Í tilefni Bæjarþingsins ætlar Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri að bjóða uppá hitting með varaformanni Sjálfstæðisflokksins Jens Garðari Helgasyni.
Velkomin
Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri
Fréttir og greinar

Stjórn fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna á Akureyri hefur borist erindi sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum og vill því koma eftirfarandi á framfæri: Það er álit stjórnar fulltrúaráðs að ótækt sé að breyta aðferð við val á lista flokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Undirbúningur röðunar er í fullum gangi, frambjóðendur hafa stigið fram og tekið ákvarðanir út frá þeim reglum og því ferli sem var samþykkt á fulltrúaráðsfundi 2. desember sl. Stjórn fulltrúaráðs telur að ákvörðun um að leggja til röðun hafi á sínum tíma verið tekin með hagsmuni flokksins að leiðarljósi. Hún byggði meðal annars á því að vera skynsamleg með tilliti til þess að fyrirkomulagið gefi þeim sem hyggjast gefa kost á sér áfram tækifæri til að endurnýja umboð sitt sem og að gefa nýjum aðilum tækifæri til að bjóða sig fram. Tillagan var ekki lögð fram með einstaka frambjóðendur í huga. Tillaga stjórnar var borin upp á félagsfundi sem var löglega boðaður og var samþykkt með meira en 2/3 greiddra atkvæða. Eftir að hafa rýnt ferlið ítarlega, aðdraganda ákvörðunar fulltrúaráðs og allt fram til dagsins í dag telur stjórn fulltrúaráðs að ekki hafi verið brotið með neinum hætti á rétti einstakra frambjóðenda. Lögð hafi verið áhersla á vönduð vinnubrögð og farið í einu og öllu eftir skipulagsreglum flokksins. Forsendur um aðferð við val á lista hafa ekki breyst með þeim hætti að lögmæt sjónarmið kalli á aðra aðferð, bæði með tilliti til sanngirnissjónarmiða gagnvart frambjóðendum og tímaramma fram að kosningum. Af framangreindum ástæðum stendur ákvörðun fulltrúaráðs um að viðhafa röðun við val í fjögur efstu sæti listans þar sem um 200 manns hafa atkvæðisrétt. Stjórn fulltrúaráðs er ákaflega stolt af því að Sjálfstæðisflokkurinn sé eina framboðið fyrir komandi kosningar á Akureyri sem býður jafn mörgum flokksmönnum að taka þátt í að velja forystufólk á framboðslista. Stjórnin bendir áhugasömum einstaklingum á að enn er hægt að gefa kost á sér í röðun, en framboðsfrestur rennur út föstudaginn 6. febrúar nk. Stjórn fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna á Akureyri

Þórhallur Jónsson, varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri hefur ákveðið að gefa kost á sér í oddvitasætið í röðun 7. febrúar og gerir athugasemdir við ferlið í yfirlýsingu sinni. Áður hafði Berglind Ósk Guðmundsdóttir gefið kost á sér í oddvitasætið. Þórhallur hafði áður tilkynnt framboð í 2. - 3. sæti í yfirlýsingu 10. janúar sl. Yfirlýsing Þórhalls er eftirfarandi: " Þórhallur Jónsson, varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri gefur kost á sér til að leiða lista Sjálfstæðisflokks fyrir bæjarstjórnarkosningar í maí n.k. Heimir Árnason, núverandi oddviti ætlar ekki lengur að gefa kost á sér til að leiða listann, en ákveðið hafði verið að fara í röðunarfyrirkomulag þegar útlit var fyrir að hann væri einn í kjöri til oddvita. Þetta var meginforsenda þess að ekki var farið í prófkjör á Akureyri. Eftir að formaður fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, sagði af sér formennsku fulltrúaráðs til að gefa kost á sér til að leiða listann og myndaði bandalag við Heimi, fráfarandi oddvita, um að hann tæki annað sætið á lista og eftirléti sér oddvitasætið, án nokkurs samtals við fulltrúaráð né stjórnir Sjálfstæðisfélaganna á Akureyri, sé ég mig knúinn til að gefa kost á mér til að leiða lista flokksins í komandi kosningum. Aðgengi fráfarandi formanns fulltrúaráðs að kjörskrá umfram aðra frambjóðendur, setur trúverðugleika röðunarfyrirkomulags og kosningar þar um í uppnám. Með framboði mínu skora ég einnig á flokkinn að halda stefnu sinni og hefðum, fara í prófkjör og leyfa sjálfstæðisfólki á Akureyri að velja sér oddvita með lýðræðið í fyrirrúmi.”

Aðalfundur Sjálfstæðisfélags Akureyrar verður haldinn þriðjudaginn 10. febrúar næstkomandi kl. 20:00. Fundurinn verður haldinn í húsnæði flokksins Geislagötu 5, 2. hæð, gengið inn að norðan. Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf: 1. Skýrsla stjórnar. 2. Reikningsskil (Stjórn Sjálfstæðisfélags Akureyrar hefur falið fulltrúaráði Sjálfstæðisfélaganna á Akureyri umsjón með reikningum félagsins sem heimild er fyrir skv. 13. grein laga Sjálfstæðisfélags Akureyrar) 3. Ákvörðun árgjalds. 4. Lagabreytingar. 5. Kosning formanns og stjórnar skv. 8. gr. 6. Kosning fulltrúa í fulltrúaráð Sjálfstæðisfélaganna á Akureyri. 7. Kosning fulltrúa í kjördæmisráð Norðausturkjördæmis. 8. Önnur mál. Framboðum til stjórnar og tillögum að lagabreytingum skal skila til formanns Sjálfstæðisfélags Akureyrar í gegnum netfangið jonthorkristjans@gmail.com

Auglýst eftir framboðum á lista Sjálfstæðisflokksins á Akureyri Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri mun halda röðunarfund laugardaginn. 7. febrúar. Kosið verður um efstu fjögur sæti á framboðslista fyrir bæjarstjórnarkosningar, en síðan raðað í næstu sæti. Allir sem kjörnir hafa verið í fulltrúaráð Sjálfstæðisflokkins á Akureyri, bæði aðal- og varamenn, hafa kosningarétt á fundinum. Kjörnefnd biður þá sem hafa áhuga á að setjast á lista flokksins að hafa samband. Fyllsta trúnaðar verður gætt. Vinsamlegast hafið samband við formann kjörnefndar, Þorvald Lúðvík Sigurjónsson, thorvaldur.ludvik@gmail.com , fyrir 6. febrúar. Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri

