Kristrún Eymundsdóttir látin


Kristrún Eymundsdóttir, fyrrverandi framhaldsskólakennari, lést á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund í Reykjavík laugardaginn 8. desember. Hún var 82 ára að aldri.
Kristrún varð stúdent frá Verzlunarskóla Íslands árið 1956. Eftir stúdentspróf stundaði hún háskólanám í frönsku í París. Hún lauk BA-prófi í frönsku og ensku frá Háskóla Íslands árið 1967 og prófi í uppeldis- og kennslufræði frá HÍ árið 1971. Hún vann við franska sendiráðið meðfram háskólanámi.
Kristrún var mikil málamanneskja. Hún kenndi frönsku, ensku og dönsku við ýmsa framhaldsskóla, meðal annars við Menntaskólann á Akureyri og síðast við Verzlunarskóla Íslands. Þá var hún leiðsögumaður í mörg ár.
Kristrún var einn af umsjónarmönnum Laga unga fólksins á RÚV frá 1959-1961. Hún þýddi leikritið Síðasta tangó í Salford fyrir RÚV árið 1981 og Alfa Beta eftir Whitehead sem sett var upp í Leikfélagi Akureyrar árið 1978.
Foreldrar hennar voru Þóra Árnadóttir og Eymundur Magnússon skipstjóri.
Eiginmaður Kristrúnar er Halldór Blöndal, fyrrum alþingismaður, ráðherra og forseti Alþingis. Halldór var alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Norðurlandskjördæmi eystra 1979-2003 og Norðausturkjördæmi 2003-2007. Sonur þeirra er Pétur.
Dætur Halldórs af fyrra hjónabandi eru Ragnhildur og Kristjana Stella. Fyrri eiginmaður Kristrúnar var Matthías Kjeld læknir. Synir þeirra eru Eymundur og Þórir Bjarki.
----
Sjálfstæðismenn á Akureyri og í Norðausturkjördæmi öllu þakka Kristrúnu Eymundsdóttur hlýja vináttu og tryggð í gegnum árin. Rúna var Halldóri Blöndal trygg stoð í pólitísku starfi hans í kjördæminu og í ábyrgðarmiklum verkefnum á þingi og í ríkisstjórn - þau voru glæsilegt par. Halldór var líka stoð Kristrúnar í erfiðum veikindum hennar síðustu árin. Við vottum Halldóri og fjölskyldunni allri innilega samúð við fráfall Kristrúnar.
Stefán Friðrik Stefánsson
ritstjóri Íslendings