Aðalfundur Málfundafélagsins Sleipnis 2018


Aðalfundur Málfundafélagsins Sleipnis var haldinn í Kaupangi í kvöld. Stefán Friðrik Stefánsson var endurkjörinn formaður Sleipnis. Stefán Friðrik hefur setið í stjórn Sleipnis frá árinu 2006, var ritari félagsins 2006-2008, varaformaður 2010-2011 og formaður frá 2011. Stefán Friðrik hefur verið ritstjóri Íslendings frá árinu 2010 og var formaður Varðar, f.u.s. 2003-2006.
Auk Stefáns Friðriks voru kjörnir í aðalstjórn: Edvard van der Linden, Jón Orri Guðjónsson, Jón Oddgeir Guðmundsson og Ragnar Ásmundsson. Í varastjórn voru kjörnir: Baldvin Jónsson, Karl Ágúst Gunnlaugsson og Davíð Þ. Kristjánsson.
Í fundarlok voru umræður um væntanlegar sveitarstjórnarkosningar og innra starfið.
Nýkjörinni stjórn Sleipnis er óskað til hamingju með kjörið og góðs gengis í félagsstörfum á næsta starfsári.
--------
Skýrsla formanns Sleipnis, fh stjórnar, á aðalfundi
Aðalfundur Sleipnis
18. janúar 2018
Fundarstjóri – ágætu fundarmenn
Síðasti aðalfundur Sleipnis var haldinn 2. febrúar 2017. Þá voru kjörnir í stjórn auk mín: Ragnar Ásmundsson, varaformaður, Edvard van der Linden, Jón Orri Guðjónsson og Jón Oddgeir Guðmundsson. Í varastjórn voru kjörnir Baldvin Jónsson, Karl Ágúst Gunnlaugsson og Davíð Þ. Kristjánsson. Ég þakka þeim öllum gott samstarf á starfsárinu.
Stjórn félagsins hefur fundað nítján sinnum á starfsárinu og haldið níu fundi í sínu nafni á tímabilinu.
Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, lést langt um aldur fram eftir erfið veikindi 8. febrúar 2017. Hennar var minnst í upphafi fyrsta fundar okkar á starfsárinu 11. febrúar þar sem þingmenn flokksins í kjördæminu, Kristján Þór, Njáll Trausti og Valgerður fluttu framsögu og svöruðu fyrirspurnum.
Fulltrúaráðið hélt fund um raforkumál 18. febrúar þar sem Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, Sigmundur Ófeigsson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, og Sigrún Björk Jakobsdóttir, stjórnarformaður Landsnets, fluttu framsögu og svöruðu fyrirspurnum.
Aðalfundur fulltrúaráðs var haldinn 27. febrúar og var Harpa Halldórsdóttir endurkjörin formaður. Formaður Sleipnis var ritari stjórnar fulltrúaráðs á tímabilinu.
16. mars héldum við fund með Sigríði Á. Andersen, dómsmálaráðherra, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, alþingismanni og ritara Sjálfstæðisflokksins, og Njáli Trausta þingmanni okkar - fundurinn var liður í fundaferð með þingmönnum Sjálfstæðisflokksins en skipulagður af okkur.
31. mars héldum við fund með Bjarna Benediktssyni, þáverandi forsætisráðherra, þar sem hann fór yfir stöðuna og svaraði fyrirspurnum með Kristjáni Þór og Njáli Trausta.
Aðalfundur kjördæmisráðsins var haldinn í Mývatnssveit daginn eftir. Þar voru Bjarni og Þórður Þórarinsson, framkvæmdastjóri flokksins, gestir okkar. Þar kynnti Þórður skipulag flokksins og kynnti undirbúning landsfundar – það skipulag fór eftirminnilega úr skorðum þegar leið á árið. Kristinn Árnason var áfram formaður kjördæmisráðsins og formaður Sleipnis áfram ritari í stjórn ráðsins.
Vöfflukaffi var haldið á sumardaginn fyrsta á vegum fulltrúaráðsins venju samkvæmt.
14. maí var haldinn fundur með Þórdísi Kolbrúnu, ferðamála- og nýsköpunarráðherra, og Jóni Gunnarssyni, þáverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Húsfylli var og líflegar umræður.
6. júní voru Njáll Trausti og Óli Björn Kárason þingmaður okkar í kraganum gestir okkar - líflegar umræður á vel sóttum fundi í sumarsólinni.
Í september sprakk ríkisstjórnin með látum og kosningum flýtt til 28. október og þær settar á svipaðan tíma og landsfund átti upphaflega að halda - honum var því auðvitað frestað og allir fóru í kosningagírinn. Undirbúningi fyrir sveitarstjórnarkosningar var auðvitað frestað líka.
Nokkrum dögum fyrir stjórnarslitin, 17. september, boðuðum við til fundar hér í Kaupangi með Kristjáni Þór þar sem staðan var rædd sem og undirbúningur væntanlegra þingkosninga. Svaraði Kristján Þór fyrirspurnum með Njáli Trausta og Valgerði.
28. september var haldinn fundur þar sem Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, flutti framsögu og svaraði fyrirspurnum ásamt Kristjáni Þór og Njáli Trausta.
1. október voru haldnir tveir fundir í kjördæmisráði vegna væntanlegra skyndiþingkosninga - sá fyrri til að taka fyrir tillögu um uppstillingu við val á framboðslista og sá seinni til að samþykkja tillögu kjörnefndar að listanum. Voru nokkrar breytingar á listanum þó fjögur efstu sætin væru óbreytt frá röðuninni í Mývatnssveit í september 2016.
Kosningabaráttan var stutt og snörp - stemmningin sérstök enda eilítið kostulegt að halda baráttuna á sama tíma að ári eins og í leikritinu margfræga. Við náðum upp fínni stemmningu - opnuðum skrifstofu 6. október í Strandgötu 3 þar sem við vorum í þingkosningunum árið áður og í sveitarstjórnarkosningum 2014. Allt er þegar þrennt er - í Strandgötunni var gott að vera og við byggðum upp góðan kjarna - sérstaklega ánægjulegt hversu vel tókst að virkja unga til baráttunnar.
Ég sá áfram um samfélagsmiðla framboðsins og því mikið við á skrifstofunni – við mynduðum gott teymi þar sem hélt utan um slaginn auk mín Karl Frímannsson sem aftur var kosningastjóri með góðum árangri, Anna Blöndal og Baldvin Jónsson með hringikerfið, Kristinn Árnason frá kjördæmisráði, Anna Þóra ásamt mér með utanumhald meðmælendalista, og Gerður Ringsted með veitingar og umgjörð á húsnæðinu auk frambjóðenda að sjálfsögðu. Gott að vinna með góðu fólki.
Á skrifstofunni sá ég um skipulagningu funda þar – vann með Svövu í Vörn og Völu Pálsdóttur frá LS að fundi með sjálfstæðiskonum þar sem Vala, Áslaug Arna og Valgerður fluttu framsögu.
Við í Sleipni héldum fund 19. október með Halldóri Blöndal, heiðursfélaga okkar, og Óla Birni Kárasyni þingmanni – var húsfyllir og boðið upp á öndvegis kjötsúpu. Daginn eftir, þann 20. var haldinn pizzufundur með Bjarna Benediktssyni, formanni flokksins, þar sem var troðið út úr dyrum, á þriðja hundrað manns og góður andi viku fyrir kjördag. Gaf það okkur góð fyrirheit um úrslit eftir vondar kannanir og landið reis á þeim tíma.
Úrslit kosninganna voru þó mjög súrsæt – við héldum stöðu okkar sem stærsti flokkur landsins í öllum kjördæmum en misstum á móti fimm þingmenn fyrir borð, þar af Valgerði Gunnarsdóttur sem vantaði nokkuð upp á að ná endurkjöri. Stjórnarmyndun tók tvo snúninga uns mynduð var stjórn okkar sjálfstæðismanna með VG og Framsókn mánuði eftir kjördag undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur. Kristján Þór varð atvinnuvegaráðherra, fór í þriðja ráðuneytið á innan við ári sem segir margt um stöðuna í pólitíkinni. Stjórnin hefur byrinn í seglin ef marka má kannanir, enda eflaust orðin langvarandi þreyta á stjórnleysinu og þörf á stöðugleika sem stjórnin vonandi tryggir.
Bæjarmálafundir hafa verið haldnir reglulega á starfsárinu, tveir fundir í mánuði að jafnaði og tíðari fundir þegar unnið var að fjárhagsáætlun. Nú taka við sveitarstjórnarkosningar að vori - laugardaginn 26. maí. 22. nóvember hófst undirbúningurinn þar sem fulltrúaráðið samþykkti tillögu um röðun við val á sex efstu sætum framboðslista. Sú röðun fer fram laugardaginn 3. febrúar – 14 eru í kjöri sem tryggir líflegan fund og kosningu í öll sæti.
Átta ár eru liðin frá því að við sjálfstæðismenn réðum síðast för í bæjarmálunum og tímabært að vinna vel og ötullega að því að tryggja Sjálfstæðisflokknum lykilstöðu á næsta kjörtímabili.
Við hjá Málfundafélaginu Sleipni munum halda okkar striki, halda góða og öfluga málfundi hér eftir sem hingað til - svo félagsstarfið verði blómlegt og skapi forsendur fyrir góðum kosningasigri.
Stefán Friðrik Stefánsson
formaður Málfundafélagsins Sleipnis