Við áramót

Nú er enn eitt árið að renna sitt skeið og tímabært að líta yfir farinn veg. Þegar horft er til seinustu tíu ára á hinu pólitíska sviði Akureyrarbæjar er ljóst að í bænum hefur verið meirihluti sem einkennist að hluta af pólitískri einangrun og óljósum markmiðum. Staða okkar Sjálfstæðismanna undir minni forystu hefur því miður ekki verið eins sterk og ég hefði viljað sjá og við fengið það hlutverk að sitja í minnihluta s.l. tíu ár og þar af sex ár undir minni forystu.
Að vera í minnihluta er ekki óskastaða neins sem fer út í pólitík og getur það hlutskipti tekið á. Tel ég mikilvægt að rugla ekki saman þessum hlutverkum minni og meirihluta. Sem dæmi nefni ég tölvupóst sem ég fékk í vetur frá dyggum félaga í flokknum þar sem hann sagðist alls ekki geta stutt flokkinn áfram nema við hættum þessum salt- og sjóburði á götur bæjarins. Ég svaraði honum því að við værum á móti þessum aðgerðum eins og þær voru framkvæmdar og hefðum alltaf verið, en við værum í minnihluta og því ekki í stöðu til að ráða þessu, þó við vildum.
Í því lýðræði sem við stundum og þekkjum er það hlutverk minnihlutans að veita meirihlutanum aðhald, þ.e. benda á það sem betur mætti fara eða gera á annan hátt. Stundum er hlustað á þær ábendingar og stundum ekki. Það á sér stað heilmikil umræða um menn og málefni inni á lokuðum fundum og um allt sem þar kemur fram, nema það sem bókað er, ríkir trúnaður.
Vegna þess hvernig stjórnsýsla bæjarkerfisins er byggð upp, eru flestar lokaákvarðanir um málefni teknar á lokuðum fundum nefnda og ráða. Um þessar ákvarðanir er því ekki tekin opin umræða á fundi bæjarstjórnar, sem er í raun eini vettvangurinn sem bæjarbúar hafa beinan aðgang að til að fylgjast með umræðum bæjarfulltrúa.
Í umræðum um fjárhagsáætlun hvers árs kemur yfirleitt fram skýr skipting á milli minni- og meirihluta. Það hefur hingað til skapast af því að meirihlutinn er oftast búinn að taka ákvarðanir sem ekki verður breytt þrátt fyrir ábendingar minnihluta. Við Sjálfstæðismenn höfum viljað draga úr álögum s.s. með því að lækka álagningu fasteignagjalda og tryggja öllum börnum frá 12 mánaða aldri leikskólavist sem allra fyrst og ef á okkur hefði verið hlustað undanfarin ár væri önnur staða uppi í þeim málaflokki en nú er. Þá höfum við bent á nauðsyn þess að fjölga stöðugildum hjá Akureyrarbæ sem allra minnst og helst ekki svo hægt sé að koma jafnvægi á í rekstri bæjarins.
Á það hefur meirihlutinn ekki hlustað og fjölgaði stöðugildum um tæplega 40 á milli áranna 2017 - 2018. Það hefur svo leitt til þess að nú skal hagræða, skera niður í rekstri svo hægt sé að ná jafnvægi í rekstur bæjarins. Þessar ákvarðanir eru algjörlega á ábyrgð þess meirihluta sem setið hefur hér síðan 2014. Það skýtur því skökku við þegar kallað er eftir samstarfi við minnihlutann um hagræðingaraðgerðir, þegar ekki var hlustað í upphafi á varnaðarorð okkar sem hefðu komið í veg fyrir þá stöðu sem nú er uppi.
Í öðrum málum vinna allir saman sem ein heild og þá sérstaklega málum sem snúa að samskiptum við ríki og önnur sveitarfélög, þó það sé ekki sjálfsagt. Þannig hefur bæjarstjórnin staðið saman sem heild þegar kemur að baráttu fyrir bættum raforkuflutningi á Eyjafjarðarsvæðið, uppbyggingu á Akureyrarflugvelli svo aðstaða sé boðleg fyrir millilandaflug, bættum samgöngum á landi s.s. styttingu leiðarinnar til Reykjavíkur og eðlilegri þátttöku ríkisins í rekstrarkostnaði Öldrunarheimilanna.
Það er hins vegar umhugsunarefni hvort bæjarmálaafl eins og L - listinn sem er einangraður hópur fólks en leiðir meirihlutann á Akureyri og hefur engar tengingar í landsmálin sé í stöðu til að koma málum fram á landsvísu. Þegar horft er til þess hvernig mál hafa þróast hér s.l. 10 ár er von að spurt sé. Það er ódýrt að skella skuldinni á okkur Sjálfstæðimenn en það er holur hljómur í þeim málfutningi þegar það hefur verið sérstakt markmið að halda okkur utan við meirihlutann á sama tíma.
Það er alveg ljóst í mínum huga að það þurfa að verða breytingar á mörgum þáttum í starfi og umhverfi Akureyrarbæjar svo hér geti dafnað gott og fjölbreytt mannlíf til framtíðar. Eitt af því sem þarf til er viðurkenning á því hjá ríkisvaldinu að Eyjafjarðarsvæðið og Norðurland með Akureyrarbæ sem kjarna sé mótvægi við stór höfuðborgarsvæðið.
Það er því nauðsynlegt að stutt verði við íbúa hér sérstaklega svo þeir geti byggt upp atvinnulíf sem getur staðið undir frekari fjölgun og bættu mannlífi. Það verður helst gert með styrkingu innviða s.s. bættum raforkuflutningi á svæðið, uppbyggingu Akureyrarflugvallar með áherlsu á millilandaflug og bættum samgöngum á landi með styttingu leiðarinnar til Reykjavíkur.
Með þessum orðum læt ég þessum hugleiðingum lokið og óska öllum Akureyringum hins besta á nýju ári um leið og ég þakka góð samskipti á árinu sem er að líða.
Gunnar Gíslason
bæjarfulltrúi og oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri