27. janúar 2026

Þorsteinn Kristjánsson gefur kost á sér í 3. sæti

Þorsteinn Kristjánsson hefur tilkynnt um framboð sitt í 3. sæti í röðun sem fram fer á fundi fulltrúaráðs 7. febrúar nk. þar sem kosið verður um fjögur efstu sæti framboðslista Sjálfstæðisflokksins á Akureyri í sveitarstjórnarkosningum í vor.

Tilkynning Þorsteins er eftirfarandi:

"Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins á Akureyri fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor.

Á Akureyri eru ótal tækifæri til að gera frábæran bæ enn betri. Sjálfstæðisflokkurinn hefur á kjörtímabilinu náð markverðum árangri í að bæta lífsgæði bæjarbúa. Þar vil ég sérstaklega nefna leikskólamálin þar sem tekist hefur að þjóna barnafjölskyldum betur en áður og gefa ungu fólki betri tækifæri til að snúa aftur heim til Akureyrar og setjast hér að. Stoðir menntunar og menningar eru traustar á Akureyri og við höfum einnig byggt upp frábæra aðstöðu til tómstunda og íþróttaiðkunar.

Það skortir þó vissulega ekki verkefnin til að vinna að. Sterkt og öflugt atvinnulíf er forsenda þess að hægt sé að bjóða upp á fjölbreytta og góða þjónustu við íbúana, um leið og tryggt er að álögur á íbúa og fyrirtæki séu í lágmarki. Það er ein frumskylda kjörinna fulltrúa að hlúa að atvinnulífi bæjarins; styðja við þróttmikið og fjölbreytt atvinnulíf, ryðja hindrunum úr vegi lítilla og meðalstórra fyrirtækja og stuðla að vexti nýsköpunar- og sprotafyrirtækja. Þannig leggjum við grunn að enn öflugra samfélagi með tækifærum fyrir alla, þar sem listir, menning og menntun blómstra.

Í stjórnmálum er nauðsynlegt að lofta út annað slagið. Tryggja jarðveg fyrir nýjar hugmyndir og ný vinnubrögð. Það verður best gert með því að treysta ungu fólki fyrir vandasömum verkefnum og móta framtíð samfélagsins með beinum hætti. Rödd þess þarf að heyrast, ekki bara í lokuðum hópum heldur einmitt þar sem ákvarðanir eru teknar um framtíð okkar og fjölskyldna okkar. 

Ég er stoltur af bænum okkar og er reiðubúinn að axla þá ábyrgð að vinna að framfaramálum og móta framtíðina í þágu allra bæjarbúa."