Bjarni Magnússon látinn


Bjarni Magnússon, fyrrverandi hreppstjóri í Grímsey, lést sunnudaginn 29. ágúst, 91 árs að aldri.
Bjarni fæddist í Syðri-Grenivík í Grímsey 30. júní 1930 og ólst þar upp. Foreldrar hans voru Magnús Stefán Símonarson, hreppstjóri í Sigtúni í Grímsey, og Siggerður Bjarnadóttir húsfreyja.
Bjarni var við vélstjóranám á Akureyri 1948-1949. Hann var vélgæslumaður fyrir Rafmagnsveitur ríkisins, vatnsveitustjóri, vitavörður og slökkviliðsstjóri í Grímsey. Bjarni sat í hreppsnefnd í Grímsey frá 1962-1970. Hann tók við starfi hreppstjóra árið 1969 og gegndi starfinu í nákvæmlega 40 ár, tvo mánuði og tvo daga (eins og hann orðaði það sjálfur í samtali við Morgunblaðið í tilefni áttræðisafmælisins árið 2010. „Þó er ég náttúrlega alltaf kallaður hreppstjóri ennþá,“ sagði Bjarni við það tilefni og hló við) allt þar til Grímsey sameinaðist Akureyri 2009.
Bjarni sá um kosningar í Grímsey í um fimmtíu ár. Bjarni var tryggur og trúr Sjálfstæðisflokknum, sat landsfundi hans í áratugi og talaði máli hans með ötulum hætti. Bjarni sá um utankjörfundarkosningu í Grímsey fyrir prófkjör Sjálfstæðisflokksins á Akureyri 2010 og 2014, lagði sitt af mörkum í flokksstarfinu í hinu nýja sameinaða sveitarfélagi.
Eiginkona Bjarna var Vilborg Sigurðardóttir, ljósmóðir, símstöðvarstjóri og veðurathugunarmaður. Hún fæddist 1. maí 1929 en lést 2. febrúar 2009. Bjarni og Vilborg eignuðust fimm börn; Siggerði Huldu, Sigurð Inga, Kristjönu Báru, Magnús Þór og Bryndísi Önnu. Barnabörnin eru 12, þar af er eitt þeirra látið, og langafabörnin eru 11.
-----
Þegar ég sá um prófkjör Sjálfstæðisflokksins á Akureyri 2014 var ákveðið að hafa utankjörfund í Grímsey og ég hringdi auðvitað í Bjarna til að fá ráð með hvernig best væri að hafa hlutina, enda var ég ekki viss um hvort hann vildi taka að sér umsjón með honum kominn vel á níræðisaldurinn. Auðvitað tók Bjarni að sér verkið og stóð sig með sínum mikla sóma, ekkert fum og fát á neinu.
Það var alltaf gaman að hitta Bjarna, sannur vinur og skemmtilegur félagi. Í huga mér lifir notaleg minningin um sumarferð okkar sjálfstæðismanna út í Grímsey 2002 þegar Bjarni tók á móti hópnum á sólbjörtum degi, stoltur höfðingi sinnar byggðar og gerði góða ferð enn betri með hlýrri leiðsögn sinni og gestrisni.
Sjálfstæðismenn á Akureyri minnast hans með hlýhug og þakklæti fyrir framlag hans til samfélagsins og flokksins okkar. Blessuð sé minning hans.
Stefán Friðrik Stefánsson
ritstjóri Íslendings