31. ágúst 2021

Bjarni Magnússon látinn

Bjarni Magnús­son, fyrr­ver­andi hrepp­stjóri í Gríms­ey, lést sunnu­dag­inn 29. ág­úst, 91 árs að aldri.

Bjarni fædd­ist í Syðri-Greni­vík í Gríms­ey 30. júní 1930 og ólst þar upp. For­eldr­ar hans voru Magnús Stefán Sím­on­ar­son, hrepp­stjóri í Sig­túni í Gríms­ey, og Sig­gerður Bjarna­dótt­ir hús­freyja.

Bjarni var við vél­stjóra­nám á Ak­ur­eyri 1948-1949. Hann var vél­gæslumaður fyr­ir Raf­magnsveit­ur rík­is­ins, vatns­veit­u­stjóri, vita­vörður og slökkviliðsstjóri í Gríms­ey. Bjarni sat í hrepps­nefnd í Gríms­ey frá 1962-1970. Hann tók við starfi hrepp­stjóra árið 1969 og gegndi starf­inu í ná­kvæm­lega 40 ár, tvo mánuði og tvo daga (eins og hann orðaði það sjálf­ur í sam­tali við Morg­un­blaðið í til­efni átt­ræðisaf­mæl­is­ins árið 2010. „Þó er ég nátt­úr­lega alltaf kallaður hrepp­stjóri ennþá,“ sagði Bjarni við það til­efni og hló við) allt þar til Grímsey sameinaðist Akureyri 2009.

Bjarni sá um kosn­ing­ar í Gríms­ey í um fimm­tíu ár. Bjarni var tryggur og trúr Sjálfstæðisflokknum, sat landsfundi hans í áratugi og talaði máli hans með ötulum hætti. Bjarni sá um utankjörfundarkosningu í Grímsey fyrir prófkjör Sjálfstæðisflokksins á Akureyri 2010 og 2014, lagði sitt af mörkum í flokksstarfinu í hinu nýja sameinaða sveitarfélagi. 

Eiginkona Bjarna var Vil­borg Sig­urðardóttir, ljós­móðir, sím­stöðvar­stjóri og veður­at­hug­un­ar­maður. Hún fædd­ist 1. maí 1929 en lést 2. fe­brú­ar 2009. Bjarni og Vil­borg eignuðust fimm börn; Sig­gerði Huldu, Sig­urð Inga, Kristjönu Báru, Magnús Þór og Bryn­dísi Önnu. Barna­börn­in eru 12, þar af er eitt þeirra látið, og langafa­börn­in eru 11.


-----

Bjarni Magnússon í Grímsey var alveg einstakur maður. Klettur fyrir sitt litla en mikilvæga eyjasamfélag, höfðingi sem kvað að og bar með sér ákveðni en líka mikinn hlýleika. Ötull í sínu flokksstarfi og mætti á landsfundi fram undir það síðasta og ávallt hrókur alls fagnaðar. Ern, hress og lífsglaður þó aldurinn færðist yfir.

Þegar ég sá um prófkjör Sjálfstæðisflokksins á Akureyri 2014 var ákveðið að hafa utankjörfund í Grímsey og ég hringdi auðvitað í Bjarna til að fá ráð með hvernig best væri að hafa hlutina, enda var ég ekki viss um hvort hann vildi taka að sér umsjón með honum kominn vel á níræðisaldurinn. Auðvitað tók Bjarni að sér verkið og stóð sig með sínum mikla sóma, ekkert fum og fát á neinu.

Það var alltaf gaman að hitta Bjarna, sannur vinur og skemmtilegur félagi. Í huga mér lifir notaleg minningin um sumarferð okkar sjálfstæðismanna út í Grímsey 2002 þegar Bjarni tók á móti hópnum á sólbjörtum degi, stoltur höfðingi sinnar byggðar og gerði góða ferð enn betri með hlýrri leiðsögn sinni og gestrisni.

Sjálfstæðismenn á Akureyri minnast hans með hlýhug og þakklæti fyrir framlag hans til samfélagsins og flokksins okkar. Blessuð sé minning hans.


Stefán Friðrik Stefánsson
ritstjóri Íslendings