Við áramót

Ágætu félagar og íbúar í Akureyrarbæ!
Nú þegar árið 2020 er að renna sitt skeið er eðlilegt að horfa yfir sviðið og velta fyrir sér því sem gerst hefur og því sem ætla má að muni gerast á komandi ári 2021. Það er öllum ljóst að árið 2020 var fordæmalaust. Hér skall á faraldur sem á sér fá eða engin fordæmi. Í kjölfarið hrundi ein stærsta efnahagsstoðin, ferðaþjónustan sem hefur staðið undir hagvexti okkar að miklu leyti frá hruninu 2008. Þessi breytta staða hefur haft í för með sér atvinnuleysi hjá stórum hópi fólks sem vonandi sér fyrir endann á. Það er einnig óvenjulegt að áhrif faraldursins eru ekki staðbundin, heldur eru þau greinileg á heimsvísu. Það gerir það að verkum að Íslendingar sem eru án atvinnu geta ekki leitað til annarra landa eins og í fyrri kreppum síðustu áratugina.
Þá er ekki síður vert að minnast á allar þær takmarkanir á samskiptum og samkomum fólks sem faraldurinn hefur haft í för með sér. Samfélagið allt hefur þurft að takast á við miklar takmarkanir sem hafa reynst mörgum erfiðar en einnig þjappað fólki saman. Starfsfólk sem hefur getað flutt vinnuna heim hefur gert það og unnið heima meira og minna meirihluta ársins. Rafræn samskipti hafa því tekið yfir og verður að horfa til þess með jákvæðum huga að sá möguleiki hafi verið til staðar og verið vel nýttur við þessar aðstæður. Það er hins vegar umhugsunarefni hvort tæknin og notkun hennar muni breyta miklu til framtíðar í samskiptum og ferðalögum starfsfólks vegna vinnu. Það voru ekki allir sem gátu flutt vinnuna með sér heim og varð það starfsfólk að takast á við verulegar breytingar á starfsstöðvum sínum, auk þess sem smithætta þeirra var miklu mun meiri.
Í þessu sambandi vil ég sérstaklega nefna allt heilbrigðisstarfsfólkið og aðra sem stóðu þeim nærri og þurftu að takast á við afar erfiðar starfsaðstæður, álag og stöðugan ótta vegna smithættu. Þá verð ég einnig að nefna kennara og starfsfólk leik- og grunnskóla sem einnig þurftu að takast á við afar erfiðar aðstæður og stöðugan ótta við smit sem vissulega hefur aukið á álag þeirra í starfi. Öllu þessu hugrakka og fórnfúsa fólki ber að þakka fyrir að standa vaktina.
Nú eru fyrstu skammtarnir af bóluefni komnir til landsins og því hafa vonir okkar allra glæðst um að nú fari að sjá fyrir endann á faraldrinum og afleiðingum hans. Afleiðingarnar hafa verið margskonar og ekki allar neikvæðar. Ég ætla að fara aðeins yfir það helsta sem gerðist á árinu og mun vonandi hafa jákvæð áhrif til lengri tíma fyrir íbúa í Akureyrarbæ.
Samhent bæjarstjórn
Í ljósi þeirra stóru verkefna sem bæjarstjórn stóð frammi fyrir á árinu vegna tekjufalls, aukinna verkefna og útgjalda ákváðu allir bæjarfulltrúar að setjast niður í haust og skoða möguleikann á því að sameina kraftana í einni samhentri bæjarstjórn, enginn meiri- eða minnihluti. Það lá fyrir að taka þyrfti erfiðar ákvarðanir til að mæta þeim óvenjulegu aðstæðum sem upp voru komnar í samfélaginu. Eftir mikla yfirlegu og samráðsfjarfundi varð til sáttmáli sem allir gátu samþykkt. Í sáttmálanum er gert ráð fyrir því að það geti komið upp mál sem næst ekki samstaða um. Þegar sú staða kemur upp er gert ráð fyrir því að sá eða þeir bæjarfulltrúar sem eru ekki til í að samþykkja mál geri grein fyrir afstöðu sinni í bókun. Þannig getur það gerst að það verða til margskonar meiri- og minnihlutar allt eftir eðli mála. Þetta mun að sjálfsögðu reyna á samstöðuna og samstarfið en það er eindreginn vilji allra að gera allt til að láta þetta ganga upp.
Það kom ekki á óvart að það væri ekki allt Sjálfstæðisfólk sátt við að bæjarfulltrúar D – listans gengju til þessa samstarfs. Höfðu sumir á orði að sérstaða flokksins myndi hverfa og töldu þetta geta komið niður á flokknum í næstu kosningum. Þá voru einnig uppi raddir um að Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki að fá sanngjarnan hlut í ráðum og nefndum miðað við atkvæðavægi í síðustu sveitarstjórnarkosningum.
Við aðal- og varabæjarfulltrúar vorum hins vegar sammála um að það væri ekki annar kostur í stöðunni en að taka virkan þátt í þessari merkilegu tilraun. Við gerðum okkur grein fyrir því að miðað við vægi flokksins væri eðlilegt að hlutur okkar yrði stærri. Við vorum hins vegar sammála um að það skipti meira máli að taka virkan þátt og sýna ábyrgð með því að samþykkja þá niðurstöðu sem lá fyrir með sáttmálanum. Við höfðum kallað eftir því að ef við kæmum að samstarfi um gerð fjárhagsáætlunar yrði það gert með því að stokka málin upp í bæjarstjórninni, sem varð niðurstaðan. Kosningar hljóta alltaf að snúast um framtíðina og það hvort kjósendur treysta frambjóðendum til góðra verka fyrir samfélagið. Traust byggist upp á löngum tíma, ábyrgum og vönduðum ákvörðunum, ábyrgð á eigin gjörðum og auðmýkt. Kjörnir fulltrúar eru jú þjónar þeirra sem þá kjósa.
Fjárhagsáætlun
Það lá ljóst fyrir snemma á þessu ári að það stefndi í óefni í rekstri Akureyrarbæjar vegna þeirra áfalla sem blöstu við vegna faraldursins. Það hefur og gengið eftir að mestu leyti. Útsvarstekjur eru mun lægri en áætlanir gerðu ráð fyrir, tekjur af Hafnarsjóði eru sáralitlar, launahækkanir hafa verið umfram væntingar og bregðast hefur þurft við breyttum aðstæðum í samfélaginu með auknum tilkostnaði á ýmsum sviðum.
Á þessari mynd má sjá þá þróun sem hefur verið og áætlað er að verði í afkomu samstæð-unnar þ.e. A og B hluta. Það er mikilvægt að horfa á afkomu samstæðunnar allrar en það er mikilvægara að horfa til reksturs á A – hlutanum því hann endurspeglar í raun daglegan rekstur sveitarfélagsins og þá þætti sem bæjarfulltrúar geta haft bein áhrif á að.Eins og sjá má af myndinni hér til hliðar er verulegt verkefni framundan ef það á að ná því markmiði að gera bæjarsjóð sjálfbæran á næstu fimm árum. Vegna hagstæðrar skuldastöðu er hægt að mæta þessum hallarekstri um stundarsakir með auknum lántökum því ætlunin er að vera í verulegum fjárfestingum á sama tíma til að halda hjólum atvinnulífsins gangandi. Þessari stöðu verður ekki mætt nema með tvennum hætti þ.e. að auka tekjur bæjarsjóðs og draga úr rekstrarkostnaði.
Til þess að mæta aðstæðum í samfélaginu er gert ráð fyrir miklum halla og skuldasöfnun á næsta ári í stað þess að auka álögur á íbúa Akureyrarbæjar og fyrirtæki í bænum. Álögur vegna útsvars og fasteignagjalda hækka ekki en gjaldskrár hækka að öðru jöfnu um 2,5% sem er nokkuð undir verðbólgu. Þá var tekin ákvörðun um að lækka nefndarlaun á vegum Akureyrarbæjar sem leiðir til lækkunar á launum allra bæjarfulltrúa og nefndarfulltrúa.
Ein af stærstu breytingunum við fjárhagsáætlun næsta árs er að Akureyrarbær hefur sagt upp samningi við ríkið um rekstur Öldrunarheimilanna. Þetta var ekki létt ákvörðun en óhjákvæmileg í ljósi reynslunnar af samskiptum við ríkið. Akureyrarbær hefur greitt með þessum rekstri vel á annan milljarð króna á undangengnum 5 – 6 árum og það er einfaldlega ekki hægt að verja slíkar greiðslur í þjónustu sem ríkið ber ábyrgð á og á að standa undir kostnaði við. Það fór reyndar eins og okkur hafði grunað að tímasetningar myndu ekki standast hjá ríkinu og hefur Akureyrarbæ samþykkt að hlaupa undir bagga og sinna rekstrinum áfram næstu þrjá mánuði að samþykktu því skilyrði að ríkið/Sjúkratryggingar tryggi nægjanlegt fjármagn til rekstursins.
Þrátt fyrir þá mynd sem hér hefur verið dregin upp af stöðu bæjarsjóð er afar margt jákvætt að gerast í samfélaginu á sama tíma.
Menntastefna – 12 mánaða börn í leikskóla
Ný menntastefna hefur verið samþykkt samhljóða í bæjartjórn. Hér er um metnaðarfulla stefnu að ræða sem verður innleidd í skrefum á næstu þremur árum. Með breyttum vinnubrögðum er ætlunin að veita kennurum og stjórnendum aukinn stuðning við að mæta kröfum samtímans og þeirri þróun á starfsháttum sem krafist er af þeim.
Nýr leikskóli, Klappir mun taka til starfa á næsta ári. Leikskólinn er staðsettur á lóð Glerárskóla og með tilkomu hans mun verða hægt að taka börn inn í leikskóla frá 12 mánaða aldri. Er það mikið framfaraskref og fagnaðarefni í þjónustu við foreldra.
Húsnæði Lundarskóla verður endurbætt að langmestu leyti og munu framkvæmdir standa yfir næstu tvö árin. Það verður ekki komist hjá því að nefna það í þessu sambandi að við bæjarfulltrúar D listans vildum fara aðra leið og byggja nýtt skólahúsnæði sem hefði einnig rúmað leikskólann Lundarsel.
Íþróttir og æskulýðsmál
Áfram verður stutt vel við íþrótta- og æskulýðsstarf hér á Akureyri. Það má sennilega fullyrða að hér í bæ sé í boði eitt fjölbreyttasta úrval íþrótta- og æskulýðsstarfs á Íslandi og þó víðar væri leitað. Slík fjölbreytni og starfsemi kallar á góðar aðstæður og þar er að mörgu að hyggja. Bæjarstjórn hefur samþykkt forgangsröðun framkvæmda til íþrótta- og æskulýðsstarfs og er unnið eftir henni í framkvæmdaáætlun bæjarins.
Nú er að rísa ný og glæsileg aðstaða fyrir Siglingaklúbbinn Nökkva, sem lengi hefur verið beðið eftir.
Í kjölfarið verður farið í endurbætur á félagsaðstöðu Skautafélags Akureyrar og þá er gert ráð fyrir því að á næstu þremur árum verði byrjað á uppbyggingu á KA svæðinu sem lengi hefur verið beðið eftir.
Skipulags- og byggingarmál
Nýlega fór fram kynning á endurskoðuðum hugmyndum að skipulagi á hluta Miðbæjarins. Það er ánægjulegt að sjá að það er að myndast samstað innan bæjarstjórnar um hvernig sé best að ljúka þessu máli. Það er ekki samstaða um alla þætti skipulagsins en þar sem það er nú í kynningu má ætla að það komi fram athugasemdir sem munu leiða til einhverra breytinga á þeim hugmyndum sem liggja fyrir. Það er hins vegar löngu tímabært að ljúka þessu ferli og byrja uppbyggingu á svæðinu.
Annar og mjög ánægjulegur áfangi náðist á árinu en það var samkomulag eigenda á Hvannavallareitnum sem svo er kallaður. Samkomulagið sem náðist með aðkomu skipulagsstjóra gerir það að verkum að uppbygging getur hafist og hafa eigendur Krónunnar lýst því yfir að hún muni opna á Akureyri á næsta ári.
Það er mikið um að vera í skipulagsmálunum sem verður fróðlegt að sjá hvernig þróast á næsta ári. Má þar nefna Tjaldsvæðisreitinn við Þórunnarstræti, Austubrú, þéttingu á Oddeyrinni og nýja íbúðabyggð í Holtahverfi.
Loksins
Eins og ég hef áður bent á hefur faraldurinn leitt eitt og annað jákvætt af sér. Þar má t.d. nefna að ýmsum framkvæmdum sem hafa verið lengi á döfinn á vegum ríkisins hefur verið flýtt. Þar má nefna byggingu flugstöðvar og flugplans, byggingu tveggja nýrra heilsugæslustöðva og byggingu legudeildar við Sjúkrahúsið á Akureyri. Þetta eru allt afar mikilvægar framkvæmdir sem munu hleypa auknu lífi í verktaka- og byggingarfyrirtækin á svæðinu. Það má einnig ljóst vera að með tilkomu betri aðstöðu á flugvellinum aukast líkur á beinu utanlandsflugi frá Akureyri sem ætti að ýta undir ferðaþjónustuna á öllu Norðurlandi þegar fram líða stundir.
Þá hefur Háskólinn á Akureyri fengið viðurkenningu á fjölgun nemenda með auknum fjármunum til kennslu. Það verður svo að koma í ljós hvort sú aukning heldur til lengri tíma.
Atvinnumál
Akureyrarbæ býr að því að hér er öflugur sjávarútvegur, opinber þjónusta, verslun og iðnaður af ýmsu tagi. Það er tæplega hægt að halda því fram að hér sé einhæf atvinnustarfsemi. Það er hins vegar mikilvægt að atvinnuvegirnir geti þróast og ekki síst í ljósi fjórðu iðnbyltingarinnar sem á eftir að setja mark sitt sérstaklega á landsbyggðirnar ef fer sem horfir. Það er því mikið fagnaðarefni að nú styttist í að Hólasandslína 3 verði klár og tryggir þannig meiri og öruggari raforkuflutninga á svæðið. Þá er mikil vinna í gangi við undirbúning á Blöndulínu 3 sem mun þegar þar að kemur tryggja enn frekar raforkuflutnig á svæðið. Þessar framkvæmdir gefa mikil og góð fyrirheit um atvinnuuppbyggingu á Eyjafjarðarsvæðinu sem er ein af grunnsforsendum fjölgunar íbúa.
Til þess að þetta geti gengið eftir er einnig mikilvægt að tryggja góðar og öruggar samgöngur t.d. með styttingu þjóðvegar 1 milli Eyjafjarðar og Höfuðborgarsvæðisins þar sem stærsti markaðurinn er.
Hvað svo?
Hér hef ég farið yfir víðan völl en alveg örugglega sleppt því að minnast á mikilvæg mál að mati einhverra. Það má ljóst vera að það er mikil gerjun í gangi hér á Akureyri og það er full ástæða að horfa með jákvæðum huga til framtíðarinnar. Það verður samt ekki horft fram hjá því að það bíða okkar mikil og stór verkefni á næstu árum en ég er sannfærður um að við leysum þau með samhentu átaki.
Það hefur ekki verið mikið um kynningar og fundi undanfarið ár í Kaupangi og því hefur félagslíf okkar Sjálfstæðisfólks á Akureyri verið í daprara lagi eins og hjá öðrum félögum. Við höfum hinsvegar verið með fjarfundi og hefur verið ágætlega mætt á þá en þeir koma ekki að öllu leyti í staðinn fyrir fundina í Kaupangi og þau félagatengsl sem þar þroskast. Það er því von mín að eins fljótt og auðið verður á nýju ári getum við átt gæðastundir saman í Kaupangi, glaðst yfir sigrum og tekist á um málefni – haft líf í tuskunum.
Það bíður okkar allra mikil vinna í aðdraganda kosninga til Alþingis næstkomandi haust og þá væri óskandi að búið verði að kveða farsóttardrauginn endanlega niður og lífið komið að mestu í eðlilegan farveg.
Ég þakka ykkur og öllum Akureyringum fyrir ánægjulegt og gefandi samstarf og (samveru) á liðnu ári og óska ykkur öllum velfarnaðar á nýju ári.
Gunnar Gíslason
bæjarfulltrúi og oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri