14. ágúst 2025
Skapandi meginregla

Jens Garðar Helgason, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, skrifar um máttlausa vörn forsætisráðherra fyrir hagsmunum Íslands gagnvart ESB vegna vonarinnar um aðild að sambandinu. Í stað þess að treysta varnarsamstarfið við Bandaríkin enn frekar, varnarsamning sem verið hefur við lýði í 74 ár, skal nú treyst á að ítalski og franski herinn komi okkur til bjargar.
---

Utanríkisráðherra valdi að halda trúnað við Evrópusambandið þegar hún var upplýst um áform þess að leggja á tolla á kísilmálm frá Íslandi og Noregi, frekar en að halda trúnað við Íslendinga. Forsætisráðherra lét ekki ná í sig dögum saman vegna málsins og neitaði að tjá sig. Í stað þess að treysta varnarsamstarfið við Bandaríkin enn frekar, varnarsamning sem verið hefur við lýði í 74 ár, skal nú treyst á að ítalski og franski herinn komi okkur til bjargar. Innt eftir því hvort flýta ætti þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðlögunarviðræður í viðtali í Ríkisútvarpinu á dögunum svaraði forsætisráðherra: „Það verður bara að koma í ljós á næstu mánuðum. Við erum ekki komin á þann stað að taka afstöðu um það.“
Síðast þegar íslensk stjórnvöld ætluðu að „kíkja í pakkann“ var því statt og stöðugt haldið fram að Ísland myndi njóta sérstöðu og fá undanþágur frá stofnsáttmála og meginreglu Evrópusambandsins. Á blaðamannafundi í Brussel 27. júlí 2010 fór þáverandi utanríkisráðherra Íslands, Össur Skarphéðinsson, mikinn og sagði m.a.: „Eitt af því sem mér finnst merkilegt með inngöngu nokkurra þjóða er hversu lausnamiðað ESB er þegar kemur að því að finna skapandi lausnir fyrir hvern og einn án þess að brjóta gegn meginreglunni.“ Það var sannanlega merki um skapandi hugsun að finna orðunum „skapandi“ og „ESB“ stað í sömu setningunni.
Stefan Fule, sem þá var stækkunarstjóri ESB, var hins vegar fljótur að bregðast við sköpunargleði utanríkisráðherrans íslenska: „Og ef ég má, þá er ég viss um að við munum finna nauðsynlega sköpunargáfu en innan ramma núverandi stofnsáttmála, og einnig byggt á þeirri almennu meginreglu sem ég vona mjög innilega að verði viðhaldið í umræðunum, að það er ekki hægt að fá neinar varanlegar undanþágur frá stofnsáttmála ESB.“ Og jarðaði þannig snarlega mýtuna um hina skapandi hugsun.
Á mánudaginn voru niðurstöður nýrrar könnunar um afstöðu Norðmanna til Evrópusambandsaðildar birtar í þarlendum fjölmiðlum. Stuðningur við aðild hefur dvínað og eru nú 55% andvíg aðild en 33% fylgjandi. Sú staðreynd að margar af ríkustu þjóðum Evrópu telja hag sínum betur borgið utan sambandsins ætti hið minnsta að vekja marga aðlögunarsinna til umhugsunar. Það sem meira er: á Alþingi Íslendinga er ekki meirihluti fyrir aðild að ESB eða áframhaldandi viðræðum.
Síðustu viðræður kostuðu rúmlega einn og hálfan milljarð króna að núvirði. Mýmargar betri leiðir eru til að nota viðlíka fjármuni í þágu íslensku þjóðarinnar en að halda úti opinberum starfsmönnum í Brussel næstu árin.
Jens Garðar Helgason
varaformaður Sjálfstæðisflokksins
Jens Garðar Helgason
varaformaður Sjálfstæðisflokksins