20. janúar 2026
Tökum þátt og kjósum

Framundan er val okkar Sjálfstæðismanna á Akureyri um fulltrúa í bæjarstjórnarkosningum í vor. Ákveðið var á fundi fulltrúaráðs að hafa röðun í efstu fjögur sætin í samræmi við atkvæði á kjörfundi, og síðan leggur kjörnefnd fram tillögu að fullskipuðum framboðslista fyrir fulltrúaráð samkvæmt skipulagsreglum flokksins. Þegar ákvörðun um fyrirkomulag var tekin í fulltrúaráði, var komið fram eitt framboð sitjandi oddvita. Síðan héldum við glæsilegt Bæjarþing þar sem almennir flokksmenn gátu látið í sér heyra og skerpt á sínum áherslum.
Í kjölfar þess hefur bæst við eitt framboð til oddvita og er nú komin lýðræðisleg samkeppni um oddvitasætið. Vonandi munu fleiri gefa kost á sér í þau sæti sem kosið verður um og þátttaka verði mikil frá fólki sem lætur sér annt um bæinn okkar. Röðun verður haldin laugardaginn 7. febrúar. Framboðsfrestur er til 6. febrúar kl. 12:00.
Fyrir ríflega ári síðan hóf ég þátttöku á ný í starfi Sjálfstæðisflokksins eftir áratuga hlé. Til þess að hafa áhrif á sitt samfélag þýðir ekki að sitja heima og tuða yfir því sem aðrir eru að gera, heldur er lykillinn að vera þátttakandi í stefnumótun og samtali sem varðar samfélagið. Aðeins með uppbyggilegum skoðanaskiptum, fræðslu og félagsstarfi getum við lyft hverju öðru upp, stækkað og eflst, og myndað sterkari grunn til sóknar.
Eins og margir tek ég þátt í þessu starfi af einlægum áhuga, en ekki endilega með það í huga að gefa kost á mér í kosningum, heldur að taka þátt í samfélaginu með fólki á svipaðri bylgjulengd. Félagsstarf sem við sinnum í frítíma okkar á að vera skemmtilegt, nærandi og uppbyggilegt, þrífast í ljósinu en ekki týnast í þoku eldri átaka sem hafa litla þýðingu fyrir málefni og viðfangsefni líðandi stundar.
Kjörnefnd hefur ákveðið að halda kosningaupphitun miðvikudagskvöldið 4. febrúar á Hótel Akureyri kl 20:00 (þar sem hittingur fyrir bæjarþingið var). Þar munu frambjóðendur geta kynnt sig betur og gert grein fyrir helstu áherslumálum. Hér er frábært tækifæri til að gefa kost á sér eða spyrja frambjóðendur spjörunum úr í aðdraganda kosninga þann 7. febrúar.
Það er von mín sem formanns kjörnefndar, að við höldum prúðmennsku í fyrirrúmi og að sem flestir gefi kost á sér til setu á lista. Eftir að búið er að sammælast um lista þann 7. febrúar verður gaman að ganga samstíga til móts við kosningar í vor.
Við höfum góða sögu að segja, bærinn er í blóma og við höfum haft afar jákvæð áhrif á yfirstandandi kjörtímabili. Þessu þarf að koma skilmerkilega á framfæri og kynna síðan vel þá framtíðarsýn sem við hyggjumst berjast fyrir.
Áfram og upp!
formaður kjörnefndar Sjálfstæðisflokksins á Akureyri

