir sig í forsetakjöri 1968. Hann tapaði kosningunum mjög illa. Andlát Bjarna breytti miklu innan flokksins. Ekki var nein öflug festa í forystusveitinni og öllum ljóst að prófkjörið réði úrslitum um stöðu mála í aðdraganda kosninganna og hvað næstu árin varðaði. Öllum var ljóst að Gunnar sneri aftur til að reyna að endurheimta fyrri stöðu sína. Úrslitin þóttu merkileg. Geir sigraði í prófkjörinu og hlaut flest atkvæði. Öllum var ljóst að Bjarni hafði fyrir andlát sitt talið Geir eftirmann sinn. Hann var maður nýrra tíma á borð við Ragnhildi og hafði mikinn stuðning til forystu innan þess kjarna flokksins sem mest hafði stutt Bjarna. Fráfall Bjarna kom svo óvænt að auðvitað varð varaformaðurinn eftirmaður hans. Jóhann tók við forystunni, þó að honum væri það í raun þvert á móti skapi. Vel kemur fram í grein Jóhanns um Bjarna að honum látnum að það hefði hann talið skylduverkefni á örlagatímum en ekki neitt sem hann hefði kosið sjálfur. En svo fór og hann tók verkefninu sem skyldu fyrir flokkinn. Það þótti gríðarlegt áfall fyrir forsætisráðherrann Jóhann að verða í öðru sæti í prófkjörinu árið 1970. Fram að því hafði það aldrei gerst að sitjandi formaður og að auki forsætisráðherra yrði undir í forkosningu innan eigin flokks. Gunnar markaði sér aftur skref innan flokksins og varð þriðji á eftir þeim Geir og Jóhanni. Eftir það varð Gunnar áhrifamaður í stjórnmálum að nýju og átti eftir að byggja upp sinn feril af krafti með örlagaríkum hætti. Ragnhildur náði öruggu sæti í prófkjörinu og viðunandi árangri. Þegar að kom að endanlegri uppstillingu listans á fulltrúaráðsfundi hjá Verði lá fyrir sú ákvörðun Geirs að taka ekki fyrsta sætið. Hart var lagt að Geir að taka sætið en hann ákveð að gera það ekki er á hólminn kom. Formaður flokksins leiddi því listann, en vissulega beygður eftir prófkjörið. Ragnhildur náði kjöri á Alþingi í kosningunum sem fram fóru í júnímánuði 1971. Kosningarnar 1971 mörkuðu þáttaskil fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Viðreisnarstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks féll eftir tólf ára samfellda setu. Í kjölfarið mynduðu fyrrum stjórnarandstöðuflokkar ríkisstjórn og Sjálfstæðisflokkurinn fór í stjórnarandstöðu. Í kjölfar kosninganna var boðað til landsfundar. Jóhann Hafstein var þar kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins formlega. Í varaformannskjöri var tekist á. Gunnar Thoroddsen og Geir Hallgrímsson áttust við um varaformennskuna. Gunnar hafði verið varaformaður 1961-1965 og verið eftirmaður Bjarna Benediktssonar sem varaformaður. Er þarna var komið sögu vildi Geir ekki hopa til hliðar fyrir Gunnar. Hann taldi sinn tíma kominn í forystusveitinni, einkum eftir prófkjörið 1970 og taldi eins og svo margir að tími Gunnars væri liðinn. Upphófust þar gríðarleg átök millum þeirra, sem áttu eftir að verða söguleg fyrir Sjálfstæðisflokkinn er á hólminn kom. Ragnhildur Helgadóttir var alla tíð mikill samherji Geirs Hallgrímssonar. Þau voru af sömu kynslóð í flokksstarfinu og hún hafði alla tíð dáðst af verkum hans í stjórnmálum, bæði er hann var forystumaður í ungliðastarfinu og síðar er hann varð borgarstjóri í Reykjavík. Hún studdi hann í prófkjörinu 1970 og í þeim átökum sem eftir það tóku. Hún talaði máli hans af mikilli hörku og var einn af hans nánustu samherjum innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins alla tíð eftir það. Ragnhildur taldi rétt að Geir yrði framtíðarmaður flokksins og það myndi markast með varaformannskjörinu 1971. Gunnar og Geir mynduðu fylkingar sínar í þessum átökum og þær áttu eftir að verða til staðar lengi enn. Þessi fyrsti sýnilegi slagur þeirra um völd og áhrif varð gríðarlega harður og í fyrsta skipti var tekist á með sýnilegum hætti um forystuembætti innan Sjálfstæðisflokksins. Svo fór að Geir var kjörinn varaformaður. Hann hlaut 375 atkvæði en Gunnar 328. Eftir þetta var framtíð Geirs mörkuð innan flokksins. Hann var endurkjörinn varaformaður á landsfundinum 1973. Nokkrum vikum síðar varð Jóhann að segja af sér formennsku vegna alvarlegra veikinda og vék til hliðar. Geir varð þá formaður flokksins. Hann leiddi Sjálfstæðisflokkinn til glæsilegasta kosningasigurs í sögu sinni sumarið 1974 og varð forsætisráðherra þá um sumarið, 48 ára að aldri. Ragnhildi voru falin ábyrgðarmeiri skyldur í kjölfar þess að Geir tók við flokknum. Hún varð forseti neðri deildar á kjörtímabilinu 1974-1978. Hún markaði sér skref í norræna stjórnmálasögu þegar að hún varð fyrst kvenna árið 1975 til að setjast á forsetastól Norðurlandaráðs. Það var greinilegt að Sjálfstæðisflokkurinn fól henni aukna ábyrgð og á þessu kjörtímabili náði hún þeim stall að verða forystukona innan flokksins, en á þessum árum hætti Auður Auðuns í stjórnmálum eftir langan stjórnmálaferil sinn. Mikil þáttaskil urðu í jafnréttisbaráttunni þegar konur fylktu liði á kvennafrídeginum 24. október 1975. Ragnhildur var þá ein þriggja kvenna sem sátu á Alþingi. Kvennafrídagurinn hafði mikil áhrif á aukin réttindi kvenna; 1980 var Vigdís Finnbogadóttir kjörin forseti Íslands, sérstakt kvennaframboð kom til sögunnar í kjölfarið og Ragnhildur varð annar kvenráðherrann á svipuðum tíma. Úrslit þing- og borgarstjórnarkosninganna 1978 voru gríðarlegt áfall fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hann sat eftir valdalaus í borgar- og landsmálum. Sjálfstæðisflokkurinn var sem eyland eftir kosningarnar og þar var allt fullt af spurningum sem brunnu á vörum almennra flokksmanna. Heimdallur, félag ungra sjálfstæðismanna, hélt fund í Valhöll sumarið 1978 þar sem leitast var við að greina vandann sem hrjáði flokkinn stefnulega sem forystulega og fara yfir stöðuna. Öllum var ljóst að ekkert trúnaðarsamband var á milli Geirs Hallgrímssonar, formanns, og Gunnars Thoroddsens, sem aftur varð varaformaður flokksins árið 1974. Það var rætt á fundinum og greint. Flokkurinn byggði sig upp aftur og markaði sér nýja stefnu. Það var í senn ungliðarnir sem tryggðu að menn byrjuðu uppbyggingarstarfið. Það var í takt við allt annað, enda á ungliðahreyfingin að vera samviska flokksins alla tíð. Vinstristjórnin gafst upp í október 1979 og sprakk í loft upp með sögulegum hætti. Í kjölfarið ákvað Sjálfstæðisflokkurinn að verja minnihlutastjórn Alþýðuflokksins, sem veitt hafði vinstristjórninni náðarhöggið, falli og tryggja að hún sæti framyfir þingkosningar sem fram skyldu fara í desember 1979. Ragnhildur gaf kost á sér aftur í þessum sögulegu kosningum sem haldnar voru um hávetur. Hún féll af þingi í kosningunum og var því utanþings þá mánuði sem framundan voru og urðu örlagaríkir fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hvorki gekk né rak að mynda ríkisstjórn lengi vel. Eftir árangurslausar stjórnarmyndunarviðræður var utanþingsstjórn í pípunum. Þá greip Gunnar tækifærið og fékk til liðs við sig sína menn í Sjálfstæðisflokknum og myndaði ríkisstjórn með eftirminnilegum hætti með framsóknar- og alþýðubandalagsmönnum. Eftir stóð formaður Sjálfstæðisflokksins snupraður af eigin varaformanni. Ragnhildur Helgadóttir tók eins og ávallt fyrr skýra afstöðu með Geir Hallgrímssyni í þessum þrengingum Sjálfstæðisflokksins. Á þessum mánuðum upplifðu bæði flokksstofanir Sjálfstæðisflokksins miklar þrengingar og erfiðleika og ekki síður formaðurinn Geir Hallgrímsson. Það var erfitt hlutskipti að leiða stjórnarandstöðu gegn ríkisstjórn sem stýrt var af varaformanni eigin flokks. Þarna fór Sjálfstæðisflokkurinn í gegnum sína dimmustu dali og við öllum blasir sem kannar þessa tíma að erfitt var yfir allri stöðunni. Flokksráð, miðstjórn, þingflokkur og landsfundur Sjálfstæðisflokksins tóku öll sem eitt afstöðu gegn ríkisstjórn Gunnars. Fyrst í stað mældist stjórnin með 70-80% fylgi. Gunnar var metinn bjargvættur þingræðisins og var elskaður af mörgum landsmönnum fyrir lipra og öfluga forystu sína út úr harðvítugu stjórnarmyndunarferli og um leið hataður af rótgrónum sjálfstæðismönnum sem töldu hann vera svikara við málstað flokksins. Á landsfundi 1981 fór fram uppgjör fylkinganna. Þar mættust Gunnar og Geir á sama velli og tókust á. Átök voru harkaleg á þessum fundi og töluðu Gunnar og Geir af hörku gegn hvorum öðrum. Frægt varð er Gunnar og Vala Thoroddsen stóðu ekki á fætur að lokinni yfirlitsræðu Geirs við setningu landsfundar og klöppuðu fyrir honum. Tekist var á af krafti milli fylkinga við forystukjör á landsfundi. Gunnar Thoroddsen ákvað að gefa ekki kost á sér til varaformennsku að nýju. Tókust Friðrik Sophusson og Ragnhildur Helgadóttir á um varaformennskuna. Fór svo að Friðrik sigraði Ragnhildi með 549 atkvæðum gegn 381. Friðrik var metinn nær Gunnari í skoðunum en Geir og greinilegt að Gunnarshópurinn studdi Friðrik auk fjöldamargra, t.d. ungliðanna, sem voru vissulega Geirsmegin. Geir var endurkjörinn formaður í síðasta skipti en fékk mótframboð frá Pálma Jónssyni, landbúnaðarráðherra, er var leiðtogi flokksins í Norðurlandi vestra. Það tókst að sameina brotin við lok kjörtímabilsins. Gunnar hætti í stjórnmálum vegna alvarlegra veikinda sinna og menn tóku höndum saman við að tryggja samhentan Sjálfstæðisflokk í kosningunum 1983. Geir Hallgrímsson varð fyrir gríðarlegu áfalli í prófkjöri flokksins í Reykjavík 1982 er hann lenti í sjöunda sætinu. Ofan við hann urðu Albert Guðmundsson, Friðrik Sophusson, Birgir Ísleifur Gunnarsson, Ellert B. Schram, Ragnhildur og Pétur Sigurðsson. Geir ákvað að taka sjöunda sætið, þó sár vonbrigði voru, og leiddi Sjálfstæðisflokkinn í gegnum kosningarnar. Samherjar Gunnars héldu velli um allt land. Það voru Ragnhildi sár vonbrigði að sjá sinn gamla félaga og samherja, Geir, fá slíka útreið í Reykjavík og höfðu þessi úrslit víðtæk áhrif fyrir flokkinn. En menn tóku höndum saman. Ragnhildur komst aftur á þing. Flokkurinn fékk góð úrslit í kosningunum og stóð af sér allar þrengingar kjörtímabilsins og komu samhent fram til verka. Geir náði þó ekki kjöri í Reykjavík. Samkomulag tókst á milli Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að loknum kosningunum 1983. Geir stýrði stjórnarmyndunarviðræðum af hálfu flokksins og lagði fyrir þingflokkinn hvort að flokkurinn tæki færri ráðherrastóla og fá með því forsæti ríkisstjórnarinnar eða fleiri ráðherrastóla og myndi verða undir forsæti Steingríms Hermannssonar, formanns Framsóknarflokksins. Ragnhildur og aðrir samherjar Geirs innan þingflokksins unnu að því öllum árum að tryggja að Geir yrði forsætisráðherra, þó utanþings væri, og tryggt væri að Sjálfstæðisflokkurinn stýrði ríkisstjórninni þó að flokkurinn fengi með því færri ráðherrastóla og ráðuneyti. Leynileg kosning var innan þingflokksins um tillögurnar. Geir og samherjum hans til sárra vonbrigða var valið að fá fleiri ráðherrastóla en um leið forsæti Framsóknar í ríkisstjórninni. Það er alveg ljóst að tilhugsunin um ráðherradrauma varð mörgum þingmönnum meira freistandi. Ragnhildur Helgadóttir var valin af þingflokknum til setu í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar sem tók formlega við völdum þann 26. maí 1983. Þann dag kvaddi Gunnar Thoroddsen íslensk stjórnmál er hann lét af embætti forsætisráðherra, þá orðinn fárveikur af krabbameini. Hann lést um haustið og átti þá að baki einn sögulegasta stjórnmálaferil í sögu íslenskra stjórnmála. Geir varð utanríkisráðherra í ríkisstjórninni og leiddi samstarfið innan Sjálfstæðisflokksins. Það kom í hlut Ragnhildar að verða menntamálaráðherra. Með þessu varð Ragnhildur Helgadóttir önnur konan sem var valin til ráðherrastarfa. Aðeins Auður Auðuns, samstarfskona og lærimóðir Ragnhildar í stjórnmálastarfi hennar í kvennafylkingu flokksins, hafði verið ráðherra er þarna kom sögu. Ragnhildur tók til starfa og var alla tíð ljóst að hún vildi láta til sín taka í verkum í ráðuneytinu. Hún markaði söguleg skref í kjölfar verkfalls ríkisstarfsmanna haustið 1984. Það ár lamaðist allt samfélagið vegna þess að opinberir starfsmenn lögðu niður vinnu. Meðal þess sem lamaðist var starf og útsendingar Ríkisútvarpsins. Á þessum árum voru rásir Ríkisútvarpsins, Rás 1 og Rás 2 í útvarpi og Ríkissjónvarpið einu stöðvarnar sem leyft var að starfa á ljósvakamarkaði. Allt frá stofnun Ríkisútvarpsins árið 1930 hafði verið einokun á þessum markaði og ríkið ekki leyft einkaaðilum að starfa á markaðnum. Þetta var orðið úrelt boð og bönn og á þessum örlagatímum reyndi á það. Hið eina sem leyft var að útvarpa í Ríkisútvarpinu voru veðurfregnir, en auðvitað urðu landsmenn að fá sína veðurspár þrátt fyrir allt. Fréttastofur ríkisins voru auðvitað lamaðar vegna verkfallsins og fréttastreymi stöðvaðist með öllu. Ástandið varð óviðunandi. Í skugga verkfallsins fengu hægrisinnaðir einstaklingar nóg og beittu sér fyrir stofnun einkastöðva sem störfuðu án leyfis í borginni og miðluðu upplýsingum til almennings. Starfsemin var vissulega ólögleg en almenningi var orðið ljóst að tími ríkiseinokunar á ljósvakamarkaði var með öllu liðinn. Verkfallsátökin mörkuðu því viss þáttaskil. Til fjölda ára var talað um almannavarnarhlutverk Ríkisútvarpsins og það væri svo mikilvægt landsmönnum. Það tal var sem hjóm eitt á þessu hausti með þessa fjölmiðla steindauða og óstarfandi vegna verkfallsátaka. Svo kom að Ragnhildur Helgadóttir, menntamálaráðherra, fékk algjörlega nóg af stöðunni. Í hita verkfallsátaka þar sem engir ljósvakamiðlar voru starfandi með löglegum hætti tók hún af skarið í stöðunni. Hún boðaði ný útvarpslög, þar sem einokun ríkisins væri afnumin með öllu. Það væri fortíðarhyggja að halda öllu lengur í haftir liðinna tíma og frelsi skyldi nú verða að fullu að veruleika á ljósvakamarkaði. Ungir sjálfstæðismenn glöddust mjög með menntamálaráðherra sinn, sem hikaði ekki þessar örlagaríku vikur og tók af skarið með miklum krafti. Er Alþingi var sett 10. október var staða mála kynnt af menntamálaráðherranum. Ragnhildur mælti fyrir frumvarpi sínu um afnám einokunar ríkisins á ljósvakamarkaði nokkrum dögum síðar. Vart var við andstöðu innan Framsóknarflokksins. Hinsvegar höfðu orðið þáttaskil í þessu verkfalli. Landsmenn höfðu flestallir fengið nóg og töldu rétt að breyta til með þessum hætti. Vinstrimenn sátu fastir við sinn keip og börðust gegn breytingunum. Það er þó svo að þáttaskilin í þessu urðu þessar haustvikur árið 1984 þegar að vinstrimenn stýrðu verkfallsátökum og stöðvuðu útsendingar ríkisfjölmiðlanna. Óverjandi var að bregðast ekki við. Það var enda ekki gert og látið til skarar skríða. Ragnhildur sté fram af krafti og ákveðni og leiddi málið rétta leið. Hennar frumkvæði var gríðarlega mikils virði. Eftir sviptingasamt verkfall opnuðust ríkisfjölmiðlarnir aftur undir lok októbermánaðar. En staðan var varanlega breytt og lagabreytingin varð að veruleika. Það var komið fram á árið 1985 þegar að Alþingi loksins staðfesti hin nýju útvarpslög sem Ragnhildur hafði lagt fram um haustið. Þrír þingmenn Framsóknarflokks, þeir Halldór Ásgrímsson, Guðmundur Bjarnason og Stefán Valgeirsson, greiddu atkvæði gegn nýju lögunum og vildu áfram ríkiseinokun á ljósvakamarkaði. Það kemur fáum á óvart að allir vinstrimenn á þingi voru andvígir því að afnema ríkiseinokuninni og vildu áfram að einkaaðilum væri bannað að reka ljósvakafjölmiðla. Meðal þeirra sem greiddu atkvæði gegn breytingunni á þeim væng stjórnmálanna voru Jón Baldvin Hannibalsson, Svavar Gestsson og Jóhanna Sigurðardóttir. Ragnhildur vann þetta haust í anda ungra sjálfstæðismanna og hlaut mikið lof fyrir afdráttarlausa framkomu sína í þessu máli. Hún stýrði málinu rétta leið og átti frumkvæðið að breytingunni, sem var og er gríðarlega virðingarvert. Ráðherrahrókeringar urðu meðal sjálfstæðismanna í október 1985. Þorsteinn Pálsson, sem kjörinn hafði verið eftirmaður Geirs sem formaður í nóvember 1983, tók þá loks sæti í ríkisstjórninni sem fjármálaráðherra. Ákveðið var að Geir Hallgrímsson færi úr ríkisstjórn í ársbyrjun 1986. Allir ráðherrar flokksins skiptu um ráðuneyti og mikil uppstokkun varð að því leyti. Matthías Á. Mathiesen vék úr ríkisstjórn en tók svo aftur sæti sem utanríkisráðherra þegar að Geir hætti formlega. Ragnhildur varð heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra í stað Matthíasar Bjarnasonar, sem varð viðskiptaráðherra. Sverrir Hermannsson varð menntamálaráðherra og Albert Guðmundsson varð iðnaðarráðherra. Þessi mikla uppstokkun þótti umdeild. Í raun hefði verið best fyrir flokkinn að Þorsteinn hefði einfaldlega leyst Geir af hólmi en flækjur milli Alberts Guðmundssonar og Þorsteins Pálssonar leiddu til þessarar miklu róteringar, sem varð mjög misheppnuð. Ragnhildur var ekki síður öflug sem heilbrigðisráðherra en sem menntamálaráðherra áður. Hún kom t.d. í gegn því mikla framfaramáli að lengja til muna fæðingarorlofið. Fæðingarorlofslöggjöf Ragnhildar var mjög lofuð og markaði þáttaskil í þeim efnum. Þessi tvö mál, fæðingarorlofslöggjöfin og breytt útvarpslög sem tryggðu frjálst útvarp og sjónvarp, marka hápunkt Ragnhildar sem ráðherra og halda merki hennar hátt á lofti. Hún vann altént mjög að baráttumálum ungra sjálfstæðismanna og þótti farsæl í starfi sínu. Rétt eins og Ragnhildur var ötull stuðningsmaður Geirs Hallgrímssonar studdi hún af krafti Þorstein Pálsson í formannstíð hans og var alla tíð mikill fylgismaður hans. Ragnhildi sárnaði nokkur pólitísk endalok Geirs Hallgrímssonar, eins og öðrum samherjum hans og hún var alla tíð þeirrar skoðunar að Sjálfstæðisflokkurinn hefði betur getað stutt leiðtoga sinn og endalokin hefðu ekki hæft hans mikla framlagi fyrir flokkinn. Ragnhildur missti ráðherrastól sinn að loknum þingkosningunum 1987, enda ákvað Þorsteinn að skipta um alla ráðherra af hálfu flokksins, utan Matthíasar Á. Mathiesen, leiðtoga flokksins á Reykjanesi, sem náði að halda sínu sæti með baráttu. Þorsteinn Pálsson myndaði eigin ríkisstjórn með Framsóknarflokki og Alþýðuflokki og tók hún við völdum í júlí 1987. Störf þeirrar stjórnar voru mjög söguleg. Ragnhildur varð áberandi í nefndastörfum að nýju í þinginu og var t.d. mikið í störfum á vettvangi Evrópuþingsins og í nefndum á erlendum vettvangi. Ragnhildur Helgadóttir tók þá ákvörðun haustið 1990 að gefa ekki kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og hætta þátttöku í stjórnmálum eftir áratugaferil. Þá var hún þó aðeins sextug að aldri en átti engu að síður að baki 23 ára þingmannsferil með hléi eins og fyrr segir. Hún byrjaði mjög ung í stjórnmálum og taldi rétt að hætta við þingkosningarnar 1991, taldi mikilvægt að kynslóðaskipti urðu og þá komu nýjar öflugar konur í þingflokkinn. Ein þeirra sem þá tók sæti, Sólveig Pétursdóttir, varð ráðherra við aldamót og fjöldi sjálfstæðiskvenna fylgdi svo í kjölfarið á nýrri öld. Ragnhildur lést í ársbyrjun 2016. Ég minntist hennar þá í grein hér á vefritinu. Ragnhildur Helgadóttir telst hiklaust til fremstu forystumanna Sjálfstæðisflokksins á áttunda og níunda áratug 20. aldar. Eins og sést á þessari upptalningu, einkum verkunum á ráðherraferlinum, var hún mikil merkiskona sem vann farsæl verk fyrir flokk sinn og þjóð. Hennar verður altént lengi minnst fyrir verk sín í ríkisstjórninni 1983-1987. Hún vann af krafti fyrir frjálsum fjölmiðlum og fæðingarorlofslöggjöfinni og þau verk munu halda merki hennar hátt á lofti um alla tíð. Stefán Friðrik Stefánsson ritstjóri Íslendings
Eftir Stefán Friðrik Stefánsson 21. október 2025
Októberfest Varðar verður haldið föstudaginn 24. október kl. 20:30 í Geislagötu 5. Undanfarin ár hefur þessi viðburður okkar markað hápunkt starfsársins og verður engin undantekning á því í ár. Hlökkum til að sjá þig! PubQuiz - Píla - BeerPong Fríir drykkir meðan birgðir endast.
Eftir Stefán Friðrik Stefánsson 18. október 2025
Bæjarmálafundur Sjálfstæðisflokksins á Akureyri verður haldinn í Geislagötu 5 mánudaginn 20. október kl. 17:30. Farið yfir málin á dagskrá bæjarstjórnar og helstu verkefni Hafnasamlags Norðurlands. Fundarstjóri: Heimir Örn Árnason, formaður bæjarráðs og oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri Allir velkomnir - heitt á könnunni.
15. október 2025
Forsætisráðherra vafðist tunga um tönn þegar að undirritaður spurði hana út í forgangsröðun í fjárlögum, nánar tiltekið tvö hundruð milljóna króna niðurskurð til Ljóssins, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöðvar fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þess. Ljósið hefur lyft grettistaki með starfsemi sinni og í hverjum mánuði njóta um 600 manns endurhæfingar og aðstoðar. Þúsundir Íslendinga sem tekist hafa á við krabbamein og aðstandendur þeirra hafa notið þjónustu Ljóssins í gegnum árin. Ríkisstjórnin hefur nú boðað að skerða fjárframlög ríkisins til Ljóssins um 40% frá síðasta ári. Þetta setur skiljanlega þessa mikilvægu starfsemi í uppnám og einsýnt að skera þurfi niður þjónustu og biðlistar fari að myndast, sem í dag er ekki reyndin. Fátt var um svör hjá forsætisráðherra þegar hún var spurð út í forgangsröðun ríkisstjórnarinnar á skattfé borgaranna og hvort mikilvægara væri að setja 150 milljónir í alþjóðleg samtök hinsegin fólks, tvö til þrjú þúsund milljónir í stækkun Þjóðleikhússins eða kostnað við starfslok eins opinbers starfsmanns upp á 350 milljónir frekar en 200 milljónir í Ljósið. Sagði forsætisráðherra raunar að henni þætti sérstakt að vera spurð út í hennar „persónulegu afstöðu til þess hvort ákveðin samtök úti í bæ gætu þegið nokkrar milljónir í viðbót“. Þá vitum við það. Ljósið, sem sparar íslenska ríkinu með starfsemi sinni yfir milljarð á ári, eru samtök „úti í bæ“ í huga forsætisráðherra. Samtök sem eru með starfsemi á heimsmælikvarða og hafa hjálpað þúsundum krabbameinssjúklinga og aðstandendum þeirra. Þetta eru kaldar kveðjur frá leiðtoga ríkisstjórnarinnar. Hvorki ég né aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins skiljum á hvaða vegferð ríkisstjórnin er. Að minnsta kosti er hún ekki að standa vörð um þá sem standa höllustum fæti í samfélaginu. Er það von mín að við þingmenn, sama hvað flokki þeir eru, snúi bökum saman og standi vörð um starfsemi Ljóssins. Ábyrgðin er okkar. Jens Garðar Helgason varaformaður Sjálfstæðisflokksins og oddviti í Norðausturkjördæmi
Sýna meira
Fleiri fréttir