8. maí 2025
Verra er þeirra réttlæti

Jens Garðar Helgason, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, skrifar um brogað réttlæti vinstristjórnarinnar. Grafalvarlegt sé þegar ráðherrar virði lög og reglur að vettugi eða þekkja þau ekki einu sinni.
Það er grafalvarlegt þegar ráðherrar ríkisstjórnarinnar virða lög og reglur að vettugi – eða þegar þeir þekkja þau ekki einu sinni. Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, skipaði ólögleglega í stjórn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) og fékk nú bágt fyrir hjá Jafnréttisstofu og það réttilega.
Ráðherra skipaði flokksgæðinga og varaþingmenn Flokks fólksins í öll fjögur stjórnarsætin og starfsfólk þingflokks sem varamenn. Það reyndist umdeilt en þó ekki ólöglegt. Hið ólöglega er að 80 prósent þeirra sem Inga skipaði eru karlmenn. Það brýtur í bága við ákvæði jafnréttislaga sem mæla fyrir um að hlutfall hvors kyns í stjórnum skuli vera að lágmarki 40 prósent. Þessu var svo kippt í liðinn í gær eftir að litið var fram hjá reglunum þar til pressan varð of mikil.
Núverandi stjórnarflokkar gerðu nú ekki lítið af því að gagnrýna forvera sína þegar þeir voru í stjórnarandstöðu. Þá var talað hátt um gagnsæi, vönduð vinnubrögð og nauðsyn þess að stjórnsýslan starfaði eftir leikreglum lýðræðisins. Nú, þegar þessi sömu flokkar – Samfylkingin og Viðreisn – bera ábyrgð, virðist mun minna fara fyrir þeirri varúð. Maður spyr sig: Gilda ekki lengur þær reglur sem áður þóttu heilagar?
Því miður virðist það raunin. Það sem verra er, er að forsætisráðherra, Kristrún Frostadóttir, lýsti því yfir að hún „treysti ráðherra til að meta hæfi“ stjórnarmanna og að „ekkert benti til þess að lög hafi verið brotin“. Ótrúleg ummæli í ljósi þess að reglurnar og lögin lágu fyrir og voru svo brotin. Tveir ráðherrar og tvö ráðuneyti vissu ekki betur. Ekki mjög traustvekjandi eða vönduð vinnubrögð.
Þessi traustsyfirlýsing forsætisráðherra kom jafnframt eftir að fagfélög og Jafnréttisstofa höfðu lýst yfir áhyggjum sínum af skipan ráðherra í stjórn HMS og óskuðu skýringa.
Það er sjálfsögð og eðlileg lágmarkskrafa til ríkisstjórnar – sem berst undir merkjum réttlætis og gagnsæis – að hún kynni sér lögin og fari eftir þeim. Það snýst um trúverðugleika, ábyrgð og virðingu fyrir lýðræðislegum ferlum. Þegar ráðherra gerir mistök skal það leiðrétt – ekki réttlætt. Það á ekki að þurfa vikulanga fjölmiðlaumfjöllun svo ráðherra sjái að sér og fari eftir lögum og reglum.
Jens Garðar Helgason
varaformaður Sjálfstæðisflokksins.
varaformaður Sjálfstæðisflokksins.