25. janúar 2026

Lára Halldóra Eiríksdóttir gefur ekki kost á sér til endurkjörs

Lára Halldóra Eiríksdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, tilkynnti í færslu á facebook-síðu sinni í dag að hún gefi ekki kost á sér til endurkjörs í sveitarstjórnarkosningunum í vor. 

Lára Halldóra hefur verið bæjarfulltrúi frá kosningunum 2022 og setið í velferðarráði Akureyrarbæjar frá 2018 (varaformaður frá 2022). Lára er formaður SSNE. Áður var hún varabæjarfulltrúi 2018-2022 auk þess að vera varamaður í bæjarráði 2018-2019.

Tilkynning Láru Halldóru er eftirfarandi:

"Kæru vinir og félagar! Það var mér ekki léttvægt að taka ákvörðun um að gefa ekki kost á mér á lista Sjálfstæðisflokksins á Akureyri fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Þá ákvörðun tók ég af persónulegum ástæðum þar sem ég stefni að búferlaflutningum á höfuðborgarsvæðið þar sem flest allt mitt besta fólk er.   
Í því ljósi þykja mér þessar fréttir af samstöðu og samvinnu þeirra Berglindar Óskar og Heimis Arnar alveg hreint frábærar, ekki einungis fyrir okkur Sjálfstæðismenn á Akureyri heldur einnig sveitarfélagið allt. 

Ég hef lagt mig alla fram á síðustu fjórum árum sem bæjarfulltrúi og hef haft mikla ánægju af því að starfa fyrir ekki einungis Akureyrarbæ heldur einnig fyrir landshlutann allan sem formaður stjórnar SSNE. Það hafa verið fjölmörg verkefni sem mér hefur þótt sérstaklega ánægjulegt að vera þátttakandi í á kjörtímabilinu. Má þar til að mynda nefna vinnu við nýja Sóknaráætlun Norðurlands eystra, stofnun Fjölskylduheimilis á Akureyri, símalausa grunnskóla ásamt breytingum á gjaldskrá leikskóla. Það hafa verið forréttindi að starfa með öllu því öfluga fólki sem situr í stjórnum og ráðum bæjarins, ásamt að sjálfsögðu frábæru starfsfólki Akureyrarbæjar með Ásthildi Sturludóttur bæjarstjóra í fararbroddi.

Ég styð Berglindi Ósk og Heimi Örn heilshugar og hvet þá Sjálfstæðismenn sem munu taka þátt í röðun á lista til þess að gera slíkt hið sama. Öllu máli skiptir að við verðum með öflugan og samheldinn lista sem er líklegur til þess að skila okkur góðri útkomu í kosningum og inn í meirihluta bæjarstjórnar."